Það eru ótrúlega mörg orðasambönd sem tengjast hundum; að vera eins og snúið roð í hundi, að vera nasvís eins og hundur, það er hundur í honum, það er ekki hundi út sigandi og lykta eins og hundur af sundi. Það síðasta er eiginlega það sem ég var að leita eftir. Að lykta eins og hundur af sundi er ekki neitt sérstaklega eftirsóknarvert, í það minnsta finnst mér það ekki.
Það kemur þó fyrir að kvöldi að maður lyktar eins og hundur af sundi þegar maður fer úr vöðlunum eftir langan dag í veiði. Það er vissulega misslæmur þefurinn af manni, stundum er maður einfaldlega ekki í húsum hæfur, stundum er manni skipað að fara úr sokkum og öðrum plöggum sem þefja, en trúlega er versta útgáfan af þessu sú þegar maður er vinsamlegast beðinn að yfirgefa veiðisvæðið og ekki láta sjá sig þar aftur.
Oft kemur nú fyrir að maður svitnar í venjulegum fötum og þá er það sjaldnast tiltökumál, maður þrífur sig og skiptir um föt og málið er dautt. En maður skiptir ekki svo glatt um vöðlur í miðjum veiðitúr. En það eru nokkur einföld ráð sem duga ágætlega til að teygja á tímanum sem það tekur vöðlunar að gerast brotlegar við banni við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna.
Þegar þú tekur þér pásu frá veiði, farðu þá úr vöðlunum (það dugar ekki að bretta þær bara niður). Snúðu vöðlunum á rönguna og leyfðu að lofta um þær á meðan þú nýtur nestisins og kaffibollans. Bakteríur eru náttúrulegur fylgifiskur alls lífs, við kjöraðstæður eins og í raka og stöðnuðu lofti eins og í vöðlunum, þá fjölgar þeim ansi hressilega með tilheyrandi óþef. Þegar svo er komið að vöðlurnar anga bæði þurrar og rakar, þá er örugglega tími til kominn að þvo þær.
Lengi vel trúði ég því eins og nýriðnu neti að maður mætti ekki þvo vöðlurnar sínar, þá færi öll vatnsvörn úr þeim o.s.frv. Á endanum kom nú samt að því að ég bara varð, það varð ekki hjá því komist að þvo þær, slík var umhverfisógn þeirra orðin.
Þessum veitti ekki af þvotti
Það er nú samt ákveðin fyrirvari á því hvaða vöðlur megi og hvernig eigi að þvo þær. Hefðbundnar öndunarvöðlur1) má alveg handþvo, sumar hverjar má jafnvel setja á kalt þvottakerfi í þvottavél. Raunar ætti að þvo vöðlur reglulega því ef efnið í vöðlunum nær að verða pakkað af drullu, þá hættir vatnsfælan í efninu að virka, vöðlunar byrja að safna í sig vatni og beinlínis fara að leka í gegnum efnið. Það er betra að vera með lítið virka vatnsfælu í stað skítugrar.
Ef vöðlurnar eru svo óhreinar að fyrirséð er að nota verði þvottaefni 2), þá eru nokkur atriði sem ber að varast:
Ekki nota þvottaefni sem inniheldur bleikiefni (klórsambönd t.d.)
Þvottaefni með mýkingarefni á aldrei að nota á vatnshelt efni
Notið lyktarlaust þvottaefni, lykt í þvottaefni er yfirleitt kemísk og fer ekki vel með vatnsfæluna
Eftir þvott á að leyfa vöðlunum að þorna, ekki setja þær í þurrkarann og gætið þess vel að þær sé fullþornaðar áður en þið ætlið mögulega að endurnýja vatnsfæluna í efninu.
Hér geta óhreinindin safnað í sig vatni og ….
Svo má ekki gleyma veiðijökkunum, flesta þeirra má einnig þvo en gætið þá sértstaklega að fyrirvara 1) hér að neðan.
1) Hefðbundnar vöðlur eru m.a. Guideline, Orvis, Patagonia, Scierra og Simms. Kynnið ykkur þvottaleiðbeiningar framleiðanda áður en þið þvoið vöðlurnar, ef þið finnið ekki þvottaleiðbeiningar, hafið þá samband við söluaðila og óskið leiðbeininga.
2) Þvottaefni sem sérstaklega eru ætluð útvistarfatnaði henta vöðlum ágætlega. Meðal vörumerkja sem leitandi er að hér á Íslandi er t.d. Nikwax og Revivex sem hvoru tveggja bjóða upp á þvottaefni og efni til að endurnýja vatnafæluna í efninu. Fylgið leiðbeiningum framleiðanda um þvott og endurnýjun vatnsfælunnar.
Eins skemmtilegt og það nú getur verið að veiða fisk á létta græjur, þá getur gamanið kárnað þegar fiskurinn er ekki lengur með á nótunum og virðist bara alls ekki gera sér grein fyrir því hvaða taumur, lína og stöng eru á bak við fluguna sem hann tekur.
Um árabil hafa línur verð flokkaðar eftir s.k. AFTM skala sem tekur mið af þyngd fyrstu 30 feta flugulínunnar. Þessi skali hefur í grundvallaratriðum haldið velli en vissulega hafa bæði línu- og stangaframleiðendur bætt merkingar á sínum vörum og merkja þær nú í auknu mæli með þyngd í grömmum og/eða grains. Þessi kærkomna viðbót breytir í raun engu um það sem AFTM var upprunalega hugsað fyrir, þ.e. að para stangir og línur saman eftir afkastagetu. Þessu hafa sumir veiðimenn bara alveg steingleymt þegar þeir taka fram stangirnar sínar á veiðislóð.
Það er til þumalputtatafla yfir stærðir flugna sem henta tilteknum línum / stöngum, þessi tafla er ekki heilög, en hún gefur ákveðnar vísbendingar. Dekkri reitirnir tákna flugur sem eru sérstaklega þyngdar eða eru miklar um sig, sem sagt; þarfnast mögulega breytingar á kasti og þá helst hraða þess.
Ef þú velur þér stöng fyrir línu #1 – #3 þá er eins gott að þú sért ekki á stórfiskaslóðum. Ég er ekki að segja að það sé beinlínis rangt að beita svona léttri stöng á fisk sem er yfir 3 pund en líkurnar á því að þú þurfir allt of langan tíma til að þreyta fiskinn með jafn léttri stöng aukast verulega fyrir hvert hálft pund sem hann er umfram þau tvö sem mælt er með. Þessar stangir og samsvarandi línur bera alls ekki stórar og þungar flugur, ráða lítið við að koma út púpu sem er hnýtt á stærri krók en #16.
Stöng #4 er í eðli sínu öflugri heldur en stöng með lægra númer, en hún á langt í land með að búa yfir nægu afli og styrk til að eiga við stórfiska. Sumir segja raunar að stöng #4 sé hæsta gáfulega númer á stöng fyrir smábleikjur og urriðatitti. Stöngin ræður reyndar betur við hægfara flugur, efnismiklar straumflugur eru alveg möguleiki og eitthvað þyngdar púpur.
Næsta númer fyrir ofan er auðvitað #5. Þegar rætt er við veiðimenn vestanhafs og á meginlandi Evrópu, þá ber þetta númer oft á góma sem heppileg alhliða stöng í silungsveiði. Þessi orð eru væntanlega látin falla miðað við algengustu stærð silungs á þessum slóðum. Ætli ég mundi nú ekki velja næsta númer fyrir ofan sem alhliða stöng í silung á Íslandi. Stöng #5 er reyndar sú stöng sem mér finnst ágætt að nota alhliða í púpuveiði, svo fremi þær séu ekki of þungar.
Stöng #6 er að mínu mati afskaplega heppileg stöng fyrir nánast alla silungsveiði á Íslandi. Sumum kann að þykja hún heldur í þyngri kantinum fyrir bleikjur, en þá má alveg íhuga að vera með lengri stöng, bæta hálfu eða heilu feti við hana, það er ótrúlegt hvað þessi viðbót skilar sér í aukinni tilfinningu fyrir smærri fiski án þess þó að tapa styrk stangarinnar ef stærri fiskur en 5 pund skildi nú slysast á fluguna. Flugur í stærðum #6 og niður í #22 passa ágætlega við þessa stöng, þyngdar púpur og straumflugur og nobblerar.
Sú stöng sem ég nota mest er #7 9,6 eða 10 fet. Kannski er þetta bara einhver ávani, en ég hef best fundið mig með þessari þyngd og samsvarandi lína ræður vel við að komast út á vatnið þótt á móti blási. Stórir fiskar eru ekkert vandamál með þessari þyngd, algjörlega óháð því að þeir eru afar sjaldséðir í mínum afla. Flugurnar geta verið alveg frá #2 (séu þær ekki mikið þyngdar) og alveg niður í smæstu kvikindi sem mér tekst að hnýta á tauminn. Púpur, þyngdar og óþyngdar, straumflugur og þyngdir nobblerar. Vel að merkja, þá nota ég lítið tungsten þyngdar flugur enda lítið að veiða í straumvatni þar sem koma þarf flugunni niður 1, 2 og 3.
Þyngri stangir, hvað þá tvíhendur eru ekki á mínu færi, helst notaðar í stórfiska sem ég eltist ekkert við. Ég hef það nú samt á tilfinningunni að stangir #8 og yfir, þ.e. einhendur, séu fallbyssur sem óþarfi sé að beita í alla almenna veiði á Íslandi, en það er nú bara mín skoðun.
Það hefur nú ekki verið talið til kosta að vera með þumal sem alla fingur og því er ótrúlegt að til séu jafn margar þumalputtareglur um hitt og þetta. Eini velkomni þumallinn sem ég þekki í fluguveiðinni er sá sem maður setur á handfangið í kastinu. Þann þumal ættu veiðimenn að virða og halda í heiðri eins og mögulegt er.
Þarna kom nú enn ein reglan sem ég þekki, en hefur ekki auðnast að halda alltaf í heiðri. Reyndar er orðið þumalputtaregla lauslega skilgreint í orðabókum sem eitthvað til að hafa sem almenna, lauslega viðmiðun. Þar hafið þið það. En það það eru nú samt nokkrar puttareglur sem vert er að hafa í huga í veiðinni og þær gætu hjálpað.
Eitt af því sem tengist putta með beinum hætti er nöglin. Neglur veiðimanna koma oft að góðum notum, ekki síst þegar kemur að því að meta hvort öngull á flugu sé nægjanlega beittur. Með réttu ætti það að vera hluti af upphafi kastsins, í það minnsta annað slagið, að athuga samsetningu línu og taums, taums og taumaenda, taumaenda og flugu, og síðast en ekki síst; hvort öngull flugunnar sé nægjanlega beittur. Einfaldasta leiðin til að athuga þetta er að stinga sig á önglinum, en þegar til lengri tíma litið þá er það kannski ekki besta leiðin. Mun betra og sársaukaminna er að tylla öngulbroddinum ofan á nögl fingurs. Ef öngullinn situr fastur, þá ert þú góður í næsta kast. Ef þú getur, án þess að beita einhverju afli, fært hann til á nöglinni án þess að hann rífi hana upp, þá þarf annað tveggja; brýna öngulinn eða skipta um flugu.
Hér geng út frá því að veiðimenn eigi öngulbrýni eða naglaþjöl eða hafi laumast í snyrtitösku einhvers nákomins og tryggt sé afnotarétt af slíkri græju.
Margir veiðimenn þekkja þessa merkilegu smokka sem stripparar smokra upp á fingurna til að verjast skurðarsárum og línubruna. Flestir þessara smokka eru saumaðir úr efni með litlu viðnámi þannig að línan dregst auðveldar inn.
Færri veiðimenn virðast gera sér grein fyrir því að jafnvel á hægum og rólegum inndrætti er það mikill kostur að vera með svona strippvörn. Fyrir það fyrsta verður inndrátturinn mýkri og áreynslulausari þegar línan rennur yfir smokkinn. Sé efnið í smokkinum tiltölulega þykkt er annar kostur sem færri virðast gera sér grein fyrir. Lína sem er dreginn inn með smokki fer sjálfkrafa í gegnum línuþvott í hverjum einasta inndrætti og það þarf því sjaldnar að strjúka sérstaklega af henni til að viðhalda góðu rennsli í kasti.
Þegar maður fær eða fær sér nýjar vöðlur, þá eru þær yfirleitt afhentar í eða með einhverjum pokaskjatta. Nú er ég ekki að tala um burðarpoka, heldur þann sem framleiðandinn ætlaði vöðlunum að vera í um ókomna framtíð á milli þess sem þær eru notaðar í veiði.
Ég hef áður nefnt hvernig ég geymi mínar vöðlurnar, þær hanga á milli þess sem ég nota þær í veiði. En á leiðinni í veiði og heim aftur, þá smeygi ég þeim í þennan poka sem fylgdi þeim upphaflega. Af hverju? Jú, einfaldlega þannig að þær séu ekki að flækjast hingað og þangað í skottinu á bílnum eða í færanlega veiðihúsinu mínu. Pokinn, þó ómerkilegur sé, ver þær líka aðeins fyrir oddhvössum hlutum sem ég geymi ekki í öðrum pokum eða töskum á sömu slóðum.
Nei, ég geymi ekki vöðlurnar mínar í sérstakri vöðlutösku. Ef þær eru blautar, þá set ég þær frekar ofan í kælikassa eða box, því þá gleymi ég ekki að taka þær upp úr og hengja þær upp þegar heim er komið. Ég þekki sjálfan mig nægjanlega vel til þess að gera mér grein fyrir því að ef ég træði þeim ofan í lokaða tösku, þá mundi ég gleyma þeim þar fram að næstu ferð og þá er nú hætt við að einhver nýr og torkennilegur þefur væri komin af þeim.