FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Tilbúningur

    21. desember 2013
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumaefni
    Taumaefni

    Tilbúnir taumar sem við getum keypt í verslunum eru oftast frammjókkandi, með eða án lykkju sem maður bregður í línulykkjuna. Þessir taumar eru hannaðir fyrir Meðal-Jóninn sem notar miðlungs línuna á miðlungs stöngina sína undir algengustu kringumstæðunum. Ef þú bregður út frá einhverju þessara atriða að einhverju leiti, þá ert þú ekki lengur með besta tauminn í veiðinni. Það var u.þ.b. á miðri síðustu öld sem 60/20/20 reglan varð til. Einföld regla um skiptingu taums sem eignuð hefur verið Frakkanum Charles Ritz. Fyrsti parturinn (lesið frá vinstri) á að vera u.þ.b. 2/3 af þvermáli línunnar, næsti partur á að vera u.þ.b. tveimur X-um grennri og sá síðasti enn öðrum tveimur X-um grennri. Út frá þessu eru flestir tilbúnir taumar framleiddir og eru merktir með með sverleika síðasta partsins, þeim grennsta. Segjum sem svo að þú sért að veiða með lítilli votflugu (#14) á línu #5. Þú velur þér frammjókkandi taum sem endar í stærð 3x m.v. þumalputtaregluna: stærð flugu / 4 = 3,5 ~ 3X taumur. Í þessum útreikningi er ekkert mark tekið á því að þú ert að tengja þennan taum við línu #5 en við skulum gefa okkur að taumurinn byrji í sverleika sem er 2/3 af línunni. Einhverra hluta vegna þarft þú síðan að taka fram línu #7 en heldur þig við votflugu #14. Þá er komið upp vandamál, áttu að velja þér tilbúinn taum sem byrjar á meiri sverleika þannig að hann passi línunni eða áttu að halda þig við tauminn sem passar flugunni? Ég hefði leyst málið með því að taka fram 7 fet af sveru taumaefni sem passar línu #7, segjum 2/0X. Ég veit að ég ætla mér að hnýta síðasta partinn úr 2,5 fetum af 3X taumaefni þannig að hann passi flugunni. Valið stendur þá á milli 0X eða 1X í þessi 2,5 fet sem eiga að vera í miðjunni. Ætli ég hefði ekki valið 1X, en auðvitað fer þetta allt eftir því hvað hverjum finnst best.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vendipunktur

    18. desember 2013
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Vending
    Vending

    Í sumar sem leið var ég töluvert að böðlast með flugurnar mínar í straumi. Ég hef ekkert farið leynt með það að oftast var ég einn, alveg aleinn, ekki einu sinni fiskur á svipuðum slóðum. Aðallega vegna þess að ég fór ekki nógu varlega. En, ég notaði hvert tækifæri sem gafst til að prófa tæknina sem greinarnar og allar klippurnar höfðu hamrað á. Eitt af því sem ég átti að ná tökum á var að venda línunni til að lágmarka dragið. Ég ætla rétt að vona að menn hafi skilið þetta, en þetta snýst sem sagt um að menda línunni. Hvað um það, ég prófaði mig áfram, lítið í einu, upp eða niður alveg eftir því hvort straumurinn hafði meiri áhrif á línuna eða fluguna. E.t.v. hef ég horft of mikið á vendingar manna í straumhörðum ám, því fljótlega varð ég var við að öflugar vendingar voru dragbítur á framsetningu púpunnar við botninn. Allt of oft lyfti ég flugunni upp af botninum í þessum tilraunum mínum þannig að hún tók að líkjast skopparabolta meira en skordýri. Það var ekki fyrr en ég létti og mýkti hreyfingarnar, oftar og minna í einu, að flugan hélt sig þar sem ég vildi hafa hana. En svo var það þetta með vendipunktinn. Það tók mig töluverðan tíma að finna hvenær ég ætti að venda þannig að flugan yrði ekki fyrir dragi. Ætli besta tímasetningin hafi ekki verið svipuð eins og þegar maður eldar fisk; venda rétt áður en maður heldur að rétti tíminn sé kominn. Frekar fyrr en síðar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Láttu kyrrt liggja

    15. desember 2013
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Hauspoki
    Hauspoki

    Ég hef orðið vitni að því þegar kast mislukkast, oftast hjá sjálfum mér en líka hjá öðrum. Mér er það ekkert launungamál að stundum finn ég blóðið spretta fram í kinnarnar þegar kastið klúðrast algjörlega, sérstaklega þegar ég hef grun um áhorfendur á staðnum. Og hvað geri ég þá? Jú, ég reyni bara að gera gott úr þessu öllu saman, bölva hressilega eða tek fram fyrir hendurnar á áhorfendunum og hlæ hæðnislega að sjálfum mér. Ég gæti auðvitað smellt á mig hauspoka af skömm, en þannig er ég nú bara ekki. Það er ekkert óeðlilegt við það að klúðra kasti, en það er algjör óþarfi að bregðast við í einhverju ofboði og draga alla línuna inn og byrja upp á nýtt eins og maður eigi lífið að leysa. Það er ekki til það lélegt kast að það batni við að raska yfirborðinu meira en orðið er með því að böðlast á línunni. Láttu kyrrt liggja, náðu pirringinum úr kasthendinni og leyfði þurrflugunni að fljóta rólega frá fiskinum eða dragðu púpuna inn eins og um besta kast lífs þíns hafi verið að ræða. Fyrir utan það að ég hef oft orðið fyrir því að mislukkað kast hefur einmitt fært fluguna fyrir fiskinn sem ég sá aldrei, þá er aldrei að vita nema fiskurinn sem þú sást færi sig einmitt úr stað eftir mislukkað kast og komi þá auga á fluguna þína. Með því að rífa þurrfluguna af yfirborðinu eða rykkja púpunni af stað, þá eru miklu meiri líkur á að fiskurinn fari einmitt í hina áttina heldur en að hann haldi sig bara á sama stað. Annars sagði góður maður við mig ekki alls fyrir löngu að 9 af hverjum 10 fiskum víkja sér undan flugunni þegar þér tekst akkúrat að láta hana lenda þar sem hann liggur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Góður, betri …..

    12. desember 2013
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Wulff hjónin
    Wulff hjónin

    Það er alltaf matsatriði hver sé góður veiðimaður. Mér finnst t.d. góður veiðimaður ekki endilega vera sá sem veiðir mest, frekar sá sem veiðir af virðingu fyrir bráðinni og umhverfinu. Ég las í ágætu tímariti um daginn að góður veiðimaður væri sá sem hefur náð að sættast við eigin getu, réði þokkalega við stöngina sína þannig að köstin virðast auðveld og nákvæm. Að sama skapi hefur hann náð að velja flugu sem hentar aðstæðum hverju sinni og getur brugðist við breyttum aðstæðum af yfirvegun án öfga í framkomu eða atferli. Að ná öllu þessu er endalaus skóli og kostar þrotlausar æfingar. Þetta hljómaði ekkert illa í mín eyru, en svo kom þessi dásamlegi 10 atriða töfralisti sem átti að redda hvaða veiðimanni sem er inn í hóp ‚góðra‘ veiðimanna.

    Það eru til ýmsir gátlistar til að ná þessu öllu á sem skemmstum tíma með sem minnstri fyrirhöfn. Vandamálið er bara að fæstir þeirra virka ef eljuna eða staðfestuna vantar. Atriði númer eitt á umræddum gátlista var að nota ákveðið grip á stönginni, allt annað væri tóm steypa. Þetta eitt og sér kveikti ákveðið viðvörunarljós hjá mér og ég fletti upp á grein Kirk Deeter og Charlie Meyers í gagnabanka Field and Stream þar sem þeir félagar tókust einmitt á um mismunandi grip. Niðurstaða þeirra félaga var einföld; ef þú ert ánægður með þumalinn ofan á, haltu þig við hann eins og Joan Wulff gerði alla tíð. Ef þú ert ánægður með vísifingur ofan á, haltu þig við hann eins og eiginmaður hennar, Lee Wulff gerði alla tíð. Svo getur maður bætt við frá eigin brjósti að flugan ferðast með línunni, línan fylgir stangarendanum og það sem meira er, stangarendinn fylgir fingrinum sem þú leggur ofan á gripið. Niðurstaða; haltu gripinu sem þú ert ánægður með og náðu tökum á því. Ef þú gerir það af einurð sést það fljótlega í kastinu, ferli línunnar og framsetningu flugunnar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvernig veiddir þú þennan?

    9. desember 2013
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Rétt spurning?
    Rétt spurning?

    Hver kannast ekki við ávarpið ‚Ertu að fá‘ann?‘ Ef svo ólíklega vildi nú til, í mínu tilfelli, að ég svaraði ‚Já‘ þá væri líklegast að maður fengi næstu spurningu ‚Hvað tók hann hjá þér?‘ og þar með hæfist fyrirlesturinn, jafnvel bera saman boxin, bjóða upp á konfekt eins og einn góður kunningi minn kallar það þegar hann gefur af flugunum sínum. En hefur einhver orðið fyrir því að fá spurninguna ‚Hvernig veiddir þú þennan?‘

    Ég er hræddur um að helst kæmi eitthvert fát á mig við slíka spurningu, en svo er nú aldrei að vita nema ég rankaði við mér og færi að segja frá. Þetta er jú miklu skemmtilegri spurning og snöggt um gáfulegri. Hvernig við veiðum fluguna skiptir oft ekkert minna máli heldur en nákvæmlega hvaða flugu við notuðum. Oft skiptir aðferðin, inndrátturinn, dýpið o.s.frv. ekki minna málið heldur en flugan. Svo skemmir ekki að mörgum þykir miklu meira gaman að segja frá einhverju sem tengist þeim beint heldur en því hvaða afkvæmi þekkts fluguhnýtara þeir notuðu við verkið.

    Ummæli

    09.12.2013 – Siggi Kr.: Þetta er skemmtileg pæling og kemur inn á umræðuna um eftirlíkingu eða framsetningu (Imitation vs. presentation). Þetta er eitthvað sem ég hef verið að pæla heilmikið í undanfarið og lesið urmul af efni um þetta á netinu. Það sem flestir sérfræðingarnir virðast vera sammál um þar er að framsetning flugunnar, þ.e. hvernig hún er veidd, skiptir í raun miklu meira máli en hvað flugu nákvæmlega maður er með bundna á tauminn. Þeir sem vilja setja tölu á mikilvægi framsetningar virðast vera nokkuð sammála um að skiptingin sé sirka 80% framsetning á móti 20% eftirlíkingu. Sem sagt að þó að flugan sé góð eftirlíking af æti fisksins þá verður hún líka að haga sér eins og ætið til að hann vilji hana. Það er til mikið af upplýsingum um hvernig æti silungsing hegðar sér ef fólk nennir að kynna sér það á netinu og ég ætla hér að deila slóð á vefsíðu sem inniheldur til að mynda góðar greinar um mýlirfuna sem er eitt aðal æti silungs allstaðar: FlyCraftAngling 

    Góðar stundir.

    Svar: Sæll Siggi og takk fyrir flotta pælingu.

     

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Áttu heima í Bónus?

    6. desember 2013
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Fæðuleit
    Fæðuleit

    Asnaleg spurning, auðvitað á engin heima í Bónus. Meira að segja starfsmennirnir fara oftast heim til sín, nema þá helst rétt fyrir verslanahelgina sem sumir kalla jól. En hvað er ég eiginlega að fara með þessu bulli? Jú, ég er að velta fyrir mér stórum muni á mönnum og fiskum.

    Búseta mannfólksins ræðst oft af fjölskylduhögum. Á barneignaraldri viljum við vera sem næst leikskólanum, svo grunnskólanum en færum okkur síðan aðeins til í hverfinu þegar börnin vaxa úr grasi og nándin við uppeldisstofnanirnar skiptir minna máli. Síðan hefur það orðið tilhneiging okkar að hópast saman á stofnunum fyrir heldriborgara þegar aldurinn færist yfir. En sama hver búsetan er, þá höfum við haldið í þann sið forfeðra okkar að draga fæðuna í náttstað okkar og neyta hennar þar, svona að mestu leiti.

    Laxfiskar velja sér aftur á móti búsvæði á allt öðrum forsendum. Þeir búa sjaldnast nálægt leikskólanum, raunar stinga þeir ungviðið snemma af á lífsleiðinni og vitja þess aldrei aftur. Laxinn ferðast síðan langar leiðir frá fæðu til leikskóla, eru meira að segja sagðir ekki éta neitt á leið sinni á milli staða. Samt sem áður heldur hann til á ákveðnum stöðum í ánum. Hann velur straumharða staði á meðan frænka hans, bleikjan velur sér lygnustu staðina og urriðinn svamlar þarna einhvers staðar á milli. Nú er ég auðvitað að bera saman atferli laxfiska í ám og lækjum, ekki vötnum.

    Einfalda myndin er þannig að laxinn velur sér strauminn og hreyfir sig afskaplega lítið, bleikja hreyfir sig mest og enn og aftur er Meðal-Jónin okkar, urriðinn. Fræðingar sem fylgjast með atferli laxfiska skipta þessum tíma gjarnan í tvo fasa; fæðuleit þegar hann bara bíður eftir því að geta étið og fæðunám þegar hann er að éta. Þegar hlutfall tegunda innan hvors fasa er skoðaður, þá hafa rannsóknir sýnt að 11,7% laxa hreyfa sig í fæðuleit, 12,7% urriða og 27,1% bleikju. Þegar fiskurinn er síðan komin í fæðuna þá hreyfa aðeins um 3,3% laxa sig, 8,8% urriða og 14,9% bleikju. Heimild: Fæðuatferli og búsvæðaval laxfiska í ám, Stefán Ó. Steingrímsson & Tyler D. Tunney, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólanum á Hólum.

    En hvernig hjálpar þetta okkur við veiðarnar? Tja, þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör, ekki nema þá fyrir það eitt að ef við finnum ekki nákvæmlega staðinn þar sem fiskurinn er að éta (fæðunám) þá er helst að finna bleikjuna á flakki þegar hún er að leita (fæðuleit). Ef við finnum aftur á móti þeirra Bónus, þá er eins gott að við getum lagt fluguna nokkuð nákvæmlega fyrir fiskinn því hann hreyfir sig miklu minna í æti heldur en þegar hann leitar.

    Ummæli

    06.12.2013 – Valdimar Sæmundsson: Vill þetta segja að laxinn sé að éta í ánum og sé þessvegna að hreyfa sig í fæðuleit?

    Svar: Já, ekki get ég lesið annað út úr þessari rannsókn. Að vísu gæti rannsóknin tekið til fiska á s.k. ‘niðurgöngu’ tímabili þó þess sé ekki sérstaklega getið. Svo má alltaf velta því fyrir sér hve fjarskyldur Atlantshafslaxinn sé Kyrrahafslaxinum sbr. grein á Deneki frá því í fyrra sem má skoða hér. Hvað sem því líður, þá vitum við að lax bregst við agni í ám á Íslandi rétt eins og annars staðar í heiminum. Hvort það sé eingöngu af eðlislægri grimmd eða því að hann éti nú bara þrátt fyrir allt í ám einhvern hluta uppgöngu, læt ég ósagt. Það hafa sagt mér veiðimenn að lax éti örugglega ekkert á hrygningartímanum, meltingarfæri hans séu hreint ekki neitt, neitt á þessum tíma. Síðan hafa aðrir sagt mér, í hálfum hljóðum að þeir hafi nú fundið ýmislegt í maga laxa úr Íslenskum ám og í meira magni en svo að það hafi ‘slæðst’ upp í hann á leiðinni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 96 97 98 99 100 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar