FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Framvötn, 9. & 10. sept.

    11. september 2017
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hún hefur nú ekki alltaf verið látin ráða, blessuð veðurspáin þegar kemur að veiði. En í þetta skiptið tókum við veiðifélagarnir mark á spánni og bókuðum okkur gistingu við Landmannahelli í stað þess að draga færanlega veiðihúsið þangað uppeftir um helgina. Við voru svo ljónheppinn að eitt af litlu húsunum, Dyngja var laus aðfaranótt sunnudags og því renndum við inn að Landmannahelli upp úr hádegi. Þess má geta að yfirferð Landmannaleiðar F225 er með besta móti um þessar mundir, vegurinn var greinilega heflaður ekki alls fyrir löngu og því rennifæri eins og maður getur sagt um vegi uppi á hálendi.

    Ekki amalegt útsýni úr Dyngju, Langasáta og Sátubarn

    Hann var nokkuð svalur þegar við renndum í hlað, komum föggum okkar fyrir í húsinu og héldum sem leið liggur að Ljótapolli. Við horfðum heldur skeptísk á hitatölurnar falla eftir því sem nær Ljótapolli dró, þetta byrjaði í 9°C, féll svo jafnt og þétt niður í 5°C þegar við vorum komin að pollinum. Einhver goluskítur var uppi á brún, en heldur stilltara þegar niður var komið og við skiptum liði til að byrja með. Veiðifélaginn fór alveg inn í krikann að norðan, en ég óð út á grynningarnar beint fram undan slóðanum niður að vatninu. Þetta var eiginlega svolítil leit að réttu flugunni og man eiginlega ekki hverjar þeirra virkuðu, ég fékk hvert nartið á fætur öðru þangað til hann tók loksins langt úti í dýpinu. Humm, þetta var nú hvorki snaggaraleg taka né öflug og það sýndi sig fljótlega að þarna var á ferðinni hástökkvari mikill og sprettharður en heldur smár vexti. Hann fékk auðvitað líf eftir að hafa jafnað sig stutta stund við háfinn minn. Veiðifélaginn setti aftur á móti í prýðilegan 1,5 punda urriða á dökk grænan Nobbler með orange but og græn/bláu tinsel í skottinu. Já, sumir muna betur en aðrir eftir þeim flugum sem gefa.

    Hann dimmir orðið snögglega um þessar mundir og það fór nú svo að þvermóðska mín við veiðina varð til þess að ég byrjaði að klöngrast upp á brún í rökkri og endaði við bílinn í myrkri. Þá hafði veiðifélagi minn fyrir nokkru komið sér upp, enda nokkuð sátt með yfirhöndina í aflatölum.

    Frostastaðavatn 10. sept.

    Sunnudagurinn skildi tekinn með trompi, aflatölur lagfærðar og því stefnt inn fyrir Suðurnámshraun við Frostastaðavatn. Þar kúrir vík ein sem aldrei bregst, en svo bregðast krosstré sem önnur tré. Eftir að hafa þrætt víkina endilanga og skyggnt hana eins og frekast var unnt, gáfumst við upp og héldum til baka inn í hraunið. Næsta vík var heldur ekki gjöful, en mér tókst þó að slæma flugunni fyrir bleikju rétt utan við hana þannig að það voru ekki nema 1,5 pund sem ég þurfti að bera til baka í bílinn þegar við ákváðum að láta gott heita. Reyndar hefði aflinn geta tvöfaldast hefði bleikjan sem tók hjá félaga mínum í fyrstu víkinni hangið á, en svo var nú ekki.

    Aflinn úr Suðurnámshrauni

    Eftir skeggræður og spádóma, ákváðum við að renna að bílastæðinu að norðan og freista þess að veiða þar undan stigmagnandi norðaustan áttinni sem hafði þó byrjað í nokkuð góðu formi um morguninn. Sökum óvenjulega hárrar vatnsstöðu í Framvötnum var bílastæðið að norðan fært nokkuð inn í landið í sumar, helst til þess að bílar væru ekki á kafi þar sem stæðið var upphaflega. Það var því nokkur gangur niður og austur að skerjunum undan Frostastaðahrauni og við óðum út að þeim sem unnt var og reyndum fyrir okkur. Fljótlega varð ég var við fisk, landmegin við skerin sem möruðu meira í kafi heldur en uppúr. Það fór svo að ég setti í fjórar bleikjur þarna, allar í prýðilegu ástandi, feitar og fallegar. Aðeins ein þeirra bar með sér riðbúning en búinn að hrygna og matarástin hafði gripið aftur um sig því hún var full að bobbum og torkennilegu brúnu gumsi sem ég þori ekki að segja til um hvað var. Líkt og í síðustu ferð voru þetta allt matfiskar þótt ekki væru þeir sérstaklega stórir eða margir. Af veiðifélaga mínum fara aftur á móti engar sögur um afla og hef ég ekki fleiri orð um það. Þegar norðaustan áttin hafði náð 10 m/sek. létum við gott heita, tókum saman föggur okkar og pökkuðum í bílinn. Það kom okkur verulega á óvart að hitastigið hékk í 8°C, vindkælingin var slík að ég hélt okkur vera að skjálfa þarna við svipað hitastig og í ísskáp.

    Hauststemning við Löðmundarvatn

    Á leiðinni til baka komum við stuttlega við í Löðmundarvatni en héldum okkur við myndavélarnar og stoppuðum stutt. Við Landmannahelli áttum við spjall við aðra veiðimenn sem höfðu svipaða sögu að segja af aflabrögðum, heldur rýr veiði og af spurn sögðu þeir okkur sögur af viðlíka aflabrögðum annarra veiðimanna sem þeir höfðu hitt. Svona getur þetta verið þegar skyndilega kólnar og norðlægar áttir taka að blása uppi á hálendi, en það spáir hlýnandi og það verður opið í Landmannahelli fram yfir næstu helgi.

    Helliskvísl við Sauðleysu

    Að lokum langar mig að geta vatnafars að Fjallabaki. Eins og marga rekur minni til fór töluverðum sögum af hárri vatnsstöðu á þessum slóðum fram eftir vori og langt inn í sumarið. Nýipollur er að vísu löngu þornaður og Dómadalsvatn komið í eðlilega hæð, en Frostastaðavatn stendur enn hærra en í meðal ári þótt ekki muni miklu. Nóg samt til að ekki er fært út í ystu sker undan hraunum, Frostastaðahrauni og Suðurnámshrauni. Hærra stendur í Löðmundarvatni en venjulega, þótt ekki renni mikið úr vatninu. Helliskvísl er heldur vatnslítil og því má geta sér til um að einhver fyrirstaða hafi myndast við útfall vatnsins.

    Tungnaá 23. júlí
    Tungnaá 9. sept.

    Í fyrstu ferð okkar inn að Framvötnum þetta árið, sem var 23. júlí tók ég mynd af brún Ljótapolls yfir Blautaver og Tungnaá. Um þessa helgi tók ég aðra mynd á svipuðum slóðum og sjá má að eitthvað hefur áin róast.

    Á heimleið, Búrfell gægist fram á milli Klofninga.
    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     0 / 5 107 / 145 1 / 0 28 / 30 14 / 16

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn, 3. sept.

    4. september 2017
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það eru tveir dagar á flestum helgum, stundum fleiri, en aldrei aðeins einn. Þetta er nú ekki merkileg speki, en í samhengi hlutanna gefur það augaleið að það er algjör óþarfi að láta sunnudaginn falla flatan þótt farið hafið verið í veiði á laugardeginum. Þegar maður vaknað síðan við það á sunnudagsmorgni að Brúsi byrjar að suða og suða um að komast aftur út í náttúruna, þá drattast maður auðvitað framúr, kveikir á kaffikönnunni og smellir á eins og tvær samlokur með meiru.

    Á leið í Framvötn

    Eftir heldur grámóskulegt ferðalag yfir heiðina var það með töluverðri ánægju að ég tók eftir sólstöfum norðaustan Heklu og þegar upp á Landmannaleið var komið tók nú heldur betur við þetta líka fallega veður og það var með örlitlum votti af kæti að ég renndi í hlað við Landmannahelli, kvittaði mig inn á svæðið og fékk veiðiskýrslu til að fylla af fallegum tölum, vonandi.

    Frostastaðavatn um hádegið á sunnudag

    Frostastaðavatn var það heillin sem átti að kanna og þá sérstaklega hvernig bleikjan hefði haft það í sumar. Síðast þegar ég koma í vatnið, vantaði nokkuð upp á að stærri bleikjan væri komin upp að hrauninu og þær sem voru mættar voru ekkert í sérstaklega góðum holdum. Minnugur þess að vatn stóð mjög hátt fyrripart sumars var ég líka svolítið spenntur að sjá hvað mikið hefði lækkað í vatninu. Jú, það hefur lækkað töluvert í vatninu og er það núna u.þ.b. í þeirri hæð sem maður er vanur að sjá snemmsumars, ystu sker óaðgengileg og enn töluvert vatn á leirunum við norðurbakka vatnsins. Hvað um það, ég smellti mér í vöðlurnar og arkaði inn fyrir Suðurnámshraun, kom mér fyrir við óbrigðula vík og setti auðvitað Peacock með orange skotti undir. Niðurstaðan? Ekkert. Black Zulu? Ekkert. Pheasant Tail? Allt á fullt og þannig hélst það þangað til rúmlega 20 bleikjur lágu í netinu, þá datt þetta eitthvað niður og lagaðist ekki fyrr en ég setti toppflugupúpu undir, einlita svarta með hvítum hnakka. Sjö stykki til viðbótar og þá rankaði ég við mér, þyngdin var komin að þolmörkum skrifstofumannsins og þar að auki voru komnir gestir í víkina sem biðu í ofvæni eftir því að fá sér eitthvað í gogginn, himbrima par hafði síðasta korterið lónað yst í víkinni þannig að ég settist niður, fékk mér kaffisopa og leyfði þeim að pikka upp þær bleikjur sem eftir voru.

    Brúsi við Frostastaðavatn

    Eftir þrautagöngu mína út að bílastæði, með nokkrum stoppum því þau sigi í þessi tæpu 20 kg. sem voru í netinu, þá svolgraði ég í mig hálfum lítra af vatni og kom fiskinum fyrir í kælikassanum. Ástand fisksins var alveg þokkalegt, allur fiskurinn sem ég tók var í matfiskastærð, flestir voru virkilega vel haldnir en inni á milli voru fiskar sem greinilega höfðu átt betri daga. Það verður áhugavert að lesa niðurstöður nýlegra rannsókna á bleikjunni í Frostastaðavatni og þá sérstaklega  til hvaða ráða er rétt að grípa til að stemma stigu við offjölgun í vatninu.

    Vottur af regnboga

    Þegar ég renndi norður fyrir vatnið hélt ég að veiðigyðjan væri að senda mér skilaboð í formi regnboga á milli mín og Ljótapolls. Gat verið að fjársjóðurinn lægi við enda regnbogans? Minnugur þess að vatnið gaf ágætlega í síðustu ferð safnaði ég kjarki og kröftum og lét mig hafa það að fikra mig niður að steininum. Það er skemmst frá að segja að niðri við vatnið var vindur, vindur úr öllum áttum og þráðbein flugulínan tók ítrekað upp á því að skipta um stefna og lenda rétt við fætur mér. Eftir ekki langan tíma, eiginlega mjög skamman tíma rifjaðist sú staðreynd upp fyrir mér að það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér heldur en vindur sem veit ekki í hvaða átt hann vill ferðast. Eftir þessa hugljómun tók ég til við að fikraði mig í rólegheitum, reyndar mjög miklum rólegheitum aftur upp á brún og kláraði þar hálfan lítra af vatni til viðbótar. Það er ekkert eðlilegt hvað maður getur svitnað mikið í vöðlunum þegar það er 14°C hiti.

    Frostastaðavatn séð úr norðri

    Já, það er væntanleg rétt að segja frá veðrinu. Sunnan og suðaustan léttur vindur, nema niðri í Ljótapolli. Ætli skýjafarið kallist ekki dumbungur með glætum, en þær glætur voru ansi margar þegar ég var við Frostastaðavatnið þannig að vel sást til botns og eiginlega gat maður pikkað fórnarlömbin upp með augunum áður en flugan tók þau.

    Herbjarnarfellsvatn

    Eftir Ljótapollsleikfimina renndi ég inn að Landmannahelli, gerði að þeim fiski sem komin var og hugsaði ráð mitt. Það endaði með því að ég renndi yfir hálsinn að Herbjarnarfellsvatni. Síðast gaf vatnið mér ekki einn einasta fisk og ég var nú satt best að segja ekkert sérstaklega bjartsýnn á að það gæfi mér eitthvað í þetta skiptið. En stundum er fiskur ekki allt, sko bara stundum. Veðrið og umhverfið í gær var mér eiginlega nóg ttilefni il að eyða tæpum tveimur tímum við vatnið án þess að fá svo mikið sem eitt nart, sama hvaða flugur ég setti undir. Upp úr kl. 20 tók ég mitt hafurtask, skipti yfir í gallabuxur og hélt heim á leið eftir að hafa skilað skýrslunni í Landmannahelli.

    Vel að merkja, það verður opið hjá Hellismönnum fram yfir göngur í lok þess mánaðar og ef veður heldur áfram að vera svona milt og gott á hálendinu, þá er ekkert því til fyrirstöðu að skjótast í Framvötnin og næla sér í nokkrar bleikjur eða urriða í kistuna fyrir veturinn.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     0 / 27 107 / 140 0 / 0 27 / 30 13 / 15

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn, 22. & 23. júlí

    25. júlí 2017
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Biðin hefur verið nokkuð erfið eftir því að Landmannaleið F225 opnaðist um Dómadal, en loksins var komið að því og helgi + sumarfrísmánudagur runnu saman um síðustu helgi og því var ákveðið að renna inn að Landmannahelli á föstudagskvöld. Þar sem þetta var fyrsta ferð sumarsins skal vegum og vegleysum gerð skil. Vegurinn inn að Landmannahelli er bara með ágætasta móti, einn og einn gamalkunnur hnullungur á sínum stað og aðrir nýir að skjóta upp kollinum, samt ekkert til að setja fyrir sig eins og sannaðist þegar inn í Landmannahelli var komið.

    Vöðin undir Sauðleysu

    Eina vaðið á leiðinni er tvöfalda vaðið á Helliskvísl undir Sauðleysu, en vatnavextir að Fjallabaki hafa greinilega ekki náð að hækka neitt í ánni þannig að það er vel fært öllum 4×4 bílum, fellihýsum, tjaldvögnum og hjólhýsum.

    Hjólhýsi við Landmannahelli

    Þetta myndarlega hjólhýsi, ekki af smærri gerðinni, stóð hnarreist á tjaldstæðinu við Landmannahelli þegar við hjónin renndum þar í hlað á föstudagskvöldið. Ég tók eiganda þess talið og spurði hvernig honum hefði gengið að komast þetta og þá sérstaklega yfir vaðið við Sauðleysu. Hann sagði mér að þetta væri ekkert mál, bara fara varlega og kanna vel hvernig lægi í vaðinu, sneiða það rólega og þá kæmist þetta auðveldlega yfir. Ég er ekkert sérstaklega að mæla með búferlaflutningum sem þessum en langar að geta þessa sem dæmi um hvað hægt er að komast ef varlega og rólega er farið. Það skal tekið fram að ég kíkti sérstaklega undir hjólhýsið og það sást ekki á nokkrum hlut að það hefði rekist niður eða orðið fyrir hnjaski.

    Nýipollur í Dómadal – horft frá Dómadalshálsi til austurs

    En áfram með fréttir af færð og þá sérstaklega úr Dómadal. Nýipollur hefur hopað hratt síðustu daga, svo hratt að við sáum mun á honum og leiðinni um Dómadal frá laugardegi og fram á sunnudag. Nú er svo komið að vegurinn er allur á þurru, ekki einn einasti pollur, hvorki nýr né gamall á leiðinni, þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að planta sér við Landmannahelli og renna í Eskihlíðarvatn, inn að Frostastöðum eða í Ljótapoll.

    Pollurinn séður úr austri

    Víkur þá sögunni að veiðiskap og aflabrögðum. Við ákváðum að byrja laugardaginn inni við Frostastaðavatn og þar bar nú ýmisleg fyrir augu, þó aðallega mikið vatn. Það er í það minnsta einum metra hærra í vatninu heldur en í meðalári, bílastæðið að norðan á bólakafi og víða engin strönd þar sem áður voru 2-4 m. út í vatnið. Fyrir botni vatnsins, þ.e. að sunnan áður en komið er að hrauninu, ætti að vera ávalur og fallegur malarkambur sem aðskilur vatnið frá polli undir fjallshlíðinni. Þar er ein samfelld vík núna, en vel fært yfir að hrauninu eftir kambinum sem liggur á 20 – 30 sm. dýpi. Víkur og pollar í hrauninu hafa máðst út í töluverðan flóa með stöku skerjum og hreint ekki fært út í ystu sker, jafnvel ekki þeim sem þykjast muna hvar skerin eru.

    Horft til suðurs við austurbakka Frostastaðavatns

    Af fiski er það því miður að frétta að hann er í smærri kantinum og allt of mikið af honum. Þetta verður því miður bara að segjast eins og það er. Þeir fáu í góðri stærð, þ.e. lengd sem við náðum voru illa haldnir, magrir og hausstórir. Reyndar verður að taka það fram að það er okkar upplifun síðari ára að því lengra sem líður að hausti, því stærri og betur haldinn verður fiskurinn. Það er óskandi að svo verði þetta árið einnig. Stærstur hluti fiskanna, þ.e. þeir sem voru rétt um hálft pund voru aftur á móti í góðum holdum og fallegir, jafnt að innan sem utan. Við héldum okkur að mestu við syðstu víkina í hrauninu sem að vísu er næstum óþekkjanleg og það fer mjög lítið fyrir dýpisköntum og fyrrum þekktir veiðistaðir eru bara þarna einhversstaðar úti í vatninu. Flestar tóku bleikjurnar hefðbundnar flugur, með öðrum orðum Peacock með orange skotti.

    Eftir Frostastaðavatnið og aðgerð afla renndum við inn að Dómadalsvatnið í þeirri von að austanstæð áttin færði einhverja urriða í kastfæri út frá vesturbakka vatnsins. Sú von brást því við urðum ekki vör við einn einasta fisk og snérum því tiltölulega snemma til Landmannahellis um kvöldið.

    Nýipollur í Dómadal, glittir í Dómadalsvatn

    Hér er rétt að smella inn gleðilegri frétt fyrir þá sem hafa nýtt sér aðgerðarborðið við Landmannahelli; það er búið að koma fyrir tunnu fyrir slóg og úrgang við borðið a‘la Veiðivötn og eiga Hellismenn / Veiðifélag Landmannaafréttar hrós skilið fyrir framtakið.

    Ekki vorum við árrisul á sunnudaginn þannig að við vorum ekki komin á veiðislóðir fyrr en upp úr hádegi. Fyrstan hittum við fyrir félaga okkar í Ármönnum sem hafði það helst fyrir stafni að ferja afla upp úr Ljótapolli fyrir veiðifélaga sína sem gerðu þar fantagóða veiði og enduðu í að mér skilst 16 fiskum frá kl.11 og eitthvað framyfir hádegi. Skemmtileg veiði úr því vatni sem margir hafa einungis upplifað sem kvöldvatn og vitaskuld kitlaði það veiðibakteríuna í okkur hjónum að sjá þennan flotta afla. Við stóðumst samt mátið og reyndum stundarkorn fyrir okkur í Blautuverum í þeirri von að hástæð Tungnaá hefði náð að dæla þar inn einhverjum stórum bleikjum. Ekki fór nú mikið fyrir því, en verin eru mjög lituð af vatni úr ánni og vel getur verið að þær stóru leynist þarna þótt við séum ekki til frásagnar um það.

    Eftir Blautuver renndum við niður að Frostastaðavatni að norðan og leituðum að fyrra vatnsborði framundan Frostastaðahrauni. Jú, kamburinn er þarna ennþá, lengst úti í vatninu og ekkert tiltökumál að vaða yfir fyrrum gróið land og út á kambinn sem marar þarna í u.þ.b. 40 sm. djúpu vatninu. Ég játa alveg að ég var ekkert óskaplega spenntur fyrir því að bæta tittum við í netið mitt, þannig að ég reyndi að höfða til hornsílaæta með því að setja lítinn Dentist undir og kasta út í dýpið og meðfram kantinum í von um aðeins stærri fisk. Ég er ekki frá því að mér hafi tekist þetta að því marki að flugan vakti töluverðan áhuga þannig að á skömmum tíma var ég kominn með á annan tug þokkalegra bleikja í netið. Að vísu hefðu þær mátt vera örlítið stærri, en þær voru í fínum holdum. feitar og þrifalegar.

    Að þessari heimsókn okkar lokinni var sest á rökstóla í mosaþembu undir Norðurnámum, stungið úr eins og einni kókómjólk og japlað á kleinum. Umræðuefnið var hvort við ættum að láta slag standa og prófa Ljótapoll eða bara renna í Dómadalinn og athuga með gæftir þar. Úr varð að við fórum í Ljótapoll, fikruðum okkur niður slóðann að norðan og komum okkur fyrir í kverkinni þar sem stutt var í dýpið. Það er annars merkilegt hvað við urðum lítið vör við fisk, mjög fáar uppitökur og eiginlega fátt sem bar þess vitni að þarna væri fiskur. Eftir nokkurn tíma læddist að mér sá ljóti grunur (orðaleikur í tilefni staðsetningar) að félagar okkar í Ármönnum hefðu tæmt pollinn fyrr um daginn, það væri bara ekkert eftir fyrir utan þennan eina titt sem þeir slepptu.

    Þar sem ég var aðeins vopnaður mjög hægsökkvandi línu, lét ég mig hafa það að brúkast við sökktaum til að koma flugunni niður, nokkuð sem ég er ekki vanur að nota. Ég þakka mínum sæla fyrir að áhorfendur að þessum aðförum mínum voru ekki margir, aðeins veiðifélagi minn og einn Ármaður til sem rölti niður til okkar þegar leið á kvöldið. Sá hafði verið í Herbjarnarfellsvatni og gert ágæta veiði undir hlíðum Herbjarnarfells um daginn. Þegar leið á kvöldið rofaði aðeins til og stöku fiskur fór að sýna sig og skyndilega var fiskur á hjá okkur hjónum báðum í einu. Var veislan að byrjað? Ef svo var þá var þetta stutt partí, hjá mér í það minnsta. Ég fékk þennan eina fisk, veiðifélagi minn hélt reyndar áfram og bætti fjórum við eftir að hafa misst nokkrar flugur í bæði fjallshlíð og fiskikjaft því ekki vantaði hressilegar tökurnar hjá henni. Félagi okkar fór upp úr vatninu með tvo eða þrjá fiska og kvaddi með þeim orðum að stundum hefði hann nú farið fisklaus upp úr pollinum. Að lokum þakkaði ég reyndar fyrir að vera ekki með fleiri en þessa sex fiska í pokanum, þeir sigu alveg nóg í á uppgöngunni og ég játa það fúslega að leiðin var tekin í nokkrum áföngum, það var orðið lítið eftir á tankinum eftir daginn þegar upp á brún var komið.

    Þegar upp var komið blöstu Blautuver, Tungnaá og hluti Veiðivatna við okkur í miðnætursólinni og við gáfum okkur góðan tíma til að kasta mæðinni og dást að kyrrð og fegurð sumarnæturinnar. Hvorki myndir né orð fá lýst því sem fyrir augu bar, þetta verða menn að upplifa á eigin skinni.

    Horft til norðurs frá Ljótapolli

    Heilt yfir erum við afskaplega sátt við þessa fyrstu ferð okkar í sumar í Framvötnin og vonum að bleikjurnar í Frostastaðavatni hætti þessum megrunarstælum, stækki og fitni eins og mögulegt er á næstu vikum þannig að síðsumarið og haustið verði okkur gjöfult á fallega fiska eins og svo oft áður.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     39 / 52 103 / 110 5 / 1 22 / 16 10 / 10

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn, 11. sept.

    12. september 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það er víst ekki einleikið hvað við veiðifélagarnir erum alltaf heppin með veður. Eins og áður hefur komið fyrir, þá vorum við veiðifélagarnir vinsamlegast beðnir um að vera ekki heima við einn dag um þessa helgi. Sunnudagurinn varð fyrir valinu og við lögðumst í veðurspár. Ég var nú ekkert sérstaklega bjartsýnn á mikla veiði þegar ég rakst á þessi veðurtákn í kortunum fyrir sunnudaginn

    vedur_takn

    Hvað um það, við drifum okkur á fætur fyrir allar aldir, hituðum vatn í kaffi, smurðum samlokur, stungu þessu öllu í bakpoka og vorum mætt upp við Landmannahelli rétt upp úr kl.9 á sunnudagsmorguninn.

    Eftir stutt spjall við staðarhaldara, m.a. um slakar heimtur á veiðiskýrslum, þá tókum við stefnuna á Frostastaðavatn. Að vísu fórum við ekki nema hálfa leið í fyrstu atrennu því við ákváðum að kanna ástand slóðans inn að Eskihlíðarvatni, þ.e. þess sem liggur úr Dómadal. Að mínu mati er þetta einhver fallegasta leið að veiðivatni sem hægt er að finna sunnan Tungnaár. Þar sem slóðinn fikrar sig upp á Dómadalshraun liggur hann á milli hraundranga sem eflaust geta skotið einhverjum skelk í bringu í rökkrinu. Maður getur vel skilið tilvist gamalla ófreskjusagna þaðan sem svona landslag er að finna.

    Eskihlíðarvatn - Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri
    Eskihlíðarvatn – Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri

    Það verður ekki af Eskihlíðarvatni skafið að þar er nægur fiskur. Rétt eftir að við höfðum rennt niður að vatni og komið okkur í veiðigallana, hófu bleikjurnar uppitökur rétt undan syðstu víkinni og þær héldust þar til við höfðum veitt nægju okkar af sýnishornum fiskistofnsins. Það var ekki eins og haustið væri gengið í garð á þessum slóðum, flugan klaktist í þúsundavís og bleikjan velti sér í ætinu. Það verður aftur á móti ekki sagt að bleikjan þarna sé stór, liðmörg er hún væntanlega og það æti sem vatnið gefur af sér nægir engan veginn til að brauðfæða hana svo vel sé. Fullþroska bleikja í vatninu virðist vera rétt um 20 sm. og getur þá haldið áfram að fjölga stofninum, eins og ekki sé nóg komið. Ekkert að vaxtalagi hennar, höfuðið í samræmi við búklengd en öll mjög smágerð. Einhvers staðar las ég að þar sem sverfur að bleikjunni hvað fæðu varðar, þá grípur náttúran inní og sér til þess að hlutfallslega fleiri hrygnur komast á legg heldur en hængar. Ef eitthvað er að marka tilraunaveiði okkar á sunnudaginn, þá styður hún þessa kenningu. Af þeim 16 bleikjum sem við tókum upp úr vatninu voru aðeins tveir hængar. Stærsta var rétt innan við 25 sm. en flestar rétt undir 20 sm. Það var langþráður draumur að heimsækja Eskihlíðarvatn og við eigum eflaust eftir að heimsækja það aftur, þó ekki væri nema fyrir náttúrufegurðina þarna. Veðrið? Það var ekkert í líkingu við spánna, hreint út sagt frábært.

    Við suðurenda Eskihlíðarvatns
    Við suðurenda Eskihlíðarvatns

    Eftir ferð okkar inn að Eskihlíðarvatni héldum við áfram í austur, inn að Frostavatni. Vatnið tók á móti okkur af stillingu, varla að það gáraði og við ákváðum að taka stöðuna á víkunum undir Suðurnámshrauni. Eftir að hafa gegnið úr skugga um að fyrstu tvær, þrjár víkurnar væru algjörlega lausar við fisk, lögðum við leið okkar að innstu vík. Eitthvað óvanalega rólegt var yfir öllu og eftir nokkrar tilraunir á hefðbundnum stöðum, varð ég aðeins var við einn fisk sem tók hressilega en losaði sig fljótlega af. Það lá í loftinu að við héldum leiðar okkar, svo dapurlegt var ástandið. Ég kíkti samt aðeins innar í víkina og þar lágu þær, blessaðar bleikjurnar í mestu makindum. Einhverjar þeirra voru komnar í stuðið, byrjaðar að pússa botninn, en flestar gerðu lítið annað en veiða sér eitt og eitt hornsíli, kroppa í bobba eða taka flugu eftir því sem þær klöktust. Þarna var þá kominn aðeins önnur kynslóð bleikju heldur en við fundum í fyrri ferðum okkar í sumar. Þessar voru öllu þroskaðri, stærri og feitari. Flestar á bilinu 1,5 til rúmlega 2 pund.

    Frostastaðavatn 11.sept. 2106
    Frostastaðavatn 11.sept. 2016

    Þegar ég segi að þær lægju þarna í mestu makindum sínum, þá var það svo að við þurftum að hafa töluvert fyrir því að ná fiskinum upp úr sófanum og taka flugur okkar. Ég held að ég fari ekki með mikið fleipur þegar ég segi að allar gerðir, litir og stærðir af eggjandi og pirrandi flugum hafi verið reyndar. Sumar gáfu einn til tvo fiska, svo þurfti að skipta um taktík og reyna einhverja aðra flugu. Svona gekk þetta þar fullreynt var og við skildum þá eftir sem ekki varð haggað.  Þegar degi tók að halla, héldum við til baka inn úr hrauninu því við vildum helst ekki vera á einhverju brölti þar í svarta myrkri. Við ákváðum að stoppa örstutt í austustu vík hraunsins og reyna orange Nobbler þar í ljósaskiptunum. Og viti menn, þótt við sæjum ekki einn einasta fisk, pikkuðum við upp þó nokkrar þokkalegar bleikjur sem greinilega stóðust ekki UV hnýttan Nobbler. Veðrið? Ef þetta er haustveður, þá má vera haust allan ársins hring fyrir mér.

    Eftir að hafa skotið veiðiskýrslunni í póstkassann við gatnamótin inn að Landmannahelli, héldum við heim á leið, meira en sátt við þessa haustlita óvissuferð að Fjallabaki. Miðað við allt klak flugunnar og tökuvilja bleikjunnar, er ekkert sem bendir til að veturinn sé á næsta leiti á þessum slóðum. Nú spáir hlýnandi í næstu viku og fyrirséð að suðrænar lægðir leggi leið sína upp að Íslandi þannig að það er greinilega nægur tími til stefnu fyrir þá sem ekki eru enn svo þreyttir eftir veiðisumarið að þeir hafi hug á að komast í góða vatnaveiði.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     33 / 22 249 / 259 0 / 0 36 / 43 20 / 22

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 19. – 21. ágúst

    22. ágúst 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Þær eru orðnar ófáar ferðirnar sem við veiðifélagarnir höfum farið í Framvötnin síðla sumars og nú liggur enn ein í gagnabankanum. Það er víst ekki hægt að segja að við höfum brunað inn að Landmannahelli á föstudaginn, við lötruðum þetta öllu heldur þar sem Landmannaleið er heldur farin að láta á sjá eftir alla traffíkinna í sumar. Á endanum komumst við þetta heilu og höldnu með veiðihúsið í eftirdragi eins og venjulega, settum það upp og héldum inn að Herbjarnarfellsvatni. Hljómar kunnuglega, já. Svona hefur þetta stundum verið hjá okkur, skjótumst fyrsta kvöldið okkar í annað hvort Löðmundarvatn eða Herbjarnarfellsvatn. Í stuttu máli, þá gekk mér ekkert sérstaklega vel, frúin setti í tvo fallega og ég rétt marði að setja í einn áður en rökkrið skall á okkur.

    Bómull á himni við Landmannahelli
    Bómull á himni við Landmannahelli

    Það var nú ekki annað hægt en segja að laugardagurinn rynni upp bjartur og fagur, hreint ekki eins og sumrinu sé farið að halla að Fjallabaki. Við ákváðum að renna inn að Frostastöðum og taka stöðuna á vatninu. Mér skilst að óþarfi sé að geta afla úr Frostastaðavatni, svo pottþétt hefur veiðin þar verið í sumar og laugardagurinn varð engin undantekning. Víkurnar í Suðurnámshrauni gáfu, gáfu og gáfu. Flugur dagsins; Peacock með orange skotti, Higa‘s SOS og Orange Nobbler. Það voru því nokkur kíló sem fóru í bakpokann sem ég spennti á mig í lok dags og rölti með út að bílastæði að austan. Við veiðifélagarnir vorum sammála um að bleikjan hefur heldur tekið sig á í mataræði í sumar, étið vel og dafnað eftir því. Minna af undirmálsfiski og aðeins örfáir slápar inn á milli. Heilt yfir, jafn stórir (miðlungs) fiskar og almennt betur haldnir en fyrr í sumar. Það má svo sem geta þess að nokkrar verulega fallegar og stærri bleikjur lentu í aðgerð eftir þennan dag, þær leynast þarna líka, þessar vænu.

    Löðmundarvatn til suð-vesturs
    Löðmundarvatn til suð-vesturs

    Sunnudagurinn var ekki alveg eins sólríkur og laugardagurinn, fallegur samt og við gerðum okkur ferð inn að Löðmundarvatni til að kanna stöðuna á kóðinu þar. Það endaði reyndar með því að við veiðifélagarnir gengum hringinn í kringum vatnið og reyndum fyrir okkur á þó nokkrum stöðum. Þetta varð því enn eitt vatnið sem við höfum hringað í Framvötnum, alveg óvart. Það má með sanni segja að veiðistaðir við vatnið eru nokkrir, en afskaplega misjafnir. Þokkalegasti fiskurinn, í austanátt og dumbungi, var að norðan og norðaustan, en lélegasta veiðin var við vatnið að sunnan; ekki ein einasta branda kom þar á land. Heilt yfir tókum við eitthvað á fjórða tug fiska úr vatninu, þar af hæfir í harðfisk eitthvað um fjórðungur.
    Eftir röltið kringum vatnið, stutt stopp og hádegisverð við Landmannahelli, héldum við inn að Herbjarnarfellsvatni og gerðum aðra tilraun við urriðann þar. Eitthvað virtist austanáttin hafa farið illa í þá félaga og þeir heldur sig afskaplega mikið til hlés þannig að við ákváðum að leita á náðir bleikjunnar í Frostastaðavatni, enn og aftur. Við komum okkur fyrir við Frostastaðahraun og smelltum í nokkrar bleikjur þar til kvöldi tók að halla og húmaði heldur snarlega. Það var þungt yfir og eiginlega komið svarta myrkur þegar við renndum í hlað við Landmannahelli, þreytt en afskaplega ánægð með göngu og veiði dagsins.

    Aldrei þessu vant tókum við stangirnar ekkert fram heimferðadaginn, dunduðum okkur bara við að taka saman og gerðum stutta ferð enn lengri með því að kanna síðasta mögulega slóða að Eskihlíðarvatni, þ.e. þann sem áður lá að vatninu skammt frá Bjallavaði við Tungnaá. Sá góði slóði er ekki lengur til, löngu sandi fylltur og ekki fær neinum venjulegum 4×4 bílum. Þar með er það ljóst, það verður að leggjast í nokkra göngu til að kanna ástand Eskihlíðarvatns. Það bíður betri tíma.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     53 / 61 210 / 233 2 / 1 32 / 40 17 / 19

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 22. – 24. júlí

    24. júlí 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hún var kærkomin helgin eftir fyrstu viku í vinnu að loknu sumarfríi og stefnan því auðvitað tekin út af malbikinu. Stefnt var á Framvötn þar sem við veiðifélagarnir áttum stefnumót við Mosó-gengið sem við höfum áður átt margar góðar stundir með á bökkum ýmissa vatna.
    Eitthvað brá okkur örlítið þegar að Landmannahelli var komið þar sem tjaldbúðir fyrir yfir 200 manns höfðu risið. En þröngt mega sáttir sitja og við gátum troðið okkur niður á bakka Helliskvíslar við hlið Mosó-gengisins. Við tókum okkur síðan til og ókum inn að Dómadal. Á leiðinni mættum við Mosó-genginu sjálfu, glaðbeittu og rennandi blautu eftir ágætan dag við Frostastaðavatn. Eins og okkur var tjá ‘hafði rignt eldi og brennisteini’ um daginn, eitthvað sem okkur hafði reyndar grunað þar sem vegurinn var einn risa-stór drullupollur. Eftir stutt spjall, héldum við síðan áfram leið okkar að Dómadalsvatni sem skartaði sínu fegursta í þokunni um kvöldið. Við urðum fljótlega vör við urriða að velta sér í einhverju óræðu æti í yfirborðinu og eftir nokkur köst setti ég í einn af höfðingjum vatnsins sem tók hressilega í orange Nobbler og gaf lítið eftir. Leikar fóru þó þannig að orange Nobble vann og 2 punda silfurgljáandi urrið lá í netinu. Skemmtileg byrjun á helginni.

    Dulúð við Frostastaðavatn
    Dulúð við Frostastaðavatn

    Laugardagurinn rann upp með þokkalega stilltu veðri, dumbungi að vísu sem breyttist síðan í ausandi rigningu þegar leið á daginn. En eins og hitastigið var um helgina að Fjallabaki kom þessi rigning alls ekki að sök og allur hópurinn tölti inn með Frostastaðavatni og yfir Suðurnámshraunið í víkurnar þar og út á tangana. Frábær dagur með Mosó-genginu og allir fengu umbun göngutúrsins og rigningarinnar. Að vísu hefur bleikja lítið bætt á sig frá síðustu ferð og eiginlega ekkert stækkað en alltaf jafn gaman að eiga við hana. Þess má geta að Ármenn fjölmenntu við vatnið um helgina, ég taldi í það minnsta 8 og skemmtileg að hitta á svona marga félaga við vatnið.

    Annars bárust okkur þær fréttir að vinur okkar Malli, húsbóndinn á Frostastöðum, hefði verið vegin á óðali sínu og lægi örendur í holu einni í hrauninu. Þegar betur var að gát, mátti sjá hvar sundurtætt hræ minnka höfðu verið skilin eftir við vatnið og þótti mér miður að banamaður eða eigandi þess hunds sem vann verkið, hafi ekki haft dug í sér til að fjarlægja hræin, heldur skilið þau svona eftir fyrir allra augum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að mörgum stendur stuggur af mink og telja hann réttdræpan hvar sem til hans næst, en á þessum stað, Friðlandi að fjallabaki, hélt ég að hann væri engum til ama og gerði ekki nokkrum manni eða búfénaði mein. Hér á síðunni verða því ekki fluttar fleiri fréttir af þessum ferfætta vini okkar við Frostastaðavatn, eftirleiðis verður þagað þunnu hljóði um frændur hans eða afkomendur sem hafa tekið við bústjórn að Frostastöðum og þiggja eitt og eitt smælki af veiðimönnum.

    Herbjarnafellsvatn 2014
    Herbjarnarfellsvatn 2014

    Eftir að við hjónin höfðum tekið saman á sunnudaginn, lögðum við leið okkar að því vatni sem mér stendur trúlega næst hjarta af Framvötnum, Herbjarnarfellsvatni. Frá því ég kom fyrst að þessu vatni hefur mér alltaf þótt einkennilega vænt um það. Fiskurinn þarna er einstaklega fallegur, bjartur og skemmtilegt að eiga við. Það er því engin tilviljun að mynd veiðifélaga míns af mér við vatnið prýðir kápu bókar minnar, Vatnaveiði –árið um kring sem kom út í fyrra. Í þetta skiptið töltum við inn með ströndinni sem sést á myndinni, alveg inn að og inn fyrir lækinn sem rennur í vatnið að norð-austan. Lítið urðum við vör við fisk á þessari leið okkar, þannig að við snérum við og héldum að bílastæðinu, kaffibrúsinn heillaði. Ég ákvað að leggja ekki fleiri fet undir fót, heldur smellti orange Nobbler á taum og í því ég kastaði fyrst út á vatnið, tók einn stökkið rétt utan kastfæris. Eftir tvö köst til viðbótar var tekið hressilega í fluguna, hún keyrð niður á botn og látið reyna á bremsuna í hjólinu. Það tók mig nokkra stund að landa þeim bjarta, feitur og fallegur urriði, rétt undir tveimur pundum. Skömmu síðar var aftur tekið í Nobblerinn, fóstbróðir þess fyrri og í eins góðum holdum. Þriðji lét ekkert bíða eftir sér, tók með látum og vóg slétt tvö pund en dró línuna út af hjólinu eins og fimm pundari hefði gert í Veiðivötnum. Þetta uppáhalds vatn mitt kvaddi mig síðan með enn einum tæplega tveggja pundara rétt áður en veðurguðirnir smelltu hressilegum skúr á mig í kveðjuskyni. Frábær endir á enn einni helgi í Framvötnum.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     28 / 27 138 / 157 0 / 5 23 / 37 13 / 15

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 6
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar