Hún var ekki amaleg sýningin sem Þingvallaurriðarnir ásamt fóstra sínum, Jóhannesi Sturlaugssyni héldu í blíðunni í dag. Glæsilegir fiskar, spenntir áhorfendur á öllum aldri og alveg bráðskemmtilegar skýringar Jóhannesar gerðu daginn alveg einstakan. Takk fyrir okkur.
Einn glæsilegur á leið upp ÖxaráEinn glaður við endamarkiðJóhannes Sturlaugsson og einn af stærri gerðinni
Þegar ekkert er að gerast á hinum enda línunnar verður maður að taka sig saman í andlitinu og leita skýringa. Ein nærtækasta ástæða gæftaleysis er röng fluga. Þá er ekkert annað að gera en skima eftir því sem er náttúrulega á ferli, já eða ekki lengur á ferli.
Skolað fæði
Í flæðarmálinu leynast ýmsar vísbendingar um það sem fiskurinn er að éta í það og það skiptið. Myndina hér að ofan tók í við veiðivatn hér í sumar, skömmu eftir að þokkalegur stormur hafði gengið yfir. Fersk fæða lá þar í hrönnum eftir að hafa skolað á land. Frá vinstri; þrjár tegundir snigla, vatnarækja og seiði. Til að gefa smá vísbendingu um stærð, þá var seiðið rétt um 3 sm að lengd.
En étur silungurinn þetta allt? Í þessu tilfelli er uppistaða fiskjar í þessu vatni bleikja. Ég hef svo sem ekki rekist á snigla í bleikju hingað til en þar með er ekki sagt að hún éti þá ekki. Þeir eru lindýr og leysast því mjög hratt upp í meltingarvegi fisksins. Ég hef það fyrir satt að Tékkar noti ákveðnar púpur vegna þess að þær líkjast svo mikið ákveðnum sniglum sem falla af bökkum lækja í vatnið. Því miður tókst mér ekki að finna mynd af umræddri púpu, en hún var alls ekki ósvipuð fyrstu tveimur sniglunum.
Ég treysti mér ekki til að greina rækjuna á myndinni en fundarstaður hennar (vatnið) liggur að sjó og því ekki útilokað að rækjur slæðist inn í vatnið á stórstreymi. Þarna hefði geta komið sér vel að eiga appelsínugula marfló eins og margir nota í Hraunsfirðinum.
Þó ég hafi hér aðeins smá sýnishorn þess sem ég fann í flæðarmálinu, þá var umfang snigla og seiða mjög mikið og greinilega ekki fæðuskortur á þessum slóðum.
Ég er af þessari kynslóð sem ólst upp við Vísnaplötuna. Þið vitið; Ég á mér lítinn skrítinn skugga, skömmin er svo líkur mér……. Þessi skuggi hefur náttúrulega fylgt mér alla tíð og hefur svo sem ekkert verið að plaga mig í gegnum tíðina, nema þá þegar ég fór að stunda fluguveiði. Þá var það þessi langi mjói skuggi sem kom eins og framlenging af kasthendinni, laumaði sér frameftir stönginni og sleikti línuna, tauminn og alveg út að flugunni. Þessi skuggi fór fljótlega að plaga mig vegna þess að hann fór í taugarnar á fiskinum sem ég var að eltast við. Ég hef áður minnst á að þegar ég treysti í blindi á fyrstu samsetninguna sem ég fékk tilbúna í veiðivöruverslun án nokkurra efasemda frá minni hálfu. Þá var ósköp lítið um veiði hjá mér nema mér tækist að koma flugunni út í einhverju róti. Sem sagt; taumurinn sem ég fékk með fyrstu stönginni minni var allt of sver. Hann var svo sver að þessi litli skrítni skuggi fann sér mjög auðvelda leið niður á botn vatnanna eftir honum.
Um leið og ég náði tökum á að grenna tauminn fóru flugurnar mínar að leggjast betur og skugginn missti takið á tauminum og komast ekkert lengra út á vatnið heldur en að línuendanum. Mér fannst eins og mér hefði tekist að leika á kvikindið og fór að hrósa happi í fluguveiðinni mun oftar en áður.
Með hækkandi meðalhita á Íslandi eykst fjölbreytileiki skordýra í náttúrunni. Sum þessara skordýra eru innflutt en aðrir eru innflytjendur upp á eigin spýtur. Það sem ég á við með þessu er að sum skordýr eru beinlínis fluttar inn í gámum af grænmeti, ávöxtum og svo því sem mörgum hrís hugur við; jarðvegi. Það er nefnilega fluttur inn töluverður massi af jarðvegi, já og sveppamassa sem í geta leynst egg og lirfur skordýra. Sum þessara skordýra eru ekki beint æskileg, hafa jafnvel valdið stórum skaða erlendis og við værum betur laus við. Má þar t.d. nefna Spánarsnigilinn sem hefur breytt úr sér nánast um allt land, garðeigendum til hryllingar. Innflytjendurnir eru aftur þeir sem berast hingað með vindum frá nálægum löndum og ekkert við því að gera. En ekki eru öll skordýr til ama. Sum þessara skordýra lenda á matseðli silungsins og því ættu þau einnig að lenda á gátlista okkar veiðimannanna. Enn sem komið er hefur stór innrás silungafæðu ekki birst hér á Íslandi, en þess getur vart verið langt að bíða ef fram fer sem horfir og við ættum að vera á tánum og vakandi fyrir nýjungum í fluguhnýtingum. Meðal áhugaverðra nýbúa á Íslandi er t.d. smávaxið fiðrildi, Birkikemba sem verðu lítið stærra en 5 mm að lengd og svo frændi hennar Birkifetinn sem getur orðið þrisvar sinnum stærri eða allt að 1,5 sm. Í sumar sem leið varð ég vitni að því þegar Birkifeti flæktist undan vindi út á Hlíðarvatn í Selvogi, bleikjunni eflaust til bragðbætis við allt mýið. Ég efast um að margir veiðimenn hér á landi eigi eftirlíkingu af Birkifeta í þurrfluguboxinu sínu.
Þær eru margar sögurnar sem sagðar eru af ‚sérstaklega taumstyggum‘ fiski í þessu eða hinu vatninu. Sumt af þessu á fyllilega rétt á sér, annað er beinlínis í ætt við þjóðsögur. Mér finnst stundum eins og brugðið hefur verið út af einu versi og það orðið að heilli predikun. Mín reynsla er einfaldlega sú að það er tærleiki vatnsins sem segir meira til um taumstyggð heldur en fiskurinn sjálfur. Það er í raun ekkert svo mikill munur á bleikju sem þrífst í Elliðavatni eða Vífilsstaðavatni. Samt er aldrei talað um taumstygga bleikju undir Vífilsstaðahlíðinni. Ætli skýringanna sé ekki frekar að leita í tærleika vatnsins heldur en bleikjunni sjálfri. Enn hef ég ekki brotið þann múr sem bleikja í Elliðavatni hefur reist á milli okkar. Sem sagt, ég hef aðeins náð urriða í vatninu, aldrei bleikju, þannig að ég ætla að styðjast við annað dæmi; Úlfljótsvatn inn af Steingrímsstöð. Þar hef ég tekið töluvert af bleikju á s.k. Veiðitanga í gegnum tíðina. Þegar ég nefndi þennan veiðistað hváði einn veiðimaður við og spurði hvernig í andsk…. mér hefði tekist það. Hann hefði alltaf talið að bleikjan í Úlfljótsvatni væri svo rosalega taumstygg á þessum slóðum. Ég varð nú að játa að ég hafði bara aldrei heyrt þetta og sagði þessum ágæta manni að ég notaði yfirleitt nokkuð langan taum, frammjókkandi niður í c.a. 3X á þessum slóðum þegar bjart væri yfir. Ég leyfði mér að bæta við að ég kastaði frekar knappt til að byrja með út frá tanganum, lengdi síðan smátt og smátt í köstunum þar til ég næði fram af kantinum til austurs eða norðurs. Ef vindátt stæði aftur á móti upp á tangann væri ég með þyngri flugu sem kallaði á aðeins sverari taum, kannski svona 1X eða 2X og svolítið styttri. Ég fengi alveg eins fisk undir þeim kringumstæðum eins og á björtum degi með grennri taum.
Hversu oft ætli þjóðsögurnar verði til þess að við festumst í einhverri aðferð sem á e.t.v. ekkert alltaf við?
Ég ætla að ljóstra upp smá leyndarmáli, ekki alveg en næstum því. Eitt af uppáhalds vötnunum mínum er undir þann klafa sett að vatnsborðið getur rokkað allrosalega milli árstíða. Almennt er þetta ekki heppilegt fyrir lífríkið, fiskurinn verður nokkuð áttaviltur þegar kemur að hrygningu, sérstaklega ef sveiflur í vatnsborði eru ekki árstíðabundnar.
Gróðurbakki
En aftur að þessu vatni mínu. Vatnsborðið á vanda til að falla verulega yfir sumarið og þá kemur oft allt annað landslag á botninum í ljós. Sólarljósið nær betur niður í vatnsbolinn og gróður tekur við sér á stöðum sem annars eru snauðir að vetri eða vori. Einn svona staður í vatninu er meirihluta ársins langt úti í dýpinu og ég hef prófað að vaða í kastfæri við þennan stað þegar þannig stendur á, sökkt púpum vel niður, skannað svæðið kerfisbundið án þess að verða nokkurn tíma var við líf á þessum slóðum. Eina sem ég hef haft upp úr krafsinu eru visnaðar gróðurleyfar og rætur. Þegar aftur vatnsborðið lækkar, þá færist fjör í leikinn. Um leið og sólarljósið kemst að þessum gróðri tekur hann við sér og skömmu síðar tekur fiskurinn sér bólfestu í grend. Svona staði er að finna víða í vötnum og um að gera fyrir veiðimenn að heimsækja vötnin á mismunandi árstímum. Þar sem allt er dautt að vori, getur verið fjör að hausti.