FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Ekki snurfusa of mikið

    6. febrúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég byrjaði að hnýta var ég sífellt með skærin á lofti, klippti, klippti meira og snurfusaði svo enn og aftur áður en ég hnýtti næsta efni á fluguna. Auðvitað er þetta misjafnt eftir flugum, sumar eru það efnislitlar að allt sem talist getur ofaukið verður að hverfa, en sumar flugur þarf alls ekki að snyrta eins og ég gerði áður.

    Óklipptur Nobbler
    Óklipptur Nobbler

    Nefnum sem dæmi Dog Nobbler. Bústinn vöndull af marabou í skott skilur auðvitað eftir sig heilan helling af efni þegar maður er búinn að hnýta skottið eðlilega niður. Til að byrja með tók ég upp skærin og klippti allt umfram efni frá þegar skottið hafði verið hnýtt tryggilega niður. Svo tók heilmikið vesen við að byggja búkinn, ná honum þéttum og bústnum eins og ég vil hafa hann. Fljótlega fór ég þó að stytta mér leið með allt þetta efni. Eftir að hafa hnýtt skottið niður, tryggt það vendilega og jafnvel lakkað í hnútana, lagði ég restina af storkinum einfaldlega fram eftir flugunni, hnýtti hann niður fyrir framan augu og þá fyrst klippti ég af. Þ.e.a.s. ef eitthvað var eftir af fjöðrinni.

    Með þessu móti var einfaldara að hnýta vöf eða vír niður á búkinn, klára svo fluguna með nokkrum einföldum vafningum af búkefni og ganga frá við hausinn. Þessa aðgerð nota ég við fjölda flugna í dag og ef eitthvað er, þá hafa þær enst mér betur svona.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Efnisþörf

    3. febrúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Eins og lesendum ætti að vera kunnugt um, þá leiðist mér ekki að hnýta flugur. Þetta er svo sem engin stórframleiðsla, en yfirleitt þarf ég að hnýta þetta 6 nothæfar flugur í þremur stærðum, þrjár fyrir mig og þrjár fyrir veiðifélagann.

    Efnið klárt í þrjár flugur
    Efnið klárt í þrjár flugur

    Þegar ég hef dundað mér við fyrstu fluguna, prufustykkið, þá veit ég nokkurn veginn hvað ég þarf af efni í næstu eintök og þá raða ég gjarnan því efni sem til þarf á mottuna mína þannig að það sé innan seilingar. Sumt efni klippi ég strax niður, annað tek ég úr stömpum og af spólum eftir þörfum. Mér skilst að sumir gangi svo langt að hreinsa allar fjaðrir af dún áður en þær eru notaðar í hnakka eða vöf en það geri ég sjaldnast. Vængfjaðrir reyni ég aftur á móti að klippa niður og para saman fyrirfram þannig að þær séu klárar þegar kemur að notkun. Það sparar ótrúlegan tíma að græja þær allar á einu bretti og vængirnir ættu að verða fallegri ef maður gefur sér góðan tíma í að para fjaðrirnar rétt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Gefðu þér tíma

    30. janúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Enginn verður óbarinn biskup – Ekki er flas til fagnaðar – Góðir hlutir gerast hægt og svo má lengi telja alla málshættina sem ættu að fá menn til að slaka á og fara sér hægt. Ég hallast reyndar alltaf meira að; Það er ekki eftir neinu að bíða, en hinkrum nú samt aðeins við.

    Enginn asi á þessari
    Enginn asi á þessari

    Þegar ég set í nýja flugu eða einhverja sem nokkuð er um liðið frá því ég hnýtti síðast, hef ég þann háttinn á að fara mér hægt, mjög hægt. Fyrir kemur að ég bakki meira að segja til baka í miðri flugu, reki upp eða losi eitthvað sem ég hef þegar fest, bara til þess að reyna aðra aðferð eða röð á efni ef ske kynni að sú aðferð sparaði mér tíma og/eða efni þegar ég byrja síðan í alvöru að hnýta þau eintök sem þarf. Svo nota ég oft fyrstu fluguna til að mæla það magn af efni sem ég vil hafa í henni, stundum þarf að taka af væng, minnka dubb eða spara í haus flugunnar þannig að hún verði ekki eins og fílamaðurinn þegar búið er að lakka hausinn.

    Allt þetta káf á mér við fyrstu fluguna verður vitaskuld til þess að hún verður heldur óásjáleg, illa hnýtt og endist örugglega ekki nema í einn eða tvo fiska. En, þetta verður samt yfirleitt til þess að ég spara mér tíma og hnýtingin verður öruggari þegar kemur að flugum nr. 2 – 7 sem fylgja yfirleitt í kjölfarið. Sjáið til, yfirleitt þarf ég nefnilega að hnýta fyrir tvo veiðimenn og leiðist það ekki.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skipulag

    27. janúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Yfirleitt er það nú þannig að þeim sem sæi hnýtingaraðstöðuna mína dytti eflaust í hug að ég sé algjörlega laglaus. Í það minnsta fer ekki mikið fyrir þessu Skipu-lagi hjá mér þegar ég er að hnýta en áður en ég hefst handa horfir öðruvísi við. Þetta tek ég fram hér í upphafi nokkurra greina sem ég hef tekið saman um æskileg vinnubrögð við fluguhnýtingar. Myndirnar sem ég tók fyrir þessar greinar voru auðvitað teknar eftir rækilega tiltekt og snurfus á hnýtingarborðinu mínu, en þetta skipulag vill oft hverfa eins og dögg fyrir sólu eftir nokkrar flugur og við tekur mjög vel skipulagt kaos.

    Allt í röð og reglu
    Allt í röð og reglu

    Yfirleitt er það nú svo að ég skipulegg hnýtingarnar mínar með smá fyrirvara, tek til á borðinu og raða áhöldum, koppum og kirnum á sinn stað þannig að ég viti nákvæmlega hvar hvað er þegar ég set í fyrstu fluguna. Ég nota mottu, gjarnan aflagða músamottu á röngunni, fyrir þær græjur sem ég þarf í viðkomandi flugu. Þá þarf ég ekki að kippa græjunum upp úr svampinum, þar sem þær eiga heima að öllu jöfnu og þá eru þær á vísum stað. Trúlega er ég með einhvers konar brest, afbrigði sem ég kann ekki að nefna, því ég vil helst hafa græjurnar alltaf í sömu röð. Lengst til vinstri er keflishaldarinn, svo skærin sem ég nota í vír og tinsel, síðan kemur nálin mín og svo skæri fyrir hnýtingarþráð og fjaðrir. Ef ég held mig við þessa röð í gegnum heila flugu, þá þarf ég aldrei að líta upp úr stækkunarglerinu til að finna það áhald sem ég þarf í það og það skiptið.

    Þetta ráð, eins og með svo mörg önnur, er auðveldara að gefa heldur en ástunda. En hafi maður þetta í huga áður en lagt er af stað, þá er aldrei að vita nema það skjóti þannig rótum að það venjist.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Grisjað að vetri

    23. janúar 2016
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Því er nú þannig farið að flest veiðivötn á Íslandi eru að hluta eða mestu leiti í eigu bænda. Auðvitað eru nokkur vötn svo nærri byggð að ákveðin sveitarfélög, einstaklingar eða stofnanir eiga land að og þar með veiðirétt í vötnum. Vötn og einstaklingar njóta þess yfirleitt ágætlega þegar sveitarfélögin eða stofnanir eiga veiðiréttinn. Þá eru töluverðar líkur á að um vötnin sé hugsað, þau undir eftirliti og breytingum í þeim gefin gaumur. Síðast en ekki síst, þá njóta veiðimenn góðs af því aðgengi að þessum vötnum er yfirleitt með ágætum.

    Aðgengi veiðimanna að vötnum í umsjá bænda, beint eða í gegnum afréttarfélög er yfirleitt einnig með ágætum. Stærri veiðifélög eru þess megnug að ljá rannsóknum og eftirliti einhverja fjármuni og því er ástand þeirra vatna sem undir þau heyra yfirleitt með ágætum. Sömu söguna er ekki alveg að segja um öll vötn sem heyra undir einstaka bændur. Þar gefst sjaldnast tími né fjármunir til að sinna þeim eins og best væri á kosið og því vilja þessi vötn oft verða afskipt ef þau eru ekki nýtt af eigendum.

    Mér hefur annað slagið orðið tíðrætt um ofsetin bleikjuvötn, enda af nægum vötnum að taka. Samfara minni netaveiði hafa mörg vötn orðið offjölgun bleikju að bráð og orðið nánast óveiðanleg fyrir kóði.

    Á þessum árstíma, þegar mörg vötn eru undir ís hefur mér oft orðið hugsað til þess hve auðvelt það væri að grisja þau núna. Grisjun að vetri hefur marga kosti umfram grisjun að sumri. Oftar gefst meiri tími frá búskap að vetri heldur en að sumri, auk þess sem kostnaður við grisjun undir ís er lítill þar sem ekki þarf bát og tengdan útbúnað til að leggja net.

    Hvað leynist undir ísnum?
    Hvað leynist undir ísnum?

    En hvað á svo að gera við aflann? Ég veit það fyrir víst að margur bóndinn hefur nýtt silung og annan fisk sem fóðurbæti með lélegum heyjum í gegnum árin. Eins hefur fiskur verið nýttur í minka- og refarækt með ágætum. Stærri fisk sem fellur til við grisjun má síðan örugglega nýta til manneldis og kemur þá kuldinn að vetrum í góðar þarfir ef geyma þarf fisk fyrir lengri flutninga. Það er svo ótalmargt sem mæli með grisjun undir ís. Síðast en ekki síst gætu síðan veiðimenn lagt sitt að mörkum á sumrin, tekið vötnin í fóstur, annast þau og viðhaldið fiskistofninum með hóflegri veiði.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að kíkja upp undir

    20. janúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar maður hnýtir straumflugu, þá horfir maður oftast á hlið hennar og reynir að hnýta hana sem líkasta hornsíli eða ungviði, einhverju sem er á matseðli fisksins. En hversu oft hafa menn tekið væsinn og snúið honum að sér þannig að horft sé aftan á fluguna? Sjálfur get ég sagt með fullri vissu að það hefur aldrei komið fyrir mig. Ég glápi á fluguna frá hlið, kíki undir hana, ofaná og mögulega athuga ég hausinn sérstaklega, en aldrei kíki ég upp undir hana aftan frá.

    Það er eitthvað bogið við þetta allt saman. Straumfluga á að líkja eftir smáfiski. Smáfiskar hræðast stærri fiska og það er aðeins í augnablik sem smáfiskurinn horfist í augu við þann stóra, svo snýr hann sporðinum í hann og reynir að forða sér, allt hvað af tekur. Sjónarhorn stóra fisksins er því aftan á smáfiskinn, ekki á hlið eða ofan á.

    Urriðaseiði
    Urriðaseiði

    Mér hefur alltaf þótt Black Ghost vera einhver fallegasta straumfluga sem til er. Þar fer smekkur minn og laxfiska saman. Eggjandi kinnarnar úr fjöðrum frumskógarhanans setja mikinn svip á fluguna, rétt eins og á Dr.Burke eða Dentist ef hann er í sparifötunum. En þessar kinnar eru ekki aðeins flottar séðar frá hlið. Þegar straumfluga með kinnum er á flótta undan svöngum silungi, leggjast kinnarnar að búknum og rétta úr sér á víxl, rétt eins og eyruggar sílisins þegar það reynir í örvæntingu að forða sér.

    Næst þegar ég hnýti straumflugu ætla ég að kíkja upp undir hana að aftan og athuga hvort kinnarnar standi hæfileg út í loftið, hvort fjöðrin í vængnum rísi nægjanlega til að líkja eftir bakugganum og síðast en ekki síst, er skottið á flugunni eitthvað í líkingu við sporðinn sem gengur fram og til baka þegar smáfiskurinn forðar sér. Ef allt gengur upp, þá er ég með flugu í höndunum sem silungin langar í.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 81 82 83 84 85 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar