FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Grafinn urriði með rjómaosti

    23. nóvember 2017
    Matur

    Upp

    Forsíða

    Flestir þekkja grafinn lax á ristuðu brauði með graflaxsósu, herramannsmatur. En það getur verið tómt vesen að borða þetta nema með hníf og gaffli og því verður stundum ekki komið við, sérstaklega í veislu eða kokteilboði þar sem fátt er um hnífapör. Ég hef því tekið grafinn urriða, sneitt hann niður og saxað gróft ofan á þunnar (u.þ.b. 0,5 sm. þykkar) sneiðar af grófu snittubrauði. Hver sneið verður því u.þ.b. tveir munnbitar og ekkert mál að tylla henni við hlið te- eða kaffibollans á undirskálina.

    Grafinn urriði á snittubrauði

    Til að halda örlítilli nýbreytni í þessu, þá hef ég smurt sneiðarnar með Philadelphia Original rjómaosti í stað smjörs eða majónes. Hverri sneið hef ég síðan úthlutað einum vænum dropa af graflaxsósu og ef ég er ekki í mikilli tímaþröng, þá hef ég sett örlítið af steinselju ofaná til skrauts. Vel að merkja, þá er auðvitað líka hægt að útbúa þessar snittur með reyktri bleikju.

    Nokkrir smáréttir úr aflanum

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Gamalt nylon

    21. nóvember 2017
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Ég hef í mörg ár haldið því fram að það sé ekkert til sem heitir einskisverður fróðleikur (e. useless information), það er alltaf hægt að notast við eitthvað af þessum, þó ekki væri nema til þess að leggja útfrá honum í efnisöflun. Eitt af því sem varð mér hvatning til smá vefleitar er sú staðreynd að nylon kom fyrst fyrir augu almennings árið 1938, nánar tiltekið í hárum tannbursta og skömmu síðar í sokkabuxum. Mér skilst að þessar fyrstu sokkabuxur séu fyrir löngu horfnar einfaldlega vegna þess að hráefnið í þeim hefur fyrir löngu brotnað niður og þar með buxurnar sjálfar.

    Fljótlega eftir að byrjað var á að spinna nylon í þráð fóru menn að nota hann til fluguhnýtinga, hvaða ár veit ég ekki nákvæmlega en ég las um það á heimasíðu American Museum of Fly Fishing að þeir væru í stökustu vandræðum með einhverja safngripi (flugur) vegna þess að þeir væru að losna í sundur vegna þess að hnýtingarþráðurinn væri að morkna í sundur. Ég ætla rétt að vona að menn séu ekki í þessum vandræðum með eitthvað sem leynist í fluguboxunum.

    Mér skilst að hnýtingarþráður úr nylon hafi takmarkaðan líftíma, hve langan greinir menn síðan verulega á um. Tom Rosenbauer tekur greinilega enga sénsa og skiptir öllum sínum hnýtingarþráðum út á tveggja ára fresti. Væntanlega fær hann einhvern góðan afslátt hjá Orvis, verandi starfsmaður þeirra og þarf ekki að horfa í aurinn þegar kemur að endurnýjun. Aðrir hnýtarar segjast nota nylon þráð sem sé orðinn meira en 5 – 6 ára og það sé ekkert að honum. Reyndar taka þeir fram að stundum þurfi þeir að vinda ofan af keflunum, einu eða tveimur lögum af þræði þannig að upprunalegur litur kemur í ljós. Það að nylon lætur lit með tímanum er einmitt skýrt merki um að efnið sé farið að brotna niður, verður þurrt og stökkt.

    En er eitthvað til ráða ef nylon er byrjað að brotna niður? Algjörlega án ábyrgðar, þá hef ég hér eftir eina ábendingu sem smellt var fram á erlendum spjallþræði; Taktu skaftpott með ½ lítra af vatni og bættu eins og einni matskeið af hlutlausri matarolíu út í vatnið. Hitaðu vatnið að suðu og stilltu lokið á pottinum þannig að gufuna leggi út til hliðar. Stilltu gömlu hnýtingarkeflunum þannig upp að gufuna leggi um þau og leyfðu þeim að hitna vel. Þetta skilst mér eigi að þrífa hnýtingarþráðinn og að einhverju marki endurnýja í það minnsta yfirborðsfituna í þræðinum.

    Ég get mér þess til að líftími nylon fari mikið eftir því hvernig þráðurinn sé geymdur. Nylon brotnar niður fyrir áhrif sólarljóss, hita og raka. Ætli gamli frasinn Geymist á þurrum og köldum stað sé ekki bara í fullu gildi þegar kemur að heppilegum geymslustað. Annars get ég heilshugar tekið undir undrun og hneykslun sem kom fram í einu kommenti á spjallsíðu; Þetta á náttúrulega ekki að vera neitt vandamál, hnýttu bara flugur þangað til þráðurinn klárast.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tortillur með reyktri bleikju

    16. nóvember 2017
    Matur

    Upp

    Forsíða

    Í síðustu viku skaut ég hér inn uppskrift að tortillum með gröfnum urriða, en það er líka hægt að nota reykta bleikju og mörgum finnst sú útgáfa ekki síðri.

    Tortillur með reyktri bleikju

    Uppskriftin er mjög svipuð, þ.e. á átta stórar maís tortillakökur nota ég eina dós af hvítlauks- og jurakrydduðum Philadelphia rjómaosti sem ég hræri út með einni dós af 18% sýrðum rjóma. Með reyktum fiski kýs ég að nota þennan kryddaða ost sem kemur með skemmtilegt mótvægi við reykbragðið af fiskinum sem vel að merkja þarf að vera taðreyktur. Bleikjuna sneiði ég niður þannig að hún sé í þykkara lagi og nægi í 5 – 6 raðir á smurðar maískökurnar. Að nota maískökur er kannski bara einhver sérviska í mér, en mér finnst þær fara einfaldlega betur með reyktum fiski heldur en þær úr hveiti.

    Nokkrir smáréttir úr aflanum

    Kökunum rúlla ég síðan þétt í lengjur og nota gjarnan sushi bambusmottu þannig að þær verði þéttar og áferðafallegri. Lengjurnar má sneiða strax niður í 1,5 – 2 sm. þykkar sneiðar, en ekki er verra að leyfa lengjunum að taka sig yfir nótt í kæli. Eigum við eitthvað að ræða drykki með þessu? Jú, vel kælt hvítvín eða ískaldur bjór sem í þessu tilfelli má alveg vera dökkur maltbjór ef vill.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Getur maður gleymt?

    14. nóvember 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Í veiðiferðum heyrir maður alltaf eitthvað spaugilegt, annað hvort frá veiðifélögum eða áhorfendum. Já, áhorfendum að stangveiði er sífellt að fjölga á Íslandi. Fjölgun ferðamanna hefur vissulega sett sitt mark á stangveiði á Íslandi, rétt eins og flest annað á liðnum árum. Fyrir utan áhorfendur á gömlu Elliðaárbrúnni og mögulega á nokkrum fleiri stöðum, þá hafa veiðimenn ekkert endilega átt því að venjast að veiða berskjaldaðir fyrir augum og orðum áhorfenda á Íslandi. Þetta hefur aðeins verið að breytast á liðnum árum og það kemur fyrir að veiðimenn upplifa sig sífellt berskjaldaðri fyrir góni og glósum áhorfenda á veiðislóð. Blessunarlega eru flestir veiðistaðir á Íslandi þannig að veiðimenn eiga mjög auðvelt með að gleyma stað og stund þannig að áhorfendur fara mjög sjaldan í taugarnar á þeim. Ef veiðimaður setur óvart í einn svona ferðamann, þá er víst rétt að árétta að það er svona veiða og sleppa lögmál í gildi á ferðamönnum, kannski svona hálfgerð klakveiði. Við gómum þá, kreistum og sleppum síðan lausum og vonum að þeir komi aftur að ári.

    Einn góður frá síðasta sumri

    Annars er það víst eitthvað fleira sem veiðmenn geta gleymt á veiðislóð heldur en stað og stund. Í sumar sem leið heyrði ég í veiðimanni sem hreint og beint hélt því fram að hann hefði gjörsamlega gleymt því hvernig veiða ætti urriða. Allt þetta bleikjustúss hefði bara alveg náð að þurrka kunnáttu og reynslu urriðaveiði út úr kollinum á honum. Þetta fannst mér spaugilegt, sérstaklega í ljósi þess að á þessum tímapunkti vissi ég nákvæmlega að viðkomandi aðili hafði veitt fjórum urriðum fleiri heldur en ég yfir sumarið. Þegar upp var staðið, þá þurfti reyndar ekki nema einn góðan göngutúr niður að Ljótapolli til að viðkomandi hætti þessu spaugi. En skaðinn var skeður hvað mig varðar, gat maður hreint og beint gleymt því hvernig ætti að veiða fisk? Getur minnið farið svo illa með mann að það hreinlega rænir mann þessari ánægju lífsins? Þetta var svo óþægileg tilhugsun að ég fjölgaði snarlega öllum veiðiferðum, ég ætlaði sko ekki að taka sénsinn á því að minni mitt tæki upp á einhverri ótukt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tortillur og grafinn urriði

    9. nóvember 2017
    Matur

    Upp

    Forsíða

    Nú er ekki seinna vænna heldur en koma afla sumarsins í gómsæta rétti og gera sér að góðu. Það er alltaf gott að fá grafinn fisk og reyktan ofan á ristað brauð, en það er líka hægt nýta þennan fisk í gómsæta smárétti og það þarf alls ekki að taka langan tíma að útbúa slíka rétti.

    Persónulega finnst mér grafinn urriði betri heldur en grafinn lax og þá er ég ekki bara að tala um grafinn eldislax, um þann fisk vil ég helst sem fæst orð hafa. Hér kemur uppskrift að gröfnum urriða sem vafin er upp í hveiti tortillakökur.

    Á átta stórar tortillakökur nota ég eina dós af Philadelphia Original rjómaosti sem ég hræri út með einni dós af 18% sýrðum rjóma. Ég kýs að nota óbragðbættan ost þannig að kryddið af urriðanum fái að njóta sín. Urriðan sneiði ég niður í heldur þykkari sneiðar heldur ég nota venjulega á risað brauð, nóg til að ég geti raðað sneiðunum í 5 – 6 raðir á hverja hveitiköku sem smurð hefur verið ríflega með ostinum. Ef þið viljið heldur nota heilhveitikökur, þá mæli ég með því að smyrja örlítið þykkara lagi af osti á hverja köku. Heilhveitikökurnar eru yfirleitt heldur þurrari heldur þær úr hvítu hveiti.

    Tortillabitar með gröfnum urriða

    Ég rúlla síðan kökunum þétt upp (gott að nota sushi bambusmottur) og sneiði síðan rúlluna niður í u.þ.b. 1,5 sm. þykkar sneiðar. Það er ekki verra að leyfa óskornum rúllunum að taka sig í kæli yfir nótt, en ekki nauðsynlegt. Þetta er í raun mjög fljótlegt og getur hentað vel þegar óvænta gesti ber að garði. Ég leyfi mér að bæta því við að með þessu er alveg tilvalið að drekka kælt hvítvín eða stinga úr eins og einni dós af ljósum bjór.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hægri eða vinstri

    2. ágúst 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ein af lífseigustu deilum í millum fluguveiðimanna er sú hvort fluguhjólið eigi að vera þannig uppsett að maður noti hægri eða vinstri höndina til að spóla inn á það. Helstu rök þeirra sem vilja hafa inndráttinn með þeirri hendi sem þeir kasta með er að rétt sé að spóla inn á veiðihjólið með ríkjandi hendi, hún sé úthaldsmeiri heldur en sú víkjandi og ráði betur við fínhreyfingar. Þetta setja menn fram með þeim fyrirvara að sé veiðimaðurinn ekki að glíma við stóra fiska dags daglega, þá skipti í raun engu máli með hvorri hendinni haldið sé á stönginni og með hvorri spólað sé inn.

    Hægri-sinnað hjól
    Hægri-sinnað hjól

    Nú er kunnara heldur en frá þurfi að segja að ég veiði ekki oft stórfiska, en þrátt fyrir það þá hef ég aldrei keypt þessi rök. Þegar ég kasta nota ég ríkjandi hendi, sem í mínu tilfelli er sú hægri. Þegar fiskurinn tekur, þá reisi ég stöngina með sömu hendi og ég dreg línuna inn með þeirri vinstri. Ég skipti ekkert um hendi af þeirri ástæðu einni saman að hægri höndin er einmitt sterkari og ég tel mig ráða betur við fiskinn með þeirri hendi. Sú vinstri er eiginlega bara til þess að fálma eftir háfinum og vera til taks ef fiskurinn tekur á rás og ég þarf að skammta línuna undir fingurna á þeirri hægri sem heldur við, bæði stöng og línu.

    Ef svo ólíklega vill til að ég taki upp á því að spóla línuna inn á hjólið, þá ræður sú vinstri alveg við það. Ég er reyndar að berjast við að venja mig af þeim óskunda, þ.e. að spóla línuna inn í miðri viðureign nema ég þurfi nauðsynlega að stytta línuna sem liggur fyrir fótum mér. Það er þá helst að fiskurinn hafi tekið einhverja roku fyrir nes eða grjót að ég þurfi að færa mig úr stað. Sem sagt; hjólin mín eru uppsett fyrir vinstrihönd, ég kasta með hægri, reisi með hægri, held við með hægri og þá er sú vinstri klár í að spóla línunni inn á hjólið. Með þessu fyrirkomulagi þarf ég aldrei að færa stöngina á milli handa.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 62 63 64 65 66 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar