Það sem af er sumars hef ég verið að máta mig við nýja stöng og nú hef ég verið að upplifa það á eigin skinni sem orðrómurinn á götunni sagði mér fyrir mörgum árum; það eru til þrjár fjölskyldur flugustanga. Eins og annar orðrómur er þessi ekkert áreiðanlegur, en hann gefur vísbendingu um að þessar þrjár fjölskyldur. Það er síðan undir ættfræðingum komið að dæma um það hvaða fjölskyldu hver stöng tilheyrir.
Sú stöng sem ég er að máta mig við tilheyrir fjölskyldu stanga sem einfaldlega smella í handbremsuna ef ég reyni að taka völdin af henni. Ég hef reynt þetta, viljandi og óviljandi það sem af er sumri og ég þarf greinilega að hægja aðeins á mér og hlusta betur á stöngina. Mér skilst að meðlimir þessarar fjölskyldu séu nokkurskonar erfðabætt grænmeti sem hefur kostað milljónir að hanna og búa yfir töfrabrögðum sem venjulegum veiðimanni er um megn að tjónka við, það verður einfaldlega að leyfa stönginni að ráð, annars fer allt í kássu.
Þeim sem geta ómögulega sætt sig við stangir sem taka af þeim völdin, þeim sem vilja stýra öllu frá upphafi ferðalagsins og til enda, þeir ættu e.t.v. að bindast böndum við allt aðra stangafjölskyldu. Meðlimir þeirrar fjölskyldu styðja við allt gott sem kastarinn gerir, leggja að vísu ekkert mikið til málanna en yppta líka bara öxlum yfir hverri vitleysu sem honum dettur í hug að gera. Sumir hafa kallað þessa fjölskyldu postulafjölskylduna, fyrirgefa öllum allt og gera engum mein. Oft eru þessar stangir í ódýrari kantinum, framleiddar úr þekktum og margreyndum hráefnum, ekkert verið að tefla á tvær hættur.
Fram til þess hef ég verið trúlofaður inn í fjölskyldu stanga sem virka vel undir öllum venjulegum kringumstæðum, eru á viðráðanlegu verði og hjálpa mér mátulega við köstin, en ég verð að leggja svolítið til málanna til að koma línunni þangað sem ég vil fá hana. Þetta er trúlega sú fjölskylda sem tekur mestum breytingum á milli kynslóða, því oft er hryggjastykki stanga í þessari fjölskyldu einhverjir kynblendingar hinna fjölskyldnanna tveggja. Nýleg hráefni, stundum afleggjarar næst nýjustu kynslóðar þeirra erfðabættu notuð í þessar stangir en framleiddar með það fyrir augum að fyrirgefa miðlungs kastaranum aðeins meira.

Ég er sem sagt í þeim sporum núna að hægja á mér, hlusta og leggja hreyfingu til stangarinn frekar en afl. Þetta verður áhugavert sumar.
Senda ábendingu