FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hér um árið

    6. júní 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Hér um árið, reyndar fyrir mjög mörgum árum síðan, þá reyndi ég fyrir mér í öðru sporti með alveg þokkalegum árangri. Ég sem sagt prófaði að skjóta blýklumpi í mark og tókst bara nokkur oft að hitta brúsa eða spjald. En það vantaði eitthvað sem ég vissi ekki þá og veit ekki enn þann dag í dag hvað er. Og því er einfaldlega þannig farið að ef maður veit ekki hvers maður fer á mis, þá er ekki auðvelt að finna það og því lagði ég byssuna á hilluna og hef verið sáttur við það síðan að skjóta bara út línu.

    En það er ekki alltaf auðvelt að skjóta út línu, þ.e. með flugustöng, en það breytir því ekki að flestum er það frekar gefið að byrja þetta sport og ná þokkalegum tökum á því með tíð og tíma. Að verða góður kastari er svo allt annað mál, það hefur tekið suma ævina alla og stundum hefur hún ekki dugað til. Enn er ég að læra og skána lítið með árunum, finnst mér. Um leið og ég hef sniðið einhvern vankant af kastinu mínu, þá kemur bara einhver annar í ljós eða það finnst mér í það minnsta kosti og ég tek aftur fram kastbiblíurnar mínar og fletti þeim.

    Það hefur þó ósjaldan komið fyrir að mér verður hugsað til þess hvers vegna í ósköpunum ég þurfi að vera að þessari fíneríseringu á kastinu mínu. Það eru ótal margir góðir veiðimenn sem hafa bara sætt sig við eða látið sig hafa einhverja hnökra í kastinu og eru bara sáttir við veiðilífið og tilveruna. Þegar upp er staðið og árunum hefur fjölgað, þá er ég trúlega þarna mitt á milli. Mér er næstum sama hvort kastið mitt er ágætt eða gallað, svo lengi sem það dugar til að koma flugunni út. Ef það er eitthvað sem nær því að fara sérstaklega í taugarnar á mér, þá leita ég mér aðstoðar hjá vini sem getur sagt mér til eða hugsa til veiðimanns sem ég rakst eitt sinn á.

    Sá sem ég rakst á, var frábær veiðimaður og lifði sig 100% inn í hið ljúfa veiðilíf. Hann stóð þarna úti í vatninu, sveiflaði stönginni út og suður, barði flugunni niður í bæði fram- og bakkastinu og stóð greinilega á sama að flestir fiskar forðuðu sér snarlega undan gusuganginum. Þegar ég varð svo vitni að því að einn þeirra villtist á fluguna hans, þá skelli hló viðkomandi svo hjartanlega að ég gat ekki annað en samglaðst, tók upp og rölti til hans þar sem hann bakkaði að landi og glímdi við að halda fiskinum á flugunni. Ég hef aldrei orðið vitni að jafn hissa veiðimanni og þessum ágæta manni; Þetta er nú meiri kjáninn, hann tók fluguna mína varð honum á orði þegar fiskurinn var kominn á land. Hvers vegna í ósköpunum hefði ég átt að bjóðast til að segja honum eitthvað til, halda flugunni á lofti með því að stoppa ákveðið í fram- og bakkastinu og reyna að lengja örlítið í línunni í hverju falskasti? Nei, ég sá enga ástæðu til að eyðileggja ánægjuna fyrir þessum góða manni, hann vissi nákvæmlega að hann væri enginn kastsnillingur og trúði mér fyrir því að hann væri fyrst og fremst að þessu til að njóta. Í stað þess að segja honum lítillega til, þá sagði hann mér margfalt til með því að trúa mér fyrir þessu. Ég hef ekki rekist á þennan veiðimann síðan þetta var, vona samt innilega að hann hafi ekki hætt stangveiðinni, það er sjaldan sem maður hittir jafn sáttann veiðimann.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Rassskellur

    23. mars 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Enn held ég áfram að kíkja yfir vandamála punkta síðustu ára, það virðist vera af nógu að taka, eða þá ég hafi gleymt að merkja við að ég hafi þegar skrifað eitthvað upp úr þessu pári mínu. Ef einhvern rámar í eldri grein um rassskelli, þá er eins líklegt að ég hafi gleymt að merkja við DONE um þetta vandamál. Ég get þá alltaf skýlt mér á bak við það að góð vísa er aldrei of oft kveðin.

    Rassskellur í flugukasti er trúlega eitthvað sem allir fluguveiðimenn hafa upplifað, einu sinni eða miklu oftar. Það sem ég á við hérna er þessi leiðinlega höggbylgja sem kemur stundum í flugulínuna, gjarnan í bakkastinu, þegar lagt er af stað í framkastið.

    Mynd tengist efninu hreint ekki neitt

    Ég hef nýlega minnst á það að hefja framkastið aðeins áður en línan hefur rétt alveg úr sér og það er einmitt lækningin við þessum rassskellum sem línan getur tekið upp á ef framkastið er hafið of snemma, línubugurinn of víður eða afar illa formaður, t.d. ef stangartoppurinn hefur verið að teikna einhverjar krúsídúllur í loftinu frá fremstu stöðu og aftur í þá öftustu. Ekki gleyma því að línan ferðast í sama plani og eftir sömu slóð og stangartoppurinn fetar á leið sinni í kastinu og ef sú slóð er ráfandi út og suður, þá fer línan hana líka og línubugurinn misheppnast. Reynið að halda beinni línu eða jöfnum ávölum feril (belgíska kastið) og byrjið framkastið örlítið áður en línan hefur rétt úr sér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Enn og aftur, vindhnútur

    21. mars 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Er virkilega svona erfitt að losna við vindhnúta eða eru þeir óhjákvæmilegur fylgifiskur fluguveiðinnar? Eitt sinn sagði góður maður við mig; Þeir sem fá ekki vindhnút stöku sinnum, eru ekki að veiða. Svo mörg voru þau orð og viðkomandi dró annað augað í pung þegar við heyrðum einn halda því fram að hann fengi aldrei vindhnút á taum.

    Ég hef margoft tilgreint ástæðu þess að vindhnútar verða til og óþarfi að fara mörgum orðum um það enn og aftur; taumurinn (eða fluglínan sjálf) fellur niður fyrir neðri bug línunnar í kastinu. Hingað til hef ég heyrt á bilinu 4 – 6 ástæður þessa, en svo lærir lengi sem lifir því nú hefur heldur betur bætt í. Nýlega rak ég augun í að Ed Jaworowski gróf upp eina 15 ástæður þess að taumurinn getur tekið upp á þessum skolla. Í sannleika sagt, þá fannst mér nú 4 – 6 ástæður alveg nóg til að moða úr, hvað þá 15, þannig að mér var huggun harmi gegn að Ed dró aðeins úr og nefndi einmitt 4 atriði sem líklegust eru til þess að valda þessu;

    • ótímabær hraðaaukning í kastinu
    • olboginn losnar upp í kastinu
    • ferill stangartopps verður íhvolfur í kastinu
    • ótímabær stefnubreyting línunnar (of seint, of snemma)

    Mér varð töluvert rórra þegar ég sá þessar fjórar algengustu ástæður, fimmtán voru einfaldlega of margar. Nú er bara að muna eftir þessum fjórum og þá tekst mér e.t.v. að útiloka helming þeirra hnúta sem ég raða reglulega á tauminn minn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Eitt kast, einn ferill

    16. mars 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Gömul vísa, tugga, endurtekning, frasi, klisja, orðaleppur; Gott kast samanstendur af samfellu í kasti frá öftustu stöðu og fram í fremra stopp þar sem hröðun er jöfn og án kraftastæla. Svona hljómar pistill dagsins og ætti ekki að þarfnast nánari útskýringa við, og þó. Það gætu verið einhverjir fleiri þarna úti á veraldarvefnum sem eru eins og ég (ólíklegt, en mögulegt þó) sem þurfa að hafa þetta sífellt í huga.

    Það er nefnilega ekki til neitt hleðslukast, færslukast eða kraftakast. Flugukast á sér upphaf og endi og er kastferill þar á milli, einn ferill. Að skipta um taktík í miðju kasti er einfaldlega ávísun á mislukkað kast, hvort sem það er skyndilegur kippur, snögg aukning afls eða skyndiákvörðun um fullkomna kyrrstöðu stangar.

    Það er síðan ekki fyrr en að endurteknum kastferil lokið þegar veiðimaður ákveður að leggja fluguna fram, að það kemur einhver eftirfylgni til skjalanna; að lækka topp stangarinnar niður að vatnsborðinu. Fyrr á stöngin ekki að leka niður úr fremra stoppi og meira að segja það á sér tímasetningu, rétt eins og annað í fluguveiðinni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Í fyrsta kasti

    14. mars 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Flestir geta hrósað því happi að hafa notið leiðsagnar vinar eða reynds veiðimanns þegar þeir tóku sitt fyrsta flugukast á æfinni. Þetta er vitaskuld ekki einhlítt, en fyrr eða síðar hefur væntanlega einhver bent á eitthvað hjá ykkur sem betur mætti fara.

    Eitt það fyrsta sem ég fékk að heyra var að bíða, bíða eftir því að línan væri búin að rétta fyllilega úr sér í falskastinu áður en ég hefði atlöguna í næsta falskast. Þetta er frábær punktur, en því miður ekki alveg réttur, því ef maður bíður alveg þangað til línan hefur rétt úr sér, þá er maður orðinn of seinn og missir af hleðslu stangarinnar í næsta kast.

    Merkilegt nokk, þá tók ég mark á þessari athugasemd í frumbernsku minni í fluguveiði og afraksturinn varð heldur máttlaus falsköst í báðar áttir, ég var meira að veifa línunni fram og til baka heldur en lengja í henni. Um leið og ég fékk örlítið betri leiðsögn eða betur útfærða ábendingu, þá fóru falsköstin af verða öflugri og í beinu framhaldi færri. Sem sagt; ekki bíða eftir því að lína hafi rétt alveg úr sér. Taktu mark á kraftinum sem stöngin leiðir niður í handfangið, þegar kraftinn hann þverr, þá er rétt að hefja undirbúning að næsta kasti með hægri en aukinni færslu stangarinnar í gagnstæða átt við feril línunnar. Það er vissulega smá kúnst að finna rétta augnablikið til að hefja nýtt kast, en þegar þú hefur fundið það, þá er það fljótt að festast í vöðvaminninu hjá þér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ég vinn með tilfinningar

    7. mars 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Í mörg ár hef ég verið að hamast við að byggja upp tilfinningar gagnvart flugustöngunum mínum. Ég þarf ekkert að eiga stöng lengi til að fá á tilfinninguna hvort mér líki hún eða ekki, þannig að það er ekki það sem ég er að byggja upp. Nei, en ég þarf stundum langan tíma til að fá það á tilfinninguna hvernig stöngin er að hlaða sig og hvenær hún hefur náð æskilegri eða of mikilli hleðslu.

    Að finna er afar algengt orð í allri umræðu um flugukast og sumum finnst beinlínis óþægilegt að finna hvort stöng hefur hlaðið sig í kastinu á meðan aðrir stóla á að stöngin svari spurningu handarinnar um hleðslu í gegnum gripið. Síðastliðinn vetur lenti ég á netspjalli (hópspjall) þar sem flugukastkennari sat fyrir svörum og hann var harður á því að bestu flugukastararnir finni ekkert í kasthendinni hvernig stönginni líður með hleðsluna, góð hleðsla og hröðun stangarinnar er svo fullkomin að stöng og hendi renni saman í eitt og skiptist ekkert á tilfinningum.

    Í mín eyru hljómaði þetta eins og útópía, eitthvað afar fjarlægt sem ég ætti trúlega aldrei eftir að ná eða upplifa, en svo voraði, bæði á dagatalinu og í sálinni og ég fór í veiði. Þá gerðist það að nýleg stöng sem ég hef tekið ákveðnu ástfóstri við, hætti einfaldlega að láta mig vita hvenær henni líkaði hleðslan, það eina sem hún tjáði mér var hvenær línan væri nærri búin að rétta úr sér, hvenær ég ætti að stoppa og ef ég gerði eitthvað svo vitlaust að hún gat ekki orða bundist. Kannski hafa fleiri stangir hagað sér svona, ég bara ekki tekið eftir því. Það hefur hvarflað að mér að eftir þetta netspjall hafi ég verið meira meðvitaður um gott samband mitt við flugustöngina, ef allt er í lagi, þá fær maður ekki skilaboð. Auðvitað ætti þetta að vera svona, maður á bara að fá villuboðin, ekki sífelldar tilkynningar um að allt sé í lagi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 19
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar