Þegar ég var strákur og var eitthvað að stelast með eldspýtur og kveikja varðeld niðri í fjöru, þá fann maður sér stundum stóran stein til að kubba í sundur spýtur á eldinn. Því skarpi sem brúnin á grjótinu var, því auðveldara var að brjóta spýturnar með því að tvíhenda þeim við steininn. Einföld regla um átak beggja megin við fyrirstöðu.
Þessari minningu laust niður í kollinn á mér í fyrrasumar þegar ég sá veiðimann glíma við þokkalegan fisk á einhendu. Fiskurinn tók vel í og stöngin hafði svignað alveg niður að korki, skemmtileg viðureign. Á dauða mínum átti ég von, eða réttara sagt dauða stangarinnar, þegar ég sá viðkomandi færa aðra höndina framfyrir korkinn og upp á miðjan neðsta part stangarinnar. Umsvifalaust breyttist sveigjan í stönginni og náið nú aðeins niður að hendinni, það var greinilega gripið fast.

Mér tókst alveg halda mér á mottunni og allt fór vel að lokum, fiskurinn komst á land og stöngin enn í sínum upprunalegu fjórum pörtum. Það er gott þegar veiðimaður þekkir og treystir stönginni sinni, en þetta fálm um neðsta hluta stangarinn bar þess ekki merki að hann treysti henni og skapaði trúlega meiri ógn heldur en gagn. Undir þeim kringumstæðum þegar þú treystir ekki stönginni, lækkaðu þá frekar hornið, kláraðu viðureignina og athugaðu síðar hvað sterkari stöng kostar þig.
Senda ábendingu