Þrenna 2. september

Öll veiði bönnuð

000 – Blíðviðrið í dag dró okkur hjónin í smá hringferð með stangirnar. En, það var eins og þetta skilti sem varð á vegi okkar  hefði sett regluna í ferðinni. Við sem sagt núlluðum á Nautatanga við Þingvallavatn, núlluðum í Einkavatni (sem við höfum lítið heimsótt í sumar) og svo fullkomnuðum við þrennuna með því að núlla við Meðalfellsvatnið.

Eini staðurinn sem við urðum vör við eitthvert líf var í Meðalfelli þar sem ég fékk eitt nart, en ekki söguna meir.

Tapað og fundið

Á rambi mínu við Nautatanga fann ég útidyralykil (ASSA) í miklu bláu bandi. Lykillinn sjálfur er afar skrautlegur og er eigandi hans beðinn að lýsa honum ef hann vill vitja hans. Væntanlega einfaldast að senda mér tölvupóst með því að smella hér.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 73 / 34 14 28 / 33 4 34 14

Ummæli

03.09.2012 – Árni Jónsson: Tók einmitt tvö sjálfur og núllaði líka. Þingvelli & Úlfljóts. Sá einn fisk á Þingvöllum og hann leit á mig með svip sem að sagði “Farðu, tímabilið er að verða búið”. En gullfallegt veður og spegill í langan tíma.

03.09.2012 – UrriðiTja, það sem ykkur skorti í þolinmæði bættuð þið upp með yfirferð. Þrjú vötn á einum degi er alveg ágætt. Og ég var svosem heldur ekki var við uppítökur, sá einu sinni breskan veiðiþátt þar sem kom fram að silungur(og lax) gætu ekki lokað augunum því það vantaði á þá augnlok. þáttarstjórnandinn vildi því meina að silungur héldi sig dýpra þegar það er sól(enn dýpra ef það er logn) en í yfirborðinu þegar það er skýjað(og helst gárað). Sem stangast algjörlega á við veiðimenninguna á Íslandi, hérna taka menn ekki fram þurrflugur nema vatnið sé spegilslétt og veðrið gott en grýta svo út þungum púpum um leið og vatnið gárast! Fiskurinn er örugglega miklu meira í yfirborðinu þegar það er gárað, þá sjáum við bara ekki uppítökurnar. Enda veiða fáir betur í Laxárdal en bretarnir sem nota þurrflugur/yfirborðsflugur í öllum veðrum.

SvarJá, þetta er viðtekin skýring (augnlokin) og oft vísað í hana. Við hérna norður á hjara veraldar njótum góðs af því að stóran hluta ársins varpast sólarljósið skáhallt á yfirborðið og brotnar fyrr heldur en nær miðbaug og því fær fiskurinn hér síður glýju í augun. Þurrfluguveiði er stórlega vanmetin á Íslandi, það hef ég séð í sumar þegar konan er að rífa upp hvern fiskinn á fætur öðrum á meðan ég kroppa þetta með púpunum mínum 🙂  Þetta er kannski bara efni í nokkrar greinar.

03.09.2012 – UrriðiÉg fatta ekki alveg hvað menn hafa á móti sól og góðu veðri í vatnaveiði, ég hef gert mína bestu vatnaveiði í góðu veðri(kannski vegna þess að ég nenni ekki að standa lengi við vötn ef veðrið er leiðinlegt). Þessi (http://i.imgur.com/KVa4f.jpg ) tók núna um helgina í 22°C, blankalogni og glampandi sól um miðjan dag. Ég var bara á gönguskóm og kastaði frá landi, svo það er ekki eins og hann hafi verið e-ð lengst úti í dýpinu! Mér finnst veðrið skipta mun meira máli þegar maður er að veiða í straumvatni, en í vatnaveiði skiptir það mig engu máli. Silungurinn hættir ekkert að borða þó það sé gott veður, þeir skora sem þora :)

Þakka enn og aftur fyrir skemmtilega síðu!

Svar: Tvö vötn af þremur voru mjög tær, heiðskýrt og glampandi sól og við urðum ekki vör við neinar uppitökur þrátt fyrir að steinflugur væru á vatninu. Þriðja vatnið var örlítið skolað, kannski nóg til þess að sólarglampar náðu takmarkað niður í vatnið og þar urðum við vör við uppitökur. En, mikið rétt, fiskurinn hættir ekkert að borða þótt það sé glampandi sól, okkur tókst bara ekki að koma flugunum niður á rétt dýpi fyrir hann. Kannski var þolinmæðis taumurinn eitthvað stuttur í okkur 🙂

P.S. Prufan þín skilaði sér, en ég samþykkti hana ekki 🙂

02.09.2012 – ÁsiTakk fyrir sögur þínar og leiðinlegt að þú skyldir núlla. Veðrið hefur trúlega hvort tveggja lyft degingum og dregið niður. Ég snéri við í huganum í morgun og ákvað að fara heldur seinnipartinn á morgun. -Fannst allt of mikil sól.

Svar: Já, þetta er ekki ólíkt og þrá manna eftir rigningu í þurrki og svo uppstyttu í regntíð, en veðrið var einfaldlega allt of gott til að sitja heima og skrifa greinar fyrir næstu vikur. Góða skemmtun á morgun.

Þingvallavatn 27. ágúst

Þetta telst nú næstum ekki veiðiferð en við hjónin fórum nú samt upp á Þingvelli rétt upp úr kl.20 í kvöld. Það fór eins og okkur grunaði; stuttur tími því við vorum ekki komin að vatninu fyrr en rétt fyrir 21 og fljótlega upp úr kl.22 rökkvaði mjög skart.

Þingvallavatn

Ekki var nú margt um manninn á bakkanum, þ.e. frá Lambhaga og inn að Vatnskoti þar sem við komum okkur fyrir. Ætli við höfum ekki talið einhverja 4 veiðimenn á þessum spotta. Vatnið einstaklega fallegt, stillt og milt veður. Hitastigið að vísu aðeins rétt um 8°C og komið niður í 5°C þegar við hættum upp úr kl.22.

Lítið urðum við nú vör við fisk, ég fékk eitt nart sem ég vil nú samt gera sem mest úr, því þetta var ekki bleikja. Ætli urriðinn sé ekki aðeins að tosast aftur upp úr dýpinu núna þegar rökkva tekur og vatnið kólnar.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 73 / 34 14 28 / 33 4 33 13

Ummæli

28.08.2012 Stefán Bjarni Hjaltested: Vil endilega fá að vita hversu margar bóndableikjur og hversu margar frúarbleikjur að ég tali nú ekki um urriðann. Annars takk fyrir skemmtilegar frásagnir um veiði og ferðir í sumar,svo og annan fróðleik.

SvarJá, ég er nú hræddur um að eitthvað halli á mig í þessum samanburði 🙂 En, sjáum til.

Svar: Það fór nú eins og ég í raun vissi, frúin á vinninginn með miklum mun í bleikjunni með 73:34 en ég klóra aðeins í bakkann í urriðanum með 33:28. Þetta með bleikjuna kemur mér í raun ekkert á óvart, frúin er miklu næmari á tökur heldur en ég og bregst fyrr við. Hér eftir verður aflatölum skipt í rauðar fyrir frúarfiska og bláar fyrir bóndafiska. Ég ætla ekkert að gera upp hvort okkar sleppir fleiri fiskum og hvort okkar núllar oftar 🙂

Þingvallavatn 25. ágúst

Gerði mér ferð í dag kringum Úlfljótsvatnið, fór að vísu aldrei út úr bílnum því mér fannst veðrið ekki spennandi. Kannski er maður bara orðinn svona góðu vanur en vindur var töluverður og hitastigið ekki nema 10°C þegar ég var á ferðinni þannig að ég renndi þess í stað út með Arnafellinu og kom mér í skjól með útsýni yfir Þingvallavatnið. Eins og áður er ekkert út á umhverfið að setja þarna, nema þá afskaplega lítið líf með fiskinum, rétt aðeins að maður yrði var við einhverja titti að leika sér undir Sláttuláginni. Sem sagt, núllað. Kannski vegna þess að ég var einn á ferð, kvennmannslaus í þetta skiptið.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 107 14 61 4 32 12

Þingvallavatn – Vatnsvik 18. júlí

Þegar kvöldin eru eins falleg og þau gerast á þessum árstíma er fátt betra en bregða sér aðeins út af malbikinu og teyga náttúruna, t.d. á Þingvöllum. Við hjónin stóðumst ekki mátið og brugðum okkur á Vellina í kvöld. Dásamlegt veður og veiðimenn á hverjum tanga og tá.

Leynt og ljóst stefndum við í Vatnsvik þar sem gæftaleysi mitt í vatninu var rofið ekki alls fyrir löngu, nú átti að reyna að koma fiski á flugu frúarinnar. Við fundum okkur sitt hvora tánna, tangi væri oft sterkt til orða tekið, og teygðum aðeins á línunum. Ekki leið á löngu þar til ég setti í þessa líka fínu hryggnu, einhvers staðar á milli punds og tveggja, flottur fiskur og skömmu síðar heyrðist hljóð frá minni, þ.e. konunni; Kristján, hann er á og ánægjan og spenningurinn leyndi sér ekki, hængur, rúmt pund. Skömmu síðar heyrði ég; Ég er sko alveg með þetta þegar annar eins lág á bakkanum hjá henni, mín alltaf jafn hógvær.

Við urðu vör við töluvert af fiski eftir þetta, mikið nartað og einhverjar tökur en fleiri fiskar komu ekki upp á bakka, nema þá einn sem frúin setti í en sleppti. Einkennilegur fengur sem ég hef ekki séð tekin á flugu áður, dvergbleikja, ekki nema rétt um 8 sm. að lengd. Já, það er fátt sem frúin ekki fangar.

Frábært kvöld við Þingvallavatn og ekkert leyndarmál að allir fiskarnir sem við tókum komu á opinbert leynivopn okkar, Higa’s SOS. Vonandi hafa einhverjir aðrir veiðimenn tekið fisk, nóg var af báðum tegundunum við vatnið í kvöld.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 82 14 46 4 27 11

Ummæli

19.07.2012 – Þórunn BjörkAuðvitað verður maður hógværðin uppmáluð þegar maður loksins sigrar eitthvað vatnið :)tala nú ekki um eftir milljón og sjö ferðir þangað, svona h.u.b. En þessi litli var ótrúlega krúttlegur…hélt ég hefði krækt í spún, en hann hefði eflaust verið þyngri í inndrætti…spurning um að kíkja aftur í kvöld !

Þingvallavatn – Vatnsvik, 3.júlí

Loksins, loksins. Mér er engin launung á því að upplýsa að ég hef aldrei náð fiski úr Þingvallavatni fyrr en í dag. Þrátt fyrir heldur dökka veðurspá í morgun, ákvað ég að hella upp á brúsann minn, lauma kexi í bakbokann og leggja land undir fót. Hafði í huga að renna á Þingvöll og prófa enn eitt svæðið, Lambhaga og þá e.t.v. Presthólmann, en þegar ég var kominn á staðinn var greinilega mjög margt um manninn í Haganum þannig að ég hélt bara áfram inn í Vatnsvik. Og hér má taka eftir; Vatnsvik (með i’i, ekki í’i) Sá leiði misskilningur hefur orðið á síðari tímum að víkin austan við Nautatanga heiti Vatnsvík, en það er ekki rétt, hún heitir Vatnsvik. En nóg um það, ég byrjaði að skyggnast í vatnið við Gjáarenda og brölti inn með Davíðsgjá, alveg inn að Hólmunum án þess að verða var við fisk. Veiddi samt alveg eftir kúnstarinnar reglum í dýpinu; langur taumur, þungar flugur, sökkva og draga lötur hægt.

Kibbi

Þegar inn að Hólmunum var komið skipti ég aðeins um takt, létti fluguna og þá varð  ég fyrst var við fisk, murtu, sem tók Kibba á beinum krók. Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið sérstaklega upprifinn af þessum afla, en fiskur er fiskur og áralangt fiskleysi mitt í Þingvallavatni var loksins rofið. Eftir að ég hafið fært mig aðeins til og skipt yfir í Higa’s SOS fór fjör að færast í leikinn. Samtals lágu þarna 6 murtur, sem öllum var sleppt þangað til að fyrsta kuðungableikjan tók fluguna með nokkrum látum. Hjartað tók auðvitað kipp og aulaglottið á mér hefur væntanlega ljómað í gegnum regndropana þegar ég landaði henni í nýja háfinn minn.  Örlítið fleiri murtur til viðbótar, og svo ein bleikja til. Sem sagt; 12 murtur og 2 þokkalegar kuðungableikjur, stútfullar af mý- og steinflugum.

Higa’s SOS

Það er ein regla í vatnaveiði og hún er sú að það er engin regla. Oftast er talað um að sökkva flugunum vel á Þingvöllum og draga lötur hægt inn, ég veiddi ekki þannig.

Miðað við allt lífið sem var í gangi á og yfir vatnsyfirborðinu valdi ég mér flugu sem var ekkert oft þung, lítill kúluhaus og ég dró hana nokkuð snaggaralega inn með rykkjum. Að vísu var ég með nokkuð langann taum, ríflega 12 fet,en þar með var nú allri samsvörun við Þingvallaregluna lokið, flotlína WF7.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 37 10 32 2 23 11

Ummæli

09.07.2012 DavíðHvar er hægt að nálgast þessa Higa’s SOS flugu? Ég hef ekki séð hana í þeim verslunum sem ég hef heimsótt undanfarið. Annars hefur Alma Rún verið að gera góða hluti fyrir mig síðustu daga í Þingvallavatni .. var mjög skæð í morgun á Snáðapallinum og landaði ég 9 bleikum með henni.

Svar: Þessi fluga hefur ekki ratað í verslanir hér heima, enn sem komið er. Henni skaut fyrst upp kollinum í vefverslun Orvis fyrir einhverjum mánuðum síðan eftir að hafa verið kynnt á nokkrum bloggsíðum í US og svo hér heima á þessu bloggi. Ég féll alveg fyrir henni og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með hana og mér sýnist að fleiri séu að kynnast því hve öflug hún er, sjá hér að neðan. Nú er bara lag fyrir veiðimenn að taka fram hnýtingarsettið eða hrista sparigrísinn og fjárfesta í slíku og hnýta nokkrar í stærðum #14 – #10, þær hafa reynst mér best.

05.07.2012 Ingólfur Örn Björgvinsson: Sæll Kristján og takk fyrir þitt ágæta blogg. Fyrir tilviljun las ég í gærkveldi um þessa ferð þína á Þingvelli og þar sem ég ætlaði að kíkja í vatnið í dag hnýtti ég nokkrar Higa’s SOS í boxið. Og þessi fluga gaf vel í kringu hádegið í dag þegar ég reyndi í Vatnsvikinu. Ég fékk samtals 12 bleikjur 1-3 pund, allt á þessa flugu. Hún er komin með fastan sess í mínu Þingvallaboxi. Takk fyrir mig!

Það er líka ein aðferð sem vert er að reyna á Þingvöllum en það er að veiða með tökuvara og hafa aðeins um 80-100cm af taum þar niðuraf með lítilli mýpúpu undir, t.d Zebra Midge #14-18
. Bregða svo við við minstu hreyfingu. Þetta hefur virkað fyrir mig við Vatnskotið og þar í kring þegar ekkert annað gefur.

Kveðja
Ingó

04.07.2012 Þorkell: Já, vötnin eiga það til að koma manni á óvart. Ég fór í lærdómsríka ferð í Þingvallavatn í júní. Hafði áður fengið þau ráð að það væri gott að veiða þar með hægsökkvandi glærri flugulínu til að vera viss um að flugan væri að veiða við botninn. Félagi minn var hins vegar með flotlínu og ekkert sérstaklega langan taum og hann veiddi vel en ég ekki neitt. Hér segi ég frá þessum hremmingum mínum. http://vefurkela.com/is/veieimal/veieisoegur/65-mistoek-til-ae-laera-af
Kveðja
Þorkell

Þingvallavatn, 19.maí

Dásamlegur dagur, sá besti í nokkurn tíma og auðvitað drifum við hjónin okkur úr hlaði eftir hádegið. Fyrst lá leiðin upp í Kjós, en heldur þótti okkur gusta mikið við Meðalfellsvatnið þannig að við renndum á Þingvelli. Eftir einn kaffibolla í Þjónustumiðstöðinni renndum við í Vatnsvíkina þar sem nokkrir veiðimenn voru á stjái, en eitthvað var úthaldið lítið hjá þeim því fljótlega voru þeir á bak og burt. Við komum okkur fyrir í Vellankötlu, þokkalegar aðstæður nema þá helst til of bjart. Hófst þá yfirferð flugna í boxum, margar prófaðar í stuttum og löngum taumi, en allt kom fyrir ekki.

Eina sem við hittum á voru Gunnar Bender og félagar að viða að sér efni í nýja þáttaröð á ÍNN. Alveg þess vert að kíkja á þá eldri áður en nýjir birtast á skjánum. Frá þeim fengum við fregnir af veiði í austanverðu Meðalfellsvatni sem auðvitað elfdi okkur aðeins í að prófa Þingvallavatnið lengur. Vel að merkja, kærar þakkir fyrir eintakið af Sportveiðiblaðinu Gunnar, viðamikið og skemmtilegt blað eins og venjulega sem gaman er að glugga í.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 2 2 1  12 9

Þingvallavatn, 28.ág.

Stangveiði snýst um að njóta náttúrunnar og góðs félagsskapar. Það var einmitt það sem við hjónin gerðum í dag, skruppum á Þingvöll og æfðum nokkur fluguköst í blíðunni undir Arnarfelli, með heitt á brúsa í frábæru veðri. Og við vorum ekki þau einu sem fórum fisklaus heim, veiðiverðir Þjóðgarðsins tjáðu okkur að það hefði ekki komið branda upp úr vatninu í dag. Sjálf heyrðum við í þremur sem ekki urðu einu sinni varir, sáu þó fisk en hann tók ekkert.