Haustið

Það ber kannski í bakkafullan lækinn að nefna kólnandi veður að hausti, en það er eins og virkni veiðimanna minnki í beinu hlutfalli við lækkandi hitastig. Undantekning frá þessu eru auðvitað þeir sem renna fyrir sjóbirting að hausti eins og vinur minn Brynjar Örn sem fór í Eldvatnsbotna þann 17.sept. Það hefur örugglega verið skemmtileg barátta að eiga við svona tröll sem tekur fluguna í tunguna og leggst þungt í botninn. En það ætti að vera fleira í boði en birtingur. Ég hef áður nefnt að hin annars ágæta uppfinning okkar, dagatalið er ekki eitthvað sem náttúran tekur mark á og því oft á tíðum engin ástæða til að við sleppum takinu alveg strax af stönginni. Þó veiðitímabilinu ljúki í helstu vötnunum okkar rétt fyrir eða um mánaðarmótin sept. – okt. þá getur haustveiði í vötnum verið afskaplega skemmtileg ef veður og náttúran almennt leyfir.

Brynjar Örn með 14,5 punda sjóbirting úr Eldvatnsbotnum 17.sept. sem tók rauða Frances eins og fleiri birtingar þetta haustið, glæsilegur fiskur.

Nokkur þeirra vatna sem eru opin ‚lengur‘ eru t.d. Kringluvatn í S-Þingeyjarsýslu, Sauðlauksdalsvatn við Patró., Urriðavatn við Egilsstaði og Víkurflóð við Kirkjubæjarklaustur og eru þá aðeins talin þau vötn sem finna má á Veiðikortinu. Fjöldi annarra vatna, vítt og breytt um landið eru vel veiðanleg langt fram eftir hausti og víða hafa menn komist inn á gafl hjá landeigendum sem heimila veiði lengur en gerist og gengur.

En hvað er það sem gerist á haustin sem kveikir svo í veiðinni að sumir beinlínis bíða af sér sumarið til að komast í haustveiði? Aðallega er það þrennt sem kveikir í veiðimönnum á haustin. Fyrst af öllu þá kólnar vatnið auðvitað með lækkandi lofthita og það virkar eins og hvati fyrir kulsækin fisk til að fara meira á stjá. Annar hvati til haustveiða er auðvitað styttri dagur, það líður styttra á milli ljósaskipta sem eins og kunnugt er hafa ótrúleg áhrif á hegðunarmynstur silungsins. Síðast en ekki síst, þá tekur silungurinn eftir því að vetur er í nánd og sækir stíft í fæðu til að byggja sér fituforða og virkar því afar grimmur á haustin. Þetta á ekki hvað síst við um fisk sem lokið hefur hrygningu, tímabili þar sem hann gefur fæðunni lítinn gaum enda ýmislegt annað að gera en éta á sig gat. Víða erlendis er gert hlé á vatnaveiði rétt fyrir og á meðan á hrygningu stendur, en síðan tekið til við veiði aftur og hún stunduð svo lengi sem veður leyfir. Kannski það sé eitthvað sem huga megi að hér á Íslandi í stað þess að skrúfa fyrir veiðar skv. dagatalinu. Haustferð út í kyrrláta náttúruna getur bætt ótrúlega mörgum dögum við annars stutt sumar okkar hérna á skerinu.

Hækkun Hlíðarvatns

Með aukinni umhverfisvitund hin síðari ár hafa menn leitt hugann í alvöru að því hvaða áhrif sveiflur í vatnshæð hefur á viðkomu silungs og þá sér í lagi bleikju. Sveiflur í stærð og fjölda bleikju hafa alltaf verið þekktar og hafa menn hingað til tengt þessar sveiflur veðráttu og þá sér í lagi sumar- og vetrarúrkomu. Innan um þessa alþýðuspekinga hefur alltaf leynst einn og einn sem hefur þorað að minnast á hlut okkar mannanna í þessum sveiflum. Nú nýverið átti ég smá spjall við staðkunnuga við Hlíðarvatn í Selvogi um þann brest sem varð í aflabrögðum í sumar (e.t.v. þegar í fyrrasumar). Mér þótti nokkuð djúpt í árina tekið þegar 14 sm. hækkun yfirborðsins var kennt um hvarf bleikjunnar, trúði því einfaldlega ekki að slík smá hækkun gæti haft veruleg áhrif. En viti menn, við nánari skoðun fann ég nokkrar umfjallanir sem studdu þetta álit manna. Má þar nefna mjög góðar greinar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings á www.fiski.com

Margt fróðlegt kom fram í þessum greinum, m.a. sú staðreynd að kjör- riðstöðvar bleikjunnar eru á dýpi frá 15 og að 50 sm. Sveiflur, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar frá meðaldýpt hlýtur að hafa veruleg áhrif á klak og uppvöxt seiða. Raunar sýna rannsóknir Jóns á Hlíðarvatni frá árunum ´73 – ´92 umtalsverða hnignun í vexti bleikjunnar þegar á þessum árum. Sem dæmi má nefna að meðallengd 4.ára bleikju var tæplega 32 sm. árið 1973 en fór niður í ríflega 25 sm. í síðustu mælingum árið 1992 ásamt því að veruleg aukning varð í smávöxnum, ókynþroska fiski í vatninu. Maður veltir því fyrir sér hvenær vendipunkturinn verður þegar smávaxin ókynþroska fiskur verður það liðmargur að hann étur kynþroska fiskinn út á gaddinn og engin nýliðun verður í stofninum, hvað þá þegar kjörlendi bleikjuhrygningar er sökkt um 14 sm.

Væntanlega á fiskurinn nóg með náttúrulegar sveiflur í vötnum, þótt við mennirnir bætum ekki um betur og leikum okkur að stíflugerð náttúrulegra stöðuvatna á Íslandi. Myndun stöðuvatna eða not þeirra til vatnsmiðlunar hefur ekki aðeins áhrif á það land sem sökkt er heldur einnig það lífríki sem er fyrir í þeim. Við höfum áhrif á fleira en það sem augað sér.

Fæðuvandamál

John Hurt sem Fílamaðurinn

Mýflugan er undirstöðufæða silungsins. Ég virðist vera ein af undirstöðufæðu mýflugunnar eða þannig leið mér í það minnsta eftir ferð upp að Úlfljótsvatni um daginn. Hefði endurgerð Fílamannsins verið á döfinni hefði ég örugglega komið sterklega til greina sem staðgengill John Hurt í aðalhlutverkið, slíkar voru bólgurnar sem tóku sig upp hjá mér eftir ferðina. Í gegnum tíðina hafa ýmiss húsráð orðið til gegn og fyrir meðhöndlun flugnabits. Hér eru nokkur dæmi:

  • B-vítamín: Ráðlagður dagskammtur skv. framleiðanda af B1 og/eða B6 er sagður draga fram ákveðinn ilm á hörundi sem á að fæla mýið frá.
  • Mentol: Margir mæla með kremi eða áburði sem inniheldur hátt hlutfall af mentol eða eucalyptus til þess að fæla flugur frá. Að sögn þarf ekki að bera á alla óvarða húð, vel dugar að setja eina og eina doppu hér og þar. Þekkt vörumerki; Tiger Balm, Vick‘s VapoRup, Deep Heat.
  • Betametason: Er virkt efni í fjölda krema og smyrsla sem ávísað er gegn bólgu- og ofnæmissjúkdómum, flest lyfseðilskyld á Íslandi en ferðamenn þekkja e.t.v. Calestoderm-V sem hægt er að kaup án lyfseðils erlendis. Krem sem innihalda betametasón eru sögð prýðis fróun eftir skordýrabit.
  • Sítrus ávextir: Sumir drekka mikið af fersku límónu- eða sítrónuvatni fyrir veiðiferðir og fullyrða að það dragi verulega úr ásókn flugu. Aðrir beinlínis rjóða andlit og hendur með límónu og segja það dugi mun betur.
  • Sítrónugras: Ekki bara krydd, heldur líka áburður eða kalt seiði til að bera á sig og/eða úða á föt og annan búnað til varnar flugu.
  • Myrta (Brúðarlauf / Bog Myrtle): Notað sem virkt efni í náttúrukremum sem menn rjóða á hendur og andlit til að stugga við mýflugum. Skotar hafa notað krem og olíur úr þessari jurt í margar aldir til þessara nota.
  • Tea Tree olía: Ilmkjarnaolía sem dregur úr ertingu eftir skordýrabit. Fyrirbyggjandi virkni ekki þekkt.
  • Neem olía: Krem og smyrsl sem innihalda þessa olíu eru talin halda skordýrum frá mönnum. Um er að ræða nokkrar vörur sem fundist gætu í verslunum hér á landi.
  • Hvítlaukur: Nokkuð stíf inntaka hvítlaukstaflna (1200 mg/dag) eða át hvítlauks fyrir veiðiferðir er talið draga verulega úr ásókn mýflugu. Svo er bara spurning hvort veiðifélagar fælist ekki líka.

Hvort eitthvað af þessu virkar er svo allt önnur saga, kannski eru þetta bara allt kerlingarbækur eins og ráð við kvefi. Öll notkun krema og olíu ætti samt að vera í hóf stillt, ekki viljum við smita lykt á veiðibúnað þannig að fiskurinn fælist. Eitt ráð að lokum; ekki nota ilmvatn eða rakspíra þegar þið haldið til veiða. Ólíkt fiskinum þá fælast flugur ekki slíka lykt, heldur þvert á móti.

Dagatal

Eins og tíðarfarið hefur verið upp á síðkastið þá sækir á mann nokkurs konar haust ró. Mannskepnan er þannig úr garði gerð að við hægjum ósjálfrátt á okkur þegar fer að hausta, leggjum frá okkur ákveðin verkfæri sem tekin voru fram síðasta vor (kannski aðeins of snemma) og búumst undir veturinn. Þetta á alls ekki við um silunginn. Þegar sumri fer að halla, ef það þá hefur komið yfir höfuð, tekur fiskurinn til við að fita sig fyrir veturinn. Oftast tekur fiskurinn kipp í áti rétt áður en hann fer í hrygningu, safnar forða sem hann viðheldur svo eins lengi fram eftir hausti og unnt er. Þessi áttími silungsins er oft gjöfulasti tími silungsveiðimannsins, hann tekur grimmt, nánast hvað sem er. Eitt af því sem getur truflað silungsveiðimanninn á þessum tíma er; dagatalið. Við fundum upp dagatalið og fylgjum því nokkuð stíft, kannski of stíft. Fiskurinn á sér ekkert dagatal annað en náttúruna. Ef náttúran seinkar sér eitthvert sumarið (eins og núna) þá færist dagatal hans til sem seinkuninni nemur, hann vaknar síðar til lífsins og safnar forða síðar á sumrinu, eða því sem næst. Látum ekki deigan síga og spáum alvarlega í að nýta sumarið í að prjóna okkur ullarvettlinga fyrir haustið, það getur orðið fjörugt.

Tunglið

Ég heyrði í útvarpinu um daginn að tunglið væri að fjarlægjast okkur um 4 sentímetra á ári. Það er ekki nóg með að sumarið hefur yfirgefið okkur heldur er tunglið að gera það líka. Hvoru tveggja eru slæmar fréttir því þegar þetta tvennt fer saman, sumarblíða og fullt tungl þá er virkilega von á skemmtilegri veiði. Þannig er að aðdráttarafl tunglsins hefur áhrif á fisk í vötnum og sjó þannig að þeir leita meira upp á yfirborðið og þá sérstaklega ef aðeins er tekið að rökkva og fullt tunglið nýtur sín á himninum. Í dag, 30.júní fæðist nýtt tungl og það verður orðið fullt aðfararnótt 15.júlí og því e.t.v. ekki úr vegi að taka seinni vaktina þann 14. og vaka aðeins lengur eða taka næst besta kostinn og vaka með fiskinum aðfararnótt laugardagsins 16.

Umhverfing

Smellið fyrir stærri mynd

Hér sunnan heiða hafa flest vötn á láglendinu rutt af sér ís og einn og einn veiðimaður hefur sést á vappi í grennd við þau. Færri sögum fer af aflabrögðum, sem stendur þó mögulega til bóta um leið og lofthitinn heldur áfram að hækka því samhliða hlýna vötnin og fiskurinn fer á kreik. Þegar vötnin umhverfast (enska: turnover / overturn), þ.e. þegar kalt, súrefnisríkt yfirborðsvatn sekkur og heitara vatn af dýpinu leitar upp á við, tekur líkamsstarfsemi silungsins stökk. Ef mönnum þykir til græðgi silungsins koma þegar ísa leysir, þá ættu menn að renna fyrir silunginn u.þ.b. viku til hálfum mánuði síðar. Þá eru töluverðar líkur á að umhverfing vatnsins sé í gangi og fiskurinn nánast fer hamförum þegar súrefnisstig vatnsbolsins jafnast og hitinn hækkar. Það verður síðan alltaf álitamál manna í millum hvort réttlætanlegt sé að stunda veiðar fyrir og á meðan á þessu tímabili stendur. Sumir vilja gefa fiskinum næði til að ná kröftum og fita sig þessar fyrstu vikur vorsins, aðrir geta ekki beðið. Vissulega er fiskurinn frekar rýr eftir veturlanga kyrrstöðu og orkusparnað og ekki er mikill matur í honum. En þá má líka stunda veiða og sleppa, sú köllun á ekki aðeins við laxveiðimenn.

Það er engin ein regla fyrir því undir hvaða kringumstæðum vatn umhverfist. Þumalputtareglan gæti verið eitthvað á þá leið að þegar yfirborðshiti vatnsins fer yfir hita þess á botninum getur allt gerst. Rétt um það bil sem ísa leysir er yfirborðshitinn á bilinu 0-1°C á meðan botnhitinn er nær 4°C og má því vænta umhverfingar þegar yfirborðshitinn hefur hækkað um 3°C. En það er fleira sem hefur áhrif á umhverfingu. Vindur, dýpt vatns og flatarmál þess eru miklir áhrifavaldar. Og það eru alls ekki öll vötn sem umhverfast. Grunn vötn og tjarnir verða síst til þess að umhverfast, þau hitna nokkuð jafnt yfir að vori.

Ég hef verið að fylgjast með hitastigi tveggja ólíkra vatna síðustu vikur og reynt að ráða í það hvenær þau umhverfast. Úthverfatjörn Reykvíkinga, Elliðavatnið varð íslaust að mestu upp úr miðjum mars og hitastig þess komst fljótlega upp fyrir 1°C (1,6°C þann 18.mars) og reis jafnt og þétt upp í 3,5°C þann 30.mars, en þá féll það snögglega um rúma 1°C á innan við sólarhring. Kannski er það engin tilviljun að menn ætli ekki að opna vatnið fyrr en 20.apríl? Hitt vatnið sem ég hef fylgst með, Skorradalsvatn er enn ekki íslaust nema að litlu leiti. Hitastig þess þann 18.mars var rétt um 0,5°C en með bráðnun hafði það hækkað upp í 1,6°C þann 30.mars. Miðað við ofangreinda þumalputtareglu má geta sér til um að enn sé nokkur tími í að þessi vötn umhverfist og silungurinn fari virkilega á stjá. Áhugasamir geta fylgst með þessum vötnum hér; Elliðavatn Skorradalsvatn eða landinu öllu.