Hvernig ætli það sé að byrja á fluguveiði án þess að eiga sér leiðbeinanda eða það sem kallað er mentor upp á enska tungu? Eins og málum er háttað í dag, þá er það í sjálfu sér ekkert mikið mál. Næstu setningu má ekki taka sem sjálfbirgishátt: Ég er sjálflærður í fluguveiði, hef ekki notið þess munaðar að eiga mér mentor, en ég held að ég sé alveg þokkalega vel að mér og þetta hefur tekist alveg bærilega hingað til. Ef eitthvað má út á mig og mína veiðimennsku setja þá er æfingaleysi um að kenna. Ég er alveg eins latur við að æfa mig eins og hver annar.

Það er af sem áður var að einn kennir öðrum, maður á mann. Framboð efnis á netinu, í bókum og á mynddiskum er slíkt í dag að menn geta nánast aflað sér allra upplýsinga með einu eða öllu framan greindra. Auðvitað hefði ég getað stytt mér ýmsa þrautargöngu í sportinu með því að finna ‚réttu‘ bókina fyrr eða horfa á ‚réttu‘ myndina oftar. Sumt verður þó aldrei af mannlegum samskiptum tekið. T.d. þegar kemur að því að greina villurnar í kastinu og fá leiðbeiningar við að lagfæra þær. Aðspurður sagði Stefán Hjaltested um daginn að flugukastkennsla fælist í ‚stöðugum skömmum‘ og þessar skammir geta ekki átt sér stað í gegnum netið eða á bók.

Hættan við að það að vera sjálflærður er sú að maður taki upp einhverja vitleysu og festist í henni og þá er eins gott að finna svona gaura eins og Stefán eða Börk Smára og Himma FFF flugukastkennara. Þú getur fundið þá alla hér á síðunni undir Tenglar / Kastkennsla. Eins og Tom Rosenbauer nefnir í The Orvis Guide To Beginning Fly Fishing þá er góður leiðbeinandi gulls ígildi og hann er örugglega ekki sá sem heldur áfram að vera kurteisin uppmáluð eftir að þú hefur mælt þér mót við hann og hrósar öllu sem þú gerir. Má ég þá frekar biðja um gráglettnar athugasemdir í stað þess að borga einhverjum gaur fyrir að ljúga að mér um frammistöðuna. Það er hægt að byggja upp sjálfstraust nemanda án þess að ljúga að honum. Ég geri mér alveg ljóst að ég á langt í land með að vera einhver listamaður í fluguköstum. Svo er það allt annað mál hvort maður vill endilega verða þessi listamaður, hvort þokkalega snyrtileg köst séu ekki nóg ásamt úthaldi til að veiða samfleytt í 8 klst. án þess að verða verulega þreyttur eða skaða sjálfan sig til frambúðar.

Veiðitæknina er hægt að lesa um, horfa á myndbönd og prófa sig áfram með. Samt er hætt við að eitthvað vanti alltaf aðeins uppá. Ég get ekki stoppað DVD diskinn og spurt Kirk Dieter að einhverju sem mér datt í hug einmitt á tilteknu augnablikinu. Ég gæti að vísu smellt skilaboðum á hann í gegnum Facebook, en það er algjörlega óvíst hvort svarið sé nákvæmlega við spurningunni sem brann á mér einmitt á því augnabliki. Góður mentor er líka gulls ígildi, hann getur sagt þér til undir hinum ýmsu kringumstæðum, á einmitt rétta augnablikinu og oftar en ekki með vísdóm sem gengið hefur í arf frá einum mentor til annars.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.