Það hefur nú ekki verið talið til kosta að vera með þumal sem alla fingur og því er ótrúlegt að til séu jafn margar þumalputtareglur um hitt og þetta. Eini velkomni þumallinn sem ég þekki í fluguveiðinni er sá sem maður setur á handfangið í kastinu. Þann þumal ættu veiðimenn að virða og halda í heiðri eins og mögulegt er.
Þarna kom nú enn ein reglan sem ég þekki, en hefur ekki auðnast að halda alltaf í heiðri. Reyndar er orðið þumalputtaregla lauslega skilgreint í orðabókum sem eitthvað til að hafa sem almenna, lauslega viðmiðun. Þar hafið þið það. En það það eru nú samt nokkrar puttareglur sem vert er að hafa í huga í veiðinni og þær gætu hjálpað.
Eitt af því sem tengist putta með beinum hætti er nöglin. Neglur veiðimanna koma oft að góðum notum, ekki síst þegar kemur að því að meta hvort öngull á flugu sé nægjanlega beittur. Með réttu ætti það að vera hluti af upphafi kastsins, í það minnsta annað slagið, að athuga samsetningu línu og taums, taums og taumaenda, taumaenda og flugu, og síðast en ekki síst; hvort öngull flugunnar sé nægjanlega beittur. Einfaldasta leiðin til að athuga þetta er að stinga sig á önglinum, en þegar til lengri tíma litið þá er það kannski ekki besta leiðin. Mun betra og sársaukaminna er að tylla öngulbroddinum ofan á nögl fingurs. Ef öngullinn situr fastur, þá ert þú góður í næsta kast. Ef þú getur, án þess að beita einhverju afli, fært hann til á nöglinni án þess að hann rífi hana upp, þá þarf annað tveggja; brýna öngulinn eða skipta um flugu.

Hér geng út frá því að veiðimenn eigi öngulbrýni eða naglaþjöl eða hafi laumast í snyrtitösku einhvers nákomins og tryggt sé afnotarétt af slíkri græju.
Senda ábendingu