Þær eru orðnar ófáar ferðirnar sem við veiðifélagarnir höfum farið í Framvötnin síðla sumars og nú liggur enn ein í gagnabankanum. Það er víst ekki hægt að segja að við höfum brunað inn að Landmannahelli á föstudaginn, við lötruðum þetta öllu heldur þar sem Landmannaleið er heldur farin að láta á sjá eftir alla traffíkinna í sumar. Á endanum komumst við þetta heilu og höldnu með veiðihúsið í eftirdragi eins og venjulega, settum það upp og héldum inn að Herbjarnarfellsvatni. Hljómar kunnuglega, já. Svona hefur þetta stundum verið hjá okkur, skjótumst fyrsta kvöldið okkar í annað hvort Löðmundarvatn eða Herbjarnarfellsvatn. Í stuttu máli, þá gekk mér ekkert sérstaklega vel, frúin setti í tvo fallega og ég rétt marði að setja í einn áður en rökkrið skall á okkur.

Bómull á himni við Landmannahelli
Bómull á himni við Landmannahelli

Það var nú ekki annað hægt en segja að laugardagurinn rynni upp bjartur og fagur, hreint ekki eins og sumrinu sé farið að halla að Fjallabaki. Við ákváðum að renna inn að Frostastöðum og taka stöðuna á vatninu. Mér skilst að óþarfi sé að geta afla úr Frostastaðavatni, svo pottþétt hefur veiðin þar verið í sumar og laugardagurinn varð engin undantekning. Víkurnar í Suðurnámshrauni gáfu, gáfu og gáfu. Flugur dagsins; Peacock með orange skotti, Higa‘s SOS og Orange Nobbler. Það voru því nokkur kíló sem fóru í bakpokann sem ég spennti á mig í lok dags og rölti með út að bílastæði að austan. Við veiðifélagarnir vorum sammála um að bleikjan hefur heldur tekið sig á í mataræði í sumar, étið vel og dafnað eftir því. Minna af undirmálsfiski og aðeins örfáir slápar inn á milli. Heilt yfir, jafn stórir (miðlungs) fiskar og almennt betur haldnir en fyrr í sumar. Það má svo sem geta þess að nokkrar verulega fallegar og stærri bleikjur lentu í aðgerð eftir þennan dag, þær leynast þarna líka, þessar vænu.

Löðmundarvatn til suð-vesturs
Löðmundarvatn til suð-vesturs

Sunnudagurinn var ekki alveg eins sólríkur og laugardagurinn, fallegur samt og við gerðum okkur ferð inn að Löðmundarvatni til að kanna stöðuna á kóðinu þar. Það endaði reyndar með því að við veiðifélagarnir gengum hringinn í kringum vatnið og reyndum fyrir okkur á þó nokkrum stöðum. Þetta varð því enn eitt vatnið sem við höfum hringað í Framvötnum, alveg óvart. Það má með sanni segja að veiðistaðir við vatnið eru nokkrir, en afskaplega misjafnir. Þokkalegasti fiskurinn, í austanátt og dumbungi, var að norðan og norðaustan, en lélegasta veiðin var við vatnið að sunnan; ekki ein einasta branda kom þar á land. Heilt yfir tókum við eitthvað á fjórða tug fiska úr vatninu, þar af hæfir í harðfisk eitthvað um fjórðungur.
Eftir röltið kringum vatnið, stutt stopp og hádegisverð við Landmannahelli, héldum við inn að Herbjarnarfellsvatni og gerðum aðra tilraun við urriðann þar. Eitthvað virtist austanáttin hafa farið illa í þá félaga og þeir heldur sig afskaplega mikið til hlés þannig að við ákváðum að leita á náðir bleikjunnar í Frostastaðavatni, enn og aftur. Við komum okkur fyrir við Frostastaðahraun og smelltum í nokkrar bleikjur þar til kvöldi tók að halla og húmaði heldur snarlega. Það var þungt yfir og eiginlega komið svarta myrkur þegar við renndum í hlað við Landmannahelli, þreytt en afskaplega ánægð með göngu og veiði dagsins.

Aldrei þessu vant tókum við stangirnar ekkert fram heimferðadaginn, dunduðum okkur bara við að taka saman og gerðum stutta ferð enn lengri með því að kanna síðasta mögulega slóða að Eskihlíðarvatni, þ.e. þann sem áður lá að vatninu skammt frá Bjallavaði við Tungnaá. Sá góði slóði er ekki lengur til, löngu sandi fylltur og ekki fær neinum venjulegum 4×4 bílum. Þar með er það ljóst, það verður að leggjast í nokkra göngu til að kanna ástand Eskihlíðarvatns. Það bíður betri tíma.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 53 / 61 210 / 233 / 1 32 / 40 17 19

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.