Það er svo sem ekki margt að segja um þessa mynd. Hún er, eins og svo margar aðrar, tekin á farsíma í ákaflega lélegri birtu, en við svo frábær litbrigði á himni að ég stóðst ekki mátið.
Myndefnið er Langavatn í Borgarbyggð, frekar seint að sumri að mig minnir og greinilegur kuldi í kortunum.
Ég fer ekkert dult með það að þetta er ein af uppáhalds myndunum mínum hin síðari ár, Að ramba á stein með þremur vorflugulirfum í næstum 100% samhliða línum er nokkuð sem gerist ekki á hverjum degi.
Það er ekki laust við að eftirmyndin, Peacock Kolbeins Grímssonar, blikkni nú samt í samanburði við þessa meistarasmíð náttúrunnar. En þannig er því nú farið um flest sem við mennirnir búum til og sækir sér fyrirmyndir í náttúruna.
Klassísk blá með mosa, skýjum og sól í bakið. Hér er ekkert falið, allt nokkuð augljóst í Hítardalnum.
Grátt
Hér er aftur allt grátt og maður veit í raun ekkert á hverju maður getur átt von þarna handan Foxufells í Hítardal. Sami dalur, sama vatn, allt annar staður og ég er viss um að fiskurinn hagaði sér allt öðruvísi þessa tvo daga.
Eins gott að maður á svona mynd af einu uppáhalds vatnanna, Hlíðarvatni í Hnappadal því allt of sjaldan nýtir maður þessar frábæru morgunstillur á milli kl. 04 og 06. Þá sjaldan það gerist er eiginlega ekki annað hægt en smella eins og einni mynd af blíðunni.
Jafnvel þegar maður leggur einn í langferð til að veiða þá er alltaf von á veiðifélaga. Þessi smyrill veiddi töluvert betur og fallegar heldur en ég uppi við Langavatn í Borgarbyggð. Myndina varð ég að taka af töluverðu færi því honum var ekkert of vel við mig þarna á hans heimavelli.
Til að ná flottustu augnablikunum hefði ég væntanlega þurft að vera með einhverja ofurlinsu og margfallt dýrari búnað en ég á, en einföld myndin hér að ofan nægir mér til að kveikja á minningunni um þá loftfimleika sem hann sýndi á sínum veiðum þennan eftirmiðdag.
Þegar fiskurinn er styggur þá er veiðimönnum ráðlagt að hreyfa sig hægt og láta lítið fyrir sér fara. Hvort þessi veiðimaður hefur tekið ábendingu aðeins of alvarlega, skal ósagt látið, en eitt er víst hann sést ekki mikið á þessari mynd.
Nú kann einhver að spyrja; Veiðimaður á þessari mynd? Jú, þarna er veiðimaður á ferð. Vísbending: leitaðu að stangartoppi. Annars minnir mig að veiðin hafi nú ekkert verið of mikil þetta kvöld á Skaga og líklegri skýring á síðbúnum veiðimanni í náttstað sé frekar sú að hann hafi viljað njóta kyrrðarinnar og fegurðarinnar eins lengi og unnt var.