FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hvenær verður fluga ‘góð’ fluga?

    21. apríl 2013
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Skömmu eftir að ég fór að fikta við fluguhnýtingar fékk ég ábendingu frá frúnni ‚Veistu, ég á bara enga flugu sem er eins og grasmaðkur.‘ Fiktarinn ég, gat náttúrulega ekki haft þessa athugasemd vomandi yfir mér allt sumarið, svo ég settist niður og prófaði mig áfram með nokkrar útfærslur þangað til ég þóttist hafa náð kvikindinu. Eitthvað prófaði ég hana, en varð aldrei neitt var við hrópandi fögnuð silungs þannig að hún hefur legið óhreyfð í einhverju boxi hjá mér um langt skeið. Á svipuðum tíma hnýtti ég ógrynni af straumflugum og notaði mikið. Þar á meðal var auðvitað Þingeyingur Geirs Birgis, sú bráðdrepandi fluga sem færði mér nokkra silunga eins og svo mörgum veiðimönnum öðrum.

    Það var svo ekki fyrr en um daginn að mér barst ábending um að Þingeyingurinn væri í raun eftirlíking grasmaðksins, að mér varð aftur hugsað til fluguómyndarinnar minnar. Svo merkileg þótti mér þessi ábending að ég bar hana undir Geir Birgi, sem hann staðfesti að væri rétt og vísaði til greinarkorns á heimasíðunni sinni sem má sjá hér (skemmtileg lesning eins og margt annað á síðu GBG).

    Grasmaðkur vs. Þingeyingur
    Grasmaðkur vs. Þingeyingur

    Án þess að geta fullyrt það, held ég örugglega að ég hafi prófað þessar tvær flugur á sama tíma þar sem ég hafði grun um grasmaðk, en aðeins önnur þeirra gaf mér fisk. Í auðmýkt fyrir Þingeyingnum viðurkenni ég auðvitað að hún er snöktum fallegri en púpan mín, en ég á ennþá svolítið erfitt með að skilja kræsni silungsins. Trúlega hef ég ekki náð að færa eins mikið líf í púpuna mína eins og gulur hárvængur straumflugunnar gerir. Kannski hef ég einblínt of mikið á að líkja eftir náttúrunni að útgáfan mín varð aðeins svipur hjá sjón eins og svo oft vill verða með okkar mannanna verk í samanburði við móður náttúru. Kannski maður sleppi bara fram af  sér beislinu við væsinn næst þegar maður reynir að líkja eftir náttúrunni. Það er jú ekkert sem glitrar eða glepur við púpuna mína.

    Ummæli

    16.09.2014 – Þórarinn: Þetta er milljón dollara spurning, ef maður vissi nú svarið. P.S. hef prófað að hekla grasmaðk, hugsaði hana fyrir Brúará, hef aldrei fengið högg á kvikindið.
    Það er nú svo sem ekki mikið sem hreyfist á grasmaðki en kannski glansar á hann eins og þú segir. Hef aldrei litið á Þingeying sem eftirlíkingu af grasmaðki en þetta eru allavega litirnir á sumum grasmöðkum. Hélt alltaf að þetta væri hugsað sem straumfluga og veidd þannig, eru menn þá að veiða hana hægt og láta renna fría í straumnum? Svo getur fiskurinn litið allt öðruvísi á fluguna heldur en höfundurinn hugsaði sér þegar hann hannaði hana, en þegar öllu er á botninn hvolft skiptir bara máli hvort veiðist á hana eða ekki. Þetta að Þingeyingurinn sé grasmaðkur setur “heimssýn” mína algerlega á hvolf, fokk er þetta grasmaðkur?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Á dolluna

    18. apríl 2013
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Kúkakassi

    Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga áður en lagt er af stað í veiði; stöngin, fluguboxið, taumurinn, vestið og fleira og fleira. Og ekki má gleyma að skreppa á dolluna. Að vísu er alltaf hægt að taka með sér svona ferðaklósett (þetta er virkilega til á e-bay) eða taka með sér rúllu af eyðublöðum og bregða sér í næstu gjótu, en þá er líka eins gott að taka eldfærin með sér. Fátt er eins ókræsilegt og salernispappír hingað og þangað í náttúrunni. Hann lúrir þarna eins og hvít (í besta falli) viðvörunarflögg í náttúrunni og brotnar mjög seint niður, mun síðar en afurðirnar sjálfar. Einfalt ráð, ef við þurfum að nota pappír á annað borð, er að kveikja í honum að notkun lokinni.

    Ummæli

    Árni Árnason – 18.04.2013: Smá ábending að fara varlega með eld í þurri náttúru!!!

    Svar: Goes without saying 🙂

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Handfangið

    15. apríl 2013
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Vonandi hafa allir lesendur gengið sómasamlega frá flugustönginni síðasta haust þannig að allt sé klárt núna þegar vorar. Eitt af því sem getur plagað menn verulega þegar vorar eru skítug, mygluð eða jafnvel skemmd handföng á veiðistöngum bara vegna þess að ekki var gengið rétt frá s.l. haust.

    Flestir framleiðendur veiðistanga ganga þannig frá sinni framleiðslu að það er tiltölulega lítið mál að skipta um kork í handfangi. Þá geta grúskararnir farið á flug og rennt sín eigin handföng, við hinir kaupum bara ný handföng og í skásta falli skiptum þeim sjálfir út eða fáum starfsmann í viðkomandi verslun til að annast útskiptin. Ef maður hefur alltaf verið fyllilega sáttur við sína stöng, þ.e. gripið á henni, er engin ástæða til að skipta um tegund, maður velur bara sömu týpu og sverleika. En fyrir þá sem hafa ekki verið 100% sáttir getur vel verið ástæða til að staldra aðeins við og kynna sér aðra möguleika.

    Flest grip eru þetta á bilinu 6,5” til 7”, þ.e. fyrir einhendur en auðvitað er þetta nokkuð breytilegt á milli framleiðenda. Í grófum dráttum má skipta lögun handfanga í þrennt. Fyrst er að telja Full Wells, þetta sem er handlaga, tiltölulega svert og oftast ‘standard’ á stöngum í stærðunum #7 og upp úr. Það er ekki óalgengt að handstórir veiðimenn veljir þetta lag umfram annað. Eins hefur það borið við að konur velji þetta grip umfram önnur. Half Wells er gripið sem mjókkar fram og er oftast notað á stangir frá #1 til #6. Ekki er óalgengt að handsmáir veiðimenn veljir þetta grip umfram önnur, en láti snúa því öfugt á stönginni, þ.e. sverasta hlutanum fram. Cigar hefur verið nokkuð á undanhaldi hin síðari ár en var hér áður langsamlega algengasta lagið á handföngum. Raunar hafa bambusstangasmiðir haldið nokkurri tryggð við þessa tegund, trúlega til að halda í hefðina.

    Góðir stangarframleiðendur leggja sig í líma við að bjóða viðskiptavinum sínum upp á marga mismunandi sverleika handfanga. Það er sjálfsagt mál þegar keypt er framtíðarstöng í hærri verðkantinum að menn spyrjist fyrir um möguleika á sverara/grennra/öðru handfangi áður en gengið er frá kaupunum.

    Korkhandföng
    Korkhandföng

    Ummæli

    17.04.2013 – Eiður Kristjánsson: Er með half-wells á fjarkanum mínum og full-wells á sjöunni. Finnst handföngin henta hvorri stöng um sig nokkuð vel. En hvernig er það Kristján, á ekkert að fara henda sér í veiði? :)

    Svar: Alveg sama sagan hjá mér, en ég hef verið að spá í hvort ein ástæða þess að köstin mín með fjarkanum eru aðeins léttari vegna þess að ég held ósjálfrátt léttar um half-wells handfangið. Eigum við eitthvað að ræða veiði? Einmitt núna þegar ég er að skrifa þetta, þá kyngir niður snjó, allt orðið hvítt og ekkert lát á sýnist mér. Fór stutta stund á opnunardaginn, en ekki söguna meir. Sjáum til þegar hlýnar aðeins, læt í það minnsta sjá mig við Elliðavatn á sumardaginn fyrsta, hvort sem vatnið er nú grænt eða grátt 🙂

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Samlokur

    12. apríl 2013
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Samlokur

    Mér finnst majónes mjög gott, en ég er í átaki. Þegar ég skrepp í veiði, kannski strax eftir vinnu, þá getur hungrið sagt til sín eftir stutta stund og hungraður maður verður oft leiður, ef ekki beinlínis leiðinlegur. Til að bregðast við þessu er ég oft með eins og eina samloku í för. Stórkostleg uppfinning sem oft hefur bjargað geðheilsunni. Það eina leiðinlega við samlokur eru bölvaðar umbúðirnar, þær vilja fjúka út í buskann ef maður passar þær ekki nægjanlega vel. Átakið mitt felst í því að hemja samlokuumbúðirnar og troða þeim í ruslapokann minn eða vöðluvasann strax eftir notkun þannig að næsti veiðimaður setjist ekki óvart í majónesið mitt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Undan ís

    9. apríl 2013
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Vorið er svona um það bil kl. fimm að morgni ef við skiptum náttúrunni niður á klukkuna. Það eru aðeins hörðustu morgunhanar sem hafa sig af stað og svo þeir sem eldri eru, gamlingjarnir. Ég er eiginlega einn þessara gamlingja. Svefnþörfin hefur minnkað og ég er einfaldlega svo forvitinn að ég get bara ekki sofið lengur en til kl.fimm. Allt er þetta þó í óeiginlegri merkingu. Þegar veiðibakterían hefur grasserað allan veturinn fæ ég ákveðna fró út úr því að skyggnast um í vorinu, sjá lífið vakna og vötnin taka á sig kunnuglega mynd sumarsins. Að sjá vötnin beinlínis rífa af sér vetrarhaminn getur laðað ýmislegt fram í dagsljósið sem annars væri hulið. Það hjálpar síðan gríðarlega að vera svo sýktur af veiðibakteríunni að maður tengir allt þetta sjónarspil við væntanlega veiði sumarsins.

    Ég hef farið nokkrum orðum um umhverfingu vatns að vori, lífríkið og silunginn, en svo eru einnig þeir hlutir sem við getum bara alls ekki séð í annan tíma en einmitt að vorinu. Þegar vötnin rífa af sér vetrarhaminn er gullið tækifæri að skyggnast um og horfa á það sem leynist undir yfirborðinu eins og einn lesandi síðunnar gerði s.l. páska við Eyrarvatn. Auðvitað kitlar það aðeins að mönnum detti eitthvað af síðunni í hug þegar þeir verða vitni að því augliti til auglitis úti í náttúrunni, eins og Árni Árnason upplifði og datt í hug greinin mín um undirstraum í vatni.

    Sæll Kristján 

    Ég reyndi að „lemja“ Þórisstaðavatnið þann fyrsta og kom nú heim án fiskjar en mikið rosalega var gaman að sjá fluguna í vatnsborðinu og sílin í fjöruborðinu, ný upplifun að spá í lífríkið í vatninu og mikið fannst mér þetta allt spennandi. 

    En mig langaði að segja þér frá undirstraumi í vatni eftir að hafa skoðað slíkar upplýsingar á síðunni hjá þér í vetur og fannst þá merkilegt. En mér þykir það enn merkilegra núna þegar ég horfði á nokkuð mikinn ís á Eyrarvatninu og ísinn var að brotna niður eða „hverfa“ og þetta fylgdi ekki beinu gegnum streymi í gegnum vatnið, best að taka fram að þarna var logn og því enginn vindur að hjálpa til við brot eða straum. 

    Eyrarvatnið var nú um páskana að mestu ísilagt nema alveg efsti hluti þess við og aðeins út frá efri ós. Þegar leið á blíðuna og dásamlega vorveðrið um páskana jókst gekk á ísinn en það gerðist ekki í beinu streymi frá efri ós heldur var niðurbrotið á ísnum bogadregið í líkingu við myndina þína um undirstraum.

    Eyrarvatn
    Eyrarvatn

    Til að útskýra þetta myndrænt þá skulum við horfa á vatnið eins og um loftmynd og hafa þá neðri ós neðst og efri ós efst. Vatnsstraumurinn í vatninu virðist leggjast til hægri (séð af loftmynd) en þegar komið er útí c.a. 1/4 – 1/3 af vatnslengdinni þá breytist stefnan aftur yfir til vinstri, virðist stefna í átti að landi c.a. í miðju vatni og þaðan liggur svo straumurinn beina leið niður í neðri ós. 

    Nú þegar ég rifja upp fyrri ár við ísað vatnið man ég eftir að hafa sé þetta gerast áður og leyfi ég mér að fullyrða að þarna sé undirstraumur Eyrarvatns. 

    Efsti hluti þessa undirstraum er utan við kastgetu fluguveiðimanna, virðist liggja frá miðri vegu vatnsins og c.a. yfir á 1/3 hluta vatnsins Vatnaskógar megin, en við mitt vatnið(beint á móti Kapellunni í Vatnaskógi) kemur hann aftur nær landi, að neðsta sumarbústaðasvæðinu í landi Kambhóls og þar stoppar líka sefið sem getur verið mjög áberandi í vatninu og erfitt að koma agni yfir það til að komast að fiski. 

    Þar sem straumurinn liggur meðfram Kambhólslandinu frá c.a miðju vatni og niður í neðri ós hafa sumir oft fengið fisk seinni hluta sumars eða snemma hausts, jafnvel lax eða sjóbirting. 

    Mest notaða veiðisvæðið í vatninu, sandfjaran við efri hluta lands Kambhóls er mest notaði veiðistaðurinn af landi og margir þar að halda í laxavonina en algengast er þó að fá urriða eða bleikju. Þetta svæði er í raun þó nokkuð frá þessum undirstraumi og í þau skipti sem ég hef fengið fisk seinni hluta sumars er það á báti nálægt þessum undirstraumi, sérstaklega í efri hluta vatnsins. 

    Ég leyfi mér að skjóta þessu til þín, til að undirstrika þessa upplýsingar með undirstraum í vatni. Upplýsingarnar hér eru engin hernaðarleyndarmál um hvar er fiskur í vatninu því þeir sem stunda það þekkja þessa staði og sögurnar um þá. 

    Kv. Árni Árnason

    Það er einmitt þessi upplifun Árna sem ég sækist svolítið í að reyna og nýti mér síðan þegar kemur að veiðinni. Að láta það eftir sér að skoða vatn í annan tíma heldur en á sumrin getur fært manni ómetanlegar upplýsingar fyrir komandi vertíð. Landslagið í vatninu og leyndir kostir þess blasa stundum við aðeins þessa stuttu stund sem það færist undan vetri og inn í sumarið. Átt þú ekki örugglega ‚þitt‘ vatn sem vert væri að skoða áður en þú ferð að veiða í sumar?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vöðluvasinn

    6. apríl 2013
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Vöðluvasinn

    Þeir eru stórkostlegir þessi vasar sem eru framan á flestum vöðlum. Ég nota minn óspart þegar ég veiði. Þegar svo óheppilega vill til að taumurinn minn fer í kássu og mér tekst ekki að losa þessa bölvuðu vindhnúta og ég þarf að klippa hann af kemur vasinn í góðar þarfir. Afklippan fer í vasann og næst þegar ég skríð upp á bakkann, tæmi ég úr vasanum í ruslapokann minn eða í veiðitöskuna. Með þessu móti þarf ég ekki að beygja mig niður eftir ruslinu sem annars lægi eftir mig á bakkanum. Er ekki örugglega vasi á þínum vöðlum?

    Ummæli

    06.04.2013 – Ingólfur Örn: Nota oftast brjóstvasan á mínum vöðlum undir flugur 🙂 En ég mæli eindregið með Monomasternum fyrir allt taumarusl. Alger snilld og kostar lítið: Monomaster og hér er eitthvað um hann: YouTube 

    Bestu kveðjur,
    Ingó

    Svar: Þetta er bara snilld 🙂

    07.04.2013 – Siggi Kr.: Nei heyrðu mig nú! Hvar fær maður þetta? Þarf að kaupa svona handa mér og fleirum.

    Svar: Tja, nú í dag (08.04.2013) dúkkaði einmitt upp auglýsing frá Veiðihorninu á Fésbókinni um að þetta undratæki fengist þar. Engu líkara en menn fylgist með fos.is 🙂

    07.04.2013 – Hrannar Örn: Til margra ára var ég alltaf í neoprene vöðlum með brjóstvasa sem var einmitt mjög hentugur fyrir taumaflækjur og ekki síst til að hita á sér puttana. Ég keypti svo öndunarvöðlur núna í vetur og er mjög sáttur við að á þeim er fóðraður brjóstvasi, :)

    Svar: Já, í einhvern tíma hafa kaldar og loppnar hendur laumast í vasann. Í augnablikinu (segi það vegna þess að ég er vöðluböðull og helst illa á vöðlum) er ég með vöðlur með tvöföldum vasa; fóðraður og með netavasa framan á. Gleymi aldrei að tæma ruslið, það blasir við í netavasanum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 105 106 107 108 109 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar