Hvað á barnið eiginlega að heita? Keflishalda, þráðarhalda, bobbin eða bara eitthvað allt annað. FOS.IS hefur haldið sig við keflishalda og heldur sig við það áfram.
Næsta spurning; hvað á barnið að verða þegar það verður fulltíða? Byrjendahöldur eru yfirleitt afar einfaldar; stífir leggir með smá hnúð á sitthvorum endanum sem stingst inn í tvinnakeflið. Þar sem leggirnir mætast er, með einum eða öðrum hætti fest stálrör sem þráðurinn er þræddur í. Byrjendahalda er mögulega ekki réttnefni því margir reyndir hnýtarar halda tryggð við þessar einföldu allan sinn feril og una sáttir við. Þeir sem ég hef heyrt í segjast einfaldlega vera komnir upp á svo gott lag með að stilla átakið á þráðinn í lófanum að þeir vilji engar aðrar.

En rekjum okkur aðeins áfram og tölum um næsta skref sem sú einfalda getur tekið í þroskaferlinu. Í sinni einföldustu mynd, þá er rörið sem þráðurinn er þræddur í gegnum út stáli með örlítið rúnuðum brúnum eða jafnvel ávölum flans á endunum. Sum þessara stálröra eru fóðruð með keramík, hertu gleri eða títaníum þannig að þráðurinn renni ljúflega fram úr höldunni þegar hnýtt er. Sumir hnýtarar velja þessar höldur þegar þeir hnýta með koparþræði, aðrir kjósa einfaldlega stálrör í meiri sverleika. Sjálfur hef ég eignast nokkrar svona fóðraðar höldur, en í fullri hreinskilni þá hef ég sjaldnast kunnað fyllilega við þær, ég kýs næstu kynslóð.

Sú kerflishalda sem ég hef mest notað er kerfishalda með röri úr keramík. Já, hún er viðkvæmari heldur en þær sem eru úr heilsteyptu stáli og ég hef þurft að endurnýja þær nokkrum sinnum ef ég er svo óheppinn að missa þær í gólfið eða reka utan í eitthvað hart eins og t.d. þvinguna mína. Það sem sagt flísast frekar auðveldlega úr þessum rörur og þá er voðinn vís fyrir hnýtingarþráðinn.

Næstu kynslóðir, sem margir segja vera fullþroska keflishöldur, eru þær sem hægt er að stilla tregðuna á hnýtingarþráðinn, þ.e. hve fast keflishaldan heldur við þráðinn þegar hnýtt er. Ég ætla ekki að hætta mér út í þau fræði sem liggja á bak við alla þá hönnun sem liggur að baki þeim allra bestu í þessum flokki, gæti best trúað að ef verkfræðingarnir á bak við sumar þessara halda hefðu gert mun betur heldur en þeir sem hönnuðu vatnsþéttu skilrúmin í Titanic eða eldflaugar sem tókust aldrei á loft eða skiluðu sér óvænt til baka. Þess í stað ætla ég að láta nægja að nefna að verð og gæði fara stundum hreint ekki saman í keflishöldum, þó vissulega sé vandað til efnisvals og hönnuna þeirra sem eru í verði yfir meðaltali. Hvaða útfærslu af og efnisval í keflishöldu menn kunna við, verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér. Ég veit hvar ég á heima og legg eiginlega mest upp úr að öll meðhöndlun höldunnar sé einföld, auðvelt að stilla tregðuna og hún fari vel með þráðinn.
Eitt smáræði til að nefna að lokum. Flestar keflishöldur eru hannaðar miðað við algengustu stærðina á tvinnakeflum sem eru 31 mm á hæð. Hafið þetta í huga ef þið eruð að nota tvinna sem er á stærri eða minni keflum því sumar höldur ráða hreint ekki við breytilega stærð kefla.