Því er nú þannig farið að flest veiðivötn á Íslandi eru að hluta eða mestu leiti í eigu bænda. Auðvitað eru nokkur vötn svo nærri byggð að ákveðin sveitarfélög, einstaklingar eða stofnanir eiga land að og þar með veiðirétt í vötnum. Vötn og einstaklingar njóta þess yfirleitt ágætlega þegar sveitarfélögin eða stofnanir eiga veiðiréttinn. Þá eru töluverðar líkur á að um vötnin sé hugsað, þau undir eftirliti og breytingum í þeim gefin gaumur. Síðast en ekki síst, þá njóta veiðimenn góðs af því aðgengi að þessum vötnum er yfirleitt með ágætum.
Aðgengi veiðimanna að vötnum í umsjá bænda, beint eða í gegnum afréttarfélög er yfirleitt einnig með ágætum. Stærri veiðifélög eru þess megnug að ljá rannsóknum og eftirliti einhverja fjármuni og því er ástand þeirra vatna sem undir þau heyra yfirleitt með ágætum. Sömu söguna er ekki alveg að segja um öll vötn sem heyra undir einstaka bændur. Þar gefst sjaldnast tími né fjármunir til að sinna þeim eins og best væri á kosið og því vilja þessi vötn oft verða afskipt ef þau eru ekki nýtt af eigendum.
Mér hefur annað slagið orðið tíðrætt um ofsetin bleikjuvötn, enda af nægum vötnum að taka. Samfara minni netaveiði hafa mörg vötn orðið offjölgun bleikju að bráð og orðið nánast óveiðanleg fyrir kóði.
Á þessum árstíma, þegar mörg vötn eru undir ís hefur mér oft orðið hugsað til þess hve auðvelt það væri að grisja þau núna. Grisjun að vetri hefur marga kosti umfram grisjun að sumri. Oftar gefst meiri tími frá búskap að vetri heldur en að sumri, auk þess sem kostnaður við grisjun undir ís er lítill þar sem ekki þarf bát og tengdan útbúnað til að leggja net.

En hvað á svo að gera við aflann? Ég veit það fyrir víst að margur bóndinn hefur nýtt silung og annan fisk sem fóðurbæti með lélegum heyjum í gegnum árin. Eins hefur fiskur verið nýttur í minka- og refarækt með ágætum. Stærri fisk sem fellur til við grisjun má síðan örugglega nýta til manneldis og kemur þá kuldinn að vetrum í góðar þarfir ef geyma þarf fisk fyrir lengri flutninga. Það er svo ótalmargt sem mæli með grisjun undir ís. Síðast en ekki síst gætu síðan veiðimenn lagt sitt að mörkum á sumrin, tekið vötnin í fóstur, annast þau og viðhaldið fiskistofninum með hóflegri veiði.
Senda ábendingu