Ætið: Bitmý

Bitmý

Á Íslandi finnast sex tegundir bitmýs. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að flugurnar eru smágerðar, dökkar og frambolurinn kreppist eilítið upp fyrir afturbolinn. Púpurnar líkjast flugunni meira heldur en lirfan sem eru töluvert stærri en fullvaxin fluga, allt að 1 sm. Lirfan er lík ormi, með haus og röð króka aftur eftir bolnum. Myndbreyting lirfunnar á sér stað í nokkurs konar kramarhúsi sem hún byggir sér.

Lirfurnar festa sig við botninn, oft í þéttum klösum og standa upp á endann í vatninu. Myndbreyting hennar á sér stað í nokkurs konar kramarhúsi sem hún byggir sér.

Alþekkt er að fyrsta klak mýflugna á sér stað snemma að vori þegar vatnshitinn hefur rétt skriðið upp fyrir 4°C og því eru þær oft fyrsta merki um líf að vori í vötnum landsins.

 

Ummæli

Nafnlaus ábending – 25.júní 2012Frábær síða og kærar þakkir fyrir hana!

Langaði aðeins að vekja athygli á að myndin af lirfunni er rykmýslirfa ekki bitmý. Þær eru ekki alltaf rauðar og í raun er þessi muskubrúni litur algengari en rauður. Googlaðu simulium vittatum (algengast bitmýstegundin hér) og þá ættirðu að finna myndir af lirfunni. Hún er yfirleitt ljósari að lit og þykkust um afturendann með mikla fálmara á höfðinu til að veiða fæðu. Mér hefur alltaf fundist héraeyra vera ein besta líkingin af bitmýi.

Kristján: Já, nú hefur mér orðið fótaskortur á lyklaborðinu. Var að væflast með tvær myndir af lirfu rykmýsins, ekki viss hvora ég ætlaði að nota og hef greinilega feðrað aðra þeirra bitmýinu. Þegar þetta er skrifað hef ég leiðrétt þessi mistök mín og, eins og kemur fram í nafnlausu ábendinunni, sett Hérareyrað inn sem góða eftirlíkingu lirfunnar sem er svo sannanlega réttmætt. Kærar þakkir fyrir þessa ábendingu, það eru einmitt svona ábendingar sem ég hef grun um að mig hafi vantað á efni síðunnar, rétt vil ég hafa rétt.

Fæðuframboð

Það er ekkert svo meitlað í stein að ekki sé hægt að breyta því. Þannig er því farið með ákveðin gátlista sem ég útbjó mér fyrir nokkrum árum og ég uppfærði hér síðast síðla árs 2010. Þessi gátlisti byggir á því fæðuframboði sem er að finna í vötnunum okkar árið um kring og hefur gagnast mér ágætlega þegar ég vel mér flugu við veiðarnar.

Fæðuframboð

Nú hef ég uppfært hann enn eitt skiptið og í þetta skiptið hef ég bætt inn í hann kjörhitastigi hverrar umbreytingar í lífríki vatnanna eins nærri áræðanlegum heimildum og reynslu minni sem ég kemst. Þegar þessu er síðan náð getur maður útbúið lista yfir tegundir / gerðir flugna sem gætu verið fulltrúar lífríkisins hverju sinni.

Agnið skv. lífríkinu

Ummæli

13.06.2012 Gústaf IngviFlottur póstur hjá þér og gaman væri að fá þessar myndir í stærri upplausn ef mögulegt væri :) Væri gaman að hafa þetta með í veiðitöskuni í góðri upplausn

13.06.2012 KristjánJá, takk fyrir ábendinguna. Ég hafði bara ekki hugsað þetta alveg svona til enda, auðvitað. Til að nálgast stóra útgáfu af Fæðuframboðinu, smelltu hér og til að nálgast stóra útgáfu af Agninu, smelltu hér. Vona að þetta komi að góðum notum.

17.06.2012 Árni Jónsson: Flottar myndir og frábær útskýring. Þetta er mjög gagnlegt og aðgengilegt.

Hvenær púpur?

Púpa og þurrfluga

Það vefst sjaldan fyrir fjölhæfum veiðimönnum hvenær á að notast við púpur og hvenær straumflugur. En, svo eru þeir sem eru ekki alveg með þetta á hreinu og enn aðrir sem velta sér bara ekkert upp úr þessu. Ég tilheyri að mestu þeim síðast nefndu, ég byrja alltaf á púpu og færi mig ekki í straumfluguna fyrr en komið er í fulla hnefana. Reynum nú að æsa menn aðeins upp; Púpur eru einfaldlega fjölhæfasta, besta og skemmtilegasta agn fyrir fisk sem um getur.

Snemma að vori eru púpurnar og eðli þeirra á svipuðu róli og fiskurinn; fara sér hægt og halda sig við botninn. Í björtu veðri þegar birtufælinn fiskurinn leitar á botninn er hann í púpum. Hér á Íslandi höfum við úr tveimur, mögulega þremur tegundum smáfiska að velja til að líkja eftir við straumfluguveiðar. Við höfum á 3ja hundrað skordýra hér á landi til að líkja eftir við púpuveiðar. Hér geislar hrokinn og yfirlætið af hverju orði, en það er samt svolítið til í þessu. Þegar fæða fiska er skoðuð eru einfaldlega fleiri fiskar í íslenskum vötnum sem leggja sér skordýr til munns heldur en seiði eða hornsíli.

Einn er sá tími ársins sem ég hef ekki minnst á og það er þessi frjósami tími þegar skordýrin klekjast út í og við vötnin og silungurinn fer beinlínis hamförum. Þetta er ævintýri sem stendur því miður stutt hverju sinni, stundum bara ½ klst. í einu, en er þeim mun skemmtilegri. Að vera til staðar, leggja réttu púpuna fyrir silunginn og vera beinn þátttakandi í þessu undri náttúrunnar líður manni seint úr minni. Á þessum augnablikum renna púpu- og þurrflugumenn saman í eina sæng.

Nóg í bili, best að kíkja aðeins í straumfluguboxið og strjúka fjaðurvængjunum, ég vil hafa þær í standi ef púpurnar mínar bregðast. Auðvitað verða menn að vera opnir fyrir öllum möguleikum.

Rush

Púpuveiði

Það leyndi sér ekkert í grein minni um daginn að ég er meira fyrir púpuveiði heldur en straumflugu. Kannski er þetta bara gamla sagan um hundinn og þetta með að sitja því þegar ég byrjaði að veiða á flugu þá leið ekki langur tími þar til ég heillaðist af þessari blindu viðureign sem púpuveiðin er. Þetta er svipað og raða púsluspili, blindandi.

Annars hafa fyrstu tilraunir manna til púpuveiði oft ekki orðið upp á marga fiska, í orðsins fyllstu merkingu. Þeim sem stundað hafa straum- og/eða þurrflugu hefur oft reynst erfitt að fóta sig með púpuna, þessi litlu óásjálegu kvikindi sem kúra bara þarna niðri á botninum og hreyfast hægt eða ekki neitt yfir höfuð. Oftar en ekki hef ég verið spurður; Hvernig nennir þú þessu, það er engin action í þessu? Jú, satt, það er ekki oft mikið um að vera á meðan maður skyggnist um, les vatnið og náttúruna, velur að lokum eitthvert krílið og dregur það löturhægt inn. En, þegar svo einhver tekur skyndilega í og við tekur baráttan um yfirráðin, þá fer adrenalínið á fullt. Þetta er auðvitað ákveðin fíkn í ‚rush‘ á milli algjörar slökunar og þess að njóta náttúrunnar, rjúka síðan upp í spenningi og að lokum, þessi frábæra vellíðan sem streymir um mann þegar hann lætur undan og maður fær tekið um hann, losað fluguna og, kannski sleppt. Þetta er stormasamt samband manns og náttúru, æsingur og slökun.

Straumflugur eða ekki?

Black Ghost

Hvort á maður nú að setja straumfluguna undir eða púpuna? Sjálfur er ég meira fyrir púpuna en svo koma þessi augnablik þegar ekkert er að gerast og maður laumast í straumfluguboxin. Helst leita ég í straumfluguna þegar ekkert er að gerast í vatninu (stöðuvatninu). Litskrúðugir Nobblerar draga að sér fiskinn því er ekki að neita. Eins hafa klassíkerar eins og Dentis og Black Ghost gert ágæta hluti þegar líður á daginn, seinni ljósaskiptin þegar fiskurinn kemur upp af dýpinu og leitar að sílum á grynningunum.

En það eru fleiri ástæður til að gefa straumflugunni séns. Það er ekki almennt að stóri fiskurinn hafi orðið stór af því að éta lirfur og púpur alla sína tíð. Hér setjum við sviga utan um landsþekkta stórurriða í ákveðnum ám sem éta ekkert annað en lirfur um ævina. Hvort sem það er nú meðfæddur karakter fisksins eða eitthvað áunnið, þá er magainnihald þeirra stóru oftar en ekki aðrir fiskar, bara miklu minni. Afleidd niðurstaða þessa hlýtur að vera að ætli maður að krækja í stóran fisk, þá notar maður straumflugu sem líkir eftir seiði eða hornsíli.

Straumfluga að vori hefur verið helsta vopna margra veiðimanna. Kalt vatn, fiskurinn leitar fyrirhafnarlítillar fæðu í stórum skömmtum. Tja, ég hef reynt þetta snemma vors með frekar slökum árangri, hallast raunar meira að straumflugunni þegar ég sé sílin fara á stjá fyrir alvöru. En, þetta er væntanlega allt spurning um framboð og eftirspurn. Þegar framboðið er ekkert annað en straumfluga, þá tekur fiskurinn straumflugu, eða ekki. Ef framboðið er ekkert annað en púpur, þá tekur fiskurinn púpu, eða ekki. Hver hefur sitt lagið á þessu.

Annars er einn tími sem alltaf er spennandi með straumflugu í vatnaveiði. Þegar vatnið er að jafna sig eftir góða rigningu eða er skolað eftir mikinn framburð, þá virkar straumflugan. Mikil rigning lækkar yfirleitt yfirborðshita vatnsins þannig að skordýrin eru minna á stjái, en að sama skapi eykur rigningin súrefnið í vatninu og þá fara litlu fiskarnir og hornsílin á stjá. Stærri fiskarnir fylgja svo á eftir.

Mýflugan

Rykmý

Það hefur komið mörgum veiðimanninum á óvart að sjá hve stórir urriðar nærast á mýflugu og virðast bara braggast vel. Mýflugan er hreinn og klár bunki að próteini, almennt auðveld bráð, hvort heldur á lirfu eða púpustigi og þetta veit fiskurinn.

Þegar við leitum að silungi er sjálfsagt að hafa augun hjá sér og skima eftir mýflugunni á öllum þroskastigum. En mýflugan finnst nú ekki hvar sem er. Helst er að finna hana í vatni þar sem það er ekki mikið dýpra en 4m, við jaðar dýpis eða jafnvel grynningum. Botninn hefur mikið að segja, kjörlendið er mjúkur leirkenndur botn eða stöðugur malarbotn og við bestu skilyrði getum við fundið allt að 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra. Já, fiskurinn þarf ekki að leita langt yfir skammt að sínum prótein skammti. Að vísu þarf marga einstaklinga í góðan skammt, en þarna getum við blandað okkur í málið og lagt til áberandi heimasmíðar.

Við vatnshita undir 2°C þekkjum við mýlirfurnar sem þessa litlu rauðu sprota sem standa upp á endann í vatninu, Blóðormur, og silungurinn sogar þær upp af botninum. Þegar vatnshitinn hækkar í 5 – 10°C fer mýið að klekjast, losar sig og syndir upp að yfirborðinu, Buzzer. Þegar nær yfirborðinu dregur hefur púpan safnað súrefni í bólu undir búkinn sem hjálpar henni að komast upp að yfirborðinu (Chromie). Þegar þessi gállinn grípur fluguna, margfaldast umferð silungsins á þessum slóðum og allt þetta æti virðist glepja eftirtekt hans þannig að við eigum stundum auðveldara að nálgast hann heldur en ella.

Að veiða mjónur

Mjóna

Mjónurnar (Buzzer) eiga að líkja eftir síðasta þroskastigi rykmýs sem púpu, þegar hún losar sig upp af botninum og syndir upp að yfirborðinu til að klekjast út. Einfalt, ekki satt? Við vitum að við eigum að beita þessum flugum fyrir okkur þegar yfirborð vatnsins er krökkt af tómum púpuhylkjum og við sjáum til flugnanna stíga upp af yfirborðinu. Þetta er einfalt líka, ekki satt? En hvernig eigum við svo að bera okkur að?

Á kyrrum dögum þegar vatnið gárar lítið sem ekkert notum við flotlínuna, lengjum í tauminum upp í allt að 20‘ og veiðum þær mjóu. Framsetningin er nokkuð einföld og einkennist af þolinmæði. Eftir að við höfum lagt línuna út tökum við allan slaka úr henni og tauminum. Leyfum svo mjónunni að sökkva. Undir bestu kringumstæðum ræðst silungurinn á þær á meðan þær sökkva því þá líkjast þær púpunum sem örmagnast á leiðinni upp og eru auðveld bráð. Ef og þá þegar botninum er náð, lyftum við þeim aftur upp með löngum ákveðnum inndrögum. Ekki síður möguleiki á að verða var við fisk á þessum tímapunkti, ef ekki þá leyfum við henni að sökkva aftur og endurtökum þannig leikinn þangað til við tökum hana alveg upp og köstum aftur.

Ef logið ferðast eitthvað hraðar og gáran liggur á vatninu styttum við í tauminum, kannski niður í 14‘. Undir svona kringumstæðum getum við notað okkur vindinn til að færa mjónuna til í vatninu. Köstum lítillega upp í vindinn, réttum úr línu og taum og leyfum flugunni að sökkva eins og leyfist. Hér gildir að vera ekkert að draga inn að óþörfu, flotlínan sér um að færa mjónuna, veifa henni fyrir framan silunginn. Eitt þó í lokinn, rétt fyrir upptöku er rétt að lyfta stönginni rólega um nokkur fet líkt og við gerum í púpuveiðinni. Það er ótrúlegt hve silungurinn verður oft snöggur til þegar honum finnst eins og hann sé að missa af bráðinni, jafnvel þó hann hafi verið að hnusa af henni í langan tíma en aldrei lagt til atlögu.

Ummæli

24.05.2012 – Kristinn hjá veida.is: Skemmtileg lesning hér að ofan. Það er spurning hvort búið sé að prófa þetta í Hlíðarvatni að undanförnu þegar Bleikjan hefur engu sýnt áhuga nema Rykmýinu.

24.05.2012 – Kristján: Já, ég prófaði þetta aðeins 11.maí en þá ferðaðist lognið kannski aðeins of hratt yfir til að þetta virkaði, en vel að merkja það var afskaplega lítill munur á mýpúpunni sem krækti í bleikjuna fyrir mig og alvöru mjónu, svo lítilmótleg var flugan.

Er ég of nálægt fiskinum?

Flugulínur

Eins og glöggir lesendur hafa e.t.v. orðið varir við, svona innan um annað á blogginu, þá er ég að fikra mig áfram með nýja línu, s.k. Switch línu. Þessi lína er töluvert frábrugðin öðrum línum sem ég hef notað hingað til, hún er til að mynda með mun lengri skothaus heldur en aðrar línur sem ég hef notað. Ástæða þess að ég er að reyna mig við þessa línu er einföld, sumargolan á Íslandi ferðast stundum svo hratt yfir að mér hefur reynst erfitt að eiga við hana með hefðbundnu WF línunum mínum. Að skjóta Switch línu undir eða beint upp í vindinn er bara snilld. En, þetta er ekki aðal inntak þessarar greinar.

Til að ná góðri hleðslu í stöngina með svona línu, þarf að leyfa öllum skothaus hennar að liggja úti, hér er ekkert um það að ræða að draga inn alveg upp að stangarenda. Reikningsdæmið er einfalt; ég er með 12‘ taum + 12-14‘ skothaus þannig að frá stangartoppi eru minnst 24‘ út í fluguna. Hingað til hef ég leyft mér að vaða út að dýpinu og egna fyrir fiskinn þar sem hann liggur við kantinum. Ef ég ætla að halda áfram að eiga við þennan fisk verð ég að færa mig nær landi, svo einfalt er það. Annars er ég alltaf að kasta yfir fiskinn án þess að koma flugunni nokkru sinni fyrir hann, aðeins hrekja hann undan línunni til næsta manns við vatnið.

Ummæli

22.05.2012 – Árni JónssonÉg hef einmitt verið að fikta með 40+ línu (reyndar WF) og hefur gefið fína raun. Reyndar mætti með sanni kalla hana Lots-of-weight-forward, þar sem að hún rýkur út eins kona á leið á skó-útsölu.

23.05.2012 – ÞórunnHvar er þessi skóútsala?

23.05.2012 – Kristján: Nei, Þórunn mín. Hann Árni tók bara svona til orða 🙂

Upphaf að löngu kasti

Upptaka

Upptaka línunnar hefur mikið að segja þegar við leggjum af stað í langt kast. Nú kann einhver að segja að þetta sé nú bara enn eitt bullið, skröksagan. En, ef við viljum ekki styggja fiskinn með óþarfa falsköstum þá ættum við að huga að lengd línunnar sem við tökum upp við upphaf kastsins. Stutt lína kallar á fleiri falsköst með lengingum til að ná löngu kasti, alveg sama hversu góðir kastarar við erum. Þetta er augljóst því við þurfum á þyngd línunnar að halda til að koma henni lengra út, löng lína = meiri þyngd.

Ef við bætum nú mótstöðu vatnsins við þá gefur það auga leið að við þurfum ekki eins mörg falsköst til að ná lengd í kastið. Því lengri lína sem liggur í vatninu þegar við tökum upp, því betur hlöðum við stöngina í upptöku og eigum þannig inni afl sem nýtist í fyrsta framkast og við þurfum alls ekki eins mörg falsköst til að ná út til þeirra stóru.

Þetta leiðir svo hugann að því hvar við stöndum í og við vatnið þegar við tökum upp. Ég ætla að velta vöngum yfir því í næsta pósti.

Hvort gripið?

Hvort gripið?

Á meðan sumir veiðimenn og kastkennarar mæla með Þumal ofaná, þá mæla aðrir með V-gripinu. Hér ræður ekki aðeins smekkur manna. Nokkrir aðrir þættir koma hér við sögu. Kaststíll manna er misjafn þó við byggjum allir á sömu reglunni; hlaða stöngina og stoppa ákveðið í fram og aftur kastinu. Sumum hentar betur að halda um stöngina líkt og tennisspaða, V-gripið. Kannski eru það helst þeir sem finnst þeir þurfa að nota langan kastferil, jafnvel víðan og ávalan sem kjósa V-gripið. Öðrum hentar betur að notast við þumalinn ofaná því þeir kjósa stuttan kastferil, snöggar og ákveðnar hreyfingar, beina línu fram og aftur, mjög ákveðin stopp. Mér hefur virst þeir sem tekst að halda olnboganum þétt að síðunni kjósa frekar þumalinn ofaná.

En það eru fleiri þættir sem hafa áhrif á val manna á gripi. Þegar við þenjum okkur og viljum ná lengri köstum er oft tilhneiging til að úlnliðurinn ‚brotni‘ í bakkastinu ef við notum þumalinn ofaná. Þá getur verið hentugra að skipta yfir í V-gripið, það brotnar síður í löngum kastferli og lengri stoppum á meðan við bíðum eftir að lína réttir úr sér.

Svo er það auðvitað stærð og þyngd stangar sem hefur áhrif á val manna, mér hefur virst að meira segja hörðustu þumlarnir leiti til hliðar á þungri stöng og verði að V-gripi. Létt stöng, stutt köst, kalla aftur á móti á þumalinn.

Ummæli

15.05.2012 Siggi Kr. – Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki grein fyrir hversu gríðarlega mikilvægt gripið er í fluguköstum fyrr en ég las þessa grein: http://www.sexyloops.com/articles/gripsandholds.shtml og fór að fara eftir því sem í henni stendur varðandi hvaða grip henta hvaða græjum, sérstaklega varðandi stærð/þyngd stangar og hvernig handfangið er í laginu og hvernig mismunandi grip geta orsakað villur í köstunum hjá manni. Mæli með því að allir flugukastarar lesi þetta. Þar sem ég nota bæði stangir með full og half-Wells handfangi skipti ég gjarnan á milli gripa og svo ruglar maður þessu stundum öllu saman og allt fer í klessu :)

Allt hefur sinn tíma

Allt hefur sinn tíma

Hefur þú einhvern tímann vanmetið tímann sem þú hefur til að egna fyrir silunginn? Ég er ekki þolinmóðasti veiðimaður landsins og hef örugglega misst af nokkrum fiskum vegna þessa. Væntanlega höfum við mun meiri tíma til að undirbúa framsetningu flugunnar heldur en við nokkurn tímann gefum okkur. Tíma er alltaf betur varið í undirbúning heldur en groddaralegra framkvæmda. Silungurinn er ekkert á óþarfa flandri ef ætið er til staðar og ekkert ógnar honum. Dæmi um það sem hann telur vera ógn eru skuggar flugulínu sem þeytist fram og til baka yfir hausnum á honum, hroðvirknislegar flugulendingar með tilheyrandi línukös eða flóðbylgjur og skrap í botngrjóti sem gjarnan fylgir óvarkárum vaðfuglum af tegundinni homo sapiens.

Að fylgjast með hegðun silungsins, hvernig hann bregst við æti sem syndir hjá eða hvernig hann týnir pöddurnar upp af botninum getur sparað okkur fjöldan allan af köstum og tilraunum með framsetningu.

Gefum okkur þann tíma sem þarf til að koma fram af hógværð og rósemi, okkur verður umbunað.

Átta

Upphaf áttunnar

Menn beita mörgum mismunandi aðferðum við inndrátt, fingrasetningin er alls ekki sú sama hjá öllum. Við hægan, stöðugan inndrátt hafa sumir náð þeirri leikni að þurfa aldrei að endurnýja gripið með vinstri hendinni og ná þannig að halda jöfnum, hægum inndrætti allt til upptöku. Helsta aðferðin við þetta er að velta línunni í vinstri hendi á milli þumals og vísifingurs ásamt því að snúa hendinni sitt á hvað. Á ensku hefur þessi aðferð verið kölluð The figure of eight sem ég leyfi mér hér að kalla áttuna.

Flestir sem komast upp á lagið með þessa aðferð fella u.þ.b. þriðja, fjórða hvern snúning úr lófanum þannig að þessi aðferð getur verið ákveðin ókostur ef línan liggur lengi í sandi, óhreinkast.

This slideshow requires JavaScript.

Þessi venjulegi inndráttur

Smellið fyrir stærri mynd

Venjulegur inndráttur, þ.e. hvernig við höldum við línuna, veljum okkur tak og drögum hana inn, byrjar yfirleitt á því að við klemmum línuna við stöngina, dæmigert með vísifingri. Síðan tökum við þétt um línuna með vinstri hendinni, þétt við stöngina, léttum á vísifingri stangar handar og drögum línuna inn. Þegar æskilegum inndrætti er náð, tryggjum við línuna aftur með vísifingri og færum hægri hendi aftur að stönginni.

Það er svo undir hverjum komið hvort hann fellir línuna, þ.e. lætur hana falla lausa í vatnið eða á bakkann eða hringar hana í annarri hvorri hendi eftir inndrátt. Sjálfur vel ég mér mismunandi aðferð til að stjórna inndreginni línu, oftast hringa ég hana í vinstri hendinni, sjaldnar í þeirri hægri. Þetta á sérstaklega við ef ég veiði frá bakka því fátt er meira pirrandi en kasta línu sem legið hefur í sandi og drullu og safnað þannig á sig óhreinindum sem draga verulega úr línuhraða í kasti.

Ef ég er nú svo lukkulegur að fiskur tekur hjá mér, þá er ég alveg vís með að sleppa allri línu sem ég hef hringað upp því ég vil hafa öll tök og haldir á að stjórna viðureigninni, geta gripið inn í með þeirri vinstri á meðan sú hægri reisir stöngina, stemmir hjólið og heldur spennunni á línunni.

Ráð gegn valkvíða

Ég hef með tíð og tíma tekið nokkru ástfóstri við ákveðnar flugur sem verða ósjálfrátt oftar fyrir valinu en aðrar þegar ég byrja veiðina; Pheasant Tail (original og kúluhaus) og svo svartar mjónur. En þegar þessir vinir mínir bregðast þá grípur ákveðin valkvíði um sig, hvað á ég að velja næst? Þegar uppáhaldið bregst þarf ekki alltaf að sveiflast öfganna á milli. Ágætt getur verið að hafa eftirfarandi forgangsröðun í huga við flugnavalið:

  1. Breyttu um stærð. Ekki endilega alltaf minni, stærri er líka kostur.
  2. Veldu aðeins aðra lögun, stutt skott í stað langs, bústinn búkur í stað granns, stuttur búkur í stað langs.
  3. Örlitlar sveiflur í lit geta gert kraftaverk. Haltu þig við sama grunnlitinn, en með aðeins öðrum frambúk, baklit eða haus.
  4. Framsetning flugunnar skipti alltaf máli. Hvað svo sem þykir rétt hverju sinni; hægt og rólega í köldu vatni, sprækt og ögrandi í björtu veðri, þá kemur alltaf til greina að bregða út af vananum og frá öllum reglum annars lagið.

Gróðurflákar

Gróðurfláki

Fyrir mörgum eru gróðurflákarnir í vatninu hrein ávísun á vandræði og endalausar festur. Fyrir öðrum og þá helst fiskinum eru gróðurflákarnir endalaust forðabúr ætis. Eins óskemmtilegir og þeir geta verið þá eru gróðurflákarnir í vatninu heimkynni allskynns skordýra, seiða og hornsíla. Þetta veit fiskurinn og sækir óspart í þá.

Það er hægt veiða gróðurflákana án þess að vera í endalausum vandræðum. Ef vatnið er nægjanlega tært og þú sérð þokkalega til botns getur þú reynt fyrir þér þar sem gróðurinn er gysnari og/eða lænur hafa myndast í gróðrinum. Best er að nota flotlínu með tiltölulega stuttum taumi og þyngdar flugur undir þessum kringumstæðum. En svo má líka prófa eitthvað allt annað, hálfsökkvandi línu eða sökktaum en…. ekki nota sökkenda. Prófaðu að setja c.a. 1 -2 fet. af venjulegu taumaefni framan á sökktauminn þannig að flugan lyftist aðeins frá botninum, þá eru minni líkur á hún festist auk þess raskar taumaendinn gróðrinum minna. Ég hef horft á fisk fælast taumenda þegar hann skrapar leirbotn eða gróður og myndar þannig skugga eða grugg undir yfirborðinu.

Hvora aðferðina sem þú prófar, gættu þess að flugan lendi utan við gróðurinn og þú dragir hana inn og í gegn um hann, það minkar verulega líkurnar á að festa auk þess að með því egnir þú einnig fyrir fiskinn sem heldur til utan í flákanum.

Gjöfular flugur í gróðurflákum eru auðvitað Pheasant Tail, Héraeyrað, Beikir og svo Nobblerar / Damsel flugur til að líkja eftir seiðunum.

Ummæli

Siggi Kr. 30.04.2012Getur verið fínt að nota booby flugur ef gróðurinn nær ekki mjög langt upp frá botninum. Allavega í stöðuvötnum – held að booby flugur virki ekki sérlega vel í straumvatni nema það renni mjög hægt.

Urriði 01.05.2012Mér hefur gengið best að draga meðfram gróðurkantinum, ekki í gegnum gróðurinn. Svo ef gróðurinn nær ekki alveg upp í yfirborð þá strippa ég stundum léttar straumflugur yfir gróðurinn og þá skýst fiskurinn upp úr gróðrinum til að taka fluguna(ef hann er í stuði til þess).

Hörður Andri 04.05.2012Það getur verið skemmtilegt að sjá urriðann skjótast út úr gróðrinum, mér hefur stundum fundist samt stóri urriðinn vera utan í gróðrinum meira, ekki inni í flókanum. Urriði hefur e.t.v. eitthvað til síns máls með að draga meðfram kantinum.

Að veiða særða flugu

Smelltu fyrir stærri mynd

Að veiða særða flugu hefur trúlega tíðkast frá upphafi fluguveiða. Fyrir tækifærissinna eins og silunginn er særð bráð, síli eða seiði mun auðveldari bráð heldur en fullfrísk og þessu höfum við mennirnir komist að og reynum að líkja eftir. Aðferðin er ekki ýkja flókinn; koma flugunni, sem oft á tíðum er straumfluga, fram fyrir silunginn og draga hana inn með hléum þannig að hún falli (sökkvi) með reglulegu millibili eins og uppgefinn eða særður fiskur. Hvort menn dragi einu sinni eða tvisvar snöggt á milli hléa er auðvitað mismunandi, hver veiðimaður hefur sitt lagið á þessu. Galdurinn er einfaldlega að fá fiskinn til að eltast við særðu fluguna í stað ætisins sem syndir af fullum krafti undan honum. Silungurinn er þekktur í vatninu sem rándýr og ætið, næstum sama hvað það er, forðar sér þegar hann nálgast. Sumir veiðimenn ganga svo langt, helst í straumvatni, að láta bráðina leika sig alveg steindauða, hreyfa hana ekki neitt heldur láta strauminn um að bera hana inn á lygnur eða í bolla í vatninu.

Að skauta

Smellið fyrir stærri mynd

Nú er allur ís loksins farinn af vötnunum og við veiðimennirnir getum farið að skauta, eða öllu heldur látið flugurnar okkar skauta á vatninu. Þessi veiðitækni með þurrflugu hefur einhverra hluta vegna verið mest orðuð við straumvatn; þ.e. láta strauminn toga léttilega í fluguna þannig að hún skilji eftir sig röst í yfirborðinu og veki þannig áhuga fisksins. En þessa aðferð má alveg eins nota á kyrru yfirborði stöðuvatnsins. Tæknin sem beitt er við þetta er að koma þurrflugunni út og enda kastið með stöngina í lægstu mögulegu stöðu; alveg við vatnsborðið. Enginn slaki má vera á línunni og flugan verður að sitja hátt. Við tryggjum línuna, þ.e við höldum við hana með stangarhendinni því við ætlum ekki að draga hana inn heldur lyfta stönginni hægt en ákveðið upp í efstu stöðu. Trikkið við þessa aðferð er að lyfta stönginni hvorki of hægt né of hratt, flugan á að skauta á yfirborðinu og skilja eftir sig áberandi röst, ekki takast á loft. Ef vel tekst til, þá eru fáir fiskar sem standast flugun sem myndar röstina.

Annar kostur

Fiskur í hendi

Ég hef stundum orðað það þannig að það sé og eigi að vera valkostur að sleppa fiski, ekki kvöð. Lífvænlegur fiskur sem við kjósum að sleppa getur kennt okkur ýmislegt í vatnaveiði. Þegar þú hefur sleppt honum, réttu þá úr þér og fylgstu með honum og ekki síst skugga hans synda burt.

Oftar en ekki er erfitt að koma auga á sjálfan fiskinn í vatninu, vísbendingarnar um hann eru oft meira áberandi og auðsærri. Notaðu hvert tækifæri sem gefst til að æfa þig í að sjá fylgifisk fisksins í vatninu, skuggann.

Þungar flugur og línur

Oval Cast

Það getur kostað töluverða æfingu að ná tökum á þungri línu og/eða þungum flugum. Ég eins og margir aðrir hef gengið í gegnum tilraunir með flotlínu og sökktaum sem alltaf hafa viljað flækjast fyrir mér, endalausir vindhnútar og máttlausar framsetningar. Síðar eignaðist ég hægsökkvandi framþunga línu og eitthvað réttist þá úr málum.

Án þess að vita nákvæmlega hvernig og hvers vegna, tók ég síðar upp á því að breyta bakkastinu hjá mér þannig að ég notaði undirhönd frá upptöku eða framkasti í ávölum boga út til hliðar aftur í öftustu stöðu. Þegar ég náði svo tökum að að skeyta hefðbundnu framkasti við þessar tilraunir mínar fóru þungu flugurnar að komast út án þess að vera fastar í perlufesti vindhnúta.

Auðvitað var ég ekki að finna upp neitt nýtt eða byltingarkennt, ég var einfaldlega að læra the hard way að kasta með belgískri aðferð, Belgian Cast eða Oval Cast. Auðvitað hefði ég getað sparað mér allar þessar tilraunir með því að leita til kastkennara, en svona er maður nú einu sinni gerður, þarf alltaf að fara erfiðu leiðina að hlutunum.

Þessi kaststíll nýtist vel við þungar flugur eða þegar við erum með fleiri en eina flugu á taumi. Í bakkkastinu myndum við víðan boga sem hjálpar til að halda flugunum aðskildum þannig að þær flækjast síður. Þrátt fyrir að hamrað sé á þröngu kasthjóli til að ná markvissari köstum þá verðum við að taka til greina að með þungum flugum eða fleiri hefur nýr öflugur kraftur bæst við línuferilinn, þyngdaraflið. Efri línan, þ.e. sú sem flytur fluguna fellur hraðar en ella og því þrengist kasthjólið ósjálfrátt þegar á kastið líður. Kastið sem byrjar í víðum bug með stóru kasthjóli endar þannig í þröngu og mjög hröðu kasthjóli þegar kastið hefur náð fremstu eða öftustu stöðu.

Hnappurinn á stönginni

Þumal-hnappurinn

Sumt er svo sjálfsagt þegar maður hefur komið auga á það að ósjálfrátt færist roði í kinnarnar, aulahrollur niður bakið. Í einhverju letikastinu um daginn tók ég mig til og horfði á Dynamics of Fly Casting með Joan Wulff.

Í myndinni fer hún mjög ákveðið yfir öll undirstöðuatriði flugukasta, meðal annars þá bráð sniðugu hugmynd að ímynda sér hnapp á stönginni sem maður ýtir mjög ákveðið á með þumlinum í framkastinu, rétt aðeins til að skerpa á hröðuninni. Þeir voru ófáir pennarnir og reglustikurnar sem fengu að kenna á tilraunum næstu dagana og nú fær stöngin að kenna á æfingunum. Ég er ekki frá því að eitthvað hafi breyst í köstunum, til batnaðar.

Ummæli

13.04.2012 – Eiður Kristjánsson – Prófaði þetta í Vífó í morgun. Kom bara nokkuð vel út :)

Svar: Já, merkilegt hvað svona lítið atriði getur bætt við kastið. Ég þarf aðeins að vinna í kaststílnum þegar ég er með nýju Switch-línuna mína, það er eins og hún kalli á aðeins meiri ákveðni heldur en ég hef tamið mér hingað til. Annars er ég ekkert nema öfundin út í þig að komast í vatnið núna, ekkert útlit fyrir veiði hjá mér um helgina.

Bestu kveðjur,
Kristján

Eisi til bakaUss, það er hrikalegt. Spáin er frábær, mætti reyndar alveg vera heitara. Vífó var gullfallegt í morgun. Smá gára á vatninu og aðstæður hinar bestar. Það var fluga í loftinu en ég sá ekki einn einasta fisk. Ekki sporð.

Ég fór 1.apríl og nældi mér þá í tvær bleikjur og einn urriða. Er búinn að fara nokkrum sinnum síðan þá en ekki orðið var við neitt líf.

Svo er það Varmáin á morgun. Er frekar svartsýnn þar sem fréttirnar úr ánni eru ekki beint upplífgandi. En ánægjan við að standa á bakkanum með stöngina í hendinni, rýnandi í umhverfið, fluguboxin og lífríkið, er engri lík. Eins og þú veist vel :)