FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Í vitlausu veðri

    20. júlí 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það hefur alveg komið fyrir að ég hef upplifað algjöra uppgjöf veiðimanna þegar íslenska sumarveðrið tekur sig til og leikur á básúnu með tilheyrandi blæstri og frussi. Ég er ekki svo skyni skroppinn að ég telji alla eins og mig, mér finnst nefnilega alltaf einhver sjarmi yfir því að berjast við vind og rigningu, en ég skil bara ekki þegar menn hrynja í geðvonskukast af sama styrkleika og vindhviðurnar bara vegna þess að hann blæs svolítið, jafnvel með rigningu.

    Mín reynsla er sú að þegar veiðimaður missir kúlið og hættir að hafa gaman að því að veiða, þá getur hann alveg eins dregið inn, klippt fluguna af og pakkað stönginni niður. Ég held að kastið og inndrátturinn breytist hjá veiðimönnum sem hafa misst sig og ég held að fiskurinn verði var við geðvonsku og leiða og hættir að taka flugu sem dreginn er áhugalaust eða ólundarlega.

    Vissulega getur hvass vindur og rigning breytt aðstæðum svo mikið að veiðimenn verði að bregða út af vananum. Hætta að veiða eins og þeir hafa alltaf gert á ákveðnum stað og prófa eitthvað nýtt. Stundum er alveg nóg að færa fluguna aðeins neðar í vatninu, færa sig úr flotlínu yfir í intermediate eða intermediate yfir í sökklínu. Fiskurinn nefnilega færir sig gjarnan aðeins niður fyrir ölduna í vitlausu veðri og þá þarf að elta hann. Ef þú þarft að elta fiskinn alveg niður undir botn, prófaðu þá hraðsökkvandi línu, stuttan taum og létta flugu. Slík samsetning er vel til þess fallin að komast niður án þess að þú eigir á hættu að vera sífellt að festa í grjóti eða gróðri.

    Hafðu samt eitt í huga við setningarnar hér að ofan, þær hljóma svolítið eins og regla um atferli fiska, en eins og kunnugt er þá er engin regla til í stangveiði. Ég hef alveg verið að veiða í vitlausu veðri þar sem bæði urriði og bleikja nánast syntu á öldutoppunum, því þar var ætið á ferð. Þú ætti því ekki að taka umhugsunarlaust mark á þessu og færa fluguna niður fyrr en þú hefur prófað flotlínuna út í ölduna, jafnvel með óþyngda flugu og draga inn eins og geðsjúklingur.

    Svo er alltaf gott að hafa í huga að þótt á móti blási og erfitt sé að koma flugunni út, þá færist fiskurinn oft nær bakkanum þegar gefur á bátinn og löng köst eru óþarfi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Frábært, fast

    13. júní 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Eins frábært og það getur verið að draga inn og finna smá nart og enn annað, þá getur þetta líka verið vonbrigði dagsins, vikunnar eða mánaðarins, ef þér er virkilega annt um fluguna. Þetta var sem sagt allt ein ímyndun, þú varst að skrönglast í botninum og settir svo fast á milli steina eða í stærsta og ljótasta hraungrjóti sem fyrirfinnst í öllu vatninu. Reyndar eru öll grjót sem fanga fluguna þína ljót og illa innrætt náttúrufyrirbrigði.

    Þú reynir að toga aðeins fastar í línuna og hefur þá væntanlega sett fluguna endanlega fasta í grjótinu og þarft að hugsa málið upp á nýtt, hefðir betur sleppt því að toga, það er síðasta úrræðið sem þú ætti að prófa. Ef þú ert að veiða í straum, þá væri e.t.v. fyrsta úrræðið að venda línunni út í strauminn, jafnvel veltikasta þannig að straumurinn nái góðu taki á línunni þinni og dragi hana þannig frá stóra ljóta grjótinu. Hver veit nema flugan losni við átak úr gagnstæðri átt.

    Þessi leið er ekki alveg eins áhrifarík í kyrrstæðu vatni en samt möguleg ef þér tekst að veltikasta beint út frá festunni og leyfa vatninu að halda við línuna og draga lítillega inn. Það ótrúlega mikið sem vatnið getur sett sig í spor akkeris sem þú getur nýtt þér til að draga fluguna úr festunni.

    Er ekki bara fast hjá þér vinur?

    Svo getur þú náttúrulega gefið línuna alveg lausa, spólað nægjanlega út af hjólinu þannig að þér takist að vaða yfir á hin bakka árinnar eða út á nærliggjandi nef eða stein við vatnið og draga þannig í fluguna að hún mögulega losni. Fyrir alla muni, ekki beita stönginni með því að rykkja eða skrykkja í línuna, það eina sem gæti gerst er að þú brjótir stöngina eða slítir tauminn. Beindu stangartoppinum að skurðpunkti línunnar við vatnið og taktu á línunni, mjúkt en örugglega.

    Næst síðasta úrræðið sem ég hef að bjóða þér er að vaða út að steininum og ýta við flugunni með fætinum, ef það er ekki oft djúpt að steininum á annað borð. Ef þú nærð ekki alveg að honum, þá gætir þú reynt að draga alla línuna inn, teygja stangartoppinn út yfir steininn og húkka þannig fluguna úr festunni. Farðu samt varlega, því veiðistangir eru ekki hannaðar fyrir slíkt átak og það má lítið út af bera til að brjóta toppinn. Síðasta úrræðið er svo það sem þú byrjaði mögulega á að prófa og hefðir betur látið ógert. Mín reynsla segir mér að það séu í raun minni líkur á að losa flugu með því að toga í línuna heldur en öll önnur ráð bjóða upp á, en þegar allt um þrýtur, þá er ekkert annað eftir en leggja stangartoppinn niður, beina honum að skurðpunktinum við vatnið og toga. Það er í raun tvennt sem getur gerst; flugan losnar og þú þarft jafnvel að loka augunum á meðan hún skýst fram hjá þér í loftinu eða taumurinn eða fluguhnúturinn slitnar og þú þarft að kveðja fluguna þína endanlega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ekkert droll

    27. apríl 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Í einhvern tíma hef ég nefnt veiðimanninn sem kaupir leyfi, má byrja á ákveðnum tíma og skal hætta á ákveðnum tíma og hann nýtir allan þennan tíma. Þessi gaur eða gella vaknar fyrir allar aldir, er búin(n) að taka sig til og allt dótið komið út í bíl áður en veiðifélagarnir hafa einu sinni látið renna á könnuna. Gott mál hjá honum eða henni, en ég er ekki þarna. Þetta þýðir samt ekki að ég sé eitthvað að drolla, ég byrja bara þegar mér sýnist og hætti þegar ég á að hætta.

    Svo hef ég líka nefnt það að stundum tekur fiskurinn alveg upp í harða landi, rétt í þá mund þegar ég hætti inndrættinum (stoppa eitt augnablik) og lyfti stönginni til að taka fluguna upp úr vatninu. Og nú getur einhver spurt sig hvernig í ósköpunum sé hægt að tengja þessar tvær tilvitnanir saman í einni grein. Til að komast að því þarft þú að lesa áfram.

    Þegar ég hef nú loksins lokið við 1 – 2 kaffibolla, morgunverð, jafnvel farið í annað skiptið á prívatið (kannski of miklar upplýsingar) og er með allt mitt klárt, þá legg ég af stað og mæti á veiðistað, ég er byrjaður að veiða. Þegar flugan er komin út í vatnið, þá tekur við ákveðinn taktur sem raunar er stundum erfitt að viðhalda vegna þess að úti í náttúrunni get ég verið með eindæmum kleyfhuga. Hvort er ég að veiða eða njóta þess sem fyrir augu ber? Eigum við ekki bara að segja að á meðan flugan er í vatninu og ég hef minnsta grun um að það sé fiskur á ferðinni, þá er ég að veiða. Þess á milli er ég að njóta, glápa og góna út í loftið og einfaldlega að vera til.

    Minnugur þess að flugur veiða aðeins á meðan þær eru í vatninu, þá reyni ég að halda flugunni þar eins lengi / oft / mikið og mögulegt er. Ef mér sýnist svo, þá dreg ég hana stundum alveg að fótum mér, vitandi að fiskurinn tekur stundum miklu nær heldur en marga grunar. Í annan tíma hætti ég að draga inn þegar mér finnst að flugan sé lent í einskismannslandi eða eins og útlendingurinn segir, komin out of strike zone. Þá ég lyfti stönginni í næsta kast, jafnvel með töluvert af línunni úti, til hvers að hafa fluguna þar sem enginn fiskur er?

    Það að taka upp verulega lengd af línu, sérstaklega ef hún er eitthvað þyngri heldur en flotlína, getur verið kúnst, en það lærist fljótlega. Það er alveg öruggt að þér lærist það aldrei ef þú prófar það ekki. Sumar samsetningar stangar og línu gera það að verkum að þetta er ekkert mál, aðrar stangir ráða lítið sem ekki við þetta og því verður maður einfaldlega að prófa sig áfram. Galdurinn er að lyfta stönginni með jafn stígandi átaki upp í efstu stöðu, taka í línuna og ná henni þannig í öftustu stöðu í einni samfellu. Og viti menn, við erum að nýta okkur akkerið sem vatnið hefur hengt í línuna, stöngin hleðst við upptökuna og er tilbúin í eitt framkast og þú getur skotið línunni út og hafið veiðina að nýju. Og hvað er maður að vinna með þessu? Jú, í stað þess drolla við að taka línuna upp, leggja hana að fótum þér í einhverju kuðli, þá nýtir þú vatnið til að hlaða stöngina, tekur upp og skýtur henni út í einu, ákveðnu framkasti og vonandi lendir hún einmitt þar sem þér fannst að fiskurinn nartaði í hana í síðasta inndrætti.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hart í bak

    20. apríl 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Hart í bak er ekki aðeins heiti á leikriti Jökuls Jakobssonar, það er líka snaggaraleg stefnubreyting til vinstri. Ef stefnubreytingin væri til hægri, þá væri það hart í stjór þar sem stjór væri stjórnborði. Eins og oft áður er inngangur þessa pistils aðeins eitthvað úr skúmaskotum hugar höfundar og þarf ekkert endilega að eiga við efni pistilsins, en alltaf þó einhver tenging.

    Inndráttur er með ýmsu móti, hægur, hraður, stuttur, langur, rykkjóttur eða jafn, þetta og allt þarna á milli hefur komið fram á FOS og ég þóttist alveg vera búinn að dekka 90% af þessu, þangað til ég gerðist boðflenna á námskeiði um daginn og leiðbeinandinn spurði salinn hvernig hornsíli synda.

    Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá tókst mér að þegja á meðan svörin röðuðust inn úr salnum sem tengdust mismunandi inndrætti eins og ég taldi hér upp að framan. Svo féll stóra bomban þegar leiðbeinandinn spurði hvort hornsíli syntu alltaf beint áfram. Aha, þarna var enn eitt atriðið sem vantaði inn í það sem fjallað hefur verið um inndrátt hérna; hornsíli geta sveigt af leið, beygt undan öldu, straumi og ekki síst undan rándýrinu í vatninu.

    Hvernig væri nú að bæta enn einni breytunni inn í dæmið og færa stangartoppinn annað slagið til hliðar og ná þannig líf- og raunverulegri hreyfingu í straumfluguna? Við það að færa stangartoppinn til hliðar og taka í línuna, þá sveigir ‚hornsílið‘ af leið í vatninu.

    Hornsíli eru af öllum stærðum. Fæst þeirra eru í þeim stærðum sem við notum yfirleitt, þó margir hafi smækkað nobblerana sína á undanförnum árum, kannski vegna þess að þeir hafa áttað sig á því að horsíli hafa í hundruðir ára verið fyrirmyndir margra klassískra votflugna sem sjaldnast eru hnýttar á stærri króka en #10.

    Ein gömul og góð fluga hefur oft komið mér til bjargar á miðju sumri þegar massinn af hornsílum í vötnunum eru nýliðar sem enn eiga töluvert langt í land að vera í stærð #8. Umrædd fluga er Héraeyrað, sú klassíska sem enginn veit með vissu hver hannaði, en nýmóðins útfærsla hennar með örlitlu dassi af gyltu vafi er glettilega góð eftirlíking af ungviði hornsílis. Dregin inn með rykkjum og skrykkjum, beint eða með því sem ég hef áður gleymt að nefna; í sveig, þá hefur hún oft gefið mér fisk þegar allt annað brást.

    Var ég kannski búinn að segja þetta allt áður? Kannski, en þetta er góð vísa og þær má kveða aftur og aftur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ekki eyða tíma fugunnar

    18. apríl 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Flugur veiða, það er ekki nokkur spurning, en til þess að þær veiði þá þurfa þær að vera á eða neðan yfirborðs vatnsins. Þessar sem eru á sífelldu sveimi í loftinu veiða sáralítið, nánast ekki neitt. Þessu lauma ég hér inn til að stoppa besservisserinn sem varð hugsað til myndanna af fiski taka flugu á lofti. Vissulega mikilfenglegt að sjá slíkt, en afar sjaldgæft.

    Þegar vötnin okkar koma undan ís er ekki alltaf á vísan að róa hvar fiskurinn heldur sig eða er aðgengilegur og því þurfa veiðimenn stundum að hafa svolítið fyrir því að finna hann. Þá er stundum gott að vera vel skóaður og nenna að hreyfa sig úr stað og hafa nokkur smáatriði í huga.

    Eitt það fyrsta er það sem ég tæpti á í inngangi þessa pistils, leyfa flugunni að veiða en ekki eyða tíma hennar í að svífa um í endalausum falsköstum. Veiðanlegur hluti dagsins er ekkert rosalega langur í upphafi tímabilsins og óþarfi að eyða stærstum hluta hans með fluguna á lofti, hún veiðir ekkert þar. Ef þú átt í vandræðum með að koma línunni út, athugaðu þá fyrst hvort þú hafir gleymt að þrífa hana áður en þú lagðir hana til svefns síðasta haust. Og fyrst þú ert að tékka á henni, athugaðu hvort það séu einhverjar sprungur í kápunni, brot eða beyglur sem hægja á henni í rennslinu. Ef allt virðist vera í lagi, athugaðu þá með að fá smá leiðsögn kastkennara, bara svona til vonar og vara ef köstin þín hafi vaknað eitthvað illa upp af vetrarblundinum.

    Svo er náttúrulega betra að vera með réttu fluguna. Ef þú finnur nú fisk og hann bara sýnir enga viðleitni til að taka hana, sama á hvaða dýpi þú veiðir eða hvaða inndrætti þú beitir, þá er alveg eins víst að þú sért að eyða tímanum í ranga flugu.

    Þú þverskallast mögulega við og hugsar til síðasta hausts þegar þú tókst fisk, einmitt á þessum slóðum, einmitt á þessa flugu. Þetta er rétta flugan. Allt í góðu, þetta er rétta flugan en er hún í réttri stærð og af réttu sköpulagi? Síðasta haust varst þú að veiða alveg spá nýja kynslóð af pöddum sem voru í stærð #16 eða minni. Að vori hafa flest þessara kvikinda eytt vetrinum í að éta, stækkað og fitnað, jafnvel tekið einhverri myndbreytingu (úr púpu yfir í lirfu t.d.) og líkjast flugunni þinn frá því í haust ekkert mjög mikið. Brjóttu nú odd af oflæti þínu og ástríðu fyrir litlum flugum, stækkaðu uppáhaldið þitt um eina eða tvær stærðir og prófaðu aftur. Góða skemmtun.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fluguveiði undir ís

    1. apríl 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Er fluguveiði undir ís eitthvað sem við verðum að gefa gaum ef vorið verður jafn kalt og sumir vilja meina? Veðurfræðingar eru raunar ekki allir sammála um að það verði svona rosalegt, en veðurspekingar virðast flestir vera á einu máli, það stefni í kalt vor framan af í það minnsta.

    Eins einkennilega og það hljómar þá er fluguveiði undir ís alveg möguleg, en þá er ég að vísu ekki að tala um að bora holu og sleppa þyngdum flugum niður í djúpið. Raunar er ég ekki heldur að tala um fluguveiði alveg undir ísnum, en nærri því þó. Við vitum að geymsluþol matar eykst við frystingu og þegar ísa leysir þá losnar úr ísnum ýmislegt sem fiski þykir gott.

    Að kasta flugu upp á skörina og draga hana fram af henni hefur reynst mörgum manninum fengsælt og maður hefur heyrt margar sögur af soltnum fiski sem tekur flugu alveg við ísinn.

    Annar fengsæll veiðistaður, nátengdur, er þar sem snjór gengur fram í vatn og bráðnar hægt og rólega. Mér er minnisstæður skafl við Herbjarnarfellsvatn að Fjallabaki sem urriðar lónuðu fyrir framan á örgrunnu vatni langt fram á sumarið og pikkuðu upp það sem snjóbráðin bar með sér út í vatnið. Svo eru þeir nokkrir skaflarnir sem maður man eftir við nokkur vötn í Veiðivötnum sem hafa nánast verið ávísun á fisk í gegnum árin.

    Hvort sem vorið verður kalt, blautt, vindasamt eða dásamlega hlýtt og sólríkt, þá má alveg hafa þessa skafla í huga, langt fram á sumarið. Eitt smáræði að lokum, þó það sé 1. apríl í dag, þá er þessi grein ekki eitthvað gabb.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 39
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar