
Þegar forvitnin vaknar þá er um að gera að svala henni. Síðsumars vaknaði nokkur áhugi hjá mér á svo kölluðum hrognaflugum og auðvitað settist ég niður og hnýtti nokkrar slíkar og tók með mér í veiði, en því miður gáfust ekki mörg tækifæri til að prófa kvikindin og því læt ég nægja að taka saman smá fróðleik um þessi fyrirbrigði sem ég hef náð að viða að mér.
Þrátt fyrir einfalt útlit og byggingu þessara flugna getur það verið töluvert þolinmæðisverk að hnýta þær, þ.e.a.s. ef maður styttir sér bara ekki leið og kaupir tilbúinn dúsk og þræðir upp á öngul.
Einhverjar ‚deilur‘ eru í gangi í veiðiheiminum um það hvort hnýta eigi hrognaflugur sem stök hrogn eða í klasa. Til að byrja með valdi ég mér einfalda lausn, stakt hrogn á öngli, ekkert of stórt en áberandi samt. Þess ber að geta að hrogn bleikju og urriða geta orðið allt að 5 mm í þvermál þannig að við þurfum víst ekki að vera hræddir við stærri en þær sem ég hnýtti (2-3 mm).
En hvernig veiðir maður svona flugur? Í grunninn er um tvær aðferðir að ræða; á eða við yfirborðið með flugum sem gerðar eru úr antron eða öðru álíka gerfiefni sem ekki drekkur í sig vatn. Þessi aðferð kallar á dautt rek, þ.e. lítinn eða í besta falli alveg lús hægan inndrátt. Ekki verra að koma flugunni fyrir innan um annað rek og þá sérstaklega í froðuslóð eða hlémegin við stein eða bakka. Grannur, langur taumur rétt eins og um þurrfluguveiði væri að ræða. Hin leiðin, sú sem ég prófaði aðeins, er í raun að veiða þungar hrognaflugur líkt og þyngdar púpur; á botninum með hægum en jöfnum inndrætti, rétt eins og þær reki undan straumi eftir að hafa flosnað upp. Framþung, hægsökkvandi lína með grönnum taumenda.
Og aðeins til að árétta; það er ekki aðeins urriðinn sem hrífst af hrognum, bleikjan étur þau líka og svo auðvitað laxinn og sjóbirtingurinn.





Af og til heyrir maður af veiðimönnum sem fussa og sveia þeirri ‚dellu‘ að veiða og sleppa, hafa meira að segja frammi einhver uppsteyt við veiðiverði þar sem skírt og skorinort skal fylgt reglunni veiða / sleppa. Sjálfur hef ég enga samúð með mönnum sem veiða fisk á skilorði og þykir erfitt að láta frá sér sinn fyrsta eða stærsta. Öðru máli finnst mér gegna um þá sem sleppa á eigin forsendum og gera það rangt. Að sleppa fiski er ekki alltaf eins auðvelt og ætla mætti. Ef þú ætlar þér að sleppa, vertu þá snöggur að taka hann að landi. Því lengur sem viðureignin er dregin á langinn, því minni líkur eru á að fiskurinn lifi af. Þannig er að á meðan við glímum við fiskinn fyllist hann af eitruðum mjólkursýrum sem geta lamað hann í höndunum á okkur eða skömmu eftir að við sleppum honum. Það er ekki alltaf hraustleikamerki að fiskurinn taki kipp um leið og við setjum hann niður í vatnið, þetta getur verið fölsk vísbending, hann getur örmagnast um leið og sýrurnar losna úr læðingi og streyma um líffærin. Ein varúðarregla er e.t.v. sú að sleppa fiskinum ekki alveg strax, settu hann í vatnið, haltu honum eins laust og þú þorir án þess að missa hann, helst með trýnið á móti straumi/öldu og leyfðu honum að jafna sig aðeins. Þegar hann hefur róast og losað um streituna fer ekkert á milli mála þegar hann vill og getur losnað. Eins verður alltaf að meta það hvort blæðingar fisks séu þannig að honum sé ekki hugað líf. Aldrei skal sleppa fiski ef blæðir úr tálknum, þá getum við alveg eins hent slógi í vatnið, sem auðvitað engin heiðarlegur veiðimaður gerir.
Söfnunarárátta hefur alltaf fylgt mér og hefur ekkert skánað með árunum. Í mörg ár hef ég fyllt alla mína vasa af grjóti í gönguferðum, glerbrotum í fjöruferðum og nú síðustu ár, fjöðrum í veiðiferðum. Oftar en ekki eru þessar fjaðrir ekki upp á marga fiska þegar heim er komið og vasarnir tæmdir. Í skásta falli hefur þeim verið stungið í svamp á hnýtingarborðinu mínu til minningar um fjöður sem eitt sinn var ætluð í flotta flugu.
Aðeins eitt fet getur skilið okkur frá fiskinum og oftar en ekki er þetta fet það fyrsta sem við tökum út í vatnið. Þeir veiðistaðir eru svo sannanlega til á Íslandi þar sem silungurinn liggur fyrir rétt við bakka vatnsins eða árinnar og sætir færis að hrifsa til sín skordýr sem falla eða hætta sér of langt út í vatnið. Grasi vaxinn bakki er ekki aðeins áhugaverður til að tylla sér á eftir langan dag við veiðar, hann er líka eftirsóttur bústaður ýmissa skordýra sem oftar en ekki sækja í rakann sem vatnið færir sverðinum. Í fyrravetur las ég nokkuð skondna grein um baráttu Englendings við þá áráttu að vaða út í og leita að fiskinum í miðju vatninu/ánni. Einhverra hluta vegna skaut þessari grein alltaf upp í kollinn á mér í sumar þegar ég var staðsettur við vatn þar sem þannig háttaði til. Grasi grónir bakkar, skordýr á hverju strái og vísast einhverjar bleikjur í stjái miklu nær bakkanum heldur en ég. Svo kom fyrir að ég lét undan áráttunni, snéri mér svolítið á ská og sendi fluguna undir bakkann, kannski kvikindið væri þarna. Ekki ætla ég að fara með neinar tölur um hve oft fiskur tók fluguna, en eitt get ég fullyrt; hann tók ekki sjaldnar heldur en þegar ég þandi mig út yfir vatnið.