FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hrognaflugur

    25. ágúst 2011
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar haustið nálgast og silungurinn fer að taka á sig riðbúning opnast alveg nýr heimur fyrir veiðimanninum. Atferli fisksins tekur breytingum, urriðinn verður grimmari og bleikjan hópar sig í vötnunum.  Fram að hrygningu er urriðinn sérstaklega sólginn í hrogn, jafnt eigin tegundar og annarra.

    Hrognafluga úr antron

    Í nýlegri veiðiferð varð ég vitni að þessu atferli svo um munaði og varð hugsað til þess að lítið hefur farið fyrir svo kölluðum hrognaflugum hér á Íslandi. Erlendis hafa menn notað léttar, í það minnsta léttari stangir og flotlínu í þessa veiði og auðvitað flugur. Þær flugur sem ég hef skoðað eru allar nokkuð keimlíkar; appelsínugulur hár/garn bolti á hefðbundnum stuttum öngli, þyngdar eða ekki. Auðvitað eru síðan til listaverk sem menn hafa dundað sér við að útbúa úr plastefnum, fljótandi eða föstum sem ná ótrúlegri líkingu við hrogn.

    Hrognafluga úr plastefni

    Hvort þessar flugur höfði eitthvað til urriðans í líkingu við raunverulegar hrognabrækur þori ég ekki að fullyrða en sjálfsagt er að hnýta nokkrar svona og taka með í veiðina þar sem urriða er von núna í haust. Nú, ef maður nær ekki tökum á svona hárboltum, þá má alltaf taka með sér stuttan orange Nobbler. Kannski er hér einmitt komin skýringin á því að urriðinn tekur það ólíkindatól. Eins og ég gat um áður er nokkuð misjafnt hvort menn þyngja hrognaflugur eða veiða þær við yfirborðið, en það er tiltölulega auðvelt að fela þyngingu undir bústnum búk hennar. Stærðirnar eru, sýnist mér frá #10 og niður í #16.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fluguna í ruslið

    5. ágúst 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Að velja flugu, leggja hana fram og koma henni langt út eru allt gild atriði sem við viljum hafa í huga þegar við veiðum. Eitt atriði til viðbótar sem vill þó oft gleymast er; koma flugunni á réttan stað. Það geta verið margar ástæður fyrir því að við viljum koma flugunni okkar á einhvern ákveðinn stað. Kannski leynist fiskurinn við stein, kannski liggur hann þétt við gróðurfláka eða undir bakkanum þannig að við verðum að gæta vel að framsetningunni svo við eigum ekki á hættu að tapa flugunni, styggja fiskinn og þá missa af honum. Þá getur ruslakarfan komið að góðum notum. Prófaðu að fara út á grasflötina með ruslafötuna eða nýttu ferðina þegar þú ferð út með ruslið og gríptu stöngina með þér. Að stilla fötunni upp, merkja sér 4, 6, 8 & 10 metra fjarlægð frá henni, taka nokkur lauflétt köst þangað til að þú nærð því að láta fluguna detta niður í fötuna geta sparað þér mikið angur í veiðinni og gert hana enn meira spennandi en ella. Mundu bara að ofgera ekki æfingunum, oftar og stutt í einu er betra en lengi og sjaldan.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Göslarinn veiðir líka

    2. ágúst 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Göslarinn veiðir líka þegar hann veður út frá bakkanum, hræðir fiskana á undan sér, hendir beitunni út og göslast aftur upp á bakkann, setur stöngina í letingjann og bíður, en…… svæðið sem fiskurinn heldur sig á meðan kyrrð og ró hvílir yfir vatninu er mjög lítið m.v. það svæði sem hann kýs sér sem öruggt skjól verði hann fyrir áreiti. Það er í eðli silungsins að leita út frá bakkanum, út í dýpið ef hann styggist. Hann víkur sér ekki til hliðar, færir sig um nokkra metra og leggst þar fyrir, hann leitar út í öryggið og þar með stækkar svæðið verulega sem hann getur leynst í og veiðimaðurinn þarf að auglýsa agnið sitt á. Nákvæmlega sömu reglur eiga við fluguveiði, við getum þurft að halda kyrru fyrir í töluverðan tíma þar til fiskurinn kemur aftur inn á yfirráðasvæði okkar ef við förum ekki varlega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hafðu augun hjá þér

    30. júlí 2011
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Að vera vel glerjaður er eitt af lykilatriðum veiðinnar. Góð polaroid gleraugu eru ekki aðeins til varnar afvegaleiddum veiðiflugum, heldur og gefa okkur möguleika á að sjá niður í vatnið. Þeir sem nota styrkt gleraugu geta keypt polaroid clips á venjuleg gleraugu eða veiðigleraugu með styrk. En það er ekki allt fengið með gleraugunum. Ef við látum það eftir okkur að hætta að skima eftir fiskinum sjálfum þá eru nokkrar líkur á því að við komum enn frekar auga á hann. Hljómar svolítið öfugsnúið en við eigum trúlega mun auðveldara með að koma auga á skugga fisksins heldur en hann sjálfan. Skyggnumst niður í vatnið og svo aðeins neðar, leitaðu á botninum að skugga sem hreyfist, eða ekki. Ef fiskurinn tekur snöggan kipp þá fer það ekkert framhjá þér, glampi, skuggi á botninum og þú nærð miði á hann.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Peacock og bræður hans

    27. júlí 2011
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar kemur að eftirlíkingum vorflugulirfunnar (Caddis) eru fáar sem standast Peacock Kolbeins Grímssonar snúninginn. Ég ætla ekkert að fara út í fæðingarsögu Peacock, það hefur verið gert oft og víða. Þess í stað langar mig aðeins að skoða fyrirmyndina, vorflugulirfuna og mismunandi birtingarmyndir hennar.

    Caddis on the rock a`la Hlíðarvatn

    Af Peacock Kolbeins hafa með tíð og tíma orðið til ótal afbrigði, öll með það að markmiði að líkja eftir lirfunni á mismunandi vaxtaskeiði. Þannig er að lirfan skiptir mjög um lit eftir vaxtaskeiði og efnisvali í hús sitt. Efnisvalið er jafn fjölbreytt og vötnin eru mörg, helst notar lirfan þó smásteina og jurtaleyfar sem finnast á botninum en einstaka sinnum tekur hún þó til handargagns kuðunga og skeljar í næsta nágrenni.

    Jurtaleyfar

    Það hafa fleiri góðir hnýtarar spreytt sig á Caddis eftirlíkingum. Í þeirri ágætu bók, Silungaflugur í íslenski náttúru má finna frábærar eftirlíkingar Engilberts Jensens (Fellspúpan, Cased Caddis), Sigurbrands Dagbjartssonar (Vorflugulirfa) og Sveins Þórs Arnarssonar (Vorflugulirfan).

    Og hver segir að Héraeyrað eða Pheasant Tail með kúluhaus séu ekki líkar vorflugupúpu ef því er að skipta?

    Skeljar

    Hvort sem menn hnýta ígildi lirfunnar sjálfrar, þ.e. appelsínugula/rauða rönd á hann eða ekki, þá virðist galdurinn oft vera sá að eiga nokkur afbrigði. Sjálfur hef ég veitt á afbrigði sem skorti alla litadýrð, enginn kragi, ekkert skott, aðeins hvítur broddur. Hvítur broddur?

    Jú, á ákveðnu vaxtarstigi er lirfan í húsinu hvít, ekki rauð eða appelsínugul og það veit silungurinn mun betur en við.

    Móberg

    Við getum aðeins leikið okkur að litasamsetningum með því að byggja undir búkinn með litaðri ull og spara þá fjölda Peacock fjaðranna m.v. original Peacock. Litur undirlagsins kemur þá aðeins í gegnum fjaðrirnar og breytir hinum klassíska græn-brúna lit Peacock í léttari eða skærari litatón.

    Ef við svo veljum upp úr fluguboxinu okkar m.v. sandinn á botnum, smásteinana eða jurtaleifarnar, þá erum við e.t.v. nokkru nær því að plata silunginn.

    Líparít

    Þó Peacock sé hér heima þekktasta eftirlíking vorflugupúpunnar, þá hafa menn úti í hinum stóra heimi auðvitað líka hermt eftir henni. Afbrigðin og efnisvalið er svo fjölbreytt að stofna mætti sérstakt blogg um samsetningarnar einar og sér. En allar eiga þær þó sömu fyrirmyndina, eftirhermur mismunandi byggingarefnis og þess hvort lirfan sé að kíkja út úr húsinu eða ekki.

    Og ekki gleyma því að vorflugan verpir ekki aðeins í stöðuvötnum heldur einnig ám og lækjum; Peacock veiðir alls staðar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fæðuvandamál

    24. júlí 2011
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    John Hurt sem Fílamaðurinn

    Mýflugan er undirstöðufæða silungsins. Ég virðist vera ein af undirstöðufæðu mýflugunnar eða þannig leið mér í það minnsta eftir ferð upp að Úlfljótsvatni um daginn. Hefði endurgerð Fílamannsins verið á döfinni hefði ég örugglega komið sterklega til greina sem staðgengill John Hurt í aðalhlutverkið, slíkar voru bólgurnar sem tóku sig upp hjá mér eftir ferðina. Í gegnum tíðina hafa ýmiss húsráð orðið til gegn og fyrir meðhöndlun flugnabits. Hér eru nokkur dæmi:

    • B-vítamín: Ráðlagður dagskammtur skv. framleiðanda af B1 og/eða B6 er sagður draga fram ákveðinn ilm á hörundi sem á að fæla mýið frá.
    • Mentol: Margir mæla með kremi eða áburði sem inniheldur hátt hlutfall af mentol eða eucalyptus til þess að fæla flugur frá. Að sögn þarf ekki að bera á alla óvarða húð, vel dugar að setja eina og eina doppu hér og þar. Þekkt vörumerki; Tiger Balm, Vick‘s VapoRup, Deep Heat.
    • Betametason: Er virkt efni í fjölda krema og smyrsla sem ávísað er gegn bólgu- og ofnæmissjúkdómum, flest lyfseðilskyld á Íslandi en ferðamenn þekkja e.t.v. Calestoderm-V sem hægt er að kaup án lyfseðils erlendis. Krem sem innihalda betametasón eru sögð prýðis fróun eftir skordýrabit.
    • Sítrus ávextir: Sumir drekka mikið af fersku límónu- eða sítrónuvatni fyrir veiðiferðir og fullyrða að það dragi verulega úr ásókn flugu. Aðrir beinlínis rjóða andlit og hendur með límónu og segja það dugi mun betur.
    • Sítrónugras: Ekki bara krydd, heldur líka áburður eða kalt seiði til að bera á sig og/eða úða á föt og annan búnað til varnar flugu.
    • Myrta (Brúðarlauf / Bog Myrtle): Notað sem virkt efni í náttúrukremum sem menn rjóða á hendur og andlit til að stugga við mýflugum. Skotar hafa notað krem og olíur úr þessari jurt í margar aldir til þessara nota.
    • Tea Tree olía: Ilmkjarnaolía sem dregur úr ertingu eftir skordýrabit. Fyrirbyggjandi virkni ekki þekkt.
    • Neem olía: Krem og smyrsl sem innihalda þessa olíu eru talin halda skordýrum frá mönnum. Um er að ræða nokkrar vörur sem fundist gætu í verslunum hér á landi.
    • Hvítlaukur: Nokkuð stíf inntaka hvítlaukstaflna (1200 mg/dag) eða át hvítlauks fyrir veiðiferðir er talið draga verulega úr ásókn mýflugu. Svo er bara spurning hvort veiðifélagar fælist ekki líka.

    Hvort eitthvað af þessu virkar er svo allt önnur saga, kannski eru þetta bara allt kerlingarbækur eins og ráð við kvefi. Öll notkun krema og olíu ætti samt að vera í hóf stillt, ekki viljum við smita lykt á veiðibúnað þannig að fiskurinn fælist. Eitt ráð að lokum; ekki nota ilmvatn eða rakspíra þegar þið haldið til veiða. Ólíkt fiskinum þá fælast flugur ekki slíka lykt, heldur þvert á móti.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 129 130 131 132 133 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar