Það ber kannski í bakkafullan lækinn að nefna kólnandi veður að hausti, en það er eins og virkni veiðimanna minnki í beinu hlutfalli við lækkandi hitastig. Undantekning frá þessu eru auðvitað þeir sem renna fyrir sjóbirting að hausti eins og vinur minn Brynjar Örn sem fór í Eldvatnsbotna þann 17.sept. Það hefur örugglega verið skemmtileg barátta að eiga við svona tröll sem tekur fluguna í tunguna og leggst þungt í botninn. En það ætti að vera fleira í boði en birtingur. Ég hef áður nefnt að hin annars ágæta uppfinning okkar, dagatalið er ekki eitthvað sem náttúran tekur mark á og því oft á tíðum engin ástæða til að við sleppum takinu alveg strax af stönginni. Þó veiðitímabilinu ljúki í helstu vötnunum okkar rétt fyrir eða um mánaðarmótin sept. – okt. þá getur haustveiði í vötnum verið afskaplega skemmtileg ef veður og náttúran almennt leyfir.

Nokkur þeirra vatna sem eru opin ‚lengur‘ eru t.d. Kringluvatn í S-Þingeyjarsýslu, Sauðlauksdalsvatn við Patró., Urriðavatn við Egilsstaði og Víkurflóð við Kirkjubæjarklaustur og eru þá aðeins talin þau vötn sem finna má á Veiðikortinu. Fjöldi annarra vatna, vítt og breytt um landið eru vel veiðanleg langt fram eftir hausti og víða hafa menn komist inn á gafl hjá landeigendum sem heimila veiði lengur en gerist og gengur.
En hvað er það sem gerist á haustin sem kveikir svo í veiðinni að sumir beinlínis bíða af sér sumarið til að komast í haustveiði? Aðallega er það þrennt sem kveikir í veiðimönnum á haustin. Fyrst af öllu þá kólnar vatnið auðvitað með lækkandi lofthita og það virkar eins og hvati fyrir kulsækin fisk til að fara meira á stjá. Annar hvati til haustveiða er auðvitað styttri dagur, það líður styttra á milli ljósaskipta sem eins og kunnugt er hafa ótrúleg áhrif á hegðunarmynstur silungsins. Síðast en ekki síst, þá tekur silungurinn eftir því að vetur er í nánd og sækir stíft í fæðu til að byggja sér fituforða og virkar því afar grimmur á haustin. Þetta á ekki hvað síst við um fisk sem lokið hefur hrygningu, tímabili þar sem hann gefur fæðunni lítinn gaum enda ýmislegt annað að gera en éta á sig gat. Víða erlendis er gert hlé á vatnaveiði rétt fyrir og á meðan á hrygningu stendur, en síðan tekið til við veiði aftur og hún stunduð svo lengi sem veður leyfir. Kannski það sé eitthvað sem huga megi að hér á Íslandi í stað þess að skrúfa fyrir veiðar skv. dagatalinu. Haustferð út í kyrrláta náttúruna getur bætt ótrúlega mörgum dögum við annars stutt sumar okkar hérna á skerinu.