FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Taumalengd

    17. desember 2019
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Eitt af því sem fluguveiðimenn spá reglulega í er lengd taums og þeir spyrjast reglulega fyrir um þetta. Stutta svarið er; Það ræðst nú af ýmsu. Á meðan sum vötn hafa fengið á sig það orð að þar verði að nota ákveðna lengd af taum, annað virki bara ekki, þá segja reynsluboltarnir eitt eða annað. Ekki dettur mér í hug að efast um reynslu manna en ég hef oftar en ekki orðið var við ákveðinn misskilning á lengd tauma og þá sér í lagi vegna meintrar taumafælni fiska. Í því sambandi vil ég benda mönnum á að það er sjaldnast lengd taums, eða öllu heldur skortur á lengd, sem fiskurinn mögulega fælist, það er sver- og sýnileiki hans sem fiskurinn getur mögulega hrokkið undan. Ef taumur er orðinn mattur eða taumaendinn er of sver, skiptu þá um taum en hugsaðu þig vel um áður en þú lengir hann um einhver fet, í það minnsta þar til þú hefur ná góðum tökum á þeirri lengd.

    Taumar eru af mismunandi sverleika sem yfirleitt er í beinu samhengi við slitstyrk þeirra. Þegar menn hefja fluguveiði, þá er ekki óalgengt að þeir byrji með 9 feta taum, ná þokkalegu valdi á þeirri lengd og fikra sig síðan í lengri taum þar sem aðstæður og veiðiaðferðir krefjast þess. En 9 feta taumur er ekki það sama og 9 feta taumur. Sverasti partur taumsins þarf að passa sverleika línunnar, það er ekki nóg að hugsa eingöngu um lengd hans eða X númerið sem hann endar í. Þumalputtaregla fyrir sverleika taums þar sem hann tengist línunni er að hann ætti að vera u.þ.b. 2/3 af sverleika hennar. Í hverju hann endar ætti að ráðast af stærð flugunnar, sjá töflu hér. Athugið að þetta er þumalputtaregla sem á alls ekki alltaf við og brotnar mun oftar en þumalputtar gera. Kónískir taumar eru ekki allir eins, sumir byrja sverir og enda í t.d. 3X (u.þ.b. 0,20 mm) á meðan aðrir byrja grannir og enda líka í sama sverleika. Sá fyrri er því töluvert brattari ef segja má sem svo.

    Þegar menn hafa náð góðu valdi á 9 feta taum, sverleika og því hve skart hann mjókkar niður í æskilegan sverleika, þá ættu menn að vera tilbúnir að ráðast í lengri tauma. Ég er alveg óhræddur við að játa það að það tók mig töluverðan tíma að ná sjálfum sátt við lengri tauma, þetta getur tekið tíma og fyrst og fremst æfingu.

    Taumurinn úr lógóinu

    Ákveðnar aðstæður og veiðiaðferðir kalla svolítið á breytilega lengd tauma, þannig að það má alls ekki útiloka lengri eða styttri tauma. Þurrfluguveiði kallar á lengri taum, kannski eitthvað í áttina að eða yfir 12 fet. En það má ekki skilja sem svo að þurrflugur beinlínis gargi á þetta, lunkinn veiðimaður sem ræður vel við 9 feta taum sem mjókkar skart niður í t.d. 5X (0,14 mm) á ekkert síður erindi í þurrfluguveiði heldur en sá sem ræður við langan taum. Þetta snýst svolítið um mýktina og ekki síst þyngd og eftirgefanleika stangar og línu.

    Það að vera með mjög langan taum í púpuveiði þekkist vel í ákveðnum vötnum, helst þar sem veiðimenn eru að veiða alveg niðri við botn. Það getur verið mjög hentugt að vera með langan taum á flotlínu undir þannig kringumstæðum. Sami taumur getur aftur á móti verið ofrausn ef menn eru með intermediate eða sökkvandi línur, þá er styttri taumur jafnvel betri þannig að línan nái að stjórna dýpinu sem veitt er á.

    Að veiða með styttri taum en 9 fet getur líka verið kostur. Að vera með allt niður í 3 eða 5 feta taum í þungu straumvatni er oft nauðsyn, einfaldlega vegna þess að lengri taumur er bara á einhverju flakki í vatninu og flugan á það til að rísa ef hún leikur laus á of löngum taum. Þetta á einnig við um þyngri flugur, þær kalla á styttri taum eða sverari annars skilar aflið í kastinu sér ekki út í fluguna og hún einfaldlega leggst ekki vel fram.

    Að öllu þessu sögðu kemur hér fyrirvari; það er mín reynsla og grúsk sem markar þessi orð. Vertu duglegur að prófa þig áfram með mismunandi tauma, sverleika og lengd og þá getur þú fundið þína töfralausn sjálfur. Það er engin patent lausn í þessu taumaveseni, umfram allt, æfðu þig því það verður enginn óbarinn biskup í meðhöndlun tauma.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að velja sér taum

    26. nóvember 2019
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það sem ræður mestu um það efni sem er að finna á þessum vef er eigið grúsk. Það sem ræður næst oftast því sem ég skrifa um eru fyrirspurnir og spjall sem ég á við aðra veiðimenn. Eitt af því sem ber mjög oft á góma eru taumar. Það laumast að mér grunur að nokkuð margir veiðimenn telja sig vera í vandræðum með val á taumum og spyrja um hina gullnu, einföldu reglu fyrir besta tauminum. Því miður kann ég ekki þessa gullnu reglu og ég leyfi mér að efast um að hún sé til. Af samtölum mínum við veiðimenn, ræð ég það nú samt að margir gera grundvallar mistök í vali á kónískum taum.

    Það eru þrír þættir sem menn þurfa að huga að við val á taum, ekki tveir. Mjög margir spá fyrst og fremst í lengd taums. Á hann að vera 7 fet, 8 fet, 9 fet eða miklu lengri? Aðrir spá fyrst og fremst í þeim sverleika taums sem hann endar í.

    Í upphafi skildi taumaendann skoða en það er ekki nóg, ekki heldur að spá í lengd taumsins. Það eru ekki aðeins tveir þættir sem ættu að ráða vali á taum og þá er ég ekki að bæta eiginleikum taumsins við, þ.e. hvort hann er flot, hæg- eða hraðsökkvandi. Þegar maður velur taum, þ.e. kónískan taum þá byrjar maður á sverari endanum. Hve sver er endi línunnar? Sverari endi taumsins ætti að vera sem næst 2/3 af sverleika línunnar þannig að flutningur aflsins úr kastinu skili sér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ending flugulína

    12. nóvember 2019
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þessi greinarstúfur er sérstaklega tileinkaður letipúka sem hefur fylgt mér í ótal mörg ár, sjálfum mér. Það er alveg sama hve oft ég einset mér að hugsa betur um flugulínurnar mínar, þá gerist það allt of sjaldan. Góð umhirða flugulínu lengir nefnilega líftíma hennar og þá verður hinn púkinn minn miklu ánægðari, nískupúkinn í mér.

    Ég var spurður að því um daginn hve lengi línurnar mínar entust. Ég satt best að segja gat ekki svarað því nákvæmlega, eina sem ég veit að sumar hef ég átt lengi á meðan aðrar hafa lifað skemur. Kunnáttumaður sagði mér að góð flugulína, þar sem góð ræðst oftar en ekki af verðmiðanum, eigi að endast þetta 250 veiðidaga. Sami maður sagði mér að með góðri línu eigi maður að geta verið svona keppnis þótt flugustöngin sé langt því frá að vera í verðflokki keppnisstanga. Þessar línur kosta í dag á bilinu 12 – 16 þ.kr. Hér verð ég að taka það fram að ég hef átt línur sem kosta aðeins fjórðung af þessu verði og ég hef ekki fundið mikinn mun á þeim og dýrari línum og þær hafa enst mér ágætlega. Þetta síðasta var til að friða nískupúkann í mér.

    En til að ýta aðeins við letipúkanum þá eru hér nokkrar línur um þrif og meðhöndlun flugulína:

    Sum sumur er það sem hefur mest áhrif á plastið í flugulínunum ekkert vandamál á Íslandi, sólin. Of mikið sólarljós í of langan tíma styttir líftíma flugulínunnar verulega. Þótt nýjustu flugulínurnar séu merktar UV resistance þá hefur sólarljósið samt mjög mikil áhrif á þær. Mér liggur við að segja að þessi merking sé nærri jafn áreiðanleg og Anti age formula í hinum og þessum húðkremum. Þegar hiti og sólarljós fer saman, t.d. þegar veiðihjólið þitt liggur í aftursætinu og bakast þar í sólinni, þá fer niðurbrot plastsins fyrst af stað fyrir alvöru.

    Það að þrífa línuna reglulega er ekkert svo mikið mál. Flestir mikla það eitthvað fyrir sér að láta ylvolgt vatn í skál eða fötu, bæta smá handsápu (ilmefnalausri) út í og leyfa línunni að liggja þar í 15 – 25 mín. Tíminn ræðst af því hvort menn hafa vanist á að nota eitthvert sleipiefni á línuna eða ekki. Því oftar sem sleipiefni er notað, því meiri leifar verða eftir á línunni sem gera lítið annað en safna í sig skít og óhreinindum sem hægja á henni í kasti. Fyrir alla muni, ekki freistast til þess að nota svamp eða grófan skrúbb á línuna þótt hún sé mjög skítug. Mjúkur bómullarklútur er alveg tilvalinn, eftir að línan hefur legið í vatninu og áður en skolað er af henni og hún hengd upp til þerris. Já, þú last rétt. Það verður að leifa línunni að þorna þokkalega áður en henni er spólað aftur inn á hjólið.

    Það er líka mikilvægt að hugsa um línuna á milli þvotta. Það er ekki bara nóg að þvo hana að hausti og bíða síðan til næsta hausts að hugsa þá um hana. Það eru til ýmsar vörur sem eru ætlaðar til þess að næra flugulínuna á milli þvotta. Ég hef ekki hugmynd um hver fann upp á þessum frasa, en hann hafði ekki mikið vit á efnafræði og þá sér í lagi fjölliðum eins og í plasti. Í eitt skipti fyrir öll (er reyndar búinn að segja þetta svo oft áður); þau efni sem eiga að næra flugulínuna þína eru í flestum tilfellum bón eða sílikon og hafa ekkert næringarfræðilegt gildi fyrir plast.

    Vissulega er hægt að nota bón til að ná betra rennsli í línuna og þá skiptir í raun engu máli hvaða bón þú notar. Allt bón inniheldur leysiefni af einhverri gerð og leysiefni er ekki besti vinur flugulínunnar þannig að því oftar sem þú notar bón, því oftar þarftu að nota það. Húð línunnar fer því hraðar af henni því oftar sem þú dregur hana í gegnum bónklútinn sem er mettaður af leysiefni. Að mínu mati ætti bónið að fá að hvíla sig alveg þangað til línan er kominn að gjörgæslu og lífdagar hennar eru í raun taldir, sem sagt aðeins nota bón í neyðartilfellum.

    Sleipiefni sem hönnuð eru fyrir flugulínur innihalda fyrst og fremst sílikon sem geta fjarlægt minniháttar óhreinindi af línunni, en fyrst og fremst skilja þau eftir sig örþunna filmu sem hrindir frá sér vatni og óhreinindum. Þetta hjálpar vissulega við aukið rennsli til að byrja með, en við endurtekna notkun án þess að þrífa línuna á milli þykknar þessi hús á köflum og fer að draga að sér óhreinindi í stað þess að hrinda þeim frá sér. Ekki gleyma að þrífa línuna á milli þess að þú berð á hana, annars endar þú með verra rennsli í línunni heldur áður.

    Jæja, púkarnir mínir, nú eruð þið búnir að lesa þetta og þá er eins gott að taka sig saman í andlitinu og þrífa línurnar eftir sumarið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Intermediate línur

    6. mars 2019
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það er ekkert leyndarmál að eftir að ég komst í kynni við hægsökkvandi línur, þ.e. intermediate þá hefur verulega dregið úr álagi á flotlínurnar mínar. Þegar þetta er ritað, þá á ég tvær mismunandi hægsökkvandi línur; slow intermediate sem sekkur um 0,5 tommu á sek. og fast intermediate sem sekkur um 1,5 tommur á sek. Báðar eru þær WF (e: weight forward) þannig að það er nánast enginn munur á að kasta þeim m.v. hefðbundna flotlínu. Þyngd þessara lína er í raun lítið meiri en flotlínu, en eiginleikum þeirra til að sökkva undir yfirborð vatnsins er fyrst og fremst náð með því að hafa línuna grennri þannig að hún sker yfirborðið.

    Það eru einnig til þær hægsökkvandi línur þar sem þessum eiginleikum er fyrst og fremst náð með því að bæta tungsten eða öðrum þungum ögnum í kápuna, en þá eru þær yfirleitt sverari og virka til muna þyngri í kasti heldur en flotlínur.

    Þá fyrri finnst mér tilvalið að nota fyrir t.d. votflugur eða léttar púpur sem ég vil veiða 10 – 15 sm. undir yfirborðinu, sérstaklega þegar einhver vindur er á vatninu sem hrakið gæti línuna til.

    Þá hraðari nota ég reyndar mest. Ræður þar mestu að hún sekkur jafnt og vel og ég þarf þarf ekki að bíða lengi þar til hún hefur náð kjördýpt hornsíla og flestra tegunda púpa. Þar sem straums gætir, svo fremi að hann er ekki of mikill, þar kemur fast intermediate línan að svipuðum notum og hrað- eða framsökkvandi sökklína í stríðum straumi. Kemur flugunni vel niður áður en straumurinn tekur línuna og framkallar óeðlilegt drag og hrifsar þannig fluguna af því svæði sem ég vil veiða hana á.

    Síðan skemmir það auðvitað ekki að þar sem þessar intermediate línur mínar eru töluvert mjórri heldur en hefðbundin flotlína, þá taka þær minni vind á sig, sem er ótvíræður kostur á landi eins og Íslandi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Liturinn segir ekki allt

    14. nóvember 2018
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Stundum fær maður svo sterka bakþanka um eitthvað að maður getur ekki annað en grafist fyrir um fullyrðingu sem maður hefur látið út úr sér. Þetta er álíka íþyngjandi og að muna ekki hvað ákveðinn staður, maður eða landshluti heitir og maður linnir ekki látunum fyrr en rétt nafn kemur upp úr kollinum eða vefurinn færir manni rétt svar. Þetta er einhver brestur og það er til ákveðin skammstöfun fyrir þessu, ég bara man ekki í svipinn hver hún er, þarf að gúggla það.

    Ekki alls fyrir löngu þá var ég að teygja á fagurblárri flugulínu á ónefndu túni hér í bæ og að mér vatt sér góður kunningi minn og sagði eitthvað á þá leið að þessi sökklína rennur mjög vel. Já, svaraðir ég, hún rennur mjög vel en þetta er intermediate lína. Viðkomandi hváði þá við og spurði hvort ég væri alveg viss, svona blá lína  teldi hann vera sökklínu. Ég, eins hvatvís og ég nú er, hélt nú að þetta væri intermediate lína og hún væri með sökkhraða upp á 1,5 IPS (ég vissi það nú ekki alveg upp á kommustafinn fyrr en ég fletti henni upp). En ég fékk smá bakþanka þar sem ég átti ekki sjálfur þessa línu, gat verið að veiðifélagi minn væri með sökklínu í höndunum sem ég hafði keypt í einhverjum misgripum fyrir intermediate? Ekki það að mér skilst að hún kunni mjög vel við þessa línu, rennsli hennar og virkni í vatni, þannig að það hefði væntanlega ekki breytt miklu þótt þetta væri sökklína.

    Ég fór á stúfana og fann kassann undan þessari línu og jú, mikið rétt þetta er intermediate lína og hún er blá, meira að segja nokkuð mikið blá. Eftir að hafa þrætt mig í gegnum heimasíður nokkurra línuhönnuða þá komast ég að því að margir þeirra bjóða upp á intermediate línur í litrófi frá nærbuxnableiku, reyndar líka alveg glærar, og út í svarbláar sem margir hverjir tengja við sökklínur.

    Sökklínur hins vegar fann ég flestar frá því að vera svarbláar eða brúnar yfir í það að vera alveg svartar. Flotlínur finnast alveg frá því að vera glærar og út í það að vera æpandi orange, næstum neon litaðar. Liturinn segir okkur greinilega ekkert lengur hvaða lína er hvað og þá fer maður ósjálfrátt að hugsa um að merkja línurnar sínar þannig að maður grípi ekki óvart einhverjar sem er allt annað en maður á von á.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sökk, sökk, sökk

    14. desember 2017
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Trúlega eru lesendur orðnir frekar leiðir á því að heyra af hrakförum mínum með sökkenda og sökklínur, en það er mín leið til sjálfshjálpar að ræða þetta í tíma og ótíma og því koma hér enn einar hugleiðingar mínar.

    Í sumar sem leið lagði ég leið mína niður í Ljótapoll að Fjallabaki. Þeir sem þekkja pollinn vita auðvitað að það er smá spotti niður að vatninu og mörgum virðist sá spotti vera heldur lengri þegar upp er farið, ég er pottþétt einn af þeim. Að vísu þekki ég einn veiðimann sem snaraðist þarna ítrekað upp og niður á örfáum klukkustundum í sumar sem leið til að bera afla veiðifélaga sinna upp á brún. Bara svona rétt aðeins til að létta undir með þeim sem voru að veiða. Einmitt, hugsaði ég með mér, það er misjafnt þolið hjá mönnum.

    Hvað um það, ég fór niður í Ljótapoll vopnaður slow intermediate línu (IPS 2) á stönginni og flotlínu í vestinu. Þetta voru mistök númer eitt og tvö. Það var ekki þannig hitastig þennan umrædda dag að maður gæti átt von á miklum uppitökum, flotlínan var sem sagt óþörf eins og ég leit á það þegar niður var komið. Mistök númer tvö voru aftur á móti ekki alveg eins augljós fyrr en veiðifélagi minn var farinn að setja í hvern fiskinn á fætur öðrum á meðan ég gerði lítið annað en bíða eftir því að slow intermediate línan mín færi eitthvað niður í vatnið. Á endanum gafst ég upp, dró fram taumaveskið mitt og gramsaði eftir sökktaum sem ég þóttist vera með. Jú, þarna var hann og ekkert smáræði, heil 15 fet og trúlega IPS 7 eða þaðan af meira. Þyngdin var hreint og beint óskapleg og ekki beint auðvelt að slæma línunni út með lítið sem ekkert pláss fyrir bakkastið, ekki síst fyrir óvanan sökktaumakastara eins og mig.

    Einhvern veginn tókst mér nú samt að koma línunni út að dýpisröndinni og ef ég gætti þess að leyfa henni að sökkva ekki of mikið, þá náði ég að draga hana inn án þess að hún festist í hverjum einasta steini á leiðinni. Eitthvað var þetta samt einkennilegt og trúlega ekki fallegt að sjá til mín að böðla línunni út þarna í þrengslunum undir hlíðum Ljótapolls. Hvorki kastið né inndrátturinn var líklegt til árangurs og þar við bættist að þegar ég nálgaðist bakkann, þá fór flugan að krækjast í allt grjót sem varð á vegi hennar og trúið mér, það var af nógu grjóti að taka. Mér tókst nú samt að plata einn urriða þarna til að taka fluguna mína og gat því búið til afsökun í huganum; Þetta snýst nú ekki bara um kastið, ég veiddi fisk. Það var samt einhvern holur hljómur í þessari afsökun og ég viðurkenni það fúslega að ég tók næstu köst með hálfum huga sem auðvitað þýðir aðeins eitt, ég veiddi ekki fleiri fiska í þessari ferð.

    Þegar heim var komið, fór ég að fletta í hinum og þessum greinum á netinu og athuga hvaða samsetningu línu og taums menn notuðu til að koma flugunum niður. Jú, línur með sökkenda (ekki alveg það sama og sökktaumur) með sökkhraða IPS 2 til 7 voru sagðar bestar í straumvatn fyrir byrjendur. Þetta hjálpaði mér ekkert því það er enginn sjáanlegur straumur í Ljótapolli. Fyrir stöðuvötn mæltu menn með heilsökkvandi línur með IPS 2 til 5 sem passaði ágætlega við fast intermediate línuna mína. OK, nú var ég aðeins farinn að kveikja og í næstu málsgrein koma það. Í lauslegri þýðingu; Ef taumurinn er of langur, þá sekkur flugan hægar en línan og línan á það til að festast í botni. Já, einmitt, þessi ógnarlangi sökktaumur sem ég var með í pollinum var eiginlega ígildi línu með sökkenda og var einfaldlega allt of langur og þungur. Ég hefði einfaldlega átt að vera með fast intermediate línuna mína, stuttan taum og vera slakur. Það er gott að vera vitur eftirá.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 6 … 10
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar