
Í bloggheimum er þvílíkur urmull greina um stangveiði að það gæti verið full vinna, bara að fylgjast með öllu sem mönnum dettur í hug að setja þar fram. Eins og gengur er ýmislegt misjafnt á ferðinni; sumt gott, annað frábært. Smátt og smátt eignast maður ákveðin goð og tekur meira mark á þeim en öðrum. Margir þessara aðila eru staðsettir vestanhafs, aðrir sunnan miðbaugs eða á meginlandi Evrópu. En einmitt þetta getur grafið ákveðin hund sem lætur síðan á sér kræla þegar minnst varir.
Við, vegna staðsetningu okkar á kúlunni eru svolítið utan umræðunnar á netinu þegar kemur að umhverfinu, hvort heldur veðri eða náttúru. Úthafsloftslagið okkar er afskaplega frábrugðið loftslagi Mið-Evrópu eða Ameríku. Hér er vindafar allt nokkuð ýktara og snaggaralegra heldur en á fyrrgreindum slóðum og við getum því lítið nýtt okkur lýsingar á áhrifum mismunandi árstíða á hegðun fiskjar í vötnum. Hér verður yfirborð vatna oftar fyrir áhrifum vinds heldur en á meginlöndunum og í flestum tilfellum eru áhrifin hér stórækari heldur en þar. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við lesum náttúrutengd blogg sem ættuð eru frá Ameríku eða Mið-Evrópu. Helst getum við leitað samsvörunar við Íra og Skota þegar kemur að slíkum greinum, þar er veðurfar ekki ósvipað okkar, sérstaklega þá vesturstrandar Írlands.
Hnattræn staða okkar virðist því miður ekki hafa nein áhrif á það að við færumst alltaf nær og nær þörfinni á umhverfisvakningu meðal veiðimanna, líkt og þeirri sem orðið hefur á meginlöndunum. Á meðan ábyrgir veiðimenn beggja vegna okkar ganga fram í broddi fylkinga sem berjast fyrir niðurrifi alls þess sem heftir eðlilega framrás vatns og þar með fiskjar, höldum við áfram að leggja steina í götu silunga- og laxastofna okkar. Við stíflum ár, eyðum náttúrulegum búsetusvæðum þeirra með leðjufullum uppistöðulónum og leikum okkur með vatnshæð stöðuvatna til að skammta eða ausa vatni í uppræktaðar veiðiár. Já, það þýðir lítið að setja fram gagnrýni á aðra og vera sjálfur hálf blindaður af bjálka umhverfissóðans sem fastur er í öðru auga manns. Það er synd og skömm að við virðumst þurfa að ganga sömu leið og þjóðirnar vestan- og austanmegin okkar áður en við vöknum til meðvitundar um að sumar framkvæmdir okkar eru óafturkræfar. Við erum ein fárra þjóða sem enn eru í þeirri einstöku aðstöðu að geta forðast mistök í stað þess að vera í þeim ömurlegu sporum að reyna í sífellu að leiðrétta þau. Þessi staða og sú sem við erum í á kúlunni er dýrmæt, nýtum hana.
Nokkrir tenglar
Stíflur rifnar niður í Bandaríkjunum | Kostnaður við að fjarlægja stíflur oft ekki tekinn með | Fyrirlestur prófessors Margaret J. Filardo 2011 | Yfirlit yfir endurheimt áa í US |
Senda ábendingu