Stundum fær maður svo sterka bakþanka um eitthvað að maður getur ekki annað en grafist fyrir um fullyrðingu sem maður hefur látið út úr sér. Þetta er álíka íþyngjandi og að muna ekki hvað ákveðinn staður, maður eða landshluti heitir og maður linnir ekki látunum fyrr en rétt nafn kemur upp úr kollinum eða vefurinn færir manni rétt svar. Þetta er einhver brestur og það er til ákveðin skammstöfun fyrir þessu, ég bara man ekki í svipinn hver hún er, þarf að gúggla það.
Ekki alls fyrir löngu þá var ég að teygja á fagurblárri flugulínu á ónefndu túni hér í bæ og að mér vatt sér góður kunningi minn og sagði eitthvað á þá leið að þessi sökklína rennur mjög vel. Já, svaraðir ég, hún rennur mjög vel en þetta er intermediate lína. Viðkomandi hváði þá við og spurði hvort ég væri alveg viss, svona blá lína teldi hann vera sökklínu. Ég, eins hvatvís og ég nú er, hélt nú að þetta væri intermediate lína og hún væri með sökkhraða upp á 1,5 IPS (ég vissi það nú ekki alveg upp á kommustafinn fyrr en ég fletti henni upp). En ég fékk smá bakþanka þar sem ég átti ekki sjálfur þessa línu, gat verið að veiðifélagi minn væri með sökklínu í höndunum sem ég hafði keypt í einhverjum misgripum fyrir intermediate? Ekki það að mér skilst að hún kunni mjög vel við þessa línu, rennsli hennar og virkni í vatni, þannig að það hefði væntanlega ekki breytt miklu þótt þetta væri sökklína.
Ég fór á stúfana og fann kassann undan þessari línu og jú, mikið rétt þetta er intermediate lína og hún er blá, meira að segja nokkuð mikið blá. Eftir að hafa þrætt mig í gegnum heimasíður nokkurra línuhönnuða þá komast ég að því að margir þeirra bjóða upp á intermediate línur í litrófi frá nærbuxnableiku, reyndar líka alveg glærar, og út í svarbláar sem margir hverjir tengja við sökklínur.
Sökklínur hins vegar fann ég flestar frá því að vera svarbláar eða brúnar yfir í það að vera alveg svartar. Flotlínur finnast alveg frá því að vera glærar og út í það að vera æpandi orange, næstum neon litaðar. Liturinn segir okkur greinilega ekkert lengur hvaða lína er hvað og þá fer maður ósjálfrátt að hugsa um að merkja línurnar sínar þannig að maður grípi ekki óvart einhverjar sem er allt annað en maður á von á.
Senda ábendingu