Þingvallavatn 31. ágúst 2019

Haustlitaferð, skreppur, laugardagsbíltúr. Það er eiginlega alveg sama hvað menn vilja kalla þessa ferð okkar veiðifélaganna inn að Arnarfelli á Þingvöllum. Það var frábært veður til útivistar, hressandi úði og hitastigið rétt mátulegt þannig að maður var ekki að rugla eitthvað í hitastiginu í vöðlunum.

Við Arnarfell

Auðvitað er þetta bara eitthvert orðagjálfur til að dreifa athyglinni frá því að ekki einn einasti fiskur kom á land, þótt annað okkar hefði vissulega orðið vart við fisk í víkinni austanverðri.

Vottur að hausti

En, það er farið að hausta örlítið á Völlunum, samt ekki eins mikið og ég hafði gert ráð fyrir. Vatnið hefur kólnað eða það held ég í það minnsta, gróðurinn er farinn að skarta skærari litum og það eru bláber, krækiber og hrútaber við hvert fótmál. Sem sagt, dagsparti vel varið í dag á Þingvöllum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 58 / 74 0 / 0 15 / 38 22 / 23

Þingvallavatn 23. júlí 2019

Það var ekki slæm hugmynd að nýta rigningarskúr síðdegisins í ferðalag á Þingvelli í gær. Veðurguðirnir kláruðu að hella úr skálum sínum á meðan við renndum inn að Nautatanga og drógum á okkur veiðifatnað sem að þessu sinni var aðeins í örfáum lögum því hitastigið var rétt um 17°C þrátt fyrir dembuna.

Arnarfell séð frá Nautatanga

Það var greinilegt að murtan kunni vel við sig á þessum slóðum eftir rigninguna. Það var nægt æti og hún sýndi takta sína við að góma flugur á öllum stigum; undir, í og ofan yfirborðs. Eftir að við veiðifélagarnir höfðum sett í sitt hvora murtuna ákváðum við að færa okkur innfyrir Arnarfell. Það verður bara alveg að játast að þar réð miklu að umferðarniður frá Vallavegi var í meira lagi og ekki bætti úr skák að einhver skolli með fjarstýringu sá til tilneyddan að þeyta suðandi loftdóna fram og til baka yfir okkur.

Yfirleitt hefur það nú verið svo að Arnarfellið og ströndin hafa verið heldur fáliðuð þegar við kíkjum þangað, en það var svo sannanlega ekki þannig í gær. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar ég taldi alla bílana á stæðinu austan við Arnarfell, nú væri lag að taka þátt í illindum og rétta jafnvel einhverjum sjómannakveðju eins og haldið hefur verið fram að sé orðið landlægt í Þjóðgarðinum.

Veiðimenn og himbrimi í sátt og samlyndi

Ef þetta hefði nú raunverulega verið ásetningur minn, þá hefði ég orðið fyrir miklum vonbrigðum. Á staðnum var töluverður fjöldi veiðimanna sem allir höguðu sér hið besta, buðu góðan daginn á nokkrum tungumálum og spjölluðu saman um veiði, flugur og ástundun. Síðan héldu menn sína leið, virtu mann og annan og komu sér fyrir í mjög passlegri fjarlægð frá næsta manni. Kannski spilaði veðrið svona mikið inn í þessa hegðun, það var rólegt yfir og Þingvallavatn og nágrenni skörtuðu sínu fegursta fram eftir kvöldinu. Meira að segja himbriminn rak aðeins upp eitt einasta gól þegar hann kallaði á ungan sinn, það var eins og hann væri jafn slakur og mannskeppnunar á staðnum.

Arnarfellsey

Af veiði okkar félaganna er það helst að frétta að við byrjuðum utarlega í Arnarnesvík, færðum okkur síðan í rólegheitum yfir á ströndina undir fellinu og alla þessa leið var krökkt af murtu sem lagðir þurrflugur og púpur okkar í einelti. Við fréttum af einni kuðungableikju um pundið sem kom á land undir Mjóaneshrauninu skammt utan við víkina, en annars voru menn í murtu, murtu og aðeins meiri murtu. Þar sem við misstum fljótlega töluna á öllum þeim fiski sem tók hjá okkur, þá verður ekkert skráð í veiði hér að neðan.

Ómetanlegt

Á tímabili gerðum við okkur vonir um að bleikjan sem óð í æti úti við Arnarfellsey mundi sækja inn að ströndinni þegar kvöldaði, en þegar hún hætti að láta sjá sig rétt um kl. 22, þá töltum við í rólegheitum til baka og héldum heim á leið. Eftir þetta frábæra síðdegi og kvöld við Þingvallavatn, leið mér eins og ég ímynda mér að rafmagnsbíl líði eftir heila nótt í hleðslu; fullur orku og sérstaklega slakur.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 55 / 71 0 / 0 7 / 14 16 / 16

Þingvallavatn 19. maí 2019

Að vera vakinn rétt um kl. 7 með skilaboðum um að allt sé klárt, kaffið komið á brúsa og græjurnar klárar, er ekki það versta sem getur komið fyrir á sunnudagsmorgni. Auðvitað dreif ég mig á fætur, svalg í mig fyrsta kaffibolla dagsins og lagði af stað út í blíðuna sem beið á Þingvöllum.

Við byrjuðum að kíkja við í Vatnskotinu, en eitthvað sagði okkur að færa okkur örlítið austar þannig að við slepptum Tóftum og fórum í Vörðuvík. Það var ekki um að villast að það var fiskur á ferðinni í morgunstillunni, en þegar við vorum loks komin fram á bakkann, þá var eins og allt væri búið.

Þegar síðan túristarnir voru vaknaðir og mættu syngjandi glaðir fram á bakkann, í orðsins fyllstu merkingu, þá töltum við yfir á Öfugsnáðann og böðuðum ýmsar tegundir flugna þar án árangurs. Og við vorum ekki ein um þetta áhugaleysi fiskanna. Félagi í veiðifélaginu okkar sem kom á staðinn rétt um það bil sem við settumst niður í árbít, varð ekki heldur var við fisk.

Eitthvað lagðist hitastigið í vatninu illa í okkur og eftir smá tíma ákváðum við hjónin að breyta alveg til, færa okkur austur fyrir Steingrímsstöð og prófa Úlfljótsvatnið. Það er annars merkilegt hve veður getur skipst á milli vatnanna. Þessi rjóma blíða, sem þó skorti aðeins hitastigið, var hvergi nærri við Úlfljótsvatnið að norðan og við entumst því ekki lengi þar og héldum aftur á vit Þjóðgarðsins.

Nú var ákveðið að fara í Vatnskotið, þar sem heldur hafði þynnst í hópinum. Fáar sögur af fiski, en veiðiverðir Þjóðgarðsins nokkuð brattir og tékkuðu einarðlega á veiðileyfum viðstaddra. Við hjónin prófuðum ýmsar tegundir flugna, kannski meira til að njóta umhverfisins og blíðunnar heldur en með von um fisk í brjósti.

Þegar svo tveir aðrir félagar okkar mættu fisklausir á staðinn, var einfaldlega sest niður, skeggrætt um allt milli himins og jarðar, þó mest um veiði og ótrúlega umferð stórra fólksflutningabíla á Vallavegi, þessum mjóa og heldur slappa spotta sem tæplega rúmar fólksbílamætingar, hvað þá tuga tonna ferðamannadrossíur sem þurftu að mætast þarna.

Þetta var hin ágætasti dagur, þótt enginn hafi verið fiskurinn og viðmælendur okkar sammála um að bæði skordýr og bleikjur fara heldur betur á stjá þegar það hefur hitnað örlítið betur.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 9 / 0 0 / 2 4 / 5

Þingvallavatn 24.júní

Þar sem ég fór einn í Framvötnin á laugardaginn og kom til baka með 25 bleikjur var ekki nema sanngjarnt að gefa veiðifélaga mínum færi á að jafna metin í dag, sunnudag. Þingvallavatn hafði enn ekki verið sigrað þetta sumarið, veðrið milt og gott og því var stefnan tekin á Tóftir í dag.

Til að koma stuttri sögu til skila, þá var ekki alveg eins mikið líf við Tóftirnar eins og við höfðum gert okkur vonir um, en vissulega vakti það vonir okkar um fisk þegar við mættum veiðimanni þar með nokkrar vænar bleikjur í farteskinu. Því miður náðum við hvorki að kasta kveðju á viðkomandi né rekja úr honum garnirnar um flugur eða aðferðir, þannig að við renndum bara blint fyrir þær bleikjur sem mögulega voru eftir við eyjuna, þaðan sem hann kom.

Eftir smá stund tókum við eftir hreyfingu við yfirborðið, jú þær voru þarna í æti og því settum við þurrflugur undir og niðurstaðan varð ein hjá mér og þrjár hjá veiðifélaganum. Að vísu voru þær allar undir máli og því sleppt, ekki einu sinni teknar myndir af þeim og því verður mynd af veiðifélaga okkar, óðinshananum að duga frá Þingvöllum í dag.

Þegar okkur þótti fullreynt að ná stærri fisk í Tóftum renndum við að Þjónustumiðstöðinni í smá kaffisopa og síðan í Vatnsvikið. Enn styttri útgáfa, ekki einn einasti fiskur gein við flugum okkar þannig að við fórum fisklaus heim. Eins gott að við eigum bleikjur úr Framvötnum í ísskápinum.

Ef að líkum lætur verður næsta veiðiferð okkar félaganna að viku liðinni í Veiðivötn. Fram að þeim tíma verða græjurnar bónaðar, flugur taldar og fyllt á það sem vantar. Sjálfur ætla ég að passa einstaklega vel upp á að taka með mér vöðluskó, helst öll þrjú pörin mín í þetta skiptið. Þeir glotta sem muna eftir síðustu ferð minni í Veiðivötn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 18 / 39 0 / 0 0 / 1 / 10

Þingvallavatn 20.júní

Það var svei mér alveg eins og sumarið hefði skotið upp kollinum í dag hér sunnan heiða og því þótti okkur veiðifélögunum við hæfi að skunda á Þingvöll og halda upp á daginn. Við vorum langt því frá þau einu sem fengu þessa hugdettu, bæði ferðalangar og veiðimenn fjölmenntu á Þingvöll seinnipart dags.

Við fórum í Vatnskotið, gengum fyrir Vatnsvíkina, kíktum út í eyju og þræddum ströndina vestur að Breiðatanga og annað okkur uppskar eina góða töku, en enginn fiskur kom á land. Að lokum kíktum við í Vatnsvikið, en þar var fiskurinn ekkert í meira stuði þannig að við fórum fisklaus heim, en með lungun full af fersku lofti og sól í hjarta.

Í þessari ferð sannaðist það að það eru líka til þeir veiðimenn sem núlla á Þingvöllum þrátt fyrir að margir hafi gert mjög góða veiði þar upp á síðkastið. Eitt er þó víst, rykfallnar Þingvallaflugur fengu bað og eru nú hreinar og sætar, til í tuskið ef það kemur annar sumardagur þetta árið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 15 / 13 0 / 0 0 / 1 6 / 8

Fullsæll, Brúará, Þingvallavatn 22. júní

Það er alltaf gaman að skipuleggja veiðiferðir með töluverðum fyrirvara, bíða eftir stóra deginum, hlakka til í það sem virðist vera óendanlegan tíma þar til loks kemur að ferðinni. En það er líka skemmtilegt að láta sleggju ráða kasti, pakka veiðigræjunum í bílinn og bruna bara eitthvað út í buskann. Við veiðifélagarnir áttum erindi austur að Laugarvatni í gær, þannig að það lá beinast við að keyra í gegnum Þjóðgarðinn á Þingvöllum og yfir Lyngdalsheiðina og athuga með veiðimöguleika í Tungunum.

Eftir erindi okkar á Laugarvatni datt okkur í hug að renna niður að Syðri Reykjum og spyrjast fyrir um veiði í Fullsæl. Einhver hafði sagt mér að þetta væri lítill og nettur lækur sem rynni í Brúará milli Efri- og Syðri Reykja. Smá misskilningur eða misminni hjá mér; Fullsæll er ekkert lítill lækur, í það minnsta fyrir óvanan straumveiðimann eins og mig. Kannski hafa rigningar síðustu daga eitthvað með það að gera, en mér fannst yfirdrifið vatn í þessari nettu á.

Fullsæll

Við hófum leika neðan brúar og fikruðum okkur niður með ánni. Ég eyddi töluverðum tíma í að losa fluguna mína úr nálægum birkihríslum á meðan veiðifélagi minn setti í væna bleikju á þurrflugu rétt ofan við Byrgishyl. Því neðar sem kemur í ánni, fellur hún hraðar og ég átti fullt í fangi með að strippa fluguna mína á milli þess sem ég losaði hana úr nálægum gróðri fyrir aftan mig og bægði mýflugum frá andlitinu á mér.

Flúðir í Fullsæl

Það verður ekki af umhverfi Fullsæls skafið að það er fallegt og ekki síðra þar sem árin rennur í Brúará. Það var einmitt við ármótin sem veiðifélagi minn tók þokkalegan urriða á Dentist og ég hélt áfram að losa fluguna mína úr nálægum gróðri. Áfram héldum við niður eftir Brúará með viðkomu á þeim stöðum sem við héldum að gætu gefið okkur fisk. Það stóðst auðvitað hjá veiðifélaga mínum sem veifaði skyndilega öllum öngum og bað um aðstoð við að landa enn einum fiskinum sem sótti stíft í að renna sér undir bakka Brúarár og vildi hreint ekki í háfinn. Auðvitað varð ég við þessari beiðni, um leið og ég hafði losað fluguna mína úr nálægum trjágróðri og aðstoðaði við að landa glæsilegum, rúmlega tveggja punda urriða sem kom á Prince #12.

Ármót Brúaráar og Fullsæls

Þegar hér var komið sögu var kast og stripp þreyta farin að segja eitthvað til sín og við röltum aftur upp með Brúará og Fullsæl þar til við vorum komin aftur í beygjuna neðan brúar. Það þarf töluverða jákvæðni til að segja að urriðinn sem ég fékk þarna á breiðunni hafi verið tittur, en hann var það mikill kjáni að eltast þrisvar við þurrfluguna mína þar til hann náði loksins að opna munninn það mikið að hann náði að bíta í krók #16. Auðvitað fékk stýrið líf og vonandi nær hann að éta eitthvað af þessum mýflugum við Fullsæl sem annars munu herja á andlitið á mér í næstu veiðiferð, því það er næsta víst að við eigum eftir að leggja leið okkar að Fullsæl aftur. Skemmtileg veiði í fallegu umhverfi fyrir lítinn pening; hálfur dagur á 1.500,- kr.

Á heimleiðinni stoppuðum við í blíðunni á Nautatanga við Þingvallavatn þar sem ég náði að klóra örlítið í aflatölur veiðifélaga míns með því að taka eina fallega bleikju. Ég naut aðstoðar innfædds íbúa Þjóðgarðsins við veiðarnar því lítil hagamús trítlaði þarna rétt við fætur mér á tanganum og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara. Af lífi í vatninu er það að segja að það var merkilega lítið þrátt fyrir stillu kvöldsins og þegar fór að halla í miðnættið létum við gott heita og héldum heim á leið eftir skemmtilega óvissuferð, eitthvað út og suður.

Annar af veiðifélögum mínum við Þingvallavatn
Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 14 / 12 / 0 10 / 2 6

Þingvallavatn, 21. maí

Loksins, loksins, loksins. Nei, ekki fiskur en við veiðifélagarnir fórum sérstaka ferð í þeim eina tilgangi að veiða og njóta þess að vera úti við, án þess að þurfa að óttast frostbit eða kal á fingrum og tám. Þingvellir urðu fyrir valinu, smurt nesti og kaffi á brúsa og við mætt í Þjóðgarðinn rétt upp úr kl.9 í morgun.

Dásamlegt veður í Vatnskotinu og þó nokkri veiðimenn á stjái, en engar bleikjur. Þannig fór nú um sjóferð þá, en nokkurra vikna múr veiðileysis rofinn í það minnsta. Næsta veiði? Þegar færi gefst.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 / 0 2

Þingvallavatn 7.maí

Einhverra hluta vegna var ég eiginlega nokkuð viss um að sólin hefði náð að kveikja aðeins meira líf á Þingvöllum í dag heldur raunin varð á. Við reyndum fyrir okkur í Hallvik og Öfugsnáða án þess að verða svo mikið sem vör við fisk. Einhver fluga var á vatninu, ekki margar en þó einhverjar og nokkrar endur í kafarabúningi gerðu sér lirfur að góðu.

Það var blíða á Þingvöllum í dag
Það var blíða á Þingvöllum í dag

Undir hættumál kíktum við á mannskapinn í og við Vatnskot þar sem menn voru greinilega að gera sig klára í veiði langt fram í nóttina. Vonum að þeim hafi auðnast að aflanda nokkrum urriðum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 7 / 0 1 6

Þingvallavatn með meiru, 11. ágúst

Ágæt uppskrift að steiktum kjúklingi er að rjóða hann vel og vandlega með Köd og grill og bæta síðan slatta af hvítlaukskryddi ofaná. Steikist í ofni í c.a. 1 klst. við 175°C, borið fram með köldu pastasalati eða hrísgrjónum, allt eftir smekk. Og hvað kemur þetta veiðiferð dagsins við? Jú, það fékkst ekki branda upp úr Þingvallavatni hjá okkur hjónum í dag, hvað þá úr öðru vatni sem við heimsóttum eftir snautlega ferð í Þjóðgarðinn. Kvöldverður fjölskyldunnar verður því ofnsteiktur kjúklingur í stað pönnusteikst silungs.

EKKI afli dagsins
EKKI afli dagsins

Það var svo sem ekkert út á veðrið að setja, dásamlegt í alla staði og við fengum vel útilátinn skammt af D-vítamíni ofan á ánægjuna að vera úti við stóran part úr deginum. Svo mörg voru þau orð…..

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 89 / 105 / 0 17 / 27 11 / 15

 

Þingvallavatn, 3. ágúst

Þegar sól og blíða gerir alvarlega vart við sig hérna á suð-vesturhorni landsins er fátt sem getur stoppað mann í að skjótast í veiði og þá eru Þingvellir fyrirtaks áfangastaður. Þrátt fyrir ýmsar annir á heimilinu létum við hjónin það eftir okkur að skjótast dagspart á Vellina. Við vorum greinilega ekki þau einu sem fengum þessa hugdettu því það var verulega margt um manninn á Þingvöllum í dag. Bíll við bíl á stæðunum og maður við mann á veiðistöðunum.

Við byrjuðum við enda Davíðsgjáar þar sem ég fékk smá forskot á Urriðadansinn þar sem einn af höfðingjum Þingvallavatns synti í makindum fram og til baka án þess svo mikið sem gjóa augunum á flugurnar sem ég bauð honum. Þegar mér var farið að leiðast þetta skeytingarleysi urriðans færðum við okkur inn að Grátum þar sem við gerum okkur vonir um að bleikjan væri eitthvað viðmótsþýðari. Svo reyndis líka vera því eftir tvö til þrjú köst var tekið harkalega í Peacock með orange skotti hjá mér. Eftir þokkalega baráttu lá glæsileg hryggna í netinu hjá mér, feit og pattaraleg. Við nánari skoðun sá ég strax að hún var kominn töluvert nálægt hrygningu og væntanlega nokkuð pökkuð af hrognum, eins og kom síðar á daginn. Þegar heim var komið kreisti ég hrognin í krukku, létt-saltaði og setti í ísskápinn. Sjáum til hvernig smakkast eftir nokkra daga.

Létt-söltuð bleikjuhrogn
Létt-söltuð bleikjuhrogn

Og þessi bleikja var ekki sú eina á svæðinu, því í dulítilli vík í grennd voru nokkrar stæðilega systur hennar að hafa sig til fyrir ferðalagið inn að Ólafsdrætti. Áhugaleysi þeirra á flugum var slíkt að ég tók upp myndavélina og skaut nokkrum skotum af þeim þar sem þær syntu um eins og sannkallaðar drottningar Þingvallavatns. Vonandi skilar stemningin sem ég upplifði við vatnið í dag til ykkar í gegnum þessa klippu.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 89 / 105 / 0 17 / 27 10 / 13

 

Þingvallavatn 31. maí

Við hjónin tókum okkur til og renndum upp að Þingvöllum rétt um kl.19 þennan síðasta dag maí mánaðar. Byrjuðum í Vatnskotinu en urðum ekki vör við fisk. Heyrðum síðan afspurn af afspurn að ein bleikja hefði þó komið á land. Raunar gátum við staðfest eftir að heim var komið að það var fiskur á milli Murtuskers og Breiðaness, því fiskilegur skuggi sást á myndbroti sem ég tók undir yfirborði vatnsins. Hefði maður nú bara kastað á þær slóðir.

Við enduðum þetta dásamlega kvöld á Þingvöllum með því að kíkja á Snáðann en urðum ekki heldur vör þar þannig að heim héldum við um kl.23, sæl og ánægð með að hafa drifið okkur af stað. Eftir svona fallegt kvöld er bara allt í lagi að koma fisklaus heim.

Þingvallavatn 31.maí 2015
Þingvallavatn 31.maí 2015

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 2 3 / 6

Þingvallavatn, 18. júní

Undantekningin sannar regluna; Sjaldan er ein bleikjan stök. Við hjónin stukkum á glufuna sem myndaðist í yfirvinnunni hjá mér, settum kvöldmat snemma á borð, gúffuðum í okkur og stungum af á Þingvöll. Þokkalegt veður, SSV átt 4-5 m/sek., þoka en hlýtt. Af gefinni reynslu var ákveðið að byrja í Nesi þar sem frúin fékk murtu-nart, ég ekkert.

Færðum okkur eftir nokkra stund yfir í Vatnskotið vestanvert og komum okkur fyrir úti í Vatnsvíkurhólmanum þar sem mér tókst að krækja í eina bleikju í matfiskstærð og eina murtu. Annað varð svo sem ekki til frásagnar um þessa ferð okkar. Engin mynd, nema sú sem Þingvellir stimpluðu inn í huga minn þetta kvöld, rólegheit.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 4 / 0 5 / 11 11 / 16

 

Þingvallavatn, 17. júní

Hvar eiga veiðimenn að vera annars staðar en á Þingvöllum á þessum degi? Ég reif mig upp kl.6 í morgun, hitaði vatn á brúsa og skundaði á Þingvöll, eins og sagði í ljóðinu forðum. Dásamleg þoka grúfði yfir völlunum og vatninu, hlýtt og stillt veður, ekki hægt að biðja um það betra.

Þingvelli kl.07:00 17.júní 2014
Þingvellir kl.07:00 17.júní 2014

Um síðustu helgi fórum við hjónin á Þingvöll og áttum skemmtilega stund með fullt af murtum og 2-3 undirmálsbleikjum sem ekki verða færðar til bókar sökum smæðar. Í þeirri ferð brugðum við út af vananum og fórum í Tóftirnar austanverðar, svæði sem lofar góðu. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar í morgun og byrjaði í Tóftum, en fljótlega fékk ég það á tilfinninguna að trúlega yrði meira um menn en afla á þeim slóðum, svo ég færði mig út á Nes með stefnuna á Nautatanga.

Eftir að hafa hrist nokkrar murtur af brá svo við að tekið var í Peacock’inn af fullri alvöru. Jamm, ekki bar að öðru en stærri bleikja væri þar á ferð. Eftir nokkuð snarpa viðureign lá þessi líka feita og pattaralega hryggna á bakkanum, 1 – 1,5 pund. Skömmu síðar var aftur tekið í Peacock og nú af enn meiri alvöru. Viðureignin var að sama skapi lengri og endaði með þessari líka fínu bleikju á bakkanum.

Þingvallableikja - 2,5 pund
Þjóðhátíðarbleikja – 2,5 pund

Eftir smá  bið, með tilheyrandi árangurslausum tilraunum með aðrar flugur, setti ég Peacock aftur undir og auðvitað kom enn ein bleikjan á hjá mér í svipaðri stærð og sú fyrsta. Flottur morgun á Þingvöllum í kyrrð og ró, fjarri glys og látum Borgarinnar. Ég hef sjaldan átt ánægjulegri Þjóðhátíðardag, til hamingju með daginn.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 3 3 / 0 5 / 11 10 / 15

Ummæli

17.06.2014 – Þorkell: Fagnaði þjóðhátíðardeginum með nákvæmlega sama hætti og þú. Reis úr rekkju klukkan sex, skundaði á Þingvöll og treysti vort heit. Landaði þremur bleikjum á Pheasant tail og Peacock og veðrið maður. Til hamingju með daginn sömuleiðis.

Svar: Já, segðu. Frábært verður eins og sjá má á myndunum af þinni frásögn, sjá hér.

Þingvallavatn, 28. maí

Mér var farið að líða svolítið eins og í strætó við Þingvallavatnið í gærkvöldi; Leið 312 – Reykjavík, Vellankatla, Nautatangi, Öfugsnáði (tímajöfnun), Vörðuvík, Reykjavík. Að öllu gríni slepptu þá ákváðum við hjónin að slást í hóp þeirra, sem við héldum að yrðu, fjölmargra veiðimanna við Þingvallavatn. En það var nú öðru nær, fáir á ferli og eitthvað lítið um húrra hróp.

Eins og leiðarlýsing hér að ofan gefur til kynna var fyrst komið við í Vellankötlu, sem er einn uppáhalds staða minna við vatnið. Stutt lýsing; ekki eitt einasta högg. Var þá farið að Nautatanga og lagt á sig að vaða djúpt að veiðistað sem aldrei hefur klikkað. En svo bregðast raftar sem fylliraftar, ekki eitt högg. Var þá lagt í nýjan leiðangur og ekið að Öfugsnáða þar sem einn var á veiðum meðan frúin/kærastan sat inni í bíl og virtist hafa það bara alveg ágætt yfir bók að mér sýndist. Nei, þeir eru ekki allir sem eru dregnir til veiða af konunni, eins og ég.

Að lokum renndum við út að Vörðuvík og þóttumst við nú vera komin nokkuð nærri slóðum glæsilegra bleikjumynda síðustu daga, en að sama skapi nokkuð nærri urriðaslóðum. Eftir nokkur köst, engin fluguskipti og ekki mjög langt frá landi, var hrifsað allharkalega í fluguna og línan dregin hressilega úr höndunum á mér. Æ, það laumaðist að mér sá lúmski grunur að ég færi ekki með þennan fisk heim, sem kom svo á daginn. Þetta var sem sagt nokkuð vænn urriði sem hafði litist svona ljómandi vel á Pheasant hjá mér. Ég þori ekki alveg að skjóta á lengd, en yfir 40 sm. var hann í það minnsta og svona líka sprækur. Eftir snarpa viðureign, þar sem ég tók að mér að halda haus, mínum á sínum stað og hans nokkuð vel upp úr vatninu, gafst hann upp svo ég náði að renna honum að bakkanum og losa úr honum fluguna. Það var sprækur og kátur urriði sem skvetti sér í kveðjuskyni þegar ég hafði sleppt honum.

Þingvallaurriði 28.05.2014
Þingvallaurriði 28.05.2014

Afsakið léleg gæði á mynd, farsími í rökkri er ekki beinlínis ávísun á góða ljósmynd.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 1 0 / 5 7 / 11

Þingvallavatn, 24. maí

Þingvallavatn 24.5.2014
Þingvallavatn 24.5.2014

Einhvers staðar í fjarska þessarar myndar eyddum við hjónin nokkrum tímum í dag eins og smáfuglar í skjóli fyrir roki og rigningu. Eins og gefur að skilja var ekki mikil von á fiski í þeim kalsa sem var við vatnið í dag, en mikið ofsalega var gott að komast út undir bert loft og tæma hugann.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 0 0 / 4 6 / 10

Þingvallavatn, 1. maí

Okkur tókst frábærlega að viðhalda stofni Þingvallaurriðans í dag. Við hjónin skruppum í blíðunni á Þingvöll og urðum ekki vör við einn einasta fisk en því meira af mýpúpuhylkjum á vatninu. Greinilegt að náttúran er að vakna til lífsins og fuglar á þönum með greinar og strá í gogginum svo vart var flugu út komandi fyrir flugumferð.

Perla okkar Íslendinga skartaði svo sannanlega sínu fegursta og gladdi eflaust þá veiðimenn sem lögðu leið sína að vatninu. Ekki er alveg eins víst að þeir sem lögðu leið sína í opnun Úlfljótsvatns hafi verið jafn hamingjusamir með veðrið. Við fórum sem sagt lengri leiðina heim og keyrðum austur fyrir Úlfljótsvatn inn í frekar kuldaleg gjólu þar sem nokkrir veiðimenn reyndu fyrir sér við vatnið. Hvort eitthvað hafi hlaupið á snærið hjá þeim þennan fyrsta dag í veiði þori ég ekki að fullyrða, en litlum fréttum fór af veiði laust upp úr hádeginu þegar við hittum á einn sem hafði reynt fyrir sér í morgun.

Það verður nú samt að viðurkennast að eftirspurn eftir fiski er farin að aukast örlítið. Sex veiðiferðir og fiskur aðeins fengist í tveimur þeirra. Sjáum til hvað morgundagurinn ber í skauti sér, kannski maður sleppi bara ræktinni í fyrramálið og skjótist í veiði.

Þingvallavatn - 1.maí
Þingvallavatn – 1.maí

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 0 0 / 2 4 / 6

Þingvallavatn, 3. ágúst

Veðurspáin sveik ekki í morgun frekar en fyrri daginn. Hann spáði töluverðum blæstri og það stóðs. Það eina sem kannski klikkaði var að við vorum ekki eins snemma á ferðinni eins og við hefðum þurft til hefðum við viljað njóta kyrrðarinnar á Þingvöllum. Þegar við mættum á staðinn u.þ.b. mitt á milli kl. 7 og 8 var þegar maður við mann á Snáðanum, töluverður reitingur inni í Vatnsvik og eitthvað dreifðara á öðrum veiðistöðum.

Það vildi okkur e.t.v. til happs að einn þeirra sem var á Nautatanga var tímabundinn og var rétt við það að renna af hólmi þegar við komum. Sá hafði verið við frá um kl. 5 og séð mikið af bleikju alveg uppi í harðalandi en átt mjög erfitt með að finna réttu fluguna á hana. Með þessa vitneskju í farteskinu lögðum við leið okkar út á tangann og drógum út línur og það stóð á endum, hann tók líka við að draga í vind hann Kári. En, eftir nokkur köst með klassískum Peacock festi ég í einhverjum gróðri að því er mér fannst og var því ekkert að hafa fyrir því að reisa stöngina heldur dróg bara inn með nokkuð ákveðnum togum. Er þá ekki gróðurinn bara þessi fína bleikja sem ég auðvitað missti af þar sem ég lagði slaka í línuna á milli toga. Fyrst þessi vildi Peacock var ég ekkert að breyta um, hélt áfram og setti í eina alveg þokkalega skömmu síðar. Og enn hélt bleikjan áfram að sýna Peacock áhuga og eftir nokkrar naumar tökur setti ég í eina alveg þræl fína en tókst með einhverjum bölvuðum aulaskap að missa hana rétt í þann mund sem ég tók háfinn fram til að landa henni.

Svekktur og sár, mest á sjálfum mér, setti ég Watson’s Fancy púpu á og varð ekki var, reyndi svo með Pheasant og varð ekki heldur var þannig að aftur fór klassískur Peacock á og ég fékk tvær mjög naumar tökur fram til að verða kl.10 þegar vindur hafði tekið sig verulega upp og hálendi Íslands geystist fram yfir Hrafnabjörg og skellti sér niður á vatnið sem þétt mistur. Eftir kaffi og með því ákváðum við að láta gott heita enda skemmtilegur veiðidagur á morgun fram undan og engin ástæða til að slíta sér út í baráttu við Kára.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 19 / 24 / 0 7 / 24 32

Þingvallavatn, 13.júlí

Við höfum svo sem aldrei tekið þátt í þessari rómuðu næturveiði á Þingvöllum þangað til í gærkvöldi og rétt fram í nóttina. Byrjuðum aðeins inni við Vellankötlu og þar setti frúin í flotta bleikju, tæp tvö pund auk fjölda titta sem nánast þvældust fyrir. Heldur var nú rólegar hjá mér, það var ekki fyrr en við færðum okkur út á Nautatanga að mér tókst að jafna bókhaldið með hæng sem var rétt um pundið.

Dásamlegt veður, svona þegar maður var búinn að klæða það af sér og hin ágætasta skemmtun að veiða sig inn í nóttina.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 12 / 17 / 0 5 / 18 26

Þingvallavatn, 12.júlí

Nautatangi, Krókurinn, fyrsta kast, murta …… o.s.frv. Þvílík býsn af murtu og mjög smávaxinni kuðungableikju sem var á ferðinni í dag. Ég harðneita að telja alla tittina með sem við hjónin settum í með ýmsum flugum á tanganum í dag, en svo…… færði ég mig örlítið til, nýtti mér smá kannt út frá einni tánni og skipti yfir í eins klassískan Peacock og mér var unnt og setti í þessa líka fínu bleikju og skömmu síðar eina í viðbót. Frábært að sjá að það eru ekki bara krílin sem hafa yfirtekið veiðistaðina austan Öfugsnáða núna.

Heyrði af veiðiverði sem kíkti á kortin okkar að menn hefðu lítið annað haft upp úr krafsinu síðustu daga heldur en grunnslóðarfisk, þ.e. murtu og smávaxna bleikju, þannig að ég má víst bara vel við una að ná tveimur fallegum í soðið.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 2 11 / 16 / 0 5 / 18 25

Þingvallavatn 12.maí

Og enn héldu bloggfærslu áfram að æra veiðibakteríuna í mannskapnum. Mig grunar nú fastlega að sögur af stór-urriðum á Þingvöllum hafi verið að kitla konuna síðustu daga og þær nýjustu á veidi.is gerðu lítið annað en æra áhugann upp úr öllu valdi.

Ég brá mér reyndar strax í gær í hlutverk skóaranns og gerði við vöðlurnar mínar eftir öllum kúnstarinnar reglum og þær litu bara nokkuð vel út að verki loknu. Álagspunktar styrktir með nylon-neti og límt með Liquid Rubber frá Bison (þetta er ekki auglýsing) sem hefur reynst mér vel í gegnum árin. Þannig að með ný-viðgerð vöðlustígvél og fullt af nobblerum var lagt af stað með fyrra fallinu í morgun upp á Þingvelli.

Frábært veður, kannski aðeins of bjart en ekkert til að kvarta yfir og við komum okkur fyrir í Tóftunum, svona mitt á milli Vatnskots og Öfugsnáða sem hafa verið að gefa flotta veiði síðustu daga. Að vísu urðu við vör við nokkuð hressilegan fisk, rétt utan kastfæris, en engin fiskur kom á land, enn eitt skiptið. Níunda veiðilausa ferðin staðreynd.

Og áfram hélt vöðlusagan endalausa. Viðgerðirnar héldu eins og kosningaloforð, eins gott að ég var í plastpokum á milli sokka og stígvéla. Nú ætla ég að bregða mér í gervi fornkappa og leggjast undir feld og íhuga valkosti. Þar sem ég er óttaleg kuldaskræfa hefði ég viljað halda mig við neoprene vöðlur en þar sem ég er líka óttalegur nískupúki er ég ekki tilbúinn að kaupa nýtt eintak á hverju ári. Vitandi það að vöðluskór endast mun betur en stígvél er nærtækast að skoða skókaup og öndunarvöðlur fyrir sumarið og sjá svo til hvort Skóstofan treystir sér til að sauma vöðlusokka neðan á neoprene vöðlurnar mínar fyrir haustið og næsta vor. Engin ákvörðun komin, Þorgeir ljósvetningagoði lá jú undir sínum feldi í sólarhring, ég þarf örugglega lengri tíma en það.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 9

Ummæli

13.05.2013 – UrriðiEf það lætur þér líða e-ð betur(sem það gerir örugglega ekki) þá finnst mér mjög gott að sjá svona færslur þessa dagana. Ég var farinn að halda að hver sem er gæti mokað upp stórurriða þarna án þess að þurfa nokkuð að hafa fyrir því og var að deyja úr öfund!

Svar: Takk, Snævarr Örn. Jú, merkilegt nokk þá líður mér töluvert betur, ég var nefnilega haldin þeirri meinloku að urriðinn á Þingvöllum hefði tekið einhverja Háhyrningasótt og væri nánast í því að ganga á land þessa dagana. Hélt að ég yrði mest í því að draga þá aftur á flot þar sem þeir lægju í búnkum á ströndinni, en sem betur fer eru þeir flestir enn í vatninu og það þarf að hafa eitthvað fyrir því að ná þeim 🙂

13.05.2013 – Hrannar Örn Hauksson: Eitt sinn þá voru neoprenevöðlur föður míns farnar að leka og hringt var með hraði í skósmið (á Akranesi) til að athuga hvort hann gæti lappað upp á þær áður. Hann var á einhverjum þvælingi og gat ekki tekið þær að sér þ.a. hann ráðlagði okkur að bera bara jötungrip á lekasvæðið, maka bara svoldið vel á. Þetta er ekki fallegt útlitslega, en fiskunum er alveg sama, og þetta hefu haldið í nokkur ár.

13.05.2013 – Sigurgeir Sigurpálsson: Bara ábending. Mér skildist á þessu að þú hefðir límt vöðlurnar og svo brunað í veiði. Þá er ég ekki hissa á því að þetta hafi ekki haldið. Ég hef límt nokkrar vöðlur í drasl til að reyna að stoppa leka og er kominn með smá reynslu í þessu. Mér finnst best að láta 3 daga líða frá því að ég lími og áður en ég bleyti í þeim aftur. Svo er gott að raspa staðinn þar sem þú setur límið til að límið fái meira grip, Ef það liggur á sléttum fleti þá er það líklegra til að leka. Ekki raspa samt alveg gat en nokkuð vel samt ;-)

Svar: Góð ábending en vandamálið er að gúmmíið í stígvélunum virðist bara vera svo lélegt að það gaf sig bara aftur rétt utan við viðgerðina. Límið mitt (þetta sem ég er ekki að auglýsa) grípur á 1-2 klst. og harðnar (eins hart og það verður) á innan við 12 klst.