Hér áður fyrr voru háfar stórir, mjög stórir og festir á langt skaft þannig að það væri auðvelt að ná stórum, stórum löxum í þá, helst án þess að bleyta gúmmískóna. Hvenær það gerðist að silungsveiðimenn fóru að bera á sér háf til að ná fiski, veit ég bara ekki, sumir segja að það séu aldir síðan, aðrir aðeins nokkrir áratugir.
Þeir eru nokkrir silungaháfarnir sem maður hefur séð hingað og þangað, munaðarlausir og trúlega sárt saknað. Mér skilst að það séu alltaf einhverjir sem þjóðgarðsverðir á Þingvöllum pikki út úr runnum á hausti hverju þar sem birkið þrengir að göngustígum við vatnið. Verður maður ekki að fara með rulluna 7, 9, 13 og banka í tré áður en maður segir; ég hef aldrei glatað mínum háfum alveg, þeir hafa stundum brugðið sér frá örskamma stund, en alltaf skilað sér aftur.
Ég er svolítið gamaldags og kýs að nota tréháf sem er eðlilega nokkuð þyngri heldur en léttmálmsháfur og því tók það mig nokkurn tíma að finna segulfestingu sem heldur honum tryggilega án þess þó að vera of stíf þegar til á að taka. Ég er raunar með tvöfalt kerfi; segulfestingu með mótstykkið fast í hnakkastykkinu á veiðijakkanum mínum og lás sem ég get ég get smellt í slyngupokann (e: slingbag) minn þegar þannig ber undir.

Segulfestingin er á enda handfangsins á mínum háfi, þannig vil ég hafa hana en þetta er alls ekki algilt. Margir kjósa að hafa festinguna á gjörðinni þannig að handfangið lafi niður, telja að þannig séu minni lýkur á að netið festist í gróðri og háfurinn missi festuna. Ég kaupi þessi rök og líka þau að með þessu móti er auðveldara að ná til handfangsins þegar losa á háfinn. Mótrökin eru afskaplega einföld, þegar ég er búinn að nota háfinn og hann er blautur, þá kýs ég að láta netið dingla því þannig drýpur betur úr því í stað þess að það liggi blautt við bakið á mér.
Eins og ég nefndi hér fyrr, þá er ég líka með smellutengi í teygju við háfinn minn þannig að ég get húkkað hann í beltið á vöðlunum þegar ég er úti í vatni og gripið til hans þegar minnst varir. Þannig þarf ég ekki að fálma eftir segulfestingunni á bakinu í hvert skipti sem ég þarf að grípa til hans. Þess á milli flýtur hann bara við hlið mér og bíður þess að næsti fiskur lætur glepjast af flugunni minni.
Senda ábendingu