Til margra ára höfum við heimsótt Hlíðarvatn í Hnappadal, stundum oft á ári en hin síðari ár aðeins einu sinni og ég geri ráð fyrir að þessi ferð helgarinnar verði sú eina á þessu ári. Oftast höfum við veitt fyrir landi Heggsstaða og svo var einnig í þetta skiptið. Undanfarin ár hefur slóðinn frá Heggsstöðum og inn að vatni verið torfarinn og ekki hefur hann skánað þetta sumrið. Það má segja að hingað til hafi tveir flöskuhálsar verið á leiðinni inn að vatni; mjótt ræsi í brekkurót á miðri leið og svo ræsið og brekkan niður að vatninu. Nú hefur enn einn farartálmi bæst við rétt fyrir innan bæ. Töluvert hefur runnið úr slóðanum rétt innan hliðs og eins gott að hafa þokkalega hæð undir lægsta punkt og ekki of langt á milli hjóla þegar farið er um þann part. Ég mundi segja að nú sé komin tími á að gera við þennan slóða eða þá að maður sæki sér veiðileyfi í Hraunholti eða Hallkelsstaðarhlíð.

Veðurspá helgarinnar fyrir þennan hluta Hnappadals var með ágætum, miklu betri en raunin varð á þegar inn að vatni var komið á föstudagskvöldið. Snörp norð-austanátt ýfði vatnið all þokkalega en við létum það ekki aftra okkur, settum skotlínur á stangirnar og reyndum fyrir okkur í svo sem tvo til þrjá tíma. Afraksturinn var heldur síðri en oft áður; frúin setti í fjóra fiska, tveimur sleppt og tveir hirtir. Sjálfur setti ég í fjóra, missti tvo (sem auðvitað voru stóri og miklir fiskar) og sleppti tveimur. Fleira bar ekki til tíðinda þetta kvöld og heldur vorum við köld þegar í vagnin var komið laust eftir miðnættið.

Um nóttina jók vind heldur hressilega og hitastig lækkaði enn meira. Eitthvað stilltist hann þó laust fyrir hádegi þannig að við reyndum enn og aftur fyrir okkur, en í þetta skiptið urðum við ekki vör við fisk. Það var eins og hann hefði komið sér tryggilega fyrir í dýpstu álum vatnins eftir rokið um nóttina. Talandi um dýpi, þá er vatnshæð Hlíðarvatns sígild umfjöllunarefni, ár eftir ár. Þetta sumarið er vatnsbúskapur með ágætum, vatnshæð með því mesta sem við höfum séð svona síðla sumars enda síðustu skaflar í nærliggjandi fjöllum rétt ný bráðnaðir en mikið ósköp hefur sumarið farið seint af stað. Fuglalíf hefur oft verið mikið og fallegt við vatnið en í þetta skiptið sáum við aðeins eitt himbrima par, enga svani og engar endur. Smáfuglar í vatnsborðinu voru að vísu nokkrir, en nágranni okkar í Illumýrargili, krían var hvergi sjáanleg.

Eftir að hafa kannað seiðabúskapinn í Illumýrargilslæk á laugardaginn og beðið þess árangurslaust að vind lægði héldum við heim á leið með þessa tvo fiska frúarinnar, frekar súr í bragði. En svona getur nú veiðin verið þegar snögglega kólnar.

Hann lætur ekki mikið yfir sér, Illumýrargilslækurinn sem renndur til Hlíðarvatn, en þarna eru mikilvægar uppeldisstöðvar urriða í vatninu. Til gamans er hér Örklippa sem ég setti saman um seiðin í læknum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 89 / 104 / 0 17 / 27 9 / 12

 

2 Athugasemdir

  1. Sæll, frábær síða hjá þér. Flott að einhver nenni að sinna silungs- og vatnaveiði af alvöru. Finnst full mikil áhersla á laxaumfjöllun í fjölmiðlum.

  2. Takk fyrir þessa kveðju, Ólafur. Get ekki verið annað en sammála þér um áherslur fjölmiðla á laxveiði. Meirihluti veiðimanna virðist gleymast um leið og opnar á lax.
    Kveðja,
    Kristján

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.