Af hverju leka þær?

Það er einkennilegur andsk…. hvað þessar vöðlur vilja fara að leka með tímanum. Reyndar er tíminn afstæður þegar kemur að vöðlum, nýjar vöðlur geta í raun verið eldgamlar og gamlar vöðlur geta verið næstum því nýjar. Aldurinn snýst meira um notkun heldur en ár.

Það stendur víst einhvers staðar hér á vefnum að ég er óttalegur vöðluböðull og trúlega gildir það ennþá, en ég hef samt lagast með aldrinum. Ég þekki takmörk vaðlanna minna betur en áður, sumar hafa verið 3ja laga, aðrar 4ra og einhverjar hef ég eignast sem eru 5 laga. Mín reynsla er; þær þola meira hnjask því fleiri lög sem þær geyma, svona næstum því. Í mínu tilfelli eru það reyndar ekki sléttu og felldu fletirnir; framanverð læri, afturendinn eða skálmarnar sem eru hve óþægastar. Saumarnir og sokkarnir eru minn Akkilesarhæll og einmitt hællinn á sokkunum. Einhverra hluta vegna, þá vill hællinn helst taka upp á því að leka eða þá saumarnir í klofinu og niður með innanverðum lærunum. Áður fyrr var það afturendinn og tærnar sem voru hve leiðinlegastar. Nú hef ég lært það af biturri reynslu að setjast ekki hvar sem er niður, hvorki óvart né vísvitandi. Svo hef ég líka tekið mig á að klippa táneglurnar fyrir veiðiferðir og þá fór fremsti partur sokkanna að vera til friðs. Nú þarf ég bara að temja mér að passa betur upp á steina og sand í vöðluskónum þannig að sokkurinn haldi líka í hælinn.

Í öllum þeim greinum sem maður finnur á netinu um það hvernig maður getur lengt líftíma vaðlanna eru flestir sammála um að geyma þær aldrei samanbrotnar, blautar eða í loftþéttum umbúðum. Fjarri sólarljósi, sem er í sjálfu sér svolítið skondið en kannski ekki mikið vandamál hér á landi, og umfram allt ekki í of miklum hita, sem er heldur ekki vandamál um þessar mundir.

Ég hef það fyrir reglu að hengja vöðlurnar mínar upp á herðatré um leið og heim er komið, ásamt jökkum og vestum og eins og sést þá er dregið vandlega fyrir gluggann þannig að ekkert óþarfa sólarljós kemst að þeim.

Þrátt fyrir að ég hef rekist á einhverjar greinar þar sem minnst er á að þvo vöðlurnar í þvottavél, þá hef ég aldrei gert það, jafnvel þótt einhver undrameðöl séu til sem hægt er að úða á þær til að ná þeim vatnsþéttum eftir þvott. Ég bara trúi ekki á þau undrameðul sem eiga að ná því að endurnýja upprunalega vörn efnisins eftir duglegan rúnt í þvottavélinni. Ég hef látið mér nægja að þurrka af þeim með rökum klút eða svampi ef mér er farið að ofbjóða útgangurinn.

Hér áður fyrr var ég einlægur aðdáandi neoprene og brúkaði aðeins slíkar vöðlur. Eftir mjög hressilegt svitakast og endalaus vandræði með stígvélin á þeim, þá gafst ég upp og keypti mér betri ullarbrækur og skipti yfir í öndunarvöðlur. Óneitanlega litu þær út fyrir að vera þjálli og meðfærilegri, en ég gerði stór mistök í mínum fyrstu kaupum og þá meina ég stærðar mistök. Ég keypti þær í það minnsta tveimur númerum of stórar, var eitthvað hræddur um að ég kæmist ekki í þær verandi í þykkum ullarsokkum. Þær vöðlur tóku upp á því að leka á mettíma, einfaldlega vegna þess að þær krumpuðust í klofinu, á lærunum og langt niður eftir leggjunum. Krumpur í öndunarvöðlum eru ávísun á leka, bæði í efni og saumum. Eftir þessa bitru reynslu hef ég reynt að passa upp á það að kaupa vöðlur sem hæfa vexti og rúmmáli þess kropps sem í þær eiga að fara.

Eins og upphaf greinarinnar ber með sér, þá á ég samt sem áður lekar vöðlur, en þá kemur að viðgerðum, eða þá helst hvar viðgerðar er þörf. Meira um það síðar.

Veiðigler

Talandi um að henda sér út í og berast með straumnum fram af næsta fossi. Um daginn þurfti ég að endurnýja nærsýnisgleraugun mín og þá þurfti ég að endurnýja veiðiglerin mín sem voru orðin heldur snjáð og rispuð. Ég hef sem sagt vanið mig á að vera með smellt-skautunargler (polarized) á venjulegu gleraugunum mínum þegar ég er í veiði í stað þess að eiga sérstök veiðigleraugu með styrk.

Þegar ég nefndi þetta við félaga minn þá setti hann mig í heilmikinn bobba og spurði hvort þau væru eitthvað 2, 4, 6 eða 8. Úps, var ég nú dottinn í einhverja vitleysu í þessum innkaupum mínum? Eða það sem verra væri, var ég kominn inn í enn einn samsíða veruleika stangveiðinnar þar sem hver veiðimaðurinn á fætur öðrum hefur sitt persónulega álit á hlutunum og allt fullt af sértrúarsöfnuðum?

Auðvitað fór ég á stúfana og leitaði að efni um mismundi tegundir skautunarglers. Í stuttu máli; það sem skiptir máli við skautunargler er að það verður að vinna á bylgjulengd hins sýnilega litrófs sem er á bilinu 400-700 nm. og hleypi aðeins í gegnum sig ljósbylgjum sem sveiflast í lóðrétta stefnu. Þannig stoppar glerið speglunina sem lárétt yfirborð (vatnið) kastar í augu okkar vegna þess að það ljós sveiflast í láréttri stefnu. Við sjáum fyrst og fremst betur niður í vatnið vegna þess að spegillinn og glampinn eru að mestu horfinn.

Skautuð (polarized) gleraugu

Önnur virkni í veiðigleraugum tengist í raun ekki skautuðu ljósi og til að ná þeirri virkni koma til sögunnar síur ljóss og lita. Til að draga úr magni ljóss sem glerið hleypir í gegnum sig, án þess að hafa áhrif á litasamsetningu þess, er notaður neutral density filter (ND) sem gefinn er upp í NDx þar sem 1/x er hlutfall þess ljóss sem síað er frá. ND2 sía dregur úr ljósinu um ½, ND4 um ¼ og þannig fram eftir götunum. Það magn ljóss sem sleppt er í gegnum glerið er gefið til kynna með VLT visible light transmission sem er einfaldlega sú prósenta ljóss sem berst til augans og er mæld eftir að öðrum síum hefur verið bætt í glerið.

Til að tempra eða magna ákveðna liti í ljósinu sem berst í gegnum veiði- eða sólglerlaugu eru notaðar litasíur, að ógleymdri UV síunni sem ætti að vera í öllum glerjum til verndar gegn útfjólubláum geislum sólar.  Það eru þessar síur sem hafa í raun mest áhrif á hvernig okkur finnast gleraugun virka undir tilteknum kringumstæðum:

  • Gult (e: amber) eru mjög gott alhliða gler sem gefur hve bjartasta mynd og lengir daginn þegar rökkvar. Henta vel í þungbúnu veðri.
  • Grá (e: grey) viðhalda litasamsetningu, mettun (e: saturation) og andstæðum (e:contrast) í miðlungs og björtu veðri. Henta vel við saltvatn, en síður við ferskt vatn þar sem grái liturinn dregur úr sýnileika fisksins.
  • Koparlit (e: copper) eru góð alhliða gler sem draga vel úr glýju og skerpa andstæður og bjarta liti.

Að þessu sögðu, þá er rétt að geta þess að hinir og þessir framleiðendur veiðigleraugna hafa gefið mismunandi efnasamsetningu og eiginleikum glerja (plasts) hinar skemmtilegustu skammstafanir sem taka sig vel út í auglýsingum en breyta engu um virkni skautunarglersins. Það virkar alltaf eins, ef það er þá til staðar á annað borð. Ef þú ert ekki viss um að gleraugun þín séu með skautunargleri, prófaðu þá að horfa á mynd á farsímanum þínum í gegnum þau og snú gleraugunum u.þ.b. 45-60° Ef myndin dekkist eða lýsist eða hún hverfur alveg, þá ert þú með skautunargler í höndunum. Ef hún helst óbreytt, þá ert þú með einfalt litað gler í höndunum.

Umfram allt ætti veiðimaður aldrei að máta veiðigleraugu á netinu, láttu það eftir þér að fara í verslun, máta gleraugun í raunveruleikanum og ekki væri verra ef til staðar væri prufuspjald sem geymir falda mynd sem aðeins kemur í ljós með skautunargleri. Það eru nefnilega ekki öll veiðigleraugu með skautunargleri, sum eru bara venjuleg  lituð sólgleraugu með UV síu. Eftir allt þetta fann ég það út að veiðiglerin mín eru með skautunargleri sem vinnur á hinu sýnilega litrófi, með UV síu og með gulu gleri sem var reyndar augljóst frá upphafi.

Háll sem áll

Ég trúi að það sé aðeins einn annar iðnaður sem hefur framleitt jafn margar tegundir af sleipiefni eins og línuframleiðendur, fer ekki nánar út í það. Ég á nokkra kunningja sem hafa spáð töluvert í mismunandi tegundir af undraefnum sem eiga að lengja köstin þín um allan helming, gera lífið léttara á allan máta og nánast veiða fiskinn fyrir þig.

Einn þessara kunningja minna hefur haldið á lofti óþarfa vörumerkja í þessum bransa og notar bara ákveðna tegund af mælaborðahreinsi og ekkert annað á sínar línur á meðan annar segist ekki treystan öðru en því sem hannað er sérstaklega til línuþrifa og smurnings. Þetta er nú það dásamlega við stangveiðina, menn hafa sína skoðun á öllu mögulegu og halda sig við það sem þeim hentar best og hefur reynst þeim vel.

Brass lykkja

Ég hef svo sem mína skoðun á þessu og hef getið hennar hér á vefnum, en þegar ég var að taka myndir af stöngunum mínum um daginn vegna annarrar greinar, þá veitti ég því fyrst alvöru athygli að sumar stanganna minna voru með keramik lykkjum og aðrar ekki. Ég er ekki stangasnobbari og er reyndar yfirleitt nokkuð á skjön við aðra þegar kemur að því að velja stöng, því hef ég svo sem líka sagt frá hérna.

Keramik lykkja

En varðandi keramik eða ekki, þá komst ég að því að þær stangir sem mér hefur alltaf þótt fara best með línu, leyft henni að njóta sín og stutt við gott rennsli, þær eru með neðstu lykkjuna úr keramik. Það skildi þó aldrei vera að þær hafi eitthvað marktækt að segja um gott rennsli? Annars get ég ekki stillt mig um að minnast á að mitt ráð til að halda rennsli í línunni er einfaldlega að halda henni hreinni, strjúka af henni með t.d. gleraugnaklút annað slagið.

Þumall á lykkju

Þegar ég lenti í því eitt sinn að stöng bilaði hjá mér og ég fór með hana í viðgerð þá lenti hún í höndum kunnáttumanns sem velti stangarpartinum vel og lengi fyrir sér og sagði svo; Hvers vegna ætli þeir hafi valið einfætta lykkju í stað tvífættrar? Nú verð ég að játa það að ég hafði bara ekkert spáð í það hvort lykkjurnar á stönginni væru festar á einum eða tveimur fótum. Það sem ég spáði helst í var hvort lykkjurnar væru fastar á stönginni eða ekki og einu sinni til tvisvar á sumri þá spáði ég í að þurrka innan úr þeim. Þetta var nú allt og sumt sem ég hugsaði um lykkjurnar á þessari stöng.

Einfætt lykkja

Reyndar fór þessi stöng einmitt í viðgerð vegna þess að lykkja rétt ofan við samskeyti losnaði, trúlega vegna þess að ég studdi oft þumlinum við lykkjuna þegar ég var að losa stöngina sundur. Ekki smart move, það lærði ég af þessu. Þetta er einhver ávani sem ég hef áunnið mér og hann er ekki góður þegar lykkjurnar standa aðeins á öðrum fæti. Sama hvað ég reyni að temja mér að taka um stöngina sjálfa, þá laumast þumallinn alltaf í átt að lykkjunni og ég styð við þegar ér sný stönginni. Annað tveggja, þá verð ég bara að hætta þessari vitleysu eða þá nota aðeins stangirnar sem eru útbúnar tvífættum lykkjum.

Tvífætt lykkja

Þegar ég fór að skoða stangirnar mínar þá var það nú svo að allar hinar voru búnar lykkju sem stóð á tveimur fótum og satt best að segja hafði ég aldrei lent í vandræðum með neina þeirra. Ég er greinilega tveggja fóta maður.

Sérhæfing

Í hvert skipti sem ég hef verið spurður hvort þetta sé ekki afskaplega dýrt sport, þá hef ég snúist eins og skopparakringla og reynt af fremsta megni að gera viðkomandi grein fyrir því að það þarf ekki að éta fílinn í heilu lagi, smá biti dugar oft mjög vel til að seðja veiðihungrið. Um leið og undist hefur ofan af mér, læt ég þess samt getið að með tíð og tíma finnur maður ýmsar ástæður til þess að kaupa nýja stöng, nýtt hjól, léttara vesti o.s.frv. Að því leitinu til er stangveiðin ekkert frábrugðin öðru sporti eða áhugamáli, með aukinni ástundun vaknar forvitni fyrir nýjungum og hvort sem hún er tilbúin eða ekki, ástæða til að endurnýja búnaðinn.

Þrátt fyrir heldur lélega ástundun í sumar sem leið, þá lenti ég samt í ákveðnum hremmingum með búnaðinn minn. Gamla góða (níðþunga) fluguveiðihjólið fyrir fimmuna mína, tók upp á því að svíkja mig, stóð á sér þegar minnst varði, svona til víðbótar því að bremsan var eiginlega ekkert að virka lengur. Raunar er það svo að ég veiði mest af frekar smágerðum fiski á fimmuna og því ekkert endilega þörf á öflugri bremsu, verra var að stundum vatts ofan af hjólinu þegar minnsta varði á meðan ekkert gerðist þegar ég reyndi að draga línuna út af hjólinu. Eflaust hefði ég getað lagfært hjólið, en fyrst það var hvort hið er svo þungt og óþjált, þá keypti ég mér nýtt (létt) hjól með bremsu í lagi.

Verra var að uppáhalds sjöan mín tók upp á þeim skolla að brotna. Ég kannast auðvitað ekkert við það að hún hafi orðið fyrir hnjaski eða illri meðferð, hún bara brotnaði þegar minnst varði í upphafi kasts. Nú vandaðist málið; láta gera við, fá nýjan part eða leita mér að nýrri stöng? Úr varð að ég snéri mér til umboðsaðilans og bað hann að athuga með nýjan part í stöngina, en ég fór nú samt á stúfana og gúgglaði allt mögulegt og ómögulegt sem var í boði.

Það sem mér fannst vera ómögulegt við framboðið á flugustöngum var einfaldlega öll þessi sérhæfing sem var á boðstólum. Stöng fyrir lítinn silung, stöng fyrir miðlungs silung, stöng fyrir sjógenginn regnbogasilung, stöng fyrir smálax, stöng fyrir stórlax o.s.frv. Ég hef greinilega vanmetið gáfur laxfiska eða þeir hafa tekið einhverjum stökkbreytingum á síðustu árum, bíta þeir orðið aðeins ef stangirnar eru merktar þeim sérstaklega? Þegar ég var búinn að hneykslast nægju mína á þessu og hélt áfram að gúggla þyrmdi alveg yfir mig. Stangirnar sem voru eyrnamerktar þeim fiski sem ég helst hef veitt eru til í tveimur mismunandi útfærslum; fyrir púpur og fyrir þurrflugur. Getur mögulega verið að sérhæfing stangaframleiðenda sé gengin út í öfga? Ég skipti um gúggl aðferð og bætti enska orðinu versatile (ísl: fjölhæf) við í leitina mína og þá kom nú ýmislegt annað upp, eitthvað sem passaði betur hugmyndum mínum að flugustöng.

Það jákvæða sem allt þetta gúggl mitt hafði í för með sér var nú það sem ég í raun vissi, uppáhalds sjöan mín er heldur þung miðað við allar þessar nýju fallegu fjölhæfu stangir. Ég bíð í ofvæni eftir því að geta prófað sjöu úr ákveðinni fjölskyldu flugustanga sem væntanleg er á nýju ári. Hvort ég kaupi hana síðan, er allt annað mál, ég á eftir að upphugsa ástæður fyrir kaupunum. En eitt er víst, ég er ekki að fara kaupa sérhæfða stöng fyrir þennan fisk og aðra fyrir hin fiskinn.

Af dellum

Ég á nokkra kunningja sem fylgjast með boltanum. Þeir eru óviðræðuhæfir á laugardögum (eru það annars ekki leikdagar?) á veturna, ekkert má trufla einlífi þeirra fyrir framan sjónvarpsskjáinn og evrópu- og heimsmeistaramót eru stórhátíðir og næstum rúmhelgir dagar. Sumir þeirra skilja ekkert í mínu áhugamáli, svipað og ég skil ekki baun í þeirra skeggræðum um kaup og sölu leikmanna. Ég sem hélt að mansal væri ólöglegt.

Einhverju sinni lenti ég í því að missa glottið út í skellihlátur þegar fyrir framan mig stóð einn, íklæddur rauðri íþróttatreyju með feitletraða auglýsingu flugfélags þvert yfir brjóstkassann og býsnaðist yfir því að allir veiðimenn væru íklæddir sömu ljótu veiðifötunum, grátt og grænt. Trúlega er allur veiðifatnaður öðrum líkur í augum þeirra sem ekki eru haldnir veiðidellunni, en þetta var svolítið að henda steini úr glerhúsi fannst mér. Ég er heldur ekki viðræðuhæfur á sumrum, ekki bara um helgar, heldur eiginlega alla daga, þannig að mér ferst að setja út á stórhátíðir fótboltaáhugamanna.

fos_flugustangir_longer

En auðvitað er þetta ákveðin sýki, þ.e. veiðidellan. Maður byrjar í rólegheitum með eina stöng og hjól, örfáar flugur í boxi og áður en hendi er veifað er maður byrjaður að hnýta sýnar eigin flugur, fjölgar stöngum og hjólum og til að taka steininn úr, þá fjárfestir maður í ljótu grænu veiðivesti og grá-brúnum vöðlum og veiðijakka. Svo kemst maður á hættulegt stig þegar maður stendur sjálfan sig að því að velta við steinum í vatninu í leit að matseðli silungsins eða velta fyrir sér ástandi fiskistofna. Maður getur jafnvel tekið upp á því að hafa áhyggjur af erfðamengun villtra fiskistofna ef milljóna virði eldisfisks sleppur úr sjókvíum við Ísland eða óafturkræfum áhrifum arðbærra virkjana sem rústa fiskfarvegum. Þetta er stórhættuleg della og rétt að vara unga veiðimenn við, það er aldrei að vita hvar þetta endar hjá ykkur, en mikið ofboðslega er þetta nú skemmtilegt.

Æ, ég tylli henni hérna

Ég stend sjálfan mig oft að því að tylla stönginni minni hér eða þar, svona rétt á meðan ég þarf að gera eitthvað áríðandi eða klára að taka mig til í veiði. Yfirleitt er ég með stangarhaldara á bílnum og því engin afsökun að tylla stönginni ekki þar ef svo ber undir, en þrátt fyrir haldarana er spegillinn enn nokkuð vinsæll áningarstaður fyrir stöngina hjá mér. Þetta er slæmur staður, ég veit það og hugsa um það í hver einasta skipti sem ég legg stöngina mína á milli spegils og hurðapósts. Það þarf ekki nema augnabliks gleymsku og eitthvert fát til að opna hurðina og þá er stöngin væntanlega í sundur. Ég þarf að venja mig af þessum ósið.

Þessar eru öruggar á leiðinni heim
Þessar eru öruggar á leiðinni heim

Það er lítið skárra að halla stönginni upp að birkihríslu. Að vísu eru mestar líkur á að línan og jafnvel stöngin sjálf flækist í hríslunni og því minni líkur á að hún detti, en þetta er samt ekki góður staður. Á jörðina ætti stöngin aldrei að fara, þar er henni bráð hætta búinn þegar maður skoppar um á öðrum fæti, annað hvort á leið í eða úr vöðlunum.

Í upphafi er einfaldast að klára að klæða sig í allan útbúnað áður en maður setur stöngina saman, vera klár í slaginn og setja punktinn yfir i-ið með því að taka fram vopnið, setja það saman og hefja veiði. Í lok veiði ætti maður að byrja á því að taka stöngina í sundur, strjúka af henni og setja í hólkinn. Ef maður þarf endilega að leggja hana frá sér og er ekki með stangarhaldara á bílnum, þá er um að gera að leggja hana á húddið, beint fyrir framan framrúðuna, þá gleymist hún ekki upp við næsta runna eða tré.

Tröllasaga

Annað slagið heyrir maður alveg bráðskemmtilegar sögur af veiðimönnum sem leggja af stað í veiði með það fyrir augum að setja í nokkra matfiska en enda á því að taka þann stóra, stærsta eða óhugnanlegasta, alveg óvart. Ég kannast svo sem við það að fá ákveðin fisk á ólíklega flugu, þokkalegan urriða á Þingvöllum þegar ég var að egna með púpu #14 fyrir bleikju eða átta punda urriða á #14 votflugu í svo litlum læk að aðeins pundarar hefðu átt að komast fyrir í honum.

Mér kemur því ekki til hugar að draga sögur sem þessar í efa og þegar maður heyrir af einhverjum sem setti hefur í 14 punda fisk á þristinn sinn, þá fyllist maður aðdáun yfir færni hans að landa fiskinum og halda stönginni í heilu lagi. En, beri svo undir að maður sjái ljósmynd af skrýmslinu á bakkanum með tungsten þyngda straumflugu #2 í öðru munnvikinu og stöng #3 við hliðina, þá víkur mín aðdáun fyrir einhverju allt öðru.

fos_urridaspordur
Hvað ætli þessi sé stór?

Á bak við flestar flugustangir liggur töluverð hönnunarvinna. Stundum er sú vinna unnin með ótrúlega flóknum verkfræðilegum útreikningum sem ég kann ekki að nefna og stundum er hún einfaldlega gerð af hyggjuviti og reynslu þess sem hannar. Hvor aðferðin sem notuð er, þá miða þær að því að framleiða stöng sem er ákveðnum eiginleikum búin til að koma línu af ákveðinni þyngd út á vatnið. Línan ber síðan fluguna og flugan verður að passa línu og þar með stöng.

Léttar stangir, þ.e. þær sem hannaðar hafa verið fyrir línuþyngd 2 – 4 búa sjaldnast að því afli sem þarf til að bera stórar straumflugur út á vatnið. Vissulega er hægt að nota létta stöng til að slæma flugu af hvað stærð og sköpulagi sem er út á vatnið. En oft verður maður beinlínis hræddur í nágrenni við tilfæringar þar sem veiðimaður er að reyna að hafa stjórn á stórri flugu með stöng sem í besta falli ræður við litlar púpur eða þurrflugur. Hver þekkir ekki máltækið; Að skjóta mýflugu með fallbyssu ? Ég þekki aftur á móti engan málshátt sem segir eitthvað um að skjóta fíl með baunabyssu. Að nota búnað sem ekki passar agni, hvað þá fiski, er ákveðið virðingarleysi við bráðina. Afl léttrar stangar er aldrei þannig að hægt sé að taka á stórum fiski eins og þarf til að draga ekki viðureignina óþarflega á langinn. Þetta á sérstaklega við ef um er að ræða fisk sem á að sleppa að viðureign lokinni.

Það lyktar öðruvísi

Það hefur komið fyrir á þessu heimili að það hafi slegið fyrir laufléttri lykt þegar stöng hefur verið dregin upp úr hólki einhverjum dögum eftir veiðiferð. Það þarf alls ekki að þýða að eitthvað stórkostlegt sé að stönginni þótt hún ilmi ekki eins vel og venjulega. Örsmár blóðdropi eða slím af fiski nægir til þess að gefa frá sér nokkuð sterka lykt eftir einhvern tíma í lokuðum hólki. Hafi manni yfirsést eitthvað slíkt þegar stönginni var pakkað niður, þá er sjaldnast hundrað í hættunni.

Verra er það þegar stangirnar fara rennandi blautar í hólkinn og ekki teknar fram til þurrks þegar heim er komið. Þá er von á öllu erfiðari lykt, myglu. Myglan getur myndast bæði í pokanum utan um stöngina og í korkinum. Ég mundi nú ekki gráta lengi ef ég þyrfti að henda pokanum, verra þætti mér ef myglan tæki sér bólfestu í korkinum. Það þarf reyndar nokkuð öfluga myglu til að eyðileggja korkinn, í flestum tilfellum er hægt að þrífa hann upp og gera sem nýjan án mikillar fyrirhafnar.

fos_cork_handle
Handfangið

Byrjum á smá inngangi, korkur er ekki viður, heldur börkur og hann þolir alls ekki öll sterku hreinsiefnin sem manni dettur fyrst í hug. Best er að byrja á mildum efnum eins og t.d. venjulegri lyktarlausri handsápu og sjá hvort ekki náist allt líf úr korkinum með henni og svampi. Ef það dugar ekki, þá má færa sig í yfir í öflugari græjur; sandpappír númer 240 eða 360, volgt vatn og sömu handsápuna. Raunar renni ég reglulega yfir korkinn með fínum vatnspappír til að jafna hann ef upp úr honum hefur hoggist. Ef sandpappír og handsápa duga ekki, þá er þörf á einhverju enn öflugara, einhverju sem drepur sveppi. Sumir hafa notað 10% klórblöndu, sem reyndar lýsir korkinn aðeins, en ég hef notað 10% blöndu af Rodalon þar sem það drepur einnig óæskilega lykt. Lengra hef ég ekki þurft að fara í aðgerðum til að losna við óþef úr korki, en get ímyndað mér að ef þetta dugi ekki, þá sé eins gott að leita sér að nýju handfangi á stöngina.

Söfnunarárátta eða þörf?

Mér finnst það nú eiginlega hafa verið í gær þegar ég gat með sanni sagt að ég ætti aðeins eina flugustöng. Sú var af fyrstu kynslóð grafítstanga, #6 í tveimur pörtum. Ég kunni alveg ágætlega við þessa stöng og á hana ennþá. Að vísu hefur hún ekki fengið að fara með í veiðiferðir í nokkur ár, ekki einu sinni sem varastöng. Síðar eignaðist ég IM10 stöng #7 í hefðbundnum fjórum pörtum og notaði hana mikið, raunar nota ég hana annars slagið ennþá þegar ég tel mig þurfa á miðlungshraðri stöng að halda. Síðar kom til sögunnar heldur hraðari IM12 stöng sem ég hef töluvert dálæti á, en hún er nokkuð stífari þannig að stundum fer að gæta einhverrar þreytu hjá mér eftir 5 – 6 klst. í veiði.

Einhvern tímann á leiðinni bættist mjúk IM9 JOAKIM‘S stöng í safnið, stimpluð #4/5 sem ég hef mikið dálæti á. Hún er ekkert sérstaklega létt, ekki nett, eiginlega svolítið lin, en ég kann óskaplega vel við hana.

fos_flugustonghjol_big

Í sumar sem leið tókst mér síðan að sannfæra sjálfan mig um að ég þyrfti á nýrri sjöu að halda. Ég prófaði nokkrar stangir og fann eiginlega alltaf eitthvað að þeim. Of stíf, of hröð, of lin, of þung, mér tókst þannig að finna eitthvað að þeim öllum. Trúlega hef ég verið farinn að fara örlítið í taugarnar á einhverjum, alveg þangað til mér var bent á að prófa eina af nákvæmlega sömu tegund og ég hafði áður hafnað með þeim rökum að hún væri of stíf fyrir minn smekk. Sú sem mér var rétt var 9‘6 fet í stað 9 feta. Hún er ekki framleidd úr einhverju sérstöku undraefni, held meira að segja að hún sé framleidd úr IM10 grafít og alls ekki hönnuð sem einhver tímamóta stöng. Hún er það sem ég leitaði að; virkar millistíf en svignar skemmtilega með fiski, leyfir mér að finna fyrir smæstu bleikjum og vinnu vel á móti stærri urriðum. Stöngin ber vel þær línur sem ég nota og sýnir góða vinnslu með hefðbundnum framþungum intermediate og flotlínum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er sérlundaður í stangarvali og alls ekki víst að minn smekkur passi öðrum, en ég mundi trúlega kaupa mér aðra Airflo Rocket 9‘6 #6/7 stöng ef mér tækist að eyðileggja þessa. Það sem ég vildi koma á framfæri með þessum hugleiðingum mínum er einfaldlega að það þarf stundum ekki mikla breytingu á stöng til að hún virki sem allt önnur. Í þessu tilfelli varð það þetta hálfa fet sem gerði gæfumuninn.

Auðvitað er þetta einhver söfnunarárátta og trúlega (vonandi) tekst mér að telja sjálfum mér trú um að ég þurfi nýja stöng eftir einhver ár. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, leggja svolítið á sig að venjast nýrri stöng og njóta þess að veiða.

Á toppinum

Á mínu heimili er ég stundum spurður að því hvað þetta er hitt þurfi að vera lengi í ofninum eða á pönnunni. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ég er spurður að þessu og yfirleitt er svarið mitt alltaf það sama; Þangað til það er orðið steikt. Reyndar væri oft betra að segja; Þangað til þú heldur að það þurfi að vera örlítið lengur í ofninum / á pönnunni.
Með svipaðri kaldhæðni mætti svara þeim sem spyr hve mikið hann megi láta reyna á stöngina við löndun; Örlítið minna en þú telur að hún þoli. En hversu mikið þola stangir að svigna? Ef það væri eitt ákveðið svar til við þessu þá væri ég væntanlega ekki að velta þessu fyrir mér og þá hefði ég væntanlega aldrei brotið toppinn á stönginni minni.
Mér skilst að oftast brotni stangir í toppstykkinu þegar átt er við fisk, en það er einmitt toppstykkið sem geymir minnsta orku í flugustönginni og mér skilst að þarna sé beint samhengi á milli. Ef flugan er þokkalega trygg í fiskinum og hann ekkert á því að taka rokur út og suður, þá mætti hugsanlega beita stönginni örlítið öðruvísi þannig að átakið við löndun komi ekki aðeins á efsta hluta hennar, heldur færa átakið neðan í stöngina þar sem hún er betur hlaðin og sterkari.

Stangartoppur
Stangartoppur

Hversu langt niður í stöngina maður verður að færa átakið fer svolítið eftir því hvort stöngin sé hröð, miðlungs eða hæg. Það hefur lengi laumast að mér sá grunur að hægum (mjúkum) stögum sé ekki eins hætt við því að brotna heldur en hröðum (stífum) stöngum. Það er í það minnsta mína reynsla. Auðveldast er að færa átakið neðar í stöngina með því að lækka topp hennar að vatnsborðinu, oft þarf ekki að lækka stöngina mikið til að sjá toppinn rétta úr sér en handa samt vel við fiskinn. Einn kostur við hæfilega sveigju toppsins er að sá partur getur brugðist einna hraðast við snöggum hreyfingum fisksins og því temprað skyndiákvarðanir hans að rjúka út og suður þegar minnst varir. Bara að passa sig á hástökkvurunum, þeir ná oft að losa sig ef stönginn er ekki höfð í efstu stöðu.

Partar

Fyrstu flugustangirnar voru óttaleg prik, beinlínis. Þetta voru heppilegar pílviðargreinar með áfestum silkiþræði og öngli. Bráðinni var einfaldlega vippað upp á bakkann ef hún á annað borð festist á önglinum. Einfaldari gat stöngin ekki orðið. Löngu síðar, einhvern tímann á 17.öld fóru menn að smíða stangir úr reyr og bambus og þá fóru samsettar stangir að koma fram. Til að byrja með voru þær í tveimur pörtum, síðar þremur. Það var svo ekki fyrr en í upphafi 20.aldar að fíberstangir komu fram í dagsljósið. Samsetningar bambusstanganna höfðu eiginlega alltaf verið til vandræða, þær vildu losna í sundur þegar minnst varði og svo höfðu stífar samsetningarnar óæskileg áhrif á virkni þeirra. Þess vegna leituðu menn aftur í að fækka samsetningum niður í eina með tilkomu fíber. Síðar jókst krafan að stangirnar væru ekki hálfur annar metri að lengd, ósamsettar, þannig að pörtunum fjölgaði aftur.

Sjálfur á ég eitt svona fíber prik, fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diplomat. Slíkar stangir eru raunar enn framleiddar í tveimur pörtum, að vísu úr grafít í dag og ég hef heyrt að byrjendum sé sérstaklega bent á að byrja með stöng sem sé með sem fæstum samsetningum. Það var þá kannski einhver glóra í þessari stöng.

fos_historydame

Í dag er algengast að venjulegar einhendur séu í fjórum pörtum. Sumir framleiðendur eru enn að spreyta sig á að bjóða efsta partinn í tveimur mismunandi stífleikum eða eins og einn auglýsti um árið; Stöng fyrir stóra og litla fiska. Ókostur slíkra stanga er helstur að stífleiki næst efsta parts er aldrei annað en millilending fyrir mjúkan eða stífan topp. Stöngin vinnur því ekki eðlilega niður á annan fjórðung miðað við valið toppstykki. Annað hvort er parturinn of mjúkur eða of stífur fyrir toppinn og því njóta þessar stangir ekki neitt gríðarlegrar hylli, en sumir komast upp á lagið með þessar stangir og dásama þær í hástert.

Það færist í aukana að veiðimenn leggi land undir fót, rölta af stað þaðan sem nokkuð venjulegur fjölskyldubíllinn kemst og stefna eitthvert út í buskann. Mörgum finnst þá sem 9 feta silungastöng í 4 pörtum sé aðeins of löng og fyrirferðamikil dinglandi á bakpokanum. Koma þá til sögunnar stangir í 7 – 10 pörtum úr hágæða grafít þar sem mikil vinna og natni hefur verið lögð í samsetningarnar þannig að þær hafi sem minnst áhrif á virkni stangarinnar. Framleiðendur keppast við að bjóða sem flesta partana og sumum þeirra tekst ágætlega upp að láta þessar stangir hanga saman og þær eru til sem ekki virka bara eins og 2000 ára gömul pílviðargrein. Sem dæmi um nokkra framleiðendur sem hafa náð lagt í hönnun ferðastanga má nefna; Flextec, Airflo og Shakespeare. Allt merki sem fáanleg eru hér heima á viðráðanlegu verði. Ef einhver vill síðan kaupa flaggskipið í ferðastöngum, 9 feta listasmíð í 10 pörtum, þá er hægt að fjárfesta í March Brown Executive fyrir einhverjar 140 þ.kr. Góða ferð út í buskann í sumar.

Wax on….

Á sínum tíma sagði leiðbeinandinn við litla karate strákinn; Wax on, wax off en í þetta skiptið látum við vaxið liggja. Þegar hausta tekur, er lag að huga að græjunum eftir sumarið. Haustið er að mörgu leiti miklu betri tími til að standsetja græjurnar fyrir næsta sumar heldur en að vorið því þá er sprengurinn oft svo mikill að komast í fyrstu veiðina að menn gefa sér ekki tíma til að yfirfara græjurnar eins vel og menn ættu að gera.

Eitt af því sem veiðimenn sinna e.t.v. ekki sem skildi eru samsetningar stanganna. Með tíð og tíma víkka hólkarnir þannig að vatn og óhreinindi eiga greiðari leið inn að kjarna stangarinnar heldur en æskilegt er. Auðvitað ættu allir að gæta að samsetningunum á meðan veitt er, sumir segja á hverjum hálfum tíma í veiði, aðrir láta sér nægja að þrýsta stönginni saman í hvert skipti sem skipt er um flugu eða hugað að taum.

Þegar búið er að yfirfara stöngina; lykkjur og kork, er ekki út vegi að rjóða örlitlu vaxi á samsetningarnar. Venjulegt kertavax er alveg prýðilegt til þessara nota og það þarf alls ekki mikið, oft er minna betra. Vaxið þjónar tvíþættum tilgangi. Fyrir það fyrsta þéttir það samsetningu og svo kemur það í veg fyrir að stöngin ‚grói‘ saman eins og stundum vill gerast, vax á samsetningu hindrar þennan samgróning.

Flugustöng
Flugustöng

Handfangið

Vonandi hafa allir lesendur gengið sómasamlega frá flugustönginni síðasta haust þannig að allt sé klárt núna þegar vorar. Eitt af því sem getur plagað menn verulega þegar vorar eru skítug, mygluð eða jafnvel skemmd handföng á veiðistöngum bara vegna þess að ekki var gengið rétt frá s.l. haust.

Flestir framleiðendur veiðistanga ganga þannig frá sinni framleiðslu að það er tiltölulega lítið mál að skipta um kork í handfangi. Þá geta grúskararnir farið á flug og rennt sín eigin handföng, við hinir kaupum bara ný handföng og í skásta falli skiptum þeim sjálfir út eða fáum starfsmann í viðkomandi verslun til að annast útskiptin. Ef maður hefur alltaf verið fyllilega sáttur við sína stöng, þ.e. gripið á henni, er engin ástæða til að skipta um tegund, maður velur bara sömu týpu og sverleika. En fyrir þá sem hafa ekki verið 100% sáttir getur vel verið ástæða til að staldra aðeins við og kynna sér aðra möguleika.

Flest grip eru þetta á bilinu 6,5” til 7”, þ.e. fyrir einhendur en auðvitað er þetta nokkuð breytilegt á milli framleiðenda. Í grófum dráttum má skipta lögun handfanga í þrennt. Fyrst er að telja Full Wells, þetta sem er handlaga, tiltölulega svert og oftast ‘standard’ á stöngum í stærðunum #7 og upp úr. Það er ekki óalgengt að handstórir veiðimenn veljir þetta lag umfram annað. Eins hefur það borið við að konur velji þetta grip umfram önnur. Half Wells er gripið sem mjókkar fram og er oftast notað á stangir frá #1 til #6. Ekki er óalgengt að handsmáir veiðimenn veljir þetta grip umfram önnur, en láti snúa því öfugt á stönginni, þ.e. sverasta hlutanum fram. Cigar hefur verið nokkuð á undanhaldi hin síðari ár en var hér áður langsamlega algengasta lagið á handföngum. Raunar hafa bambusstangasmiðir haldið nokkurri tryggð við þessa tegund, trúlega til að halda í hefðina.

Góðir stangarframleiðendur leggja sig í líma við að bjóða viðskiptavinum sínum upp á marga mismunandi sverleika handfanga. Það er sjálfsagt mál þegar keypt er framtíðarstöng í hærri verðkantinum að menn spyrjist fyrir um möguleika á sverara/grennra/öðru handfangi áður en gengið er frá kaupunum.

Korkhandföng
Korkhandföng

Ummæli

17.04.2013 – Eiður KristjánssonEr með half-wells á fjarkanum mínum og full-wells á sjöunni. Finnst handföngin henta hvorri stöng um sig nokkuð vel. En hvernig er það Kristján, á ekkert að fara henda sér í veiði? :)

Svar: Alveg sama sagan hjá mér, en ég hef verið að spá í hvort ein ástæða þess að köstin mín með fjarkanum eru aðeins léttari vegna þess að ég held ósjálfrátt léttar um half-wells handfangið. Eigum við eitthvað að ræða veiði? Einmitt núna þegar ég er að skrifa þetta, þá kyngir niður snjó, allt orðið hvítt og ekkert lát á sýnist mér. Fór stutta stund á opnunardaginn, en ekki söguna meir. Sjáum til þegar hlýnar aðeins, læt í það minnsta sjá mig við Elliðavatn á sumardaginn fyrsta, hvort sem vatnið er nú grænt eða grátt 🙂

Hvað skemmir línuna?

Eitur í beinum
Eitur í beinum

Fyrir utan aulaskapinn í okkur sjálfum, léleg köst og niðurslátt í bakkastinu er ýmislegt sem getur skemmt flugulínuna okkar. Eitt það algengasta eru efnasambönd sem við notum í ‚góðri trú‘ til að þrífa línuna og láta hana renna betur. Alþekkt er svokölluð fóbía fluguveiðimanna gegn WD40 smurefninu, ekki flugunni. Sumir ganga svo langt að veiða ekki í vötnum þar sem orð hefur farið af beituveiði sem spreyjuð hefur verið þessu undraefni. E.t.v. er þessi fóbía ekki svo vitlaus. WD40 inniheldur jarðolíur sem þurrka plastefni þannig að efnatengi plastmólíkúla rofnar, sprungur myndast.

Nútíma flugulínur eru framleiddar úr plastefnum; Polyvinylclorid (PVC), Polyurethan (PU), Polyetheline (PE / PET) eða Vinyl. Öll eiga þessi plastefni það sameiginlegt að þola illa jarðolíur og efni unnin úr henni, misjafnlega þó. Sum þessara efna eru jafnframt viðkvæm fyrir sýrum. Það sem hefur síðan ruglað marga er skammstöfunarblæti framleiðenda þar sem þeir fela viðkomandi plastefni í nýrri skammstöfun og láta líta út fyrir að eitthvað nýtt og stórkostlegt efni sé á ferðinni en yfirleitt eru öll plastefni runnin undan rifjum ofangreindra efna.

Allt plastefni er viðkvæmt fyrir útfjólubláum geislum sólar. En þetta þýðir ekki að við eigum að bera sólavörn á flugulínuna. Þvert á móti, sólarvörn hefur þveröfug áhrif á plast m.v. húð og flýtir aðeins fyrir því að það brotnar niður. Hiti flýtir öllu þessu ferli og því rétt að forða línunni frá beinu sólarljósi og hita inni í bíl eða stangarhaldara á húddinu. Geymdu stöngina í skugga á milli holla.

Hér áður fyrr notuðu menn vax á flugulínurnar en það á alls ekki við lengur. Vax var aðeins notað á flugulínur úr silki til að auka flothæfni þeirra. En hvað á maður að nota á flugulínuna í dag? Ef þú vilt á annað borð nota hreinsivörur á flugulínuna, veldu þér þá eitthvað sem þú mundir þora að nota á andlitið á barninu þínu, ekkert annað. Volgt vatn og mild sápa. Áður en þú berð síðan eitthvað á línuna, athugaðu gaumgæfilega hvort það hæfi plasti og þá aðeins vörur til þess gerðar frá framleiðanda viðkomandi línu. Það sem hæfir einni línu getur skaðað aðra. Ef þú vilt endilega ‚spara‘ nokkrar krónur, horfðu þá til silíkonefna. Ekki trúa neinum fullyrðingum um að viðkomandi efni ‚næri‘ plastefnið. Slíkt efni er einfaldlega ekki til, plastefni taka ekki upp næringu. Aftur á móti eru til þau efni sem mynda húð sem verndar plast.  Ókosturinn er bara sá að flest þessara efna hverfa næstum á skemmri tíma heldur en það tekur að bera þau á línuna, sérstaklega þau sem eru vatnsleysanleg.

Nokkur húsmæðraráð hafa skotið upp kollinum í gegnum tíðina. Án þess að dæma efnin eða þá sem nota þau á línurnar sínar, langar mig að benda á eftirfarandi:

Armor All er vatnsleysanlegt og inniheldur fjölda efna sem vinna á PVC. Ætli maður treysti bara ekki orðum Simon Gawesworth, hönnuðar Rio ‚Never, ever use Armorall on a PVC fly line. It breaks down the bond and results in very poor durability. The line will dry out and harden with constant use of Armorall.‘

Rain-X inniheldur ísóprópanól og acetone sem vinna beint á plastefnum t.d. Urethan (PU), polystyrene og PVC. Þetta er því trúlega það efni sem getur lagt flugulínuna að velli bæði að utan og innan. PVC er notað í huluna, PU og polystyrene er notað til að auka flothæfni hennar. Hér er því hægt að slá tvær flugur í einu höggi; eyða hulunni og útbúa sökklínu úr fínu flotlínunni.

Edik er sýra og þar með ætti ekki þurfa að segja neitt meira. Þeir veiðimenn sem mælt hafa með því að bera edik á flugulínur eru í flestum tilfellum að losa sig við útfellingar sem koma til við veiðar í kalkríku vatni. Eitthvað sem við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af hér heima, nema menn séu að veiða í affalli jarðvarmavirkjana. Humm, Nesjavellir?

Sonax mælaborðshreinsir hentar að vísu á vinyl og inniheldur mjög lágt hlutfall jarðefna, en er vatnsleysanlegt efni og endist því skammt. Kannski skársti kosturinn ef þú átt lélega línu sem þú vilt hleypa lífi í skamma stund.

Og svona til að hnýta endahnútinn á þetta, þá eru hér nokkur efni og áhrif þeirra á plast. Ef þú finnur einhver þessara efna í hreinsivörum eða undraefni, láttu það þá einfaldlega vera.

Acetone: eyðir PVC, urethan, neophren, polystyren – Ethanole: leysir upp bindiefni í fiber – Tetrahydrofuran: eyðir PVC – Ethylene dichloride: eyðir Teflon – Methyl chloride: eyðir Teflon (mikið notað í stangir) – Methyl ethyl ketone: eyðir Teflon – Methanol: eyðir urethan, neophren, polystyren – Hexafluoroisopropanol: eyðir PET (kókflöskuplastið) sem er mikið notað í flugustangir – Trifluoroacetic: eyðir PET

Gleraugnaklútur

Gleraugnaklútur
Gleraugnaklútur

Síðari hluta vetrar fóru nokkrir spjallverjar mikinn og lýstu því hvernig best væri að þrífa flugulínuna sína fyrir vertíðina. Eins og gengur komu margar og misjafnar aðferðir fram í dagsljósið. Töfralausnir eins og að bera hinar og þessar tegundir af bílavörum á línuna voru áberandi; Rain-X, Ultra Gloss, bílabón og Armor All. Í guðanna bænum, farið nú varlega eins og einn spjallverji benti á.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þessi umræða um það að menn eru að sækjast eftir hreinni línu / línu sem rennur vel. Ef línan þín hefur aldrei runnið auðveldlega þá er alveg sama hvað þú berð á hana, rennslið lagast ekki nema í skamma stund. Núningur línunnar við sig sjálfa á hjólinu og í gegnum stangarlykkjurnar er afskaplega fljótur að hreinsa undraefnið af henni.

Þegar litið er framhjá undraefnunum þá er það hrein lína sem rennur best og það eru ekki stóru skítaklessurnar sem eru leiðinlegastar heldur fasti fíngerði skíturinn. Fjárfesting í góðri flugulínu í upphafi ásamt míkróklút / gleraugnaklút borgar sig einna helst ef þú leitar að góðu rennsli. Ef þú ert duglegur veiðimaður og veiðir klukkustundum saman, láttu það eftir línunni að draga hana annars slagið inn í gegnum gleraugnaklútinn, jafnvel þótt þú sjáir engin óhreinindi á henni.

Ummæli

15.03.2013 – UrriðiVar einmitt að þrífa allar línur, hjól og stangir í gærkvöldi… núna er ekkert eftir nema að bíða eftir vorinu!

Svar: Vorið er barasta komið hér fyrir sunnan og svo hefur sést til lóu í grennd. Verst að vötnin eru ekki opin í ‘grennd’ en þetta fer nú að styttast.

16.03.2013 – UrriðiAllt undir ís hérna, -7°C og snjókoma…. ekkert vor á næstunni sýnist mér.

Svar: Frúin mín hafði á orði að þú ættir nú svo fallega á að sumri að það væri vel þess virði að bíða eftir vorinu, verð bara að vera sammála henni.

16.03.2013 – ÞórunnSagði nú reyndar líka og á undan að ég vorkenndi honum ekkert! :) Spurning um að hnýta nokkrar flugur í þessu veðrið, hvort sem menn vantar eða ekki :) Bestu kveðjur austur.

17.03.2013 – UrriðiHaha ég tek bara aukavaktir í staðinn fyrir að hnýta flugur, sagði upp vinnunni og hætti að vinna í lok maí til að geta leikið mér í sumar! Ég gæti ekki vorkennt sjálfum mér þó ég reyndi það :)

19.03.2013 – Þórunn: Langar svo að segja hérna….æji sjarap :)

KristjánAuðvitað nýt ég þess að þetta er bloggið mitt og ég get alltaf sleppt því að samþykkja ummæli sem geta orkað tvímælis, ólíkt mörgum spjallvefjum þar sem innlegg eru ekki ritskoðuð 🙂 Ég sleppi þessu síðasta kommenti inn því ég sá öfundina í svip konunnar við þetta síðasta innlegg frá þér, Urriði, hreint óborganlegur svipur.

Hröð, miðlungs eða hæg

Hröð, miðlungs, hæg

Þegar öllu er á botninn hvolft þá gegnir flugustöngin tveimur megin hlutverkum; koma línunni út með sómasamlegum hætti og styðja við baráttu þína þegar þú hefur tekið fisk. Þetta er einföld og góð skilgreining, punktur, málið dautt. Eða hvað?

Óli og María í Veiðihorninu fengu um árið (2006) Hardy á Englandi til að hanna með sér flugustöng fyrir íslenskar aðstæður, Hardy Iceland sem var öllu lengri en tíðkaðist almennt með einhendur, 9,6‘ og stífari, afl hennar var alveg fremst, þ.e. í toppinum. Fleiri hafa hannað stangir fyrir íslenskar aðstæður, JOAKIM‘S stangirnar eru stimplaðar þannig, meðal-hraðar með mjúkum toppi. Nielsen, þ.e. Birgir Þórsson stimplar sínar Powerflex stangir með hentar íslenskum aðstæðum, hröð stöng. E2 frá Scott var síðan hönnuð eftir forskrift Engilberts Jensens, mjúk í toppinn og kraftmikil niður í skaftið. Sem sagt; ég er á Íslandi og taki ég fyllilega mark á þessu þá þarf ég stífa stöng í lengri kantinum með mjúkum toppi sem er þetta frá því að vera miðlungs- og upp í hröð. Og hvernig veit ég að stöngin sem ég er með í höndunum sé þetta allt, ef það er þá hægt í einni og sömu stönginni?

Það verður seint sagt um framleiðendur og seljendur flugustanga að þeir séu hugmyndasnauðir í lýsingum sínum á eiginleikum stanga; mjúk og kraftmikli, djúp vinnsla,einstaklega hröð, aflmikil og hröð. Flestar lýsingar miða að því að lauma inn þeirri hugsun hjá veiðimanninum að hann geti kastað lengra, miklu lengra með viðkomandi stöng. Lengi vel var valið á flugustöng nokkuð einfalt, til voru þrjár skilgreiningar; Fast action, Medum action og Slow action og skilgreiningin var að sama skapi einföld:

  • Fast action / hröð stöng sveigist mest og nánast eingöngu í efsta þriðjundi, þ.e. næst toppinum. Hentar best fyrir stærri (þyngri) flugur, þungar línur og í hreinskilni sagt, hentar betur þeim sem hafa unnið heimavinnuna sína í flugukasti vel, eru góðir kastarar. Allt gengur miklu hraðar fyrir sig og því þurfa tímasetningar í kastinu að vera nokkuð nákvæmar. Oftast notuð í veiði þar sem von er á stærri fiskum, stærri ám eða jafnvel strandveiði.
  • Medium action / miðlungs hröð stöng sveigist alveg niður í annan þriðjung, þ.e. niður í miðju. Þessar stangir hlaða sig hægar heldur en fast action stangir og því gefst kastaranum meiri tími til að tímasetja aðgerðir í kastinu. Góð alhliða stöng sem hentar í ám, lækjum og í vatnaveiði sem ræður vel við flugur í ýmsum stærðum og línur frá #4 – #8. Langflestar stangir fluguveiðimanna falla undir þessa skilgreiningu.
  • Slow action / hæg stöng sveigist alveg niður í fyrsta þriðjung, þ.e. alveg niður í haldið. Þessar stangir hlaða sig mjög hægt frá toppi og niður í hald og því þurfa menn að hafa góða þolinmæði og sjálfstjórn til að vinna með svona stangir. Allt of oft freistast menn (oftast byrjendur) til að flýta aðeins fyrir hleðslunni með því að beita meira afli heldur en stöngin í raun ber og því verður kastið oft á tíðum tómt klúður. Stöngin þarf sinn tíma til að hlaðast. Þurfi fast action stöng 1/3 af x-tíma (svignar í efsta þriðjungi) og medium action 2/3 af x-tíma (svignar í tveimur af þremur hlutum) þá þarf slow action stöng í það minnsta 1,5 af x-tíma til að svigna.

Sem sagt; action lýsir því hvar stöngin svignar undir átaki og hversu langan tíma það tekur hana að hlaða sig, ekki hversu mikið hún svignar, þá tölum við um mýkt hennar.

Ummæli

30.09.2012 – Árni Jónsson: Mér finnst einmitt ég hafa rekið mig á það, að hraðar stangir (og mið-hraðar sérstaklega) henti flestum og þá sérstaklega í logninu á Íslandi.

Svo hef ég líka tekið eftir því að sumir framleiðendur í hærri verðflokkunum eru hættir að tala í hefðbundnum hugtökum. S.d. flokka G.Loomis sínar stangir með “Taper” & “Power” eða tveimur mismunandi skilgreiningum. Taper segir þá til um hver hraðinn á “prikinu” er og Power um hvernig aflið vinnur og skilar sér í aflhleðslunni.

Scott aftur á móti talar um “Flex Profile” & “Recovery Speed” sem að mér finnst vera með betri skýringum sem að ég hef séð (og henta Íslenskum aðstæðum vel)

Sérstaklega hef ég rekið mig á “Fast-action” er langt frá því að vera það sama frá framleiðanda til framleiðanda. Máli mínu til stuðnings nefni ég eitt merki: Winston.

Mín ráðlegging til þeirra sem að eru að reyna að koma sér út úr þessum frumskógi framleiðanda, gerða, verðflokka og alls hins, er að byrja á að finna ódýra stöng frá framleiðanda “X” áður en að farið er útí fjárfestingu og prófa sig þannig áfram þar til að þú ert búinn að finna þann framleiðanda sem að þér finnst henta þínum stíl best. Svo er hægt að fara vinna sig upp í verðflokkum. Svínvirkaði fyrir mig.

Besta stöng í heimi

Flugustöng

Stöngin mín er; a) hröð, b) miðlungs-hröð, c)  hæg, d) stíf, e) miðlungs-mjúk, f) mjúk og ég nota hana í allt. Auðvitað er engin stöng sem nær þessu öllu, enda er þetta aðeins samansafn úr leit á Google yfir það hvernig menn lýsa bestu stöng sem framleidd hefur verið; stönginni sinni. Það hefur verið sagt um karlmenn og bíla að þeirra bíll er bestur; kemst lengst á lítranum, er aflmestur eða endist best á meðan konurnar okkar eiga annað hvort lítinn sætan, sparneytinn eða bara rauðann bíl.

Þegar ég byrjaði í fluguveiði var mér ráðlagt að fá mér miðlungs-mjúka stöng. Hún fyrirgefur þér mistökin var sagt við mig. Fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diamond í tveimur hlutum, hefur núna fengið ákveðinn heiðurssess í bílskúrnum. Ég opna hólkinn reglulega og kíki á hana, en tek hana yfirleitt aldrei með mér í veiði, nema þá sem varastöng. Vissulega var stöngin miðlungs og fyrirgaf mér næstum öll mistökin sem urðu á vegi mínum til að byrja með, ég var sáttur. Ég sótti mér leiðbeiningar varðandi köstin og fékk þá kommentið; fín byrjendastöng og leiðbeinandinn lagði áherslu á að ég ætti að tilta (halla) stönginni til hægri og láta stöngina renna frá fremra stoppi og aftur í það aftara. Þessi hreyfing hefur fylgt mér alla tíð síðan sem minn aðal-kaststíll jafnvel þótt ég noti standard fyrir öxl á styttra færi með léttri stöng.

Þegar mér síðan tókst að tæla konuna mína í fluguveiði, þá var henni bent á Airflo stöng (sett) sem væri tilvalið fyrir byrjendur. Eftir því sem ég best veit var hún mjög ánægð með stöngina en mér fannst hún frá fyrstu tíð allt of stíf (þ.e. stöngin) hún fylgdi mér ekki eins vel í rennsliskastinu mínu. Aftur á móti var hún frábær í standard yfir öxl og það varð einmitt aðalsmerkið í kaststíl konunnar. Maður beinlínis heyrir í ákveðnu fram og bakkasti hennar, svúpp, svúpp (Essence of Fly Casting II – Mel Krieger) beint yfir öxlina. Þeir sem séð hafa til okkar segja, hún kast miklu betur en hann og það er örugglega alveg rétt. Hún vandaði sig líka miklu meira í upphafi því stöngin hennar fyrirgaf henni ekki eins mikið og fyrsta stöngin mín, ég komst upp með villurnar.

Eins og með svo marga fluguveiðimenn höfum við uppfært stangirnar okkar. Hvort sem það var nú frekjan í mér eða aðeins tilviljun, þá erum við með eins stangir sem aðal-stangir í dag; miðlungs-mjúkar JOAKIM‘S MMX. Konan mín heldur áfram að kasta eins og klippt út úr kennslumyndbandi Mel Krieger (svúpp,svúpp) og ég held áfram með rennsliskastið mitt með fáeinum áherslubreytingum til batnaðar. Þegar ég svo tek í hraða stöng, segjum Scott S4 eða Sage One, þá finnst mér svolítið eins og ég sé með kústskaft (bara miklu léttara) í höndunum. Nei, bíðið aðeins áður en þið missið ykkur í hneykslan og formælingum. Það getur vel verið að ég sé auli og asni, en ég er ekki að hallmæla stöngunum sem slíkum. Það segir ekkert um gæði stanganna að menn hafi skiptar skoðanir á þeim, sú stöng sem hentar kaststíl einum getur verið sem kústskaft í höndum annars. Ástæða þess að framleiðendur senda frá sér margar mismunandi útfærslur stanga er einfaldlega sú að þarfir manna og stuðningur stanga við kaststíl þeirra er mismunandi. Fyrsta stöng manna hefur mjög mikil áhrif og mótar, oft fyrir lífstíð, kastið þeirra. Lengi býr af fyrstu gerð og mörgum reynist erfitt að breyta rótgrónum stíl þegar fram í sækir. Það er hægt að leiðrétta og þá eiga menn að nýta sér leiðsögn til þess hæfra manna, kastkennara sem geta litið út fyrir eigin uppáhalds stíl og leiðbeint með rýni til gagns. En hvað með; hröð, miðlungs eða hæg? Meira um það síðar.

Ummæli

26.09.2012 – Árni JónssonAllir góðir kastkennarar taka það einmitt fram að þetta er ekki klippt og skorið og allir þróa sér sín eigin stíl. Kennarar sem segja annað og byrja að segja þér hvað þú átt og átt ekki, hugnast mér ekki.

26.09.2012 – Þórunnawwwwwwww…… (Aðspurð skýrði Þórunn þetta með orðunum; ´Æ, hvað þetta er krúttlega sagt’)