Hún var kærkomin helgin eftir fyrstu viku í vinnu að loknu sumarfríi og stefnan því auðvitað tekin út af malbikinu. Stefnt var á Framvötn þar sem við veiðifélagarnir áttum stefnumót við Mosó-gengið sem við höfum áður átt margar góðar stundir með á bökkum ýmissa vatna.
Eitthvað brá okkur örlítið þegar að Landmannahelli var komið þar sem tjaldbúðir fyrir yfir 200 manns höfðu risið. En þröngt mega sáttir sitja og við gátum troðið okkur niður á bakka Helliskvíslar við hlið Mosó-gengisins. Við tókum okkur síðan til og ókum inn að Dómadal. Á leiðinni mættum við Mosó-genginu sjálfu, glaðbeittu og rennandi blautu eftir ágætan dag við Frostastaðavatn. Eins og okkur var tjá ‘hafði rignt eldi og brennisteini’ um daginn, eitthvað sem okkur hafði reyndar grunað þar sem vegurinn var einn risa-stór drullupollur. Eftir stutt spjall, héldum við síðan áfram leið okkar að Dómadalsvatni sem skartaði sínu fegursta í þokunni um kvöldið. Við urðum fljótlega vör við urriða að velta sér í einhverju óræðu æti í yfirborðinu og eftir nokkur köst setti ég í einn af höfðingjum vatnsins sem tók hressilega í orange Nobbler og gaf lítið eftir. Leikar fóru þó þannig að orange Nobble vann og 2 punda silfurgljáandi urrið lá í netinu. Skemmtileg byrjun á helginni.

Dulúð við Frostastaðavatn
Dulúð við Frostastaðavatn

Laugardagurinn rann upp með þokkalega stilltu veðri, dumbungi að vísu sem breyttist síðan í ausandi rigningu þegar leið á daginn. En eins og hitastigið var um helgina að Fjallabaki kom þessi rigning alls ekki að sök og allur hópurinn tölti inn með Frostastaðavatni og yfir Suðurnámshraunið í víkurnar þar og út á tangana. Frábær dagur með Mosó-genginu og allir fengu umbun göngutúrsins og rigningarinnar. Að vísu hefur bleikja lítið bætt á sig frá síðustu ferð og eiginlega ekkert stækkað en alltaf jafn gaman að eiga við hana. Þess má geta að Ármenn fjölmenntu við vatnið um helgina, ég taldi í það minnsta 8 og skemmtileg að hitta á svona marga félaga við vatnið.

Annars bárust okkur þær fréttir að vinur okkar Malli, húsbóndinn á Frostastöðum, hefði verið vegin á óðali sínu og lægi örendur í holu einni í hrauninu. Þegar betur var að gát, mátti sjá hvar sundurtætt hræ minnka höfðu verið skilin eftir við vatnið og þótti mér miður að banamaður eða eigandi þess hunds sem vann verkið, hafi ekki haft dug í sér til að fjarlægja hræin, heldur skilið þau svona eftir fyrir allra augum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að mörgum stendur stuggur af mink og telja hann réttdræpan hvar sem til hans næst, en á þessum stað, Friðlandi að fjallabaki, hélt ég að hann væri engum til ama og gerði ekki nokkrum manni eða búfénaði mein. Hér á síðunni verða því ekki fluttar fleiri fréttir af þessum ferfætta vini okkar við Frostastaðavatn, eftirleiðis verður þagað þunnu hljóði um frændur hans eða afkomendur sem hafa tekið við bústjórn að Frostastöðum og þiggja eitt og eitt smælki af veiðimönnum.

Herbjarnafellsvatn 2014
Herbjarnarfellsvatn 2014

Eftir að við hjónin höfðum tekið saman á sunnudaginn, lögðum við leið okkar að því vatni sem mér stendur trúlega næst hjarta af Framvötnum, Herbjarnarfellsvatni. Frá því ég kom fyrst að þessu vatni hefur mér alltaf þótt einkennilega vænt um það. Fiskurinn þarna er einstaklega fallegur, bjartur og skemmtilegt að eiga við. Það er því engin tilviljun að mynd veiðifélaga míns af mér við vatnið prýðir kápu bókar minnar, Vatnaveiði –árið um kring sem kom út í fyrra. Í þetta skiptið töltum við inn með ströndinni sem sést á myndinni, alveg inn að og inn fyrir lækinn sem rennur í vatnið að norð-austan. Lítið urðum við vör við fisk á þessari leið okkar, þannig að við snérum við og héldum að bílastæðinu, kaffibrúsinn heillaði. Ég ákvað að leggja ekki fleiri fet undir fót, heldur smellti orange Nobbler á taum og í því ég kastaði fyrst út á vatnið, tók einn stökkið rétt utan kastfæris. Eftir tvö köst til viðbótar var tekið hressilega í fluguna, hún keyrð niður á botn og látið reyna á bremsuna í hjólinu. Það tók mig nokkra stund að landa þeim bjarta, feitur og fallegur urriði, rétt undir tveimur pundum. Skömmu síðar var aftur tekið í Nobblerinn, fóstbróðir þess fyrri og í eins góðum holdum. Þriðji lét ekkert bíða eftir sér, tók með látum og vóg slétt tvö pund en dró línuna út af hjólinu eins og fimm pundari hefði gert í Veiðivötnum. Þetta uppáhalds vatn mitt kvaddi mig síðan með enn einum tæplega tveggja pundara rétt áður en veðurguðirnir smelltu hressilegum skúr á mig í kveðjuskyni. Frábær endir á enn einni helgi í Framvötnum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 28 / 27 138 157 / 5 23 / 37 13 15

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.