FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Stutt, langt, lengra?

    18. nóvember 2011
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Nú er það svo að ég hef ekki mikla reynslu af silungsveiði í ám eða lækjum, hef haldið mig að mestu við vötnin. En það kveikir auðvitað aðeins í manni þegar maður les um mismunandi aðferðir og nálgun veiðimanna þegar kemur að ám og lækjum.

    Ég hef minnst á kosti þess að ráða við 20-30m köst með þokkalegri nákvæmi í vatnaveiði og einmitt þessi köst geta ráðið miklu um aflabrögð í ám. Það liggur í hlutarins eðli að andstreymisveiði hlýtur að stytta veiðitíma flugunnar verulega, þ.e. þann tíma sem flugan er virk í eða á vatninu. Straumurinn í ám ber fluguna aftur til okkar, oft á tíðum með meiri hraða en við högum inndrættinum í stöðuvatni, og því er það ótvíræður kostur að ráða við lengri köst og lengja þannig veiðitíma flugunnar í ánni.

    Ég hef lesið þó nokkrar greinar þar sem fiskifræðingar útlista í smáatriðum hegðun silungsins gagnvart fæðunni. Það er ekki óalgengt að þessir fræðingar haldi því fram að silungurinn eigi það til að elta fæðuna töluverða vegalengd áður en hann lætur til skarar skríða. Reynsla mín úr vatnaveiði styður þetta í stórum dráttum því oftar en ekki hef ég frekar orðið var þegar ég dreg mig aðeins til baka inn á grynningar, frá dýpinu þar sem sá stóri heldur sig í öryggi þess. Þegar ég hef náð út í dýpið, dregið fluguna upp úr því og töluvert langt inn á grynningarnar, þá tekur fiskurinn. Með öðrum orðum; þegar ég hef lengt veiðitíma flugunnar.

    En aftur að andstreymisveiðinni. Til að lengja veiðitíma flugunnar er ekki verra  að ráða við örlítið lengri köst til að vera viss um að kasta upp fyrir silunginn (hann er nefnilega ekki með augu í hnakkanum) og gefa flugunni og fiskinum góðan tíma til að kynnast, því þá aukast líkurnar á því að silungurinn snúi sér undan straumi, fylgi flugunni og negli hana áður en við verðum að taka upp og kasta aftur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Stanley

    15. nóvember 2011
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar uppáhalds skrúfbútajárnið deyr, maður snýr það í sundur eða klýfur handfangið, er engin ástæða til að henda því í heilu lagi. Oftar en ekki er falinn fjársjóður fluguhnýtarans inni í þessum skrúfujárnum, örlítið segulstál fremst í járninu, stundum meira að segja fest á loftnetslíki. Að vera með svona áhald á hnýtingarborðinu getur oftar en ekki bjargað manni þegar öngull eða áhald dettur á gólfið í miðjum klíðum. Maður sleppir nú ekki svo glatt fingrum af flottustu flugu allra tíma til að fálma eftir fjaðurtöng niður á gólfi. Sjálfur útbjó ég mér svona telescopic segulstál úr skrúfujárni og smokraði bút af gúmmíslöngu upp á breiðari endann til að ná betra taki, snilldar verkfæri.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Jólaseríur

    9. nóvember 2011
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Nú fer í hönd uppáhalds tími ársins hjá mér, ‘NOT‘. Ég þarf af príla upp á loft og ná í jólaseríurnar frá því í fyrra, greiða úr flækjunum og prófa hverjar þeirra lifðu geymsluna af. Eins og kemur fyrir, þá eru örugglega einhverjar þeirra svo illa farnar að þeim er ekki hugað líf, nema þá framhaldslíf. Ekki henda öllum leiðslunum úr ónýtu jólaseríunum því inni í þeim er fínasti kopar- eða álvír fyrir fluguhnýtingar. Auðvitað strippar maður ekki 30m ljólaseríu og vefur upp á kefli, einfaldari leið er að taka u.þ.b. 20-25sm bút af leiðslunni, afhýða hana alla nema c.a. 2sm bút, taka 4-5 svona vöndla og líma þá saman á kápustubbunum, t.d. með silicone kítti (örlítið niður fyrir kápuna) þannig að vírarni losni ekki hver frá öðrum. Með þessu móti er auðvelt að ná sér í einn og einn vír án þess að allt rakni í sundur og jólaserían öðlast nýtt líf í flottum flugum í vetur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vestið

    3. nóvember 2011
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Að skyggnast í veiðivesti manna getur verið hálfgerð ævintýraferð og kennir þar margra grasa. Fluguveiðimaðurinn geymir þar auðvitað; flugur, jafnvel í nokkrum boxum, flatkjaft (forceps) til að losa flugu úr fiski, klippur til að hlífa tönnunum, veiðigleraugu, minnst þrjár mismunandi spólur af taumaefni (sjálfur er ég með 2x,3x og 4x) auk tauma í sömu stærðum, helst í taumaveski og auðvitað Veiðikortið.

    Þessu til viðbótar eru svo margir með töskuna á bakkanum þar sem kennir enn fleiri grasa; vasaljós, vog og málband, minnisbók og blýantur (penninn gerir ekki sama gagn í bleytu og kulda), línuhreinsi, strokuleður til að þrífa taumana, hníf ef hann er ekki festur við beltið (sem allir nota þegar þeir eru í vöðlum) og til öryggis klósettpappír og kveikjara eða eldspítur til að kveikja í notuðum eyðublöðum. Nördarnir eru síðan með hitamæli, filmubox eða tilraunaglas til að greina magainnihaldið ásamt önglabrýni og keflishaldara með góðum 8/0 hnýtingarþræði til viðgerða.

    Er ég að gleyma einhverju? Eflaust, og þá kemur sér vel að vera með minnisbókina og blýantinn, skrifað það niður sem vantar og koma því á framfæri við vini og ættingja fyrir afmæli og jól.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að halda þræði

    31. október 2011
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það getur reynst erfiðara en ætla mætti að halda þræði í svona bloggi með minnst þrjú innlegg á viku. En það eru líka fleiri þræðir sem koma við sögu þegar kemur að flugum og fluguhnýtingum. Í upphafi notuðust menn við hnýtingarþráð úr silki og valið var ekki erfitt, fáir litir og sverleiki þeirra í algjöru lágmarki. Nú á dögum er úrval hnýtingarþráða orðið slíkt að hægt er að fara algjörlega út yfir öll velsæmismörk í vali, eða hvað?

    Eins og eflaust fleiri hnýtarar þá hef ég reynt að halda tegundum í lágmarki, prófað nokkrar en reynt að einskorða mig við þær sem ég hef strax fundið mig í að nota. Tvær gerðir standa upp úr hjá mér; UNI og Danville. Stærsti munurinn á þessum tveimur merkjum er að UNI þráðurinn, þessi venjulegi er úr polyester á meðan að Danville er úr nylon. Og hvaða máli skipti það svo sem, kann einhver að spyrja. Mín reynsla er að Danville þráðurinn á það frekar til að særa fjaðrir við hnýtingu, þ.e. skera á meðan UNI er aðeins mýkri en á það frekar til að hnökra og rakna upp nema maður gæti þess vel að túpan í keflishaldaranum sé hrein og vel við haldið. Hér er ég aðeins að bera saman spunninn þráð frá þessum framleiðendum, ekki flatan þráð eins og raunar flestar gerðir Danville er. Þegar kemur að flötum þræði sem á, almennt talið, að leggjast betur en spunninn og bíður upp á það að kljúfa hann fyrir döbbið, þá hef ég bara ekki komist upp á lagið með hann, ekki frekar en GSP (gel spun polyethylene) þráð eða vaxborinn. Já, æfingin skapar meistarann, ég veit.

    En hvað er ég með margar tegundir á borðinu hjá mér? Jú, eins fáar og ég kemst af með og þar spilar ekki inní nein nýska. Á borðinu hjá mér er ég með brúnan (camel), ryðrauðan (rust brown), svartan, tan, ólífugrænan (olive dun) og rauðan. Ég passa uppá að eiga þessa liti í 8/0 en tek það síður nærri mér ef 6/0 klárast. Já, ég vil helst að mælieiningin sé X/0 (naught scale) í stað denier, sem er auðvitað bara sérviska hjá mér sem kemur ekki að sök því ég held mig mikið til við ofangreindar tegundir. Því er nefnilega þannig farið að X/0 merking á milli framleiðenda er nokkuð mismunandi og því getur 8/0 þráður frá UNI verið af allt öðrum sverleika heldur en þráður frá Gudebrod eða Wisp frá Gordon Griffith‘s. Þessu til viðbótar luma ég síðan auðvitað á nokkrum gerðum floss og einu og einu kefli af gerfisilki sem ágætt getur verið að grípa í þegar mig vantar áberandi lit eða blæbrigði í fluguna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Forvitni

    23. október 2011
    Kannanir

    Upp

    Forsíða

    Fyrir forvitnis sakir; hvað ætli margir lesi bloggið daglega, vikulega eða með einhvers konar áskrift? Sumar leiðir til að fylgjast með bloggi eru þannig úr garði gerðar að þær hafa engin áhrif á teljara síðunnar, þær laumast í nýjustu færslurnar án þess að ég viti nokkuð af því. Þess vegna langar mig að biðja þig, lesandi góður um tvo músarsmelli og svara skoðanakönnuninni hér til hliðar.

    Mánaðarlegar heimsóknir frá upphafi

    Það er ljóst að júlí og ágúst s.l. voru nokkuð drjúgir og mesta daglega traffík frá upphafi voru 533 heimsóknir þann 21.júlí, en nokkuð hefur dregið úr aðsókninni með haustinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 126 127 128 129 130 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar