Topp hráefni
Topp hráefni

Það eru alltaf einhverjir nýir að byrja í veiðinni og því ganga gamlar tuggur nokkuð reglulega í endurnýjun lífdaga. Hér er ein slík.

Ekki er allt fengið með töku, hvað þá löndun fisks. Kjósi veiðimaður að nýta aflann sér eða sínum til matar er eins gott að fara vel með hann. Best er að blóðga fiskinn strax að löndun lokinni, annað hvort með því að rífa táknin úr honum eða skera fyrir. Hvora aðferðina sem menn kjósa, er málinu ekki lokið. Mikilvægt er að leggja fiskinn með hausinn niður eða halda honum á hvolfi þar til hætt er að drjúpa úr honum, að öðrum kosti getur blóð smitast út í holdið og það orðið ólystugt. Og enn er ekki nóg að gert.

Ef menn hafa ekki tök á að gera strax að fiskinum er samt um að gera að koma honum í kælingu sem allra fyrst. Kæling í vatni er oftast einfaldasti kosturinn og sá fyrirhafnarminnsti. Notkun netpoka hefur aukist nokkuð hin síðari ár sem eru tilvalin til geymslu/kælingar afla þar til unnt er að gera að honum. Gera skal að fiskinum við fyrsta tækifæri, fjarlægja maga og önnur innyfli vandlega og skola kviðarholið vel. Að sjálfsögðu tökum við með okkur allt slóg eða urðum tryggilega til að halda því frá varginum og náttúrunni hreinni.

Innyfli silunga innihalda að öllu jöfnu fæðu og fæðuleifar ásamt töluverðu magni ensíma sem brotið geta niður meltingarveg fisksins skömmu eftir dauða hans. Komi til slíks smitast innihald magans fljótt út í kviðarholið og þaðan út í holdið með tilheyrandi skemmdum. Ekki má heldur gleyma því að kviðarholið inniheldur einnig ýmsa gerla sem skemmt geta fiskinn á skömmum tíma. Slæging, þrif og kæling eru það eina sem spornar við slíkum skemmdum. Því miður virðist það ítrekað koma veiðimönnum á óvart hve skamma stund niðurbrot meltingarfæra og skemmdir örvera tekur og afraksturinn eftir því ókræsilegur.

Kæling fiskjar gegnir líka öðru og ekki síðra hlutverki, hún hægir á dauðastirðnuninni. Of hröð stirðnun getur valdið því að holdið verður laust í sér og erfitt ef ekki ómögulegt verður að flaka svo vel sé. Og þá komum við að enn einum þættinum sem veiðimenn eru hvattir til að fara vel að; flökuninni og meðferð beinagarðs og hausa.

Það hefur færst nokkuð í aukana að veiðimenn geri að og flaki afla á veiðistað. Á þetta sérstaklega við um vötn sem eru langt utan alfaraleiðar og vilja menn væntanlega létta byrðarnar fyrir heimferðina. Gæta verður þess samt að kæling í vatni fari þannig fram að vatnið, með tilheyrandi örverum, komist ekki að flökunum. Einfaldur plastpoki dugir ágætlega til að halda streymi örvera um holdið í lágmarki. Og ef þú átt í vandræðum með hemja fiskinn við flökun þá getur þú orðið þér úti um svona græju eins og Svarti Zulu á eða bara einfaldlega notað gaffal. Umfram allt verða menn að gæta þess vera með beittan hníf og ekki of þykkan, annars endar þú með fiskfars.

Að lokum, ekki skilja við aðgerðastað eins og þú eigin von á að mamma þín komi rétt á eftir og taki til eftir þig, hirtu þitt rusl sjálf(ur).

Sóðaskapur við Ölvesvatn á Skaga
Sóðaskapur veiðimanna

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.