Bakgrunnur

Góð ljósmynd getur laðað fram tilfinningar, aðdáun og áhuga. Að sama skapi getur léleg mynd, virkað fráhrindandi og orðið til þess að gott myndefni veki enga athygli. Það leynir sér ekkert þegar myndabankarnir mínir eru skoðaðir, t.d. á Instagram, að ég hef helst áhuga á myndefni þar sem veiðiflugur eða landslag er viðfangsefnið. Þegar kemur að því að taka myndir af veiðiflugum, þá finnst mér skipta miklu máli að velja viðeigandi bakgrunn til að laða fram hughrif.

Ef ég sækist eftir ljósmynd sem á að sýna fluguna nákvæmlega eins og hún er, þá reyni ég að hafa bakgrunn myndarinnar sem hlutlausastan. Hvítur bakgrunnur er alltaf í ákveðnu uppáhaldi hjá mér, en stundum er erfitt að ná hvítu hvítt og því getur verið ráð að hafa hann ljósbláan eða grænan. Umfram allt reyni ég að hafa bakgrunninn ekki of ögrandi, hann má ekki draga athyglina frá flugunni.

fos_peacock_big

Ef ég er aftur á móti að setja upp stemmningsmynd af flugu, eitthvað sem á að laða áhorfandann að, þá nota ég stundum kork, blaðsíðu úr bók eða einfaldlega svamp sem ég get stungið flugunni í. Umfram allt reyni ég að hafa bakgrunninn einsleitan og ekki troðfullan af litum.

fos_higas_svort_raud

Illa misheppnuð mynd af annars ágætri flugu hefur neikvæð áhrif á áhorfandann og er ekki til þess fallinn að fá mörg like á myndasíðum. Dæmi um slíka mynd er hér að neðan, þar sem ég fór greinilega hamförum í bakgrunninum og flugan geldur verulega fyrir það auk þess sem skott flugunnar fellur óþarflega mikið inn í bakgrunninn. Þarna hefði mér verið nær að velja hlutlausari bakgrunn, kápan á þessari uppáhalds veiðibók minni er allt of ögrandi, ber fluguna eiginlega ofurliði.

fos_blackzulu_feb_big

Þetta eru mögulega einhverjir punktar sem vert er að hafa í huga þegar ég tek myndir af flugunum sem ég ætla að setja inn á Febrúarflugur í næsta mánuði.

Febrúarflugur 2017

Nú ætlar FOS.IS að standa fyrir hnýtingarviðburðinum Febrúarflugur þriðja árið í röð. Skráning er hafin á Facebook og stofnað hefur verið afdrep fyrir 2017, 2016 og 2015 hér á síðunni þar sem gefur m.a. að líta allar þær flugur sem lagðar hafa verið til viðburðarins síðustu tvö ár.

Allar nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér og auðvitað á viðburðinum sjálfum á Facebook. Áhugasamir veiðimenn og hnýtarar eru hvattir til að deila þessum viðburði eins og kostur er, þetta árið er markmiðið að fjölga þátttakendum og flugum. Í fyrra náðum við 390 flugum frá 40 hnýturum, þannig að það er stefnt á glæsilegan viðburð þetta árið.

fos_feb2017

Getur einhver átt flugu?

Við erum eflaust margir sem fylgjumst með veiðifréttum hinu megin af hnettinum, t.d. Nýja Sjálandi. Um daginn hnaut ég um skemmtilega samantekt á mögnuðum flugum í vorveiðina, vorið var einmitt að ganga í garð hjá þeim þarna hinu megin um daginn. Ein flugan þar snart mig sérstaklega, ekki vegna þess að hún kæmi mér á óvart, öðru nær.

Flugunni var lýst nokkurn veginn þannig að hún væri oftast hnýtt í stærð 10 til 18, alltaf með kúluhaus þannig að hún væri meira áberandi í vatninu og ætti auðveldara með að komast til botns, sérstaklega ef hnýtt með tungsten kúlu. Skoppandi eftir botninum, líkti hún m.a. eftir vorflugulirfu og væri ómótstæðileg í augum urriðans. Í greininni var heimavöllur flugunnar sagður Nýja Sjáland þar sem urriðinn væri almennt talinn með fælnustu fiskum sem fyndust í lífríkinu.

Það laumaðist örlítið glott á mig þegar nafngreindum höfundi flugunnar var hrósað fyrir einfaldleik hennar og bráðdrepandi áhrifum á urriðann. Sem sagt, þarna hinu megin á hnettinum gengur þessi nýja fluga undir nafninu Hare and Copper og lítur svona út:

fos_hareandcopper

Ef hún kemur einhverjum kunnuglega fyrir sjónir, þá er það trúlega vegna þess að hér heima gengur þessi fluga undir heitinu Hérinn og er hreint ekki ný af nálinni. Á prent komst þessi fluga fyrst árið 2009 í bókinni Silungaflugur í náttúru Íslands þar sem Jón Aðalsteinn Þorgeirsson segir hana alltaf veiða.

fos_herinn_big

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að þetta afbrigði af Héraeyra væri einhver heimatilbúningur okkar á norðurhjara, en vitaskuld þarf það ekki svo að vera. En eitt er víst, þetta er hreint ekki ný fluga af nálinni og tæplega hægt að eigna hana einhverjum einum hnýtara. Þessari flugu, rétt eins og svo mörgum öðrum, hefur skotið niður í kollinn á einhverjum góðum manni og það sem getur skotist í kollinn hjá einum, getur alveg eins skotist í koll annars án þess að nokkur tenging sé þar á milli.

Stundum velti ég því fyrir mér hve margir hnýtarar hafi dundað við nýja, stórkostlega flugu sem raðar inn fiskum en síðar komist að því að einhver Jón eða John hefur þegar útfært sömu fluguna og jafnvel fengið einkaleyfi á henni. Hversu súrt ætli það sé?

Á döfinni

Þeir eru væntanlega ekki margir staðirnir á landinu þar sem haustið er ekki farið að setja mark sitt á náttúruna. Næturfrost á veðurkortunum, snjóföl í fjöllum og morgnarnir hefjast orðið á því að bregða þarf kreditkortinu á framrúðu bílsins. Hann er genginn í garð, tíminn þegar ég sest niður, rifja upp atvik frá liðnu sumri og set í greinar nokkrar hugleiðingar út frá efninu.

fos_thingvellir_kirkja

Nú þegar hafa á fjórða tug greina af ýmsum toga komist á blað og flestum þegar raðað niður til birtingar á vefnum. Þegar 39 dögum hefur verið eytt í veiði á sumrinu, er ekki nema von að fyrstu vikur vetrar fari svolítið í að gera sumarið upp, lesa í aukna innistæðu í reynslubankanum og reyna að læra eitthvað af mistökum sumarsins.

Væntanlega verða einhverjar nýjar og gamlar flugur kynntar til leiks þegar nýtt ár gengur í garð og þannig kemur eitthvað til með að bætast við þær tæplega 80 uppskriftir og upplýsingar sem þegar má finna á síðunni. Ég er þegar með nokkrar áhugaverðar í sigtinu og þær verða reyndar í hnýtingarþvingunni á næstu vikum. Ef þær verða fiskum bjóðandi fara þær í myndatöku og gerðar klárar fyrir vefinn.

FOS.IS mun á nýju ári standa eitt skiptið enn fyrir hnýtingarviðburði á Facebook undir nafninu Febrúarflugur. Eins og áður er öllum heimil þátttaka með því að skrá sig til leiks og setja inn myndir af því sem kemur úr hnýtingarþvingunni þann mánuðinn. Engar kvaðir eru á þátttakendum, þeir haga sínum innleggjum eins og hverjum hentar. Væntanlega verður viðburðurinn með svipuðu sniði og áður, en áhugasamir geta þegar skráð sig til leiks með því að smella hérna. Nánar verður fjallað um fyrirkomulag þegar nær dregur.

Undanfarin ár hafa rétt um 1200 greinar safnast á vefinn og fylgjendum hans fjölgað jafnt og þétt. Það er ekki sjálfgefið að allt það efni sem hér birtist verði áreynslulaust til úr eigin ranni og því er nú einfaldlega þannig farið að fæstir lesendur vefsins hafa mjög hátt um það hvaða efni þeir vilja sjá hér á síðunni. Ef lesendur hafa hug á senda mér ábendingar eða óskir um sérstakt efni, þá er það velkomið og þeim bent á senda mér tölvupóst á kristjan(hjá)fos.is eða nýta sér skilaboðaform sem nálgast má hér á síðunni.

Afmæliskveðja

Þegar svo bregður við að flugur eiga 20 ára stórafmæli er ekki úr vegi að rifja upp sögu þeirra. Ekki síst þegar um er að ræða einfalda, skæða og vinsæla flugu sem vel flestir veiðimenn þekkja. Afmælisbarnið heitir BAB en margir þekkja hana sem Kibba eða jafnvel Orminn Kibba. Það var Ásgeir Halldórsson í Sportvörugerðinni sem smellti þessu upprunalega nafni á fluguna eftir að höfundur hennar hafði unnið Íslandsmótið í silungsveiði árið 2000. Mótið sótti Björgvin A. Björgvinsson með þessa óþekktu 4. ára flugu í farteskinu og bæði hann og flugan uppskáru verðskuldaða athygli og aðdáun á mótinu.

BAB eins og hún kom mönnum fyrst fyrir sjónir – Ljósm. Björgvin Björgvinsson

Einhverra hluta vegna vildi upprunalega nafn flugunnar ekki festast við hana, nema þá helst hjá kunningjum Björgvins og sérlegum vinum flugunnar sem gáfu henni gæluheitið Babbinn og undir því heiti hefur hún verið skráð fyrir óteljandi fiskum í veiðibókum við Laxá í Mývatnssveit, Brúará og víðar.
Aðspurður tjáði Björgvin mér að flugan ætti uppruna sinn að rekja til ársins 1996 þegar hann setti fyrstu útgáfu hennar saman og prófaði þá um sumarið. Ungdómsárum sínum eyddi flugan síðan í nokkrum útfærslum í boxi Björgvins, prófuð reglulega, betrumbætt, prófuð enn og aftur og þannig koll af kolli þar til Björgvin var orðinn ánægður með útlitið og ekki síst lögun flugunnar og hegðun í vatn. Eins og áður segir, kom hún fyrst opinberlega fram á sjónarsviðið þegar Björgvin hafði landað Íslandsmeistaratitlinum árið 2000. Svo dult fór Björgin með fluguna að ekki einu sinni mótshaldarar sá til hennar fyrr en í lok keppninnar.

BAB úr mínum væs
BAB úr mínum væs

Eins og sést á meðfylgjandi myndum er flugan einstaklega nett og tiltölulega létt þótt hún sé með kúluhaus. Björgvin notar fínt vínylrip í fluguna og hefur hnýtt hana smæsta á krók #16. Til að koma flugunni niður í straumvatni hefur hann gjarnan notað hana sem afleggjara með mun þyngri flugum. Sjálfur hef ég laumast til að hnýta hana nokkuð þyngri, jafnvel úr sverari vínyl og notað hana á mun styttri taum heldur en Björgvin gerir. Þetta eitt segir okkur að flugan er einstaklega veiðin, hvernig svo sem menn beita henni. Kannski fellst styrkur hennar einmitt í einfaldleikanum og því hversu alhliða hún hefur reynst mönnum.

Það má með sanni segja að þetta afmælisbarn eldist einstaklega vel og það er vart til það flugubox sem ekki inniheldur einhverja útgáfu hennar; fínt vínyl, svert vínyl, grubber eða beinn, það virðist vera alveg saman hvernig menn hnýta hana, hún einfaldlega gefur. Takk, Björgvin A. Björgvinsson (BAB) fyrir þessa frábæru flugu.

Orvis – Plate V

Orvis – Plate V úr Favorite flies and their histories sem er aðgengileg án endurgjalds hérna.

OrvisTroutFliesX
219. Silver Sedge – 220. Indian Yellow – 221. Hammond‘s Adopted – 222. Harlequin – 223 Saltoun – 224. Flight‘s Fancy – 225. Golden Ribbed Hare‘s Ear – 226. Grannom – 227. Little Marrayat – 228. Autumn Dun – 229. Wickham‘s Fancy – 230. Red Quill – 231. Green Drake – 232. Deer Fly – 233. Yellow Drake

Orvis – Plate U

Orvis – Plate U úr Favorite flies and their histories sem er aðgengileg án endurgjalds hérna.

204. Stebbins – 205. Scarlet Ibis – 206. Shain Fly – 207. Silver Horns – 208. Sunset – 209. Shad Fly – 210. Wilson‘s Ant – 211. Wasp – 212. Wodow – 213. Yellow Drake – 214. White Miller – 215. Whimbrel – 216. Soldier Gnat – 217. Yellow May – 218. Welshman‘s Button
204. Stebbins – 205. Scarlet Ibis – 206. Shain Fly – 207. Silver Horns – 208. Sunset – 209. Shad Fly – 210. Wilson‘s Ant – 211. Wasp – 212. Wodow – 213. Yellow Drake – 214. White Miller – 215. Whimbrel – 216. Soldier Gnat – 217. Yellow May – 218. Welshman‘s Button

Orvis – Plate S

Orvis – Plate S úr Favorite flies and their histories sem er aðgengileg án endurgjalds hérna.

174. March Brown – 175. Lady of the Lake – 176. Maurice – 177. Morrison – 178. Morston‘s Fancy – 179. Montreal, old pattern – 180. Neversink – 181. Oak Fly – 182. Olive Gnat – 183. Orange Dun – 184. Orange Black – 185. Pale Evening Dun – 186. Prime Gnat – 187. Portland – 188. Peacock Fly
174. March Brown – 175. Lady of the Lake – 176. Maurice – 177. Morrison – 178. Morston‘s Fancy – 179. Montreal, old pattern – 180. Neversink – 181. Oak Fly – 182. Olive Gnat – 183. Orange Dun – 184. Orange Black – 185. Pale Evening Dun – 186. Prime Gnat – 187. Portland – 188. Peacock Fly