Það er víst ekki einleikið hvað við veiðifélagarnir erum alltaf heppin með veður. Eins og áður hefur komið fyrir, þá vorum við veiðifélagarnir vinsamlegast beðnir um að vera ekki heima við einn dag um þessa helgi. Sunnudagurinn varð fyrir valinu og við lögðumst í veðurspár. Ég var nú ekkert sérstaklega bjartsýnn á mikla veiði þegar ég rakst á þessi veðurtákn í kortunum fyrir sunnudaginn

vedur_takn

Hvað um það, við drifum okkur á fætur fyrir allar aldir, hituðum vatn í kaffi, smurðum samlokur, stungu þessu öllu í bakpoka og vorum mætt upp við Landmannahelli rétt upp úr kl.9 á sunnudagsmorguninn.

Eftir stutt spjall við staðarhaldara, m.a. um slakar heimtur á veiðiskýrslum, þá tókum við stefnuna á Frostastaðavatn. Að vísu fórum við ekki nema hálfa leið í fyrstu atrennu því við ákváðum að kanna ástand slóðans inn að Eskihlíðarvatni, þ.e. þess sem liggur úr Dómadal. Að mínu mati er þetta einhver fallegasta leið að veiðivatni sem hægt er að finna sunnan Tungnaár. Þar sem slóðinn fikrar sig upp á Dómadalshraun liggur hann á milli hraundranga sem eflaust geta skotið einhverjum skelk í bringu í rökkrinu. Maður getur vel skilið tilvist gamalla ófreskjusagna þaðan sem svona landslag er að finna.

Eskihlíðarvatn - Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri
Eskihlíðarvatn – Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri

Það verður ekki af Eskihlíðarvatni skafið að þar er nægur fiskur. Rétt eftir að við höfðum rennt niður að vatni og komið okkur í veiðigallana, hófu bleikjurnar uppitökur rétt undan syðstu víkinni og þær héldust þar til við höfðum veitt nægju okkar af sýnishornum fiskistofnsins. Það var ekki eins og haustið væri gengið í garð á þessum slóðum, flugan klaktist í þúsundavís og bleikjan velti sér í ætinu. Það verður aftur á móti ekki sagt að bleikjan þarna sé stór, liðmörg er hún væntanlega og það æti sem vatnið gefur af sér nægir engan veginn til að brauðfæða hana svo vel sé. Fullþroska bleikja í vatninu virðist vera rétt um 20 sm. og getur þá haldið áfram að fjölga stofninum, eins og ekki sé nóg komið. Ekkert að vaxtalagi hennar, höfuðið í samræmi við búklengd en öll mjög smágerð. Einhvers staðar las ég að þar sem sverfur að bleikjunni hvað fæðu varðar, þá grípur náttúran inní og sér til þess að hlutfallslega fleiri hrygnur komast á legg heldur en hængar. Ef eitthvað er að marka tilraunaveiði okkar á sunnudaginn, þá styður hún þessa kenningu. Af þeim 16 bleikjum sem við tókum upp úr vatninu voru aðeins tveir hængar. Stærsta var rétt innan við 25 sm. en flestar rétt undir 20 sm. Það var langþráður draumur að heimsækja Eskihlíðarvatn og við eigum eflaust eftir að heimsækja það aftur, þó ekki væri nema fyrir náttúrufegurðina þarna. Veðrið? Það var ekkert í líkingu við spánna, hreint út sagt frábært.

Við suðurenda Eskihlíðarvatns
Við suðurenda Eskihlíðarvatns

Eftir ferð okkar inn að Eskihlíðarvatni héldum við áfram í austur, inn að Frostavatni. Vatnið tók á móti okkur af stillingu, varla að það gáraði og við ákváðum að taka stöðuna á víkunum undir Suðurnámshrauni. Eftir að hafa gegnið úr skugga um að fyrstu tvær, þrjár víkurnar væru algjörlega lausar við fisk, lögðum við leið okkar að innstu vík. Eitthvað óvanalega rólegt var yfir öllu og eftir nokkrar tilraunir á hefðbundnum stöðum, varð ég aðeins var við einn fisk sem tók hressilega en losaði sig fljótlega af. Það lá í loftinu að við héldum leiðar okkar, svo dapurlegt var ástandið. Ég kíkti samt aðeins innar í víkina og þar lágu þær, blessaðar bleikjurnar í mestu makindum. Einhverjar þeirra voru komnar í stuðið, byrjaðar að pússa botninn, en flestar gerðu lítið annað en veiða sér eitt og eitt hornsíli, kroppa í bobba eða taka flugu eftir því sem þær klöktust. Þarna var þá kominn aðeins önnur kynslóð bleikju heldur en við fundum í fyrri ferðum okkar í sumar. Þessar voru öllu þroskaðri, stærri og feitari. Flestar á bilinu 1,5 til rúmlega 2 pund.

Frostastaðavatn 11.sept. 2106
Frostastaðavatn 11.sept. 2016

Þegar ég segi að þær lægju þarna í mestu makindum sínum, þá var það svo að við þurftum að hafa töluvert fyrir því að ná fiskinum upp úr sófanum og taka flugur okkar. Ég held að ég fari ekki með mikið fleipur þegar ég segi að allar gerðir, litir og stærðir af eggjandi og pirrandi flugum hafi verið reyndar. Sumar gáfu einn til tvo fiska, svo þurfti að skipta um taktík og reyna einhverja aðra flugu. Svona gekk þetta þar fullreynt var og við skildum þá eftir sem ekki varð haggað.  Þegar degi tók að halla, héldum við til baka inn úr hrauninu því við vildum helst ekki vera á einhverju brölti þar í svarta myrkri. Við ákváðum að stoppa örstutt í austustu vík hraunsins og reyna orange Nobbler þar í ljósaskiptunum. Og viti menn, þótt við sæjum ekki einn einasta fisk, pikkuðum við upp þó nokkrar þokkalegar bleikjur sem greinilega stóðust ekki UV hnýttan Nobbler. Veðrið? Ef þetta er haustveður, þá má vera haust allan ársins hring fyrir mér.

Eftir að hafa skotið veiðiskýrslunni í póstkassann við gatnamótin inn að Landmannahelli, héldum við heim á leið, meira en sátt við þessa haustlita óvissuferð að Fjallabaki. Miðað við allt klak flugunnar og tökuvilja bleikjunnar, er ekkert sem bendir til að veturinn sé á næsta leiti á þessum slóðum. Nú spáir hlýnandi í næstu viku og fyrirséð að suðrænar lægðir leggi leið sína upp að Íslandi þannig að það er greinilega nægur tími til stefnu fyrir þá sem ekki eru enn svo þreyttir eftir veiðisumarið að þeir hafi hug á að komast í góða vatnaveiði.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 33 / 22 249 / 259 / 0 36 / 43 20 22

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.