Að vera vakinn rétt um kl. 7 með skilaboðum um að allt sé klárt, kaffið komið á brúsa og græjurnar klárar, er ekki það versta sem getur komið fyrir á sunnudagsmorgni. Auðvitað dreif ég mig á fætur, svalg í mig fyrsta kaffibolla dagsins og lagði af stað út í blíðuna sem beið á Þingvöllum.
Við byrjuðum að kíkja við í Vatnskotinu, en eitthvað sagði okkur að færa okkur örlítið austar þannig að við slepptum Tóftum og fórum í Vörðuvík. Það var ekki um að villast að það var fiskur á ferðinni í morgunstillunni, en þegar við vorum loks komin fram á bakkann, þá var eins og allt væri búið.
Þegar síðan túristarnir voru vaknaðir og mættu syngjandi glaðir fram á bakkann, í orðsins fyllstu merkingu, þá töltum við yfir á Öfugsnáðann og böðuðum ýmsar tegundir flugna þar án árangurs. Og við vorum ekki ein um þetta áhugaleysi fiskanna. Félagi í veiðifélaginu okkar sem kom á staðinn rétt um það bil sem við settumst niður í árbít, varð ekki heldur var við fisk.
Eitthvað lagðist hitastigið í vatninu illa í okkur og eftir smá tíma ákváðum við hjónin að breyta alveg til, færa okkur austur fyrir Steingrímsstöð og prófa Úlfljótsvatnið. Það er annars merkilegt hve veður getur skipst á milli vatnanna. Þessi rjóma blíða, sem þó skorti aðeins hitastigið, var hvergi nærri við Úlfljótsvatnið að norðan og við entumst því ekki lengi þar og héldum aftur á vit Þjóðgarðsins.
Nú var ákveðið að fara í Vatnskotið, þar sem heldur hafði þynnst í hópinum. Fáar sögur af fiski, en veiðiverðir Þjóðgarðsins nokkuð brattir og tékkuðu einarðlega á veiðileyfum viðstaddra. Við hjónin prófuðum ýmsar tegundir flugna, kannski meira til að njóta umhverfisins og blíðunnar heldur en með von um fisk í brjósti.
Þegar svo tveir aðrir félagar okkar mættu fisklausir á staðinn, var einfaldlega sest niður, skeggrætt um allt milli himins og jarðar, þó mest um veiði og ótrúlega umferð stórra fólksflutningabíla á Vallavegi, þessum mjóa og heldur slappa spotta sem tæplega rúmar fólksbílamætingar, hvað þá tuga tonna ferðamannadrossíur sem þurftu að mætast þarna.
Þetta var hin ágætasti dagur, þótt enginn hafi verið fiskurinn og viðmælendur okkar sammála um að bæði skordýr og bleikjur fara heldur betur á stjá þegar það hefur hitnað örlítið betur.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 9 | 0 / 0 | 0 / 2 | 4 / 5 |
Senda ábendingu