Nú er það svo að ég hef ekki mikla reynslu af silungsveiði í ám eða lækjum, hef haldið mig að mestu við vötnin. En það kveikir auðvitað aðeins í manni þegar maður les um mismunandi aðferðir og nálgun veiðimanna þegar kemur að ám og lækjum.
Ég hef minnst á kosti þess að ráða við 20-30m köst með þokkalegri nákvæmi í vatnaveiði og einmitt þessi köst geta ráðið miklu um aflabrögð í ám. Það liggur í hlutarins eðli að andstreymisveiði hlýtur að stytta veiðitíma flugunnar verulega, þ.e. þann tíma sem flugan er virk í eða á vatninu. Straumurinn í ám ber fluguna aftur til okkar, oft á tíðum með meiri hraða en við högum inndrættinum í stöðuvatni, og því er það ótvíræður kostur að ráða við lengri köst og lengja þannig veiðitíma flugunnar í ánni.
Ég hef lesið þó nokkrar greinar þar sem fiskifræðingar útlista í smáatriðum hegðun silungsins gagnvart fæðunni. Það er ekki óalgengt að þessir fræðingar haldi því fram að silungurinn eigi það til að elta fæðuna töluverða vegalengd áður en hann lætur til skarar skríða. Reynsla mín úr vatnaveiði styður þetta í stórum dráttum því oftar en ekki hef ég frekar orðið var þegar ég dreg mig aðeins til baka inn á grynningar, frá dýpinu þar sem sá stóri heldur sig í öryggi þess. Þegar ég hef náð út í dýpið, dregið fluguna upp úr því og töluvert langt inn á grynningarnar, þá tekur fiskurinn. Með öðrum orðum; þegar ég hef lengt veiðitíma flugunnar.
En aftur að andstreymisveiðinni. Til að lengja veiðitíma flugunnar er ekki verra að ráða við örlítið lengri köst til að vera viss um að kasta upp fyrir silunginn (hann er nefnilega ekki með augu í hnakkanum) og gefa flugunni og fiskinum góðan tíma til að kynnast, því þá aukast líkurnar á því að silungurinn snúi sér undan straumi, fylgi flugunni og negli hana áður en við verðum að taka upp og kasta aftur.


Þegar uppáhalds skrúfbútajárnið deyr, maður snýr það í sundur eða klýfur handfangið, er engin ástæða til að henda því í heilu lagi. Oftar en ekki er falinn fjársjóður fluguhnýtarans inni í þessum skrúfujárnum, örlítið segulstál fremst í járninu, stundum meira að segja fest á loftnetslíki. Að vera með svona áhald á hnýtingarborðinu getur oftar en ekki bjargað manni þegar öngull eða áhald dettur á gólfið í miðjum klíðum. Maður sleppir nú ekki svo glatt fingrum af flottustu flugu allra tíma til að fálma eftir fjaðurtöng niður á gólfi. Sjálfur útbjó ég mér svona telescopic segulstál úr skrúfujárni og smokraði bút af gúmmíslöngu upp á breiðari endann til að ná betra taki, snilldar verkfæri.
Nú fer í hönd uppáhalds tími ársins hjá mér, ‘NOT‘. Ég þarf af príla upp á loft og ná í jólaseríurnar frá því í fyrra, greiða úr flækjunum og prófa hverjar þeirra lifðu geymsluna af. Eins og kemur fyrir, þá eru örugglega einhverjar þeirra svo illa farnar að þeim er ekki hugað líf, nema þá framhaldslíf. Ekki henda öllum leiðslunum úr ónýtu jólaseríunum því inni í þeim er fínasti kopar- eða álvír fyrir fluguhnýtingar. Auðvitað strippar maður ekki 30m ljólaseríu og vefur upp á kefli, einfaldari leið er að taka u.þ.b. 20-25sm bút af leiðslunni, afhýða hana alla nema c.a. 2sm bút, taka 4-5 svona vöndla og líma þá saman á kápustubbunum, t.d. með silicone kítti (örlítið niður fyrir kápuna) þannig að vírarni losni ekki hver frá öðrum. Með þessu móti er auðvelt að ná sér í einn og einn vír án þess að allt rakni í sundur og jólaserían öðlast nýtt líf í flottum flugum í vetur.
Að skyggnast í veiðivesti manna getur verið hálfgerð ævintýraferð og kennir þar margra grasa. Fluguveiðimaðurinn geymir þar auðvitað; flugur, jafnvel í nokkrum boxum, flatkjaft (forceps) til að losa flugu úr fiski, klippur til að hlífa tönnunum, veiðigleraugu, minnst þrjár mismunandi spólur af taumaefni (sjálfur er ég með 2x,3x og 4x) auk tauma í sömu stærðum, helst í taumaveski og auðvitað Veiðikortið.
Það getur reynst erfiðara en ætla mætti að halda þræði í svona bloggi með minnst þrjú innlegg á viku. En það eru líka fleiri þræðir sem koma við sögu þegar kemur að flugum og fluguhnýtingum. Í upphafi notuðust menn við hnýtingarþráð úr silki og valið var ekki erfitt, fáir litir og sverleiki þeirra í algjöru lágmarki. Nú á dögum er úrval hnýtingarþráða orðið slíkt að hægt er að fara algjörlega út yfir öll velsæmismörk í vali, eða hvað?