Það var svei mér alveg eins og sumarið hefði skotið upp kollinum í dag hér sunnan heiða og því þótti okkur veiðifélögunum við hæfi að skunda á Þingvöll og halda upp á daginn. Við vorum langt því frá þau einu sem fengu þessa hugdettu, bæði ferðalangar og veiðimenn fjölmenntu á Þingvöll seinnipart dags.
Við fórum í Vatnskotið, gengum fyrir Vatnsvíkina, kíktum út í eyju og þræddum ströndina vestur að Breiðatanga og annað okkur uppskar eina góða töku, en enginn fiskur kom á land. Að lokum kíktum við í Vatnsvikið, en þar var fiskurinn ekkert í meira stuði þannig að við fórum fisklaus heim, en með lungun full af fersku lofti og sól í hjarta.
Í þessari ferð sannaðist það að það eru líka til þeir veiðimenn sem núlla á Þingvöllum þrátt fyrir að margir hafi gert mjög góða veiði þar upp á síðkastið. Eitt er þó víst, rykfallnar Þingvallaflugur fengu bað og eru nú hreinar og sætar, til í tuskið ef það kemur annar sumardagur þetta árið.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 15 / 13 | 0 / 0 | 0 / 1 | 6 / 8 |
…og ekki einu sinni flundra….dáldið lélegt 😉