FOS
  • Febrúarflugur
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 16. – 18. júní

    18. júní 2017
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Stundum smellur maður einfaldlega ekki í gírinn. Því var næstum því þannig farið með mig um helgina þegar við veiðifélagarnir fórum í Hlíðarvatn í Hnappadal. Þegar við mættum á staðinn á föstudagskvöldið varð manni eiginlega ekki til setunnar boðið, vatnið skartaði sínu fegursta í kvöldkyrrðinni og við gátum ekki annað en smellt í okkur smá bita og fórum út í vatn. Ekki skemmdi það fyrir eða dró úr eftirvæntingu okkar að húrrahróp og glaðhlakkalegur hlátur nokkurra yngir veiðimanna ómaði úr víkinni við Jónsbúð, veiðihúsi Borgnesinga. Það var greinilega fiskur í tökustuði á ferðinni.

    Hlíðarvatn í Hnappadal á 17. júní

    En, það var ekki mikið tökustuð á þeim fiskum sem ég engdi fyrir þannig að aðeins ein bleikja lá í mínu neti eftir kvöldið. Veiðifélagi minn small aftur á móti alveg í gírinn og setti í fjóra væna fiska þetta kvöld.

    Þjóðhátíðardagurinn rann upp með allt öðru veðri heldur en spáð var og við héldum okkur á svipuðum slóðum, þ.e. i grennd við Rifið sem vel að merkja stendur orðið allt upp úr vatninu. Síðast þegar við kíktum við í Hnappadalnum vatnaði nefnilega á milli lands og Rifs, það stóð sem sagt mjög hátt í vatninu í lok maí en það hefur heldur sjatnað í því. Ég vil reyndar meina að það lækki hratt í vatninu, á þessum rúmlega tveimur dögum sem við stoppuðum þar um helgina mátti merkja mun á flæðarmálinu við Rifið.

    Heilt yfir vorum við frekar slök við veiðarnar, byrjuðum seint og hættum snemma á laugardag og sunnudag en náðum engu að síður 19 fiskum samanlagt. Það gefur alltaf Hlíðarvatnið, meira að segja þegar maður er hreint ekki í stuði. Þeir fiskar sem við tókum voru almennt vel haldnir og í góðu standi, þannig að það er eins víst að gott sumar er í vændum í vatninu. Eitt langar mig þó að nefna að lokum; skráning í veiðibókina við Jónsbúð mætti vera betri. Þessa daga sem við vorum að veiða var alltaf einhver slæðingur af veiðimönnum við vatnið sem tóku fisk, en aðeins við og einn annar kvittuðu afla í bókina.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     6 / 5 13 / 11 7 / 1 8 / 2 5 / 5

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Hnappadal 27. & 28. ágúst

    28. ágúst 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    ‚Það lyktar svolítið af hausti núna‘ var haft á orði þegar ég keypti leyfi að Hraunholtum á laugardaginn. Já, það var svolítið haust í lofti, en dásamlegt veður innan við bílrúðuna. Það er bara eins og aðeins ein vindátt sé þekkt við Hlíðarvatn, af norð-austri, og um helgina tók Kári sig til og blés köldu úr þeirri átt, svo köldu að stóru fiskarnir í vatninu tóku sér frí, lögðust á botninn og létu eiginlega ekki sjá sig.

    Hlíðarvatn 27.ágúst 2016
    Hlíðarvatn að kvöldi 27. ágúst 2016

    Við höfðum verið vöruð við því að enn hefði lækkað í vatninu og hvött til að taka með okkur vatn á brúsa, en ekki óraði okkur fyrir þeirri sjón sem mætti okkur við Jónsbúð á laugardaginn. Aðeins smá pollur eftir fyrir framan veiðihúsið og töluvert langt í næsta vatn. Að vísu höfum við komið að vatninu enn lægra, en þá var það við austurenda þess, þannig að okkur brá nokkuð við þá sjón sem mætti okkur að vestan. Hvað um það, við komum okkur fyrir innan við Jónsbúð og héldum til veiða. Kraftaveiðar, uppásnúningar og bakköst voru það sem þurfti til að koma flugunni út á vatnið á laugardaginn. Vindurinn náði næstum tveimur tölustöfum í m/sek. og blés einmitt á kasthöndina þar sem við vorum við vatnið.  Ef það hefði verið vatn í vatninu frá Rifi og inn að Álftatanga, þá gæti ég sagst hafa þrætt alla ströndina, en þá væri ég að ljúga. Þess í stað röltum við frá eðlilegu fjöruborði og út að vatninu á nokkrum völdum stöðum á þessari leið og náðum að særa upp nokkra fiska á laugardaginn, stærsta um pundið, aðra nokkru minni.

    Útsýnið úr Fellsbrekku til vesturs
    Útsýnið úr Fellsbrekku til norðurs – þarna ættu að vera stöku hólmar og sker, ekki stöku pollar

    Aðfararnótt sunnudags kólnaði heldur betur þannig að slaknandi vindur sem sunnudagurinn bauð uppá fór fyrir lítið og fiskurinn var mjög tregur eftir rok og kulda næturinnar. Aðeins ein bleikja hafði komið á land um þrjúleitið þegar við pökkuðum saman, kíktum til berja og renndum síðan heim á leið. En, það er alls ekki þar með sagt að vetur sé genginn í garð í Hnappadalnum, hann spái hlýnandi seinni part vikunnar og Hlíðarvatn hefur oft gefið vel langt inn í haustið.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     2 / 3 212 / 236 4 / 3 36 / 43 18 / 20

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Hnappadal 30. – 31. júlí

    1. ágúst 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Síðustu ár höfum við veiðifélagarnir haft ýmislegu öðru að sinna um Verslunarmannahelgina heldur en veiði, en þetta árið varð breyting á. Það var gamalkunnur staður sem varð fyrir valinu og við ásamt Mosó-genginu komum okkur fyrir við Hlíðarvatn í Hnappadal. Annars tók ég eftir því að veiðibók vatnsins er merkt ‚Hlíðarvatn í Kolbeinsstaðahreppi‘, skemmtilegt að halda í gömlu hreppaheitin þrátt fyrir sameiningar síðustu ára.
    En hvað um það, við mættum í Hraunholt á föstudagskvöldið í þessum líka hressilega strekkingi af norðaustri. Hef stundum velt því fyrir mér hvort það sé aðeins ein átt þekkt við Hlíðarvatn, því annað hvort blæs hann úr norðaustri þar eða bara ekki neitt. Þar sem vindur var heldur í meira lagi og við e.t.v. eitthvað lúin eftir vikuna, ákváðum við að setja upp vagninn, hita okkur kvöldverð og bíða þess að veiðifélagar okkar kæmu í hús, spennt að sjá afla og heyra veiðisögur. Aflinn hjá Mosó-genginu reyndist meira en glæsilegur, feitir og pattaralegir urriðar og bústnar bleikjur innanum.

    Hlíðarvatn, Ljósufjöll í baksýn
    Hlíðarvatn, Ljósufjöll í baksýn

    Eftir nokkuð snarpa nótt og vindbarning, hélt ég af stað inn fyrir Fellsbrekku út á skerin sem nú stóðu öll landföst þar sem mikið hefur lækkað í vatninu frá síðustu veiðiferð þangað fyrir hálfum mánuði. Mér telst til að vatnborðið sé heilum metra lægra nú en þá og göngufært á ystu skerjum frá Rifi og að Neðriskúta. Heldur var nú vindurinn í meira lagi og ég viðurkenni að mér reyndist frekar erfitt að ná þokkalegum köstum með flugustönginni. Lét mig þó hafa það og streittist við þar til einn urriði lá í netinu. Síðar um daginn fór allur hópurinn inn að Álftatanga og veiddi sig til baka að Rifi. Maðkurinn sannaði sig hjá Mosó-genginu, en ég var eiginlega ekki á blaði fyrir utan einhverjar smábleikjur sem fengu líf. Það var ekki síðan fyrr en eftir kvöldmat að við hjónin töltum aftur út inn með vatninu að hún setti í nokkra væna fiska og ég í aðeins fleiri titti í rokinu sem þá náði hámarki.
    Ég tók sunnudaginn snemma, svona á minn mælikvarða, og setti í nokkrar vænar bleikjur og nokkra titti sem fengu líf. Eftir hádegismat fór frúin á kostum og landaði hverjum glæsilegum urriðanum á fætur öðrum en ég varð að láta mér nægja að kynnast honum Sergei (tilvísun í Sergei Bubka, stangarstökkvara) sem tók fluguna með látum inni við Rif, en sýndi síðan listir sínar í loftinu sem urðu til þess að flugan skaust í eina áttin á meðan hann fór í hina.
    Það má með sanni segja að maðkurinn hafi staðið uppúr sem veiðitæki helgarinnar, 42 fiskar á tvær stangir á móti 18 á tvær flugustangir. Þá eru ekki taldir þeir sem sleppt var.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     3 / 7 141 / 164 7 / 1 30 / 38 14 / 16

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 16. & 17. júlí

    18. júlí 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Á ferðalagi okkar hjóna norðan úr landi á föstudaginn leitaði hugurinn ósjálfrátt á fornar slóðir. Það var næstum fyrir ári síðan að ég lét hafa eftir mér að slóðinn inn að uppáhalds veiðisvæði okkar hjóna þyrfti gagngerrar yfirhalningar við ef við færum þangað aftur, þ.e. slóðinn frá Heggsstöðum inn að vatni. Með þetta í huga og þá staðreynd að engar fréttir var að hafa af færð og ástandi slóða, afréðum við að hringja í Stangveiðifélag Borgarness og kanna með veiðimöguleika í vatninu.
    Það hitti þannig á að á laugardaginn var Fjölskyldudagur SVFB og miklu meira en sjálfsagt að leyfa okkur að vera við vatnið um helgina. Og þvílík helgi. Við veiðifélagarnir eru sammála um að aldrei hefur fiskurinn í Hlíðarvatni verið eins fallegur, eins mikið af honum og eins skemmtilegur í töku eins og um þessa helgi. Undanfarin ár hefur mér þótt fiskurinn rokka verulega í holda- og heilsufari, en þetta árið hefur hann heldur betur tekið við sér, feitur og pattaralegur, hraustur og almennt vel haldin, bæði bleikjan og urriðinn.

    Hlíðarvatn í Hnappadal
    Hlíðarvatn í Hnappadal

    Við tókum laugardaginn með fyrra fallinu og röltum inn með Fellsbrekku, að Neðri-skúta og alveg út að Svarta-skúta. Veðrið var eins fallegt og best varð á kosið, sól og stillur þannig að þurrflugur fengu að njóta sín á vatninu. Á fyrri vaktinni tókum við 14 fiska, bleikjur og urriða í bland, ásamt því að setja í nokkra putta sem var sleppt. Seinni vaktin var á svipuðum nótum hvað fiska varðar en veðrið tók smávægilegum breytingum þegar leið á kvöldið. Léttur úði og smá blástur krydduðu umhverfið hæfilega og fiskunum virtist líka það vel og við fórum nokkuð sátt í háttinn fyrir miðnættið með okkar 16 fiska eftir vaktina.

    Síðkvöld við Hlíðarvatn
    Síðkvöld við Hlíðarvatn

    Sunnudagurinn rann upp með örlítið öðru veðri, smá blástur en fallegt engu að síður. Við héldum uppteknum hætti og röltum inn með Fellsbrekku og bættu einum sjö urriðum í safnið áður en við tókum saman og héldum heim á leið og skeggræddum alla kosti þess að sækja um aðild að SVFB og þær flugur sem gáfu í þessari veiðiferð. Þær voru sem sagt; Orange Nobbler, Orange Nobbler, Orange Nobbler, svartar þurrflugur, Heimasætan, Krókurinn og að ógleymdum Orange Nobbler.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     6 / 9 110 / 130 13 / 12 23 / 32 12 / 14

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 25.júlí

    26. júlí 2015
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Til margra ára höfum við heimsótt Hlíðarvatn í Hnappadal, stundum oft á ári en hin síðari ár aðeins einu sinni og ég geri ráð fyrir að þessi ferð helgarinnar verði sú eina á þessu ári. Oftast höfum við veitt fyrir landi Heggsstaða og svo var einnig í þetta skiptið. Undanfarin ár hefur slóðinn frá Heggsstöðum og inn að vatni verið torfarinn og ekki hefur hann skánað þetta sumrið. Það má segja að hingað til hafi tveir flöskuhálsar verið á leiðinni inn að vatni; mjótt ræsi í brekkurót á miðri leið og svo ræsið og brekkan niður að vatninu. Nú hefur enn einn farartálmi bæst við rétt fyrir innan bæ. Töluvert hefur runnið úr slóðanum rétt innan hliðs og eins gott að hafa þokkalega hæð undir lægsta punkt og ekki of langt á milli hjóla þegar farið er um þann part. Ég mundi segja að nú sé komin tími á að gera við þennan slóða eða þá að maður sæki sér veiðileyfi í Hraunholti eða Hallkelsstaðarhlíð.

    Veðurspá helgarinnar fyrir þennan hluta Hnappadals var með ágætum, miklu betri en raunin varð á þegar inn að vatni var komið á föstudagskvöldið. Snörp norð-austanátt ýfði vatnið all þokkalega en við létum það ekki aftra okkur, settum skotlínur á stangirnar og reyndum fyrir okkur í svo sem tvo til þrjá tíma. Afraksturinn var heldur síðri en oft áður; frúin setti í fjóra fiska, tveimur sleppt og tveir hirtir. Sjálfur setti ég í fjóra, missti tvo (sem auðvitað voru stóri og miklir fiskar) og sleppti tveimur. Fleira bar ekki til tíðinda þetta kvöld og heldur vorum við köld þegar í vagnin var komið laust eftir miðnættið.

    Um nóttina jók vind heldur hressilega og hitastig lækkaði enn meira. Eitthvað stilltist hann þó laust fyrir hádegi þannig að við reyndum enn og aftur fyrir okkur, en í þetta skiptið urðum við ekki vör við fisk. Það var eins og hann hefði komið sér tryggilega fyrir í dýpstu álum vatnins eftir rokið um nóttina. Talandi um dýpi, þá er vatnshæð Hlíðarvatns sígild umfjöllunarefni, ár eftir ár. Þetta sumarið er vatnsbúskapur með ágætum, vatnshæð með því mesta sem við höfum séð svona síðla sumars enda síðustu skaflar í nærliggjandi fjöllum rétt ný bráðnaðir en mikið ósköp hefur sumarið farið seint af stað. Fuglalíf hefur oft verið mikið og fallegt við vatnið en í þetta skiptið sáum við aðeins eitt himbrima par, enga svani og engar endur. Smáfuglar í vatnsborðinu voru að vísu nokkrir, en nágranni okkar í Illumýrargili, krían var hvergi sjáanleg.

    Eftir að hafa kannað seiðabúskapinn í Illumýrargilslæk á laugardaginn og beðið þess árangurslaust að vind lægði héldum við heim á leið með þessa tvo fiska frúarinnar, frekar súr í bragði. En svona getur nú veiðin verið þegar snögglega kólnar.

    Hann lætur ekki mikið yfir sér, Illumýrargilslækurinn sem renndur til Hlíðarvatn, en þarna eru mikilvægar uppeldisstöðvar urriða í vatninu. Til gamans er hér Örklippa sem ég setti saman um seiðin í læknum.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     1 / 0 89 / 104 1 / 0 17 / 27 9 / 12

     

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 11. – 12. júlí

    13. júlí 2014
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Því miður hefur hefðin fyrir ferðum vestur í Hnappadal heldur látið undan síga síðustu ár. Sú var tíðin að farið var 3-4 á sumri í Hlíðarvatnið og veitt heil ósköp. Nokkur ár höfum við bræðurnir og spúsur okkar fylgst með og orðið vitni að gríðarlegum sveiflum í vatnshæð í Hnappadalnum og ég er ekki frá því að við séum að sjá afleiðingar verstu áranna núna. Mér finnst satt best að segja vanta 3ja og 4ra ára fisk í vatnið, þá er ég að tala um urriða. Það sem hópurinn veiddi núna um helgina var mest 2ja ára fiskur og svo mögulega einhverjir 5 ára sem náðust með löngum köstum út í vatnið (flot og maðkur).

    Vatnsstaðan er mjög góð í vatninu, með því hæsta sem við höfum séð, en eitthvað hefur skordýralífið látið undan síga. Við skv. venju, veiddum fyrir landi Heggsstaða og gerðum alveg þokkalega veiði, 12 + 4 sleppt á flugu og félagar okkar vel á þriðja tug á flot og maðk á rúmum sólarhring. Við sáum til einhverra veiðimanna í Hallkellsstaðarhlíð á föstudagskvöldið en lítið sást til þeirra á laugardaginn, nema rétt fyrir hádegið. Einhverra varð ég var við á föstudagskvöldið inni við hraunið fyrir landi Hraunholts (Stangaveiðifélag Borgarness) en ég hef heyrt að stofninn þeim megin í vatninu sé í þokkalegu standi og mætti stunda það svæði meira.

    Gleðifréttirnar eru að bleikjan í vatninu virðist vera að rífa sig upp úr leiðindum sem hafa hrjáð hana síðustu ár, ekki stór en í góðum holdum og falleg á að líta. Vonandi nær urriðinn sér á strik og étur á sig eitthvað hold það sem eftir lifir sumars. Annars fannst mér lítið um að vera í flæðarmálinu, ekkert síli og minna um flugupúpur heldur en oft áður.

    Bleikjur úr Hlíðarvatni í Hnappadal
    Bleikjur úr Hlíðarvatni í Hnappadal

    Fyrir þá sem hyggjast renna í Hlíðarvatnið fyrir landi Heggsstaða, gætið ykkar á slóðanum niður að síðsta ræsinu áður en komið er að vatninu. Það er illa skorið eftir rigningar síðustu vikna og eins gott að vera á 4×4.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     3 / 0 16 / 11 8 / 4 13 / 16 15 / 20

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar