Eins skemmtilegt og það nú getur verið að veiða fisk á létta græjur, þá getur gamanið kárnað þegar fiskurinn er ekki lengur með á nótunum og virðist bara alls ekki gera sér grein fyrir því hvaða taumur, lína og stöng eru á bak við fluguna sem hann tekur.
Um árabil hafa línur verð flokkaðar eftir s.k. AFTM skala sem tekur mið af þyngd fyrstu 30 feta flugulínunnar. Þessi skali hefur í grundvallaratriðum haldið velli en vissulega hafa bæði línu- og stangaframleiðendur bætt merkingar á sínum vörum og merkja þær nú í auknu mæli með þyngd í grömmum og/eða grains. Þessi kærkomna viðbót breytir í raun engu um það sem AFTM var upprunalega hugsað fyrir, þ.e. að para stangir og línur saman eftir afkastagetu. Þessu hafa sumir veiðimenn bara alveg steingleymt þegar þeir taka fram stangirnar sínar á veiðislóð.

Það er til þumalputtatafla yfir stærðir flugna sem henta tilteknum línum / stöngum, þessi tafla er ekki heilög, en hún gefur ákveðnar vísbendingar. Dekkri reitirnir tákna flugur sem eru sérstaklega þyngdar eða eru miklar um sig, sem sagt; þarfnast mögulega breytingar á kasti og þá helst hraða þess.
Ef þú velur þér stöng fyrir línu #1 – #3 þá er eins gott að þú sért ekki á stórfiskaslóðum. Ég er ekki að segja að það sé beinlínis rangt að beita svona léttri stöng á fisk sem er yfir 3 pund en líkurnar á því að þú þurfir allt of langan tíma til að þreyta fiskinn með jafn léttri stöng aukast verulega fyrir hvert hálft pund sem hann er umfram þau tvö sem mælt er með. Þessar stangir og samsvarandi línur bera alls ekki stórar og þungar flugur, ráða lítið við að koma út púpu sem er hnýtt á stærri krók en #16.
Stöng #4 er í eðli sínu öflugri heldur en stöng með lægra númer, en hún á langt í land með að búa yfir nægu afli og styrk til að eiga við stórfiska. Sumir segja raunar að stöng #4 sé hæsta gáfulega númer á stöng fyrir smábleikjur og urriðatitti. Stöngin ræður reyndar betur við hægfara flugur, efnismiklar straumflugur eru alveg möguleiki og eitthvað þyngdar púpur.
Næsta númer fyrir ofan er auðvitað #5. Þegar rætt er við veiðimenn vestanhafs og á meginlandi Evrópu, þá ber þetta númer oft á góma sem heppileg alhliða stöng í silungsveiði. Þessi orð eru væntanlega látin falla miðað við algengustu stærð silungs á þessum slóðum. Ætli ég mundi nú ekki velja næsta númer fyrir ofan sem alhliða stöng í silung á Íslandi. Stöng #5 er reyndar sú stöng sem mér finnst ágætt að nota alhliða í púpuveiði, svo fremi þær séu ekki of þungar.
Stöng #6 er að mínu mati afskaplega heppileg stöng fyrir nánast alla silungsveiði á Íslandi. Sumum kann að þykja hún heldur í þyngri kantinum fyrir bleikjur, en þá má alveg íhuga að vera með lengri stöng, bæta hálfu eða heilu feti við hana, það er ótrúlegt hvað þessi viðbót skilar sér í aukinni tilfinningu fyrir smærri fiski án þess þó að tapa styrk stangarinnar ef stærri fiskur en 5 pund skildi nú slysast á fluguna. Flugur í stærðum #6 og niður í #22 passa ágætlega við þessa stöng, þyngdar púpur og straumflugur og nobblerar.
Sú stöng sem ég nota mest er #7 9,6 eða 10 fet. Kannski er þetta bara einhver ávani, en ég hef best fundið mig með þessari þyngd og samsvarandi lína ræður vel við að komast út á vatnið þótt á móti blási. Stórir fiskar eru ekkert vandamál með þessari þyngd, algjörlega óháð því að þeir eru afar sjaldséðir í mínum afla. Flugurnar geta verið alveg frá #2 (séu þær ekki mikið þyngdar) og alveg niður í smæstu kvikindi sem mér tekst að hnýta á tauminn. Púpur, þyngdar og óþyngdar, straumflugur og þyngdir nobblerar. Vel að merkja, þá nota ég lítið tungsten þyngdar flugur enda lítið að veiða í straumvatni þar sem koma þarf flugunni niður 1, 2 og 3.
Þyngri stangir, hvað þá tvíhendur eru ekki á mínu færi, helst notaðar í stórfiska sem ég eltist ekkert við. Ég hef það nú samt á tilfinningunni að stangir #8 og yfir, þ.e. einhendur, séu fallbyssur sem óþarfi sé að beita í alla almenna veiði á Íslandi, en það er nú bara mín skoðun.
Senda ábendingu