Að halda þræði

Það getur reynst erfiðara en ætla mætti að halda þræði í svona bloggi með minnst þrjú innlegg á viku. En það eru líka fleiri þræðir sem koma við sögu þegar kemur að flugum og fluguhnýtingum. Í upphafi notuðust menn við hnýtingarþráð úr silki og valið var ekki erfitt, fáir litir og sverleiki þeirra í algjöru lágmarki. Nú á dögum er úrval hnýtingarþráða orðið slíkt að hægt er að fara algjörlega út yfir öll velsæmismörk í vali, eða hvað?

Eins og eflaust fleiri hnýtarar þá hef ég reynt að halda tegundum í lágmarki, prófað nokkrar en reynt að einskorða mig við þær sem ég hef strax fundið mig í að nota. Tvær gerðir standa upp úr hjá mér; UNI og Danville. Stærsti munurinn á þessum tveimur merkjum er að UNI þráðurinn, þessi venjulegi er úr polyester á meðan að Danville er úr nylon. Og hvaða máli skipti það svo sem, kann einhver að spyrja. Mín reynsla er að Danville þráðurinn á það frekar til að særa fjaðrir við hnýtingu, þ.e. skera á meðan UNI er aðeins mýkri en á það frekar til að hnökra og rakna upp nema maður gæti þess vel að túpan í keflishaldaranum sé hrein og vel við haldið. Hér er ég aðeins að bera saman spunninn þráð frá þessum framleiðendum, ekki flatan þráð eins og raunar flestar gerðir Danville er. Þegar kemur að flötum þræði sem á, almennt talið, að leggjast betur en spunninn og bíður upp á það að kljúfa hann fyrir döbbið, þá hef ég bara ekki komist upp á lagið með hann, ekki frekar en GSP (gel spun polyethylene) þráð eða vaxborinn. Já, æfingin skapar meistarann, ég veit.

En hvað er ég með margar tegundir á borðinu hjá mér? Jú, eins fáar og ég kemst af með og þar spilar ekki inní nein nýska. Á borðinu hjá mér er ég með brúnan (camel), ryðrauðan (rust brown), svartan, tan, ólífugrænan (olive dun) og rauðan. Ég passa uppá að eiga þessa liti í 8/0 en tek það síður nærri mér ef 6/0 klárast. Já, ég vil helst að mælieiningin sé X/0 (naught scale) í stað denier, sem er auðvitað bara sérviska hjá mér sem kemur ekki að sök því ég held mig mikið til við ofangreindar tegundir. Því er nefnilega þannig farið að X/0 merking á milli framleiðenda er nokkuð mismunandi og því getur 8/0 þráður frá UNI verið af allt öðrum sverleika heldur en þráður frá Gudebrod eða Wisp frá Gordon Griffith‘s. Þessu til viðbótar luma ég síðan auðvitað á nokkrum gerðum floss og einu og einu kefli af gerfisilki sem ágætt getur verið að grípa í þegar mig vantar áberandi lit eða blæbrigði í fluguna.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.