Enn og aftur dettur mér Harry Potter í hug, síðast var það þegar ég var spurðum um val á flugustöng, en núna kviknaði þessi tenging hjá mér þegar mér varð fótaskortur á internetinu og lenti á myndbandi þar sem hönnuður hjá þekktu fyrirtæki kynnti byltingarkennda nýja flugustöng. Svona meðal annarra orða, þá er eins og stangarframleiðendur séu sífellt óánægðir með veiðisamfélagið, það er alltaf eitthvað byltingarkennt (e: revolutionary) á leiðinni frá þeim.
Þessi umrædda byltingarkennda stöng átti að vera með innbyggða skriðvörn, svona eins og flestir bílar í dag, sem átti að koma í veg fyrir að toppur stangarinnar leitaði til annarar hvorrar hliðar í kastinu með þeim afleiðingum að línunni skrikar fótur og sveigir frá beinni línu. Þessi hegðun er vel þekkt þegar hleðsla neðri hluta stangarinnar lendir í toppstykkinu með þeim afleiðingum að toppurinn fer að víbra í láréttu plani, sveigir til hliðanna.

Örvæntið ekki, þið þurfið ekkert að hlaupa og kaupa ykkur nýja stöng með skriðvörn, þ.e.a.s. ef þið eigið hana ekki nú þegar, því það er til gamalt og gott ráð við þessu. Með smá æfingu er hægt að vinna gegn þessari hegðun. Þegar þú leggur af stað í kast og verður var við að stönginn er mögulega ofhlaðin, þá getur þú, rétt áður en þú stoppar í framkastinu, snúið lítillega en snöggt upp á stöngina um örfáar gráður, þetta tekur hliðarvíbringinn úr toppstykkinu. Það sem þú þarft að læra er að finna hve margar gráður þú átt að snúa upp á stöngina til að vinna á móti ofhleðslunni, það er afar misjafnt eftir stífleika og gerð stanga hve margar gráðurnar eru.
Til að setja þetta í samhengi við annað sem ég hef nefnt hér á síðunni, þá er þetta snaggaraleg útfærsla á s.k. sveigkasti (e: curve cast) sem nota má til að koma flugunni á bak við hindrun, svo sem stein eða girðingarstaur úti í vatni sem eru ótrúlega margir á Íslandi.
Senda ábendingu