Kafað í hegðun silungsins II

Þú missir af fjölda fiska

Einn besti leiðsögumaður í Colorado, Jeremy Hyatt prófaði púpuveiði með tökuvara. Ég sá hvar fiskurinn sogaði púpuna upp í sig og spítti henni aftur út úr sér eins og sólblómafræi. Hyatt sá aldrei hreyfingu á tökuvaranum, hvað þá að hann fyndi tökuna sjálfa. Hið fullkomna ‚dauða rek‘ þar sem púpan flýtur í vatninu án nokkurra áhrifa frá línu eða taum varð til þess að fleiri fiskar tóku en mistökum fjölgaði vegna slakans á línunni. Jafnvel bestu veiðimenn missa af meira en helmingi allra taka.

Upp á grínið fékk ég félaga minn, Antony Bartkowski til að kasta alveg skv. bókinni, vippa eftir kúnstarinnar reglum, en telja síðan aðeins upp að þremur og reisa þá stöngina eins og hann hefði fengið töku. Og viti menn, hann veiddi nokkra urriða með þessum hætti. Næst prófuðum við afbrigði af evrópskri púpuveiði. Veiðimaðurinn notar mikið þyngdar púpur, kastar beint upp í strauminn og beinlínis dregur fluguna niður ánna. Ég sá færri tökur, en veiddum fiskum fjölgaði.

Hvor er þá betri; brúnn eða bleikur? Góð málamiðlun væri að geta notað dautt rek, en með meiri tilfinningu fyrir ör-tökunum sem venjulega fara framhjá okkur.

Kirk Deeter

Kirk Deeter er ekki aðeins ritstjóri Field & Stream heldur og prýðilegur rithöfundur. Ein mest umtala handbók veiðimanna hin síðari ár The Little Red Book of Fly Fishing sem hann skrifaði í samvinnu við Charlie Meyers hefur vermt toppinn á öllum helstu vinsældalistum veiðimanna frá því hún kom út á síðasta ári, skildulesning veiðimanna.

Kafað í hegðun silungsins I

Einhver besta grein sem ég hef rekist á um hegðun silungs undir áreiti veiðimanns birtist í tímaritinu Field & Stream árið 2007. Höfundur greinarinnar, ritstjórinn Kirk Deeter ásamt félögum sínum tók sig til og kannaði í eins mikilli nálægð og unnt var, hvernig silungurinn hagar sér í vatninu á meðan við stöndum á bakkanum og reynum að fanga hann á flugurnar okkar. Svo frábærar fundust mér þessar greinar að ég setti mig í samband við Kirk og fékk leyfi hans til að þýða greinina og birta hér á blogginu hjá mér. Afraksturinn birtist hér og svo næstu 9 vikur.

„Ég er 6 feta árásargjarn urriði, lúri við botninn í South Platter ánni í Colorado. Vatnið er frábært, ekki of mikið og ekki of lítið, 9°C og silfurtært. Ég held kyrru fyrir með hinum silungunum og fylgist með pöddunum fljóta hjá. Eina þeirra rekur framhjá rétt við hausinn á mér. Ég sný mér til að virða hana betur fyrir mér og….. húkkaður. Ég syndi upp að yfirborðinu og hræki út úr mér agninu. „Fjárinn Bruce, þú kræktir í mig aftur.“ Ég er að kanna hvernig silungurinn hagar sér og hvað hann gerir undir yfirborði árinnar. Og besta leiðin til að komast að þessu er, held ég, að taka á mig líki fisksins þannig að ég tók fram köfunargræjurnar og stökk útí. Þetta er það sem ég lærði:“

Falsköst rústa veiðinni

Mér tókst að renna mér út í strauminn án þess að styggja einn einasta silung. Þér létu sig loftbólurnar engu skipta, svo fremi ég hreyfði mig rólega. En um leið og Tom Romano ljósmyndari færði myndavélabómuna, jafnvel hægt og rólega yfir vatnsfletinum, þá hörfuðu fiskarnir í angist. Á einum tímapunkti bar skugga á vatnsflötinn og ég horfði á fiskana sökkva sér niður á milli steinanna á botninum. Þegar ég kom upp á yfirborðið spurði ég hvað hefði komið fyrir og strákarnir sögðu mér að bláhegri hefði flogið yfir ánna.

Þessu til áréttingar fylgdist ég með félaga mínum, Bruce Mardick taka nokkur falsköst yfir fiskinum. Þegar hann slæmdi línunni fram og til baka, beinlínis trylltust silungarnir og földu sig undir gagnstæðum bakka árinnar. Eftir að hafa leyft fiskinum að jafna sig, byrjaði hann aftur en nú með færri falsköstum, jafnvel veltiköstum sem ekki virtust fæla fiskinn. Niðurstaða: þú færð séns á einu, kannski tveimur falsköstum áður en fiskurinn verður var við þig. Reyndu að halda köstunum aftan við eða til hliðar við fiskinn, leyfðu aðeins síðasta falskastinu að beinast að fiskinum sjálfum.

Kirk Deeter

Þess má síðan geta að þeir félagar, Kirk Deeter og Tom Romano ritstýra einnig veftímaritinu Angling Trade þar sem finna má ýmsar ágætis greinar, alveg þess vert að gerast áskrifandi, ókeypis.

Vísindaveiði – 16.okt.

50sm hængur, tæp 2 pund

Það er lengi von á einum, miður október og enn gefa vötnin. Við hjónin brugðum okkur rétt út fyrir bæjarmörkin í ónefnt vatn eftir hádegið í dag. Lofthiti aðeins um 3°C, stinningskaldi en vatnið langt því frá farið að kólna neitt að ráði. Urðum fljótlega vör við, og þótti miður, að alveg nýverið hefðu veiðimenn verið á ferð og ekki hirt um að urða eða taka með sér slóg úr í það minnsta fjórum fiskum. En hvað um það, ferðin var farin í þeirri trú að enn væri urriði á ferð og það reyndist rétt. Fljótlega setti ég í einn um pundið með bústnum Peacock en sá slapp með ótrúlegri sporðatækni og hnykkjum. Beið ekki boðanna, þóttist reikna út hvert hann hafði stefnt þegar hann losnaði og smellti á reitinn. En þá var annar mættur á staðinn, tæp tvö pund sem lék svipaðar kúnstir á sporðinum en í þetta skiptið var ég viðbúinn og náði að halda strekktu í honum þar til hann var kominn á land, glæsilegur fiskur. Leið og beið nokkur stund þar til ég varð aftur var við ágætan fisk á orange Nobbler, en sá tók heldur naumt og slapp.

Hornsíli, kuðungur og lirfur

En hvað er svo fiskurinn að éta þegar svona langt er liðið á haustið? Jú, í stuttu máli alveg nákvæmlega það sama og hann hefur verið að gera í allt sumar; hornsíli, kuðung og …. lirfur. Já, við nákvæma athugun á magainnihaldi komu í ljós 10 hornsíli, slatti af kuðung og nokkrar vorflugulirfur auk auðvitað sands og smásteina. Sem sagt, vatnið enn í fullu fjöri og ekkert sem bendir til að hrygning sé að fara af stað, fiskurinn ekkert að dökkna né dröfnur að stækka. Ætli viðmið okkar beggja, fisksins og mín sé ekki bara náttúran og veðurfarið frekar en dagatalið?

Sveiflur Elliðavatns

Nú er ég alveg gjörsamlega dottin í það, vatnið þ.e.a.s. og velti fyrir mér öllum mögulegum áhrifum sem við getum haft á vötnin okkar og það lífríki sem í þeim þrífst, eða ekki. Þó verulega hafi dregið úr sveiflum vatnshæðar Elliðavatns hin síðari ár, þ.e. Orkuveitan er ekki alveg eins gróf í vatnstöku, þá hafa menn í alvöru bent á að óafturkræf áhrif Elliðavatnsstíflunnar séu orðin og ekkert fái þeim breytt úr þessu. Aðrir benda á að það hafi mikið milda áhrif stíflunnar að hleypa framhjá þegar virkjuninn sé ekki í rekstri. Samhliða almennri hlýnun vatnsins síðustu ár, sem hefur bein áhrif á fiskistofnana, hafa menn ítrekað bent á þá staðreynd að hrygningarstöðvum bleikjunnar fækki ár frá ári og nú sé svo komið að aðeins þeir stærstu séu eftir og bleikjan þjappi sér orðið mjög saman á þessa staði. Grynnri, og nú orðið liðfærri hrygningarstaðir hafa oft og iðulega farið á þurrt á vetrum þegar Orkuveitan hleypti úr vatninu til raforkuframleiðslu. Ekki þurfi að lækka yfirborðið vatnsins nema um 10 sm. til að þessir hrygningarstaðir fari á þurrt, hrygningarstaðir sem að öllu jöfnu ættu að vera bleikjunni meira að skapi þar sem botninn er malarkenndur og gnægð ferskvatns úr lindum sem streyma þar fram. Það hefur einmitt verið á viðkvæmasta árstíma sem mestar sveiflur hafa orðið í vatninu, þ.e. á tímabilinu okt. til maí þegar raforkuframleiðslan hefur verið í gangi. Öfugt á við okkur mennina, þá veit bleikja ekkert um það að hrygningarstaðurinn sem hún velur sér í nóvember stendur orðið á þurru í lok janúar. Það er dýrar rafmagnið okkar Reykvíkinga heldur en marga grunar og virkjanir OR hafa víðar haft áhrif heldur en í Grafningnum.

Haustið

Það ber kannski í bakkafullan lækinn að nefna kólnandi veður að hausti, en það er eins og virkni veiðimanna minnki í beinu hlutfalli við lækkandi hitastig. Undantekning frá þessu eru auðvitað þeir sem renna fyrir sjóbirting að hausti eins og vinur minn Brynjar Örn sem fór í Eldvatnsbotna þann 17.sept. Það hefur örugglega verið skemmtileg barátta að eiga við svona tröll sem tekur fluguna í tunguna og leggst þungt í botninn. En það ætti að vera fleira í boði en birtingur. Ég hef áður nefnt að hin annars ágæta uppfinning okkar, dagatalið er ekki eitthvað sem náttúran tekur mark á og því oft á tíðum engin ástæða til að við sleppum takinu alveg strax af stönginni. Þó veiðitímabilinu ljúki í helstu vötnunum okkar rétt fyrir eða um mánaðarmótin sept. – okt. þá getur haustveiði í vötnum verið afskaplega skemmtileg ef veður og náttúran almennt leyfir.

Brynjar Örn með 14,5 punda sjóbirting úr Eldvatnsbotnum 17.sept. sem tók rauða Frances eins og fleiri birtingar þetta haustið, glæsilegur fiskur.

Nokkur þeirra vatna sem eru opin ‚lengur‘ eru t.d. Kringluvatn í S-Þingeyjarsýslu, Sauðlauksdalsvatn við Patró., Urriðavatn við Egilsstaði og Víkurflóð við Kirkjubæjarklaustur og eru þá aðeins talin þau vötn sem finna má á Veiðikortinu. Fjöldi annarra vatna, vítt og breytt um landið eru vel veiðanleg langt fram eftir hausti og víða hafa menn komist inn á gafl hjá landeigendum sem heimila veiði lengur en gerist og gengur.

En hvað er það sem gerist á haustin sem kveikir svo í veiðinni að sumir beinlínis bíða af sér sumarið til að komast í haustveiði? Aðallega er það þrennt sem kveikir í veiðimönnum á haustin. Fyrst af öllu þá kólnar vatnið auðvitað með lækkandi lofthita og það virkar eins og hvati fyrir kulsækin fisk til að fara meira á stjá. Annar hvati til haustveiða er auðvitað styttri dagur, það líður styttra á milli ljósaskipta sem eins og kunnugt er hafa ótrúleg áhrif á hegðunarmynstur silungsins. Síðast en ekki síst, þá tekur silungurinn eftir því að vetur er í nánd og sækir stíft í fæðu til að byggja sér fituforða og virkar því afar grimmur á haustin. Þetta á ekki hvað síst við um fisk sem lokið hefur hrygningu, tímabili þar sem hann gefur fæðunni lítinn gaum enda ýmislegt annað að gera en éta á sig gat. Víða erlendis er gert hlé á vatnaveiði rétt fyrir og á meðan á hrygningu stendur, en síðan tekið til við veiði aftur og hún stunduð svo lengi sem veður leyfir. Kannski það sé eitthvað sem huga megi að hér á Íslandi í stað þess að skrúfa fyrir veiðar skv. dagatalinu. Haustferð út í kyrrláta náttúruna getur bætt ótrúlega mörgum dögum við annars stutt sumar okkar hérna á skerinu.

Hækkun Hlíðarvatns

Með aukinni umhverfisvitund hin síðari ár hafa menn leitt hugann í alvöru að því hvaða áhrif sveiflur í vatnshæð hefur á viðkomu silungs og þá sér í lagi bleikju. Sveiflur í stærð og fjölda bleikju hafa alltaf verið þekktar og hafa menn hingað til tengt þessar sveiflur veðráttu og þá sér í lagi sumar- og vetrarúrkomu. Innan um þessa alþýðuspekinga hefur alltaf leynst einn og einn sem hefur þorað að minnast á hlut okkar mannanna í þessum sveiflum. Nú nýverið átti ég smá spjall við staðkunnuga við Hlíðarvatn í Selvogi um þann brest sem varð í aflabrögðum í sumar (e.t.v. þegar í fyrrasumar). Mér þótti nokkuð djúpt í árina tekið þegar 14 sm. hækkun yfirborðsins var kennt um hvarf bleikjunnar, trúði því einfaldlega ekki að slík smá hækkun gæti haft veruleg áhrif. En viti menn, við nánari skoðun fann ég nokkrar umfjallanir sem studdu þetta álit manna. Má þar nefna mjög góðar greinar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings á www.fiski.com

Margt fróðlegt kom fram í þessum greinum, m.a. sú staðreynd að kjör- riðstöðvar bleikjunnar eru á dýpi frá 15 og að 50 sm. Sveiflur, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar frá meðaldýpt hlýtur að hafa veruleg áhrif á klak og uppvöxt seiða. Raunar sýna rannsóknir Jóns á Hlíðarvatni frá árunum ´73 – ´92 umtalsverða hnignun í vexti bleikjunnar þegar á þessum árum. Sem dæmi má nefna að meðallengd 4.ára bleikju var tæplega 32 sm. árið 1973 en fór niður í ríflega 25 sm. í síðustu mælingum árið 1992 ásamt því að veruleg aukning varð í smávöxnum, ókynþroska fiski í vatninu. Maður veltir því fyrir sér hvenær vendipunkturinn verður þegar smávaxin ókynþroska fiskur verður það liðmargur að hann étur kynþroska fiskinn út á gaddinn og engin nýliðun verður í stofninum, hvað þá þegar kjörlendi bleikjuhrygningar er sökkt um 14 sm.

Væntanlega á fiskurinn nóg með náttúrulegar sveiflur í vötnum, þótt við mennirnir bætum ekki um betur og leikum okkur að stíflugerð náttúrulegra stöðuvatna á Íslandi. Myndun stöðuvatna eða not þeirra til vatnsmiðlunar hefur ekki aðeins áhrif á það land sem sökkt er heldur einnig það lífríki sem er fyrir í þeim. Við höfum áhrif á fleira en það sem augað sér.