Hér um árið, reyndar fyrir mjög mörgum árum síðan, þá reyndi ég fyrir mér í öðru sporti með alveg þokkalegum árangri. Ég sem sagt prófaði að skjóta blýklumpi í mark og tókst bara nokkur oft að hitta brúsa eða spjald. En það vantaði eitthvað sem ég vissi ekki þá og veit ekki enn þann dag í dag hvað er. Og því er einfaldlega þannig farið að ef maður veit ekki hvers maður fer á mis, þá er ekki auðvelt að finna það og því lagði ég byssuna á hilluna og hef verið sáttur við það síðan að skjóta bara út línu.
En það er ekki alltaf auðvelt að skjóta út línu, þ.e. með flugustöng, en það breytir því ekki að flestum er það frekar gefið að byrja þetta sport og ná þokkalegum tökum á því með tíð og tíma. Að verða góður kastari er svo allt annað mál, það hefur tekið suma ævina alla og stundum hefur hún ekki dugað til. Enn er ég að læra og skána lítið með árunum, finnst mér. Um leið og ég hef sniðið einhvern vankant af kastinu mínu, þá kemur bara einhver annar í ljós eða það finnst mér í það minnsta kosti og ég tek aftur fram kastbiblíurnar mínar og fletti þeim.
Það hefur þó ósjaldan komið fyrir að mér verður hugsað til þess hvers vegna í ósköpunum ég þurfi að vera að þessari fíneríseringu á kastinu mínu. Það eru ótal margir góðir veiðimenn sem hafa bara sætt sig við eða látið sig hafa einhverja hnökra í kastinu og eru bara sáttir við veiðilífið og tilveruna. Þegar upp er staðið og árunum hefur fjölgað, þá er ég trúlega þarna mitt á milli. Mér er næstum sama hvort kastið mitt er ágætt eða gallað, svo lengi sem það dugar til að koma flugunni út. Ef það er eitthvað sem nær því að fara sérstaklega í taugarnar á mér, þá leita ég mér aðstoðar hjá vini sem getur sagt mér til eða hugsa til veiðimanns sem ég rakst eitt sinn á.

Sá sem ég rakst á, var frábær veiðimaður og lifði sig 100% inn í hið ljúfa veiðilíf. Hann stóð þarna úti í vatninu, sveiflaði stönginni út og suður, barði flugunni niður í bæði fram- og bakkastinu og stóð greinilega á sama að flestir fiskar forðuðu sér snarlega undan gusuganginum. Þegar ég varð svo vitni að því að einn þeirra villtist á fluguna hans, þá skelli hló viðkomandi svo hjartanlega að ég gat ekki annað en samglaðst, tók upp og rölti til hans þar sem hann bakkaði að landi og glímdi við að halda fiskinum á flugunni. Ég hef aldrei orðið vitni að jafn hissa veiðimanni og þessum ágæta manni; Þetta er nú meiri kjáninn, hann tók fluguna mína varð honum á orði þegar fiskurinn var kominn á land. Hvers vegna í ósköpunum hefði ég átt að bjóðast til að segja honum eitthvað til, halda flugunni á lofti með því að stoppa ákveðið í fram- og bakkastinu og reyna að lengja örlítið í línunni í hverju falskasti? Nei, ég sá enga ástæðu til að eyðileggja ánægjuna fyrir þessum góða manni, hann vissi nákvæmlega að hann væri enginn kastsnillingur og trúði mér fyrir því að hann væri fyrst og fremst að þessu til að njóta. Í stað þess að segja honum lítillega til, þá sagði hann mér margfalt til með því að trúa mér fyrir þessu. Ég hef ekki rekist á þennan veiðimann síðan þetta var, vona samt innilega að hann hafi ekki hætt stangveiðinni, það er sjaldan sem maður hittir jafn sáttann veiðimann.






