FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Gróðurflákar

    30. apríl 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Gróðurfláki

    Fyrir mörgum eru gróðurflákarnir í vatninu hrein ávísun á vandræði og endalausar festur. Fyrir öðrum og þá helst fiskinum eru gróðurflákarnir endalaust forðabúr ætis. Eins óskemmtilegir og þeir geta verið þá eru gróðurflákarnir í vatninu heimkynni allskynns skordýra, seiða og hornsíla. Þetta veit fiskurinn og sækir óspart í þá.

    Það er hægt veiða gróðurflákana án þess að vera í endalausum vandræðum. Ef vatnið er nægjanlega tært og þú sérð þokkalega til botns getur þú reynt fyrir þér þar sem gróðurinn er gysnari og/eða lænur hafa myndast í gróðrinum. Best er að nota flotlínu með tiltölulega stuttum taumi og þyngdar flugur undir þessum kringumstæðum. En svo má líka prófa eitthvað allt annað, hálfsökkvandi línu eða sökktaum en…. ekki nota sökkenda. Prófaðu að setja c.a. 1 -2 fet. af venjulegu taumaefni framan á sökktauminn þannig að flugan lyftist aðeins frá botninum, þá eru minni líkur á hún festist auk þess raskar taumaendinn gróðrinum minna. Ég hef horft á fisk fælast taumenda þegar hann skrapar leirbotn eða gróður og myndar þannig skugga eða grugg undir yfirborðinu.

    Hvora aðferðina sem þú prófar, gættu þess að flugan lendi utan við gróðurinn og þú dragir hana inn og í gegn um hann, það minkar verulega líkurnar á að festa auk þess að með því egnir þú einnig fyrir fiskinn sem heldur til utan í flákanum.

    Gjöfular flugur í gróðurflákum eru auðvitað Pheasant Tail, Héraeyrað, Beikir og svo Nobblerar / Damsel flugur til að líkja eftir seiðunum.

    Ummæli

    Siggi Kr. 30.04.2012: Getur verið fínt að nota booby flugur ef gróðurinn nær ekki mjög langt upp frá botninum. Allavega í stöðuvötnum – held að booby flugur virki ekki sérlega vel í straumvatni nema það renni mjög hægt.

    Urriði 01.05.2012: Mér hefur gengið best að draga meðfram gróðurkantinum, ekki í gegnum gróðurinn. Svo ef gróðurinn nær ekki alveg upp í yfirborð þá strippa ég stundum léttar straumflugur yfir gróðurinn og þá skýst fiskurinn upp úr gróðrinum til að taka fluguna(ef hann er í stuði til þess).

    Hörður Andri 04.05.2012: Það getur verið skemmtilegt að sjá urriðann skjótast út úr gróðrinum, mér hefur stundum fundist samt stóri urriðinn vera utan í gróðrinum meira, ekki inni í flókanum. Urriði hefur e.t.v. eitthvað til síns máls með að draga meðfram kantinum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að veiða særða flugu

    24. apríl 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Smelltu fyrir stærri mynd

    Að veiða særða flugu hefur trúlega tíðkast frá upphafi fluguveiða. Fyrir tækifærissinna eins og silunginn er særð bráð, síli eða seiði mun auðveldari bráð heldur en fullfrísk og þessu höfum við mennirnir komist að og reynum að líkja eftir. Aðferðin er ekki ýkja flókinn; koma flugunni, sem oft á tíðum er straumfluga, fram fyrir silunginn og draga hana inn með hléum þannig að hún falli (sökkvi) með reglulegu millibili eins og uppgefinn eða særður fiskur. Hvort menn dragi einu sinni eða tvisvar snöggt á milli hléa er auðvitað mismunandi, hver veiðimaður hefur sitt lagið á þessu. Galdurinn er einfaldlega að fá fiskinn til að eltast við særðu fluguna í stað ætisins sem syndir af fullum krafti undan honum. Silungurinn er þekktur í vatninu sem rándýr og ætið, næstum sama hvað það er, forðar sér þegar hann nálgast. Sumir veiðimenn ganga svo langt, helst í straumvatni, að láta bráðina leika sig alveg steindauða, hreyfa hana ekki neitt heldur láta strauminn um að bera hana inn á lygnur eða í bolla í vatninu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að skauta

    21. apríl 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Smellið fyrir stærri mynd

    Nú er allur ís loksins farinn af vötnunum og við veiðimennirnir getum farið að skauta, eða öllu heldur látið flugurnar okkar skauta á vatninu. Þessi veiðitækni með þurrflugu hefur einhverra hluta vegna verið mest orðuð við straumvatn; þ.e. láta strauminn toga léttilega í fluguna þannig að hún skilji eftir sig röst í yfirborðinu og veki þannig áhuga fisksins. En þessa aðferð má alveg eins nota á kyrru yfirborði stöðuvatnsins. Tæknin sem beitt er við þetta er að koma þurrflugunni út og enda kastið með stöngina í lægstu mögulegu stöðu; alveg við vatnsborðið. Enginn slaki má vera á línunni og flugan verður að sitja hátt. Við tryggjum línuna, þ.e við höldum við hana með stangarhendinni því við ætlum ekki að draga hana inn heldur lyfta stönginni hægt en ákveðið upp í efstu stöðu. Trikkið við þessa aðferð er að lyfta stönginni hvorki of hægt né of hratt, flugan á að skauta á yfirborðinu og skilja eftir sig áberandi röst, ekki takast á loft. Ef vel tekst til, þá eru fáir fiskar sem standast flugun sem myndar röstina.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Annar kostur

    18. apríl 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Fiskur í hendi

    Ég hef stundum orðað það þannig að það sé og eigi að vera valkostur að sleppa fiski, ekki kvöð. Lífvænlegur fiskur sem við kjósum að sleppa getur kennt okkur ýmislegt í vatnaveiði. Þegar þú hefur sleppt honum, réttu þá úr þér og fylgstu með honum og ekki síst skugga hans synda burt.

    Oftar en ekki er erfitt að koma auga á sjálfan fiskinn í vatninu, vísbendingarnar um hann eru oft meira áberandi og auðsærri. Notaðu hvert tækifæri sem gefst til að æfa þig í að sjá fylgifisk fisksins í vatninu, skuggann.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þungar flugur og línur

    15. apríl 2012
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Oval Cast

    Það getur kostað töluverða æfingu að ná tökum á þungri línu og/eða þungum flugum. Ég eins og margir aðrir hef gengið í gegnum tilraunir með flotlínu og sökktaum sem alltaf hafa viljað flækjast fyrir mér, endalausir vindhnútar og máttlausar framsetningar. Síðar eignaðist ég hægsökkvandi framþunga línu og eitthvað réttist þá úr málum.

    Án þess að vita nákvæmlega hvernig og hvers vegna, tók ég síðar upp á því að breyta bakkastinu hjá mér þannig að ég notaði undirhönd frá upptöku eða framkasti í ávölum boga út til hliðar aftur í öftustu stöðu. Þegar ég náði svo tökum að að skeyta hefðbundnu framkasti við þessar tilraunir mínar fóru þungu flugurnar að komast út án þess að vera fastar í perlufesti vindhnúta.

    Auðvitað var ég ekki að finna upp neitt nýtt eða byltingarkennt, ég var einfaldlega að læra the hard way að kasta með belgískri aðferð, Belgian Cast eða Oval Cast. Auðvitað hefði ég getað sparað mér allar þessar tilraunir með því að leita til kastkennara, en svona er maður nú einu sinni gerður, þarf alltaf að fara erfiðu leiðina að hlutunum.

    Þessi kaststíll nýtist vel við þungar flugur eða þegar við erum með fleiri en eina flugu á taumi. Í bakkkastinu myndum við víðan boga sem hjálpar til að halda flugunum aðskildum þannig að þær flækjast síður. Þrátt fyrir að hamrað sé á þröngu kasthjóli til að ná markvissari köstum þá verðum við að taka til greina að með þungum flugum eða fleiri hefur nýr öflugur kraftur bæst við línuferilinn, þyngdaraflið. Efri línan, þ.e. sú sem flytur fluguna fellur hraðar en ella og því þrengist kasthjólið ósjálfrátt þegar á kastið líður. Kastið sem byrjar í víðum bug með stóru kasthjóli endar þannig í þröngu og mjög hröðu kasthjóli þegar kastið hefur náð fremstu eða öftustu stöðu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hnappurinn á stönginni

    12. apríl 2012
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þumal-hnappurinn

    Sumt er svo sjálfsagt þegar maður hefur komið auga á það að ósjálfrátt færist roði í kinnarnar, aulahrollur niður bakið. Í einhverju letikastinu um daginn tók ég mig til og horfði á Dynamics of Fly Casting með Joan Wulff.

    Í myndinni fer hún mjög ákveðið yfir öll undirstöðuatriði flugukasta, meðal annars þá bráð sniðugu hugmynd að ímynda sér hnapp á stönginni sem maður ýtir mjög ákveðið á með þumlinum í framkastinu, rétt aðeins til að skerpa á hröðuninni. Þeir voru ófáir pennarnir og reglustikurnar sem fengu að kenna á tilraunum næstu dagana og nú fær stöngin að kenna á æfingunum. Ég er ekki frá því að eitthvað hafi breyst í köstunum, til batnaðar.

    Ummæli

    13.04.2012 – Eiður Kristjánsson – Prófaði þetta í Vífó í morgun. Kom bara nokkuð vel út :)

    Svar: Já, merkilegt hvað svona lítið atriði getur bætt við kastið. Ég þarf aðeins að vinna í kaststílnum þegar ég er með nýju Switch-línuna mína, það er eins og hún kalli á aðeins meiri ákveðni heldur en ég hef tamið mér hingað til. Annars er ég ekkert nema öfundin út í þig að komast í vatnið núna, ekkert útlit fyrir veiði hjá mér um helgina.

    Bestu kveðjur,
    Kristján

    Eisi til baka: Uss, það er hrikalegt. Spáin er frábær, mætti reyndar alveg vera heitara. Vífó var gullfallegt í morgun. Smá gára á vatninu og aðstæður hinar bestar. Það var fluga í loftinu en ég sá ekki einn einasta fisk. Ekki sporð.

    Ég fór 1.apríl og nældi mér þá í tvær bleikjur og einn urriða. Er búinn að fara nokkrum sinnum síðan þá en ekki orðið var við neitt líf.

    Svo er það Varmáin á morgun. Er frekar svartsýnn þar sem fréttirnar úr ánni eru ekki beint upplífgandi. En ánægjan við að standa á bakkanum með stöngina í hendinni, rýnandi í umhverfið, fluguboxin og lífríkið, er engri lík. Eins og þú veist vel :)

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 119 120 121 122 123 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar