FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Vatnsendavatn og Vatnsvatn

    9. nóvember 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Þessi vötn hafa um langt skeið verið vagga silungsveiðimanna á höfuðborgarsvæðinu og flestir hafa reynt sig í það minnsta einu sinni á ævinni í þessum vötnum. Fjarlægð þeirra frá Reykjavík og Kópavogi gerir þau að einhverju fjölsóttasta veiðisvæði Íslands, þó eitthvað hafi dregið úr veiði þar hin síðari ár. Hástemmdar lýsingar eins og Háskóli fluguveiðimanna eru eitthvað sem við höfum allir heyrt og fiskurinn sagður með eindæmum kræsinn á flugur og framsetningu þeirra. Já, þessi vötn heita í dag Elliðavatn og er 2 ferkílómetrar að stærð en fyrir miðlunarstíflu Elliðaárvirkjunar (1926) voru þau tvö og aðeins 60% af núverandi flatarmáli Elliðavatns.

    Kort frá 1880 með viðbót höfundar

    Með því að bera saman kort af svæðinu frá árinu 1880 og stærð vatnsins í dag (rauðar línur) má glögglega sjá hve vatnið hefur stækkað gríðarlega með tilkomu Elliðavatnsstíflunnar árið 1926. Engjarnar sem fóru undir vatn hafa væntanlega auðgað lífríkið í vatninu svo mikið að viðkoma fiskjar hefur margfaldast á skömmum tíma. Því miður er auðgun sem þessi ekki til frambúðar. Að vísu hnignar henni mis hratt eftir vötnum en ýmislegt bendir til að áhrifanna í Elliðavatni sé nú hætt að gæta, raunar fyrir löngu og lífríki vatnsins sé því orðið eins og formæðra þess, Vatnsendavatns og Vatnsvatns fyrir 1926. Í eðli sínu voru þessi vötn lindarvötn með frekar takmarkaðri lífflóru og töluvert hröðum endurnýjunartíma. Mér skilst að einkenni slíkra vatna sé að stofnstærðir fiska séu litlar sem gæti verið skýring á lokaorðum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings í skýrslu sinni Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001; ‘Nokkuð kemur á óvart hve bleikjustofninn er lítill m.v. stærð vatnsins, um 2 tonn eða 10 kg /ha. Tilsamanburðar mældust 48 kg/ha af bleikju í Vífilsstaðavatni með sams konar aðferð 1985.‘

    En það var fleira sem gerðist við stíflun vatnsins. Fuglalífið nánast hrundi, vaðfuglar hurfu og öðrum tegundum fækkaði snarlega. Nokkuð sem hefur ekki reynst afturkræft.

    Elliðavatn og nágrenni í dag

    Fram að stíflun vatnsins rann Bugða óhindrað framhjá og sameinaðist Dimmu sem var náttúrulegt affall Vatnsendavatns. Frá ármótum hétu árnar Elliðaár, í fleirtölu því þær runnu aðskildar að meira eða minna leiti til sjávar í Kollafirði. Það má leiða líkum að því að Bugða/Hólmsá hafi verið sjógeng urriða sem væntanlega hefur lagt leið sína að vori út í hin gjöfula Kollafjörð og snúið aftur feitur og pattaralegur að hausti, upp Elliðaárnar, Bugðu og Hólmsá til hrygningar. Væri þetta raunin í dag væri stutt í sjóbirtinginn fyrir höfuðborgarbúa og við þyrftum lítið að hafa áhyggjur af græðgi hans í bleikju Elliðavatns.

    En það er önnur á sem rennur til Elliðavatns í dag, Suðurá. Það sem við þekkjum sem Helluvatn hefur væntanlega ekki verið neitt annað en ós Suðurár í Vatnsvatn. Ég hef engar heimildir fundið um urriða í Suðurá fyrir tíð miðlunarstíflunnar, en nokkrar sem nefna rígvæna bleikju á þeim slóðum og í systurvötnunum tveimur. Án þess að ég treysti mér til að kveða endanlega upp úr um hvort sú hafi verið raunin þá sýnist mér engu að síður sem nokkur aðskilnaður hafi verið milli urriða og bleikju á þessum slóðum hér áður fyrr. Í það minnsta mun meiri en er í dag.

    Stæðum við í dag frammi fyrir valkostinum að stífla eða ekki stífla þessar perlur í túnfæti höfuðborgarinnar, svona rétt á mörkum byggðar og óbyggðar, yrði valið væntanlega ekki erfitt. Við létum vatnasvæði Heiðmerkur njóta ávinningsins og létum ógert að steypa fyrir affallið. Og hvað stendur svo sem í vegi fyrir því að við hverfum til fortíðar? Eigum við ekki nægt rafmagn sem aflað er með öðru en vatnsafli í dag? Er kannski kominn tími til að feta í fótspor þjóða sem þora að viðurkenna mistök á þessu sviði og fjarlægja nú stíflur fiskvega?

    Vatnsendavatn og Vatnsvatn án stíflu

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nú er lag í Heiðmörk

    6. nóvember 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Persónulega fagna ég því að veiðisvæði Elliðavatns sé komið inn á Veiðikortið, ekki spurning. Þetta svæði er stórt, eitt það stærsta sem silungsveiðimenn komast í á þessu horni landsins; Elliðavatn, Helluvatn og Hólmsá/Bugða sem er 8km í það minnsta og Nátthagavatn. Skv. fréttatilkynningu Veiðikortsins er Suðurá ekki inni á kortinu þannig að ég tel hana ekki með. Kunnugir halda því fram að ásókn í Elliðavatn hafi minkað mikið hin síðari ár og er það miður því sjaldan hefur reynt eins mikið á að veiðimenn jafni út þann mun sem orðið hefur í stofnstærðum bleikju og urriða á svæðinu.

    Skv. skýrslu Jóns Kristjánssonar fiskifræðings frá 2003, Mat á veiðiálagi Elliðavatns 2002 er ‚Álag veiðimanna á stofninn er lítið, sennilega innan við 15% af stofnstærð bleikju og urriða. Áhrif veiðanna á stofninn eru ekki sjáanleg.‘ Í þessari skýrslu og flestum öðrum sem komið hafa fram um Elliðavatn er þess getið að skil veiðiskýrslna séu mjög lélegar og það eitt hamli verulega raunhæfu mati á stofnstærð silungs í vatninu. Ég geri mér vonir um að þetta geti batnað verulega með aðkomu Veiðikortsins að því.

    Gagnrýni í þá átt að ofveiði geti gætt með auknu veiðiálagi er auðveldlega hægt að vísa á bug hvað vötnin varðar. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á meiri veiði urriða á svæðinu, þá er það núna þegar hlutfall bleikju minnkar jafnt og þétt. Samkvæmt skýrslu Jóns Kristjánssonar frá árinu 2003; Veiðar og endurheimtur á merktum silungi í Elliðavatni 2003 þá var stofnstærð urriða í Elliðavatni metin ríflega 25.000 fiskar eða um 74%. Stofnstærð bleikju var metin í besta falli um 9000 fiskar eða um 26%. Í skýrslunni kemur fram að afföll bleikju hafi verið nokkuð stöðug um 30% frá árinu 1971 og á sama tíma hafi stærðarsamsetning hennar staðið nokkuð í stað. Án þess að geta um heildarfjölda silunga, nefnir Guðni Guðbergsson fiskifræðingur í blaðaviðtali árið 2011 að bleikjan sé komin niður í 10% stofnstærðar silungs og urriðinn kominn í 90%. Einfaldur framreikningur m.v. 30% afföll á niðurstöður Jóns frá 2002 styður þessar tölur.

    Á þeim árum sem Orkuveitan ástundaði niðurdrátt vatnshæðar í Elliðavatni beinlínis þurrkaði hún riðsvæði bleikjunnar sem liggja á aðeins 10-50 sm. dýpi og skerti þannig samkeppnisstöðu hennar gagnvart urriðanum sem hélt sínum hrygningar- og uppvaxtarstöðvum óskertum í Hólmsá og Suðurá og styrkti seiðabúskap sinn jafnt og þétt á milli ára. Það liggur síðan í eðli urriðans að leita nýrra fanga þegar lífríki ánna nær vart að fæða hann og er Elliðavatnið hans nærtækasti kostur eftir að niðurgöngu til sjávar var lokað á sínum tíma. Þessi ágangur urriðans er auðvitað á kostnað bleikjunnar og stuðlar enn frekar að fækkun hennar í heildarstofnstærð.

    Eitt af því sem hefur komið fræðingum á óvart hin síðari ár er að Elliðavatn er tiltölulega rýrara af gæðum næringar en áður hefur verið talið sbr. Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001. Ég leyfi mér að efast um að fyrri mælingar/álit manna hafi verið rangar. Þess í stað tel ég að lífríki vatnsins hafi einfaldlega hrakað hin síðari ár. Það er alþekkt að vötn sem verða til eða eru stækkuð út yfir gróið land verða frjósamari töluverðan tíma eftir þessar aðgerðir en hrakar síðan snögglega þegar drekkt gróðurþekjan lætur loks undan og hættir að framleiða t.d. blaðgrænu.

    Öllu þessu til viðbótar hefur nýrnasýking  (PKD) í Elliðavatni herjað meira á bleikjuna heldur en urriðann hin síðari ár skv. skýrslu Þórólfs Árnasonar og Friðþjófs Árnasonar; Elliðaár 2010 Rannsóknir á fiskistofnum vatnakerfisins.

    Stutt samantekt Jóns Kristjánssonar í lok ofangreindrar skýrslu er sláandi ‚Veiðiálag á bleikju er lítið, náttúruleg dánartala er lág, stofninn fremur lítill tölulega séð og viðkoma er lítil. Urriðastofninn er stór, veiðiálag lítið, etv. 10-15 % á ári, heildarafföll virðast mikil , um 60% milli ára, en óvissu háð, margt bendir til þess að hann sé fremur staðbundinn á uppvaxtartíma.‘

    Ofangreint verður allt til þess að Elliðavatn breytist í ‚stórurriðavatn‘ eins og sumir veiðimenn hafa nefnt það. Miðað við þær aðstæður sem við búum silunginum í vatnasviði Heiðmerkur er þetta eðlileg þróun. Við höfum auðvitað valkosti til úrbóta, ef við viljum það á annað borð. Einn þessara kosta er að auka veiði í Elliðavatni, Hólmsá og Suðurá með þeim formerkjum að sleppa skuli bleikju. Með þessu getum við stangveiðimenn stuðlað að jöfnuði í stofnstærðum þó það hafi tæpast úrslitaáhrif þar sem stangveiði í vötnum verður seint afgerandi þáttur í lífríkinu. Annar kostur er stórtækari og verður væntanlega seint áberandi í umfjöllun opinberlega, því miður. Til þess að velta honum upp þurfum við aðeins að skoða Vatnsendavatn og Vatnsvatn sem ég ætla að gera í næsta pistli mínum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vaktaskipti

    12. september 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Við þekkjum mismunandi hegðun fisks í veiðivötnum eftir tíma dags. Hegðun fisksins er að mestu stjórnað af framboði ætis og ef umhverfisþættir hafa stórkostleg áhrif á ætið þá breytist hegðun fisksins. Það dugir jú ekkert að vera í ætisleit þar sem ekkert ætið er.

    Dagleg umhverfing vatns stjórnast mest af þeim svæðum sem grunnfæðu er að finna á. Svifið leitar niður á botninn að deginum til og það sama á því við um þá sem standa því næst í fæðukeðjunni. Smáfiskurinn aftur á móti lætur ekki plata sig niður í dýpið því þar leynast ránfiskarnir, þessir stóru sem éta þá. Þess í stað koma þeir sér fyrir undir steinum eða í gróðrinum og bíða þess að kvöldi og svifið rísi upp úr djúpinu og að yfirborðinu. Þá fara stubbarnir á stjá og …. stóru fiskarnir fylgja á eftir vitandi það að smáfiskurinn er auðveld bráð þar sem hann ber við himinn í vatnsskorpunni, ekki síst ef það er nú stjörnu- eða tunglbjart. En það eru einnig önnur vaktaskipti sem eiga sér stað í vötnunum, þau eru bundin við árstíðirnar. Til að einfalda málið getum við hugsað okkur að skipta vatninu upp í þrjú svæði:

    Dýpið (2,5 – 3m og dýpra) er staðurinn þar sem fiskarnir halda sig á þegar vatnið er enn í vetrarham, kalt og lítið um æti. Síðla sumar heldur fiskurinn sig þarna til að kæla sig og kemur ekki upp fyrr en degi er tekið verulega að halla og vatnshitinn á grynningunum eða við yfirborðið hefur lækkað.

    Mörk dýpis og grynninga er svæðið þar sem meðalhiti vatnsins er hve jafnastur yfir sumartímann. Hingað leitar fiskurinn rétt fyrir hrygningu og rétt eftir hana. Þetta er gjöfult svæði og mikið um æti sem hann nýtir sér óspart í undirbúningi hrygningar og í orkusöfnuninni rétt á eftir.

    Grynningar (0,5 -1m) er staðurinn sem fiskurinn leitar upp á þegar hann fer í hrygningu. Einhver orðaði það sem svo að þegar kynhvötin dregur fiskinn upp á þetta svæði, skeytir hann engu um mögulegar hættur að ofan og við getum nálgast hann mun meira en aðra tíma ársins. Hvort menn vilja svo veiða þennan fisk er undir hverjum og einum komið. Einhverjir hafa orðað það sem svo að ‚greddubragð‘ sé af honum og lítið í hann varið á þessum tíma, aðrir vilja einfaldlega ekki taka á honum fyrr en eftir hrygninguna. Þeir sem ekki vilja leggja í hrygningarbleikjuna geta þá alltaf prófað að veiða aðeins dýpra, t.d. við mörkin því þar bíður urriðinn þess oft að bleikjan hrygni og hann geti sópað í sig þeim hrognum sem fljóta upp úr mölinni.

    Dýptarkort

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hnattræn staða

    6. september 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Við á kúlunni

    Í bloggheimum er þvílíkur urmull greina um stangveiði að það gæti verið full vinna, bara að fylgjast með öllu sem mönnum dettur í hug að setja þar fram. Eins og gengur er ýmislegt misjafnt á ferðinni; sumt gott, annað frábært. Smátt og smátt eignast maður ákveðin goð og tekur meira mark á þeim en öðrum. Margir þessara aðila eru staðsettir vestanhafs, aðrir sunnan miðbaugs eða á meginlandi Evrópu. En einmitt þetta getur grafið ákveðin hund sem lætur síðan á sér kræla þegar minnst varir.

    Við, vegna staðsetningu okkar á kúlunni eru svolítið utan umræðunnar á netinu þegar kemur að umhverfinu, hvort heldur veðri eða náttúru. Úthafsloftslagið okkar er afskaplega frábrugðið loftslagi Mið-Evrópu eða Ameríku. Hér er vindafar allt nokkuð ýktara og snaggaralegra heldur en á fyrrgreindum slóðum og við getum því lítið nýtt okkur lýsingar á áhrifum mismunandi árstíða á hegðun fiskjar í vötnum. Hér verður yfirborð vatna oftar fyrir áhrifum vinds heldur en á meginlöndunum og í flestum tilfellum eru áhrifin hér stórækari heldur en þar. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við lesum náttúrutengd blogg sem ættuð eru frá Ameríku eða Mið-Evrópu. Helst getum við leitað samsvörunar við Íra og Skota þegar kemur að slíkum greinum, þar er veðurfar ekki ósvipað okkar, sérstaklega þá vesturstrandar Írlands.

    Hnattræn staða okkar virðist því miður ekki hafa nein áhrif á það að við færumst alltaf nær og nær þörfinni á umhverfisvakningu meðal veiðimanna, líkt og þeirri sem orðið hefur á meginlöndunum. Á meðan ábyrgir veiðimenn beggja vegna okkar ganga fram í broddi fylkinga sem berjast fyrir niðurrifi alls þess sem heftir eðlilega framrás vatns og þar með fiskjar, höldum við áfram að leggja steina í götu silunga- og laxastofna okkar. Við stíflum ár, eyðum náttúrulegum búsetusvæðum þeirra með leðjufullum uppistöðulónum og leikum okkur með vatnshæð stöðuvatna til að skammta eða ausa vatni í uppræktaðar veiðiár. Já, það þýðir lítið að setja fram gagnrýni á aðra og vera sjálfur hálf blindaður af bjálka umhverfissóðans sem fastur er í öðru auga manns. Það er synd og skömm að við virðumst þurfa að ganga sömu leið og þjóðirnar vestan- og austanmegin okkar áður en við vöknum til meðvitundar um að sumar framkvæmdir okkar eru óafturkræfar. Við erum ein fárra þjóða sem enn eru í þeirri einstöku aðstöðu að geta forðast mistök í stað þess að vera í þeim ömurlegu sporum að reyna í sífellu að leiðrétta þau. Þessi staða og sú sem við erum í á kúlunni er dýrmæt, nýtum hana.

    Nokkrir tenglar

    Stíflur rifnar niður í Bandaríkjunum Kostnaður við að fjarlægja stíflur oft ekki tekinn með Fyrirlestur prófessors Margaret J. Filardo 2011 Yfirlit yfir endurheimt áa í US

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vindátt

    3. september 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Ríkjandi vindátt

    Ríkjandi vindáttir á Íslandi eru norð- og norðaustlægar áttir. Þetta þýðir auðvitað ekki að aðrar vindáttir séu ekki inni í myndinni enda þekkja veiðimenn það afskaplega vel að vindurinn blæs stundum úr öllum áttum og í einum veiðitúr er ekki óalgengt að verða fyrir gusti úr öllum áttum. Það sem hefur afgerandi áhrif á vindáttir og viðsnúning þeirra er auðvitað sú staðreynd að við erum eyland, lengst úti í Atlantshafi og flest allt undirlendi okkar er í svo mikilli nánd við sjóinn að viðsnúnings hafgolu í landátt gætir víðast.

    Á flestum stöðum er mestur meðalvindur á milli kl.16 og 18 dag hvern. Tímabilið á milli 20 og 22 er hve mestur munur á vindi og logni, þ.e. vind lægir mest á þessu tímabili sólarhringsins. Undir kringumstæðum getur vindur síðan aukist aftur upp úr kl.22 eða lægt enn frekar en þá mun rólegar. Kyrrast er á milli kl.4 og 6 að sumarlagi, nánast alltaf logn.

    Á þeim tíma sem við erum flestir á stjái, þ.e. veiðimenn að sumri til, hitnar yfirborð landsins meira heldur en sjávar og því skellur á okkur hafgola þegar heitt loftið stígur upp yfir landinu og kalt loftið leitar inn utan af sjó. Þegar þessi mishitun lands og sjávar snýst síðan við að nóttu til snýr hann sér í landátt eins og við þekkjum. Þessi viðsnúningur á sér einmitt gjarnan stað snemma morguns (4 – 6) og við upplyfum þessa dásamlegu kyrrð í náttúrunni. Hafgolan nær að sama skapi hámarki rétt um kl.17 (16-18).

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Grynningar að vori

    21. mars 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Vorflugulirfur

    Þessar kistur matar eru oft fyrstar til á vorin. Grunnt vatnið hlýnar fyrr og fiskurinn leitar þangað upp úr djúpinu til að ylja sér og leita fæðu. Það sem gerir grynningarnar að þessari matarkistu er auðvitað sólarljósið sem hleypir gróðrinum af stað og þar með dýralífinu. Þetta eru slóðirnar þar sem skordýrin klekjast.

    Við þekkjum fengsæla staði í vötnunum snemma morguns og síðla kvölds en málið er ekki endilega svona einfalt á vorinn. Ljósaskiptin eru ekki fyrsti kostur silungs í fæðuleit að vori. Vatnið er einfaldlega of kalt á þessum tíma sólarhrings. Nær lægi væri að leita fiskjar milli hádegis og seinna kaffi. Þá hefur veik vorsólin náð að ylja vatnið aðeins á grynningunum og laðað fiskinn til sín. Fram að þeim tíma er vatnið jafnvel hlýrra úti í dýpinu svo fiskurinn er lítið á ferðinni. Sólin er sjaldnast það sterk snemma vors að silungurinn fái glýju í augun eins og hann gerir gjarnan á miðju sumri.

    Eins má alltaf reyna fyrir sér úti í dýpinu og laða fiskinn með einhverri glepju upp á grynningarnar, það getur oft færst fjör í fiskinn þegar hann finnur að vatnið er hlýrra þar sem flugan er.

    Ummæli

    Hörður : Góðir punktar. flott blogg hjá þér líka.

     kv, Hörður

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 10 11 12 13 14
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar