Einhver besta grein sem ég hef rekist á um hegðun silungs undir áreiti veiðimanns birtist í tímaritinu Field & Stream árið 2007. Höfundur greinarinnar, ritstjórinn Kirk Deeter ásamt félögum sínum tók sig til og kannaði í eins mikilli nálægð og unnt var, hvernig silungurinn hagar sér í vatninu á meðan við stöndum á bakkanum og reynum að fanga hann á flugurnar okkar. Svo frábærar fundust mér þessar greinar að ég setti mig í samband við Kirk og fékk leyfi hans til að þýða greinina og birta hér á blogginu hjá mér. Afraksturinn birtist hér og svo næstu 9 vikur.
„Ég er 6 feta árásargjarn urriði, lúri við botninn í South Platter ánni í Colorado. Vatnið er frábært, ekki of mikið og ekki of lítið, 9°C og silfurtært. Ég held kyrru fyrir með hinum silungunum og fylgist með pöddunum fljóta hjá. Eina þeirra rekur framhjá rétt við hausinn á mér. Ég sný mér til að virða hana betur fyrir mér og….. húkkaður. Ég syndi upp að yfirborðinu og hræki út úr mér agninu. „Fjárinn Bruce, þú kræktir í mig aftur.“ Ég er að kanna hvernig silungurinn hagar sér og hvað hann gerir undir yfirborði árinnar. Og besta leiðin til að komast að þessu er, held ég, að taka á mig líki fisksins þannig að ég tók fram köfunargræjurnar og stökk útí. Þetta er það sem ég lærði:“
Falsköst rústa veiðinni
Mér tókst að renna mér út í strauminn án þess að styggja einn einasta silung. Þér létu sig loftbólurnar engu skipta, svo fremi ég hreyfði mig rólega. En um leið og Tom Romano ljósmyndari færði myndavélabómuna, jafnvel hægt og rólega yfir vatnsfletinum, þá hörfuðu fiskarnir í angist. Á einum tímapunkti bar skugga á vatnsflötinn og ég horfði á fiskana sökkva sér niður á milli steinanna á botninum. Þegar ég kom upp á yfirborðið spurði ég hvað hefði komið fyrir og strákarnir sögðu mér að bláhegri hefði flogið yfir ánna.
Þessu til áréttingar fylgdist ég með félaga mínum, Bruce Mardick taka nokkur falsköst yfir fiskinum. Þegar hann slæmdi línunni fram og til baka, beinlínis trylltust silungarnir og földu sig undir gagnstæðum bakka árinnar. Eftir að hafa leyft fiskinum að jafna sig, byrjaði hann aftur en nú með færri falsköstum, jafnvel veltiköstum sem ekki virtust fæla fiskinn. Niðurstaða: þú færð séns á einu, kannski tveimur falsköstum áður en fiskurinn verður var við þig. Reyndu að halda köstunum aftan við eða til hliðar við fiskinn, leyfðu aðeins síðasta falskastinu að beinast að fiskinum sjálfum.
Kirk Deeter
Þess má síðan geta að þeir félagar, Kirk Deeter og Tom Romano ritstýra einnig veftímaritinu Angling Trade þar sem finna má ýmsar ágætis greinar, alveg þess vert að gerast áskrifandi, ókeypis.
Senda ábendingu