
Hefur þú einhvern tímann vanmetið tímann sem þú hefur til að egna fyrir silunginn? Ég er ekki þolinmóðasti veiðimaður landsins og hef örugglega misst af nokkrum fiskum vegna þessa. Væntanlega höfum við mun meiri tíma til að undirbúa framsetningu flugunnar heldur en við nokkurn tímann gefum okkur. Tíma er alltaf betur varið í undirbúning heldur en groddaralegra framkvæmda. Silungurinn er ekkert á óþarfa flandri ef ætið er til staðar og ekkert ógnar honum. Dæmi um það sem hann telur vera ógn eru skuggar flugulínu sem þeytist fram og til baka yfir hausnum á honum, hroðvirknislegar flugulendingar með tilheyrandi línukös eða flóðbylgjur og skrap í botngrjóti sem gjarnan fylgir óvarkárum vaðfuglum af tegundinni homo sapiens.
Að fylgjast með hegðun silungsins, hvernig hann bregst við æti sem syndir hjá eða hvernig hann týnir pöddurnar upp af botninum getur sparað okkur fjöldan allan af köstum og tilraunum með framsetningu.
Gefum okkur þann tíma sem þarf til að koma fram af hógværð og rósemi, okkur verður umbunað.