Með aukinni umhverfisvitund hin síðari ár hafa menn leitt hugann í alvöru að því hvaða áhrif sveiflur í vatnshæð hefur á viðkomu silungs og þá sér í lagi bleikju. Sveiflur í stærð og fjölda bleikju hafa alltaf verið þekktar og hafa menn hingað til tengt þessar sveiflur veðráttu og þá sér í lagi sumar- og vetrarúrkomu. Innan um þessa alþýðuspekinga hefur alltaf leynst einn og einn sem hefur þorað að minnast á hlut okkar mannanna í þessum sveiflum. Nú nýverið átti ég smá spjall við staðkunnuga við Hlíðarvatn í Selvogi um þann brest sem varð í aflabrögðum í sumar (e.t.v. þegar í fyrrasumar). Mér þótti nokkuð djúpt í árina tekið þegar 14 sm. hækkun yfirborðsins var kennt um hvarf bleikjunnar, trúði því einfaldlega ekki að slík smá hækkun gæti haft veruleg áhrif. En viti menn, við nánari skoðun fann ég nokkrar umfjallanir sem studdu þetta álit manna. Má þar nefna mjög góðar greinar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings á www.fiski.com
Margt fróðlegt kom fram í þessum greinum, m.a. sú staðreynd að kjör- riðstöðvar bleikjunnar eru á dýpi frá 15 og að 50 sm. Sveiflur, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar frá meðaldýpt hlýtur að hafa veruleg áhrif á klak og uppvöxt seiða. Raunar sýna rannsóknir Jóns á Hlíðarvatni frá árunum ´73 – ´92 umtalsverða hnignun í vexti bleikjunnar þegar á þessum árum. Sem dæmi má nefna að meðallengd 4.ára bleikju var tæplega 32 sm. árið 1973 en fór niður í ríflega 25 sm. í síðustu mælingum árið 1992 ásamt því að veruleg aukning varð í smávöxnum, ókynþroska fiski í vatninu. Maður veltir því fyrir sér hvenær vendipunkturinn verður þegar smávaxin ókynþroska fiskur verður það liðmargur að hann étur kynþroska fiskinn út á gaddinn og engin nýliðun verður í stofninum, hvað þá þegar kjörlendi bleikjuhrygningar er sökkt um 14 sm.
Væntanlega á fiskurinn nóg með náttúrulegar sveiflur í vötnum, þótt við mennirnir bætum ekki um betur og leikum okkur að stíflugerð náttúrulegra stöðuvatna á Íslandi. Myndun stöðuvatna eða not þeirra til vatnsmiðlunar hefur ekki aðeins áhrif á það land sem sökkt er heldur einnig það lífríki sem er fyrir í þeim. Við höfum áhrif á fleira en það sem augað sér.