FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Forsaga flugulínunnar

    23. október 2022
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Mismunandi útgáfur og gerðir flugulína hefur oft borið á góma á FOS.IS þannig að lesendum verður gefið frí frá þeim hluta þroskaferils hennar að þessu sinni. Þess í stað langar mig að endurvinna og stytta texta sem ég setti saman fyrir annan vettvang og birta hér. Viðfangsefnið er forsaga nútíma flugulínunnar, úr hverju spratt hún og hvenær urðu helstu framfarir í þróunar hennar.

    Það eru í raun hundruðir ára síðan fyrsta eiginlega flugulínan leit dagsins ljós og það var ekki hér á vesturlöndum heldur í Japan og hún var notuð á Tenkara stangir og er enn notuð. Svipaðar eða sambærilega línur komu fram á Bretlandseyjum árið sautjánhundruðogsúrkál, m.ö.o. á 18. öldinni. Rétt eins og í Tenkara línurnar var notað hrosshár í þessar línur. Línurnar voru ekkert ósvipaðar þeim sem við þekkjum í dag sem ofurlínur fyrir kaststangir en til að byrja með voru þær ofnar úr tiltölulega fáum taglhárum, oftast ekki nema þremur eða fimm í einu. Þessar línur voru að vísu lítið notaðar til að kasta flugunni út á vatnið, meira til að sveifla stöng með áfastri línu og flugu út yfir lækjarsprænu þannig að flugan kæmist í færi við fiskinn, eða öfugt, rétt eins og Tenkara austur í Japan.

    Flugulínur á fæti

    Það var ekki fyrr en áratugum síðar að menn tóku til við að vefa fíngerðari línur úr fleiri hárum að unnt var að kasta línunni að einhverju viti og leggja fluguna niður á mun fleiri staði á vatnsborðinu heldur en áður. Þessar flugukastlínurnar voru taperaðar frá enda og fram að flugu, byrjuðu í 18 hárum og enduðu í þessum þremur hárum sem fæst gera orðið í ofinni línu.

    Helsti ókostur þessara fyrstu flugukastlína var ending þeirra. Hrosshárið var fljótt að trosna og ekki þurfti mikið til þess að þær beinlínis tættust niður þannig að menn fóru fljótlega að fikra sig áfram með annað efni í línurnar. Það voru gerðar ýmsar tilraunir með jurtir og aðrar tegundir af hári en það var ekki fyrr en vesturlandaþjóðir komust yfir leyndarmál Kínverja varðandi eldi silkiorma að einhverjar verulega framfarir urðu. Fyrst var silkiþræði bætt við hrossháralínuna og smátt og smátt var hlutfall silkis aukið þannig að á endanum hvarf hrosshárið alveg. Þessar línur gerðu töluverðar kröfur til umhirðu og gera enn í dag að einhverju leiti, þó ekkert miðað við það sem fyrst var.

    Silkilína

    Meirihluta nítjándu aldar og vel fram á þá tuttugustu (1800-1937) var lítið um framþróun í gerð flugulína. Að vísu spruttu upp nokkrir þekktir framleiðendur ofinna flugulína upp úr aldamótunum, flestir tengdir eða afsprengi fataiðnaðarins, m.a. Cortland árið 1915. Það var ekki fyrr en árið 1927 að rannsóknir DuPont á fjölliðaþráðum hófust og árið 1935 kynnti Wallace Carothers nýtt hráefni sem átti eftir að umbylta þróun flugulína, nylon. Fyrsta ofna flugukastlínan úr þessu nýja hráefni var framleidd árið 1937 og upp úr 1940 hóf Leon P. Martuch hjá Dow Cemicals tilraunir með að hjúpa þennan ofna kjarna með plastefni til að auka enn frekar endingu línunnar. Fimm árum síðar stofnaði Martuch fyrirtæki sem fékk nafnið Scientific Anglers sem var í raun fyrsta fyrirtækið sem einbeitti sér að þróun og framleiðslu þeirra flugulína sem við þekkjum í dag. Raunar er það svo að bæði Cortland og Scientific Anglers gera tilkall til þess að hafa komið fyrstir fram með fullskapaða og nothæfa flugulínu með kápu utan um ofinn kjarna, rétt eins og þær sem við þekkjum í dag.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tengja línu við undirlínu

    11. október 2022
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég hef í gegnum tíðina séð ýmsar aðferðir veiðimanna við að tengja línu við undirlínu. Sumir hverjir nota einhverja samsuðu af hnútum, ég notaði alltaf Albright hnútinn og var alveg sáttur, þangað til eitthvað fór úrskeiðis sem ég raunar skrifað á minn reikning. Þannig er að ef Albright er ekki rétt gerður og vandað til verksins, þá getur hann auðveldlega sært línuna þannig að hann strippar kápuna af og skilur kjarna línunnar eftir berann. Í verstu tilfellunum getur hann tekið upp á því að renna niður af línunni þannig að allt leiki laust þegar á reynir.

    Eftir eigin aulaskap minn fór ég að útbúa fasta lykkju á undirlínuna sem var nægjanlega stór þannig að ég gæti smeygt henni yfir fluguhjólið. Að sama skapi setti ég lykkju, mun nettari, á flugulínuna ef hún var þá ekki soðinn á frá framleiðanda. Þegar lína og undirlína eru tengdar saman með þessum hætti, þá er auðvelt að skipta um línu eða undirlínu þegar önnur hvort hefur runnið sitt skeið. Sumir hverjir húkka línunni meira að segja af undirlínunni þegar þeir baða hana í volgu vatni áður en þeir ganga frá í lok tímabilsins, sem er einmitt núna um þessar mundir. Það er e.t.v. góður tími núna til að gera hvort tveggja; þrífa línuna og tengja hana með lykkju í lykkju við undirlínuna?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Einu feti framar

    7. júní 2022
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég held að það hafi verið í einni af Ástríks bókunum sem þessi gullvæga setning var höfð eftir Spartverjum; Ef stóra tá þín er of stutt, gakktu þá fetinu framar. Mér er til efs að þetta sé sannleikanum samkvæmt, ekki ber að trúa öllu sem Ástríkur hefur sagt. Jæja, þá er ég búinn að ná athygli lesandans og tókst meira að segja að lauma að þessu eina feti inn sem getur skipt máli.

    Mínir taumar skiptast oftast í þrjá hluta; sverasta partinn sem er næst línunni (60%), miðju parturinn (20%) og taumaendinn (20%). Eins og gengur þá styttist taumaendinn eftir því hve oft ég skipti um flugu og þá vantar stundum allt í einu eitt fet á tauminn þannig að hann sé af æskilegri heildarlengd. Úr þessu er vitaskuld einfalt að bæta, hnýta eitt fet til viðbótar eða klippa taumaendann af og setja nýjan í upprunalegri lengd. Þetta er ekkert flókið, eða hvað?

    Gefum okkur að ég standi lánlaus á bakkanum eftir ótilgreindan fjölda kasta og að mér kemur reynslubolti, gjóir augunum á tauminn minn og segir; Ég er nú alltaf með lengri og grennri taum hérna, hún er svo stygg. Til einföldunar skulum við segja að ég sé með heildarlengd taums upp á 10 fet, 6 fet af 0.50 mm (sem er u.þ.b. 2/3 af línusverleikanum mínum) 2 fet af 0.30 mm (0X) og 2 fet af 0.22 (2X).

    Mér væri í lófa lagið að lengja tauminn minn með 4 fetum af 0.18 mm (4X) þá væri hann samtals 14 fet í stað 10 áður, ég væri þá næstum því að taperingunni á tauminum (0.50 > 0.30 > 0.22 > 0.18) eða hvað? Nei, það er víst ekki svo að þessi taumur sé til stórræðanna. Væntanlega yrði ég smækka fluguna ef þá taumurinn í heild sinni réði við að rétta úr sér á annað borð, en það er alltaf hætt við að aflið í kastinu dræpist í þessum nýju 4 fetum af fremsta efninu.

    Nær væri að taka fram 7 fet af 0.50, hnýta 4 fet af 0.30 og 4 feta taumaenda úr 0.20 í nýjan taum. Formúlan væri þá að vísu ekki 60/20/20 en nógu nálægt því til að virka og ég væri búinn að ná lengri taum og í raun einu feti framar.

    Að lengja taum, annað hvort með því að lengja taumaendann umtalsvert eða bæta nýjum (grennri) taumaenda sem fremstra parti, virka afar takmarkað. Það er ekki bara sverleiki taumsins frá byrjun til enda sem skiptir máli, líka það sem er þarna á milli. Það má hugsa sér alla missmíð á taum eins og hlykk á garðslöngu, hver einasti hlykkur seinkar því að vatnið komi fram úr henni, vatnið skila sér síðar eða ekki.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Jólatré á taumi

    14. október 2021
    Græjur, Kast, Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það er svo langt því frá að ég geti eignað mér þennan frasa, þ.e. að ákveðinn fiskur sem alin er upp við litlar pöddur og hornsíli, æsist allur upp við jólatré á taumi. Raunar heyrði ég þetta fyrst notað um eina ákveðna flugu ættaða úr Veiðivötnum en með tíð og tíma hefur hann náð yfir allar skrautlegar flugur af ætt straumflugna sem eru vinsælar þar og víðar.

    Flestar þessara flugna eiga það sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt þyngdar, mismikið þó og vera nokkuð miklar um sig. Það kann einhverjum þykja mikið í lagt að segja þær miklar um sig, en efnisvalið í þær er oftar en ekki þeim eiginleikum búið að taka á sig vind, skapa loftmótstöðu þannig að það þarf aðeins meira afl til að koma þeim út heldur en litlum púpum eða votflugum.

    Þessari loftmótstöðu virðast margir veiðimenn gleyma og furða sig alltaf jafn mikið á því að fimmu köstin þeirra eru alls ekki nógu góð. Ef viðkomandi er á stórfiskaslóðum furða þeir sig að sama skapi töluvert ef fiskurinn tekur og stöngin hjálpar þeim ekkert í viðureigninni.

    Það væri e.t.v. ekki úr vegi að þessir furðufuglar, lesist sem furðulostnir veiðimenn, hækkuðu sig um eina til tvær stangarþyngdir í það minnsta. Slíkar stangir eiga auðveldara með að koma bosmamiklum flugum út og hjálpa veiðimanninum töluvert meira að eiga við stórurriða ef svo heppilega vill til að hann hlaupi á snærið. Já, snærið, einmitt það. Framan á flugulínuna er gjarnan festur taumur og/eða taumaendi. Þegar egnt er fyrir urriða sem er býr að ákveðnum sprengikrafti, þá dugir ekki að vera með taum sem samsvarar þyngd hans. Síðasta sumar var meðalþyngd urriða í Veiðivötnum 2 – 3 pund en ekki er óalgengt að fiskar um 10 pund og yfir hlaupi á snærið.  Til að leggja jólatré á borð fyrir slíkan fisk þarf sterkan taum og ekki láta glepjast af merkingum á spólunni. Slitstyrkur tauma er mældur með stöðugt auknu álagi, ekki rykkjum og skrykkjum og því dugar 0X (10 punda slitstyrkur) ekki, notaðu 16 – 20 punda taum og hættu þessu pjatti, urriðinn í Veiðivötnum hefur aldrei heyrt minnst á taumastyggð. Ef þessi sveri taumur nær ekki að bera jólatréð skammlaust fram, styttu þá tauminn. Stuttur taumur er bara kostur, ef þú kemst upp með hann, því stuttum taum er ekki eins hætt við að slitna.

    Það verður seint sagt að straumfluguköst séu fallegustu köst fluguveiðinnar. Þetta eru alls ekki einhver elegant þurrfluguköst og það er alveg ástæða fyrir því. Til að koma meiri massa út, eins og jólatréð er, þá þarf kastið að vera hægara og kasthjólið opnara. Það er ekki aðeins að kastið þurfi að ráða við jólatréð, þú verður líka að ráð við kastið þannig að fallega stöngin þín sé ekki í stöðugri hættu á að vera skotin í kaf af flugunni, flugan að flækjast í línunni og hnakkinn á þér að verða að flugugeymslu. Þótt kastið verði ekki eins fallegt, þá er ágætt að muna að fiskurinn hefur ekkert vit á fegurð flugukasta.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Styggur fiskur

    5. október 2021
    Fiskurinn, Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar vetur gengur í garð þá vinnur maður úr því sem maður hefur safnað í sarpinn yfir sumarið. Eitt af því sem ég geymdi í sarpinum er umræða sem ég átti s.l. sumar við afar lunkinn veiðimann um ljót köst. Einhverra hluta vegna var ég fullur afsakana og sagði eitthvað á þá leið að ljót köst veiða líka. Ég var leiðréttur hið snarasta og sagt að þetta ætti að vera ljótar flugur veiða líka. Jú, ég kannaðist eitthvað við þetta um ljótu flugurnar og fór að klóra í bakkann með köstin, var greinilega umhugað um réttlæta eitthvað.

    Við vorum sammála um ljótu köstin geta styggt fisk ef þau verða til þess að línan skellur niður á vatnið. Einmitt þetta getur verið ókosturinn við framþungar skotlínur í dag. Hraði þeirra er mikill, þær vaða út og eiga það til að skella niður á vatnið. Skothausinn er oft tiltölulega þungur og stuttur þannig að línan er svolítið eins og svipa þegar hún lendir á vatninu. Góð skotlína í höndum þokkalegs kastara á yfirleitt ekki í vandræðum með að vaða fram úr stangartoppinum þannig að það má alveg leyfa sér að tempra hraða hennar í framkastinu rétt nóg til að taumurinn leggist beint fram og hvorki lína né taumur skelli á yfirborðinu. Með því að halda örlítið við línuna þegar framkastið hefur náð hámarkshraða, þá hægir línan á sér, það réttist betur úr tauminum og hvoru tveggja leggst rólegar niður. Hver og einn veiðimaður verður að finna sinn takt í þessu viðhaldi línunnar en með smá æfingu er leikandi hægt að ná þessu þokkalega.

    En hvað með þennan stygga fisk ef línan hefur nú lagst rólega fram, taumurinn rétt vel úr sér og flugan er ekki með ógnar læti þegar hún lendir? Verður fiskinum virkilega jafn brugðið við tauminn eins og margir vilja vera láta? Já, trúlega eru til þau vötn sem eru svo tær og laus við allt fljótandi að taumurinn sker sig úr öllu því sem fiskurinn hefur vanist, að hann styggist. En, það kemur veiðimönnum eflaust á óvart hve margt og misjafnt er á ferðinni og flækist um í vatninu að öllu jöfnu. Gróður og gróðurleifar, aðskotahlutir sem fokið hafa út í vatnið og að ógleymdum skuggum þess sem flýtur á yfirborðinu. Allt þetta og fleira til er líklegra til að skjóta fiskinum skelk í bringu heldur en taumurinn. Eitt er það þó sem styggir fisk, meira að segja þann ódauðlega sem hefur náð meira en 1 metra og það er allt sem getur orðið honum skeinuhætt og erfðir hans hafa kennt honum að varast, m.a. maðurinn eða réttara sagt; fótatak hans og skuggi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Lína og lína?

    8. júlí 2021
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég hef í nokkur ár átt mér uppáhalds flugulínu en eftir síðasta sumar var deginum ljósara að dagar hennar voru taldir þannig að ný flotlína fór á jólaóskalistann minn. Þessi lína hefur hentað mér og aðal stönginni minni alveg ágætlega en svo gerðist það að ég keypti mér nýja stöng sem aðal stöng. Báðar eru þær #7, sú gamla 9,6 fet en sú nýja 10 fet, en í því liggur ekki helsti munur þeirra. Sú nýja er stífari, töluvert stífari og gerir þar af leiðandi kröfu til allt annarrar línu. Uppáhalds flotlínan mín var viðeigandi lína #7 og 185 grains en það vantaði alla hleðslu í nýju stöngina mína og ég var endalaust að falskasta til að ná einhverri lengd í köstin.

    Ég hnippti því í kunningja mína og fékk að prófa aðrar línur af stærð #7. Viljandi spurði ég ekkert nánar út í þessar línur, smellti þeim bara á nýju stöngina mína og prófaði hverja á fætur annarri. Það voru tvær línur sem mér fannst passa stönginni, en þær voru mjög ólíkar. Önnur var með tiltölulega stuttum þungum haus og kostaði hreint og beint smáaura og þar sem ég sá strax fyrir mér nokkrar aðstæður þar sem hún mundi henta mér, þá festi ég kaup á henni. Eftir töluvert grúsk, vigtun og útreikninga, fann ég út úr því að hún var 192 grains, sem sagt aðeins þyngri heldur en gamla uppáhalds línan mín. Þar sem haus línunnar er óvanalega langt fyrir aftan fremsta part hennar, þ.e. línan frá haus og út að enda var mjög löng.

    Hin línan sem smellpassaði stönginni var allt öðrum eiginleikum búinn, samt með áberandi skothaus og hagaði sér allt öðruvísi þegar hún hlóð stöngina enda kom á daginn að hún var 215 grains, sem er aðeins þyngra heldur en ‚standard‘ lína #7 ætti að vera að hámarki. Ég féll svolítið flatur fyrir þessari línu og þegar mér hafði tekist að draga annað augað í pung, þá var verðmunur þeirra ekki alveg eins rosalegur og ég ákvað að kaupa þær báðar.

    Lærdómurinn af þessu gaufi mínu? Jú, lína #7 og lína #7 er alls ekki sama línan og maður á ekki að hika við að prófa þær nokkrar á móti tiltekinni stöng.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 … 10
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar