Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Fluga sem FOS.IS hefur lengi haft í bígerð að birta hér, en alltaf veigrað sér við því vegna óvandaðrar hnýtingar, hér með mynd að láni.

Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Fluga sem FOS.IS hefur lengi haft í bígerð að birta hér, en alltaf veigrað sér við því vegna óvandaðrar hnýtingar, hér með mynd að láni.
Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Einhver kallaði hana Red Tag á síðbuxum, aðrir sverja að þetta sé fluga með sjálfstætt líf, sköpuð úr því sem hendi var næst.
Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Vegna eins efnis, kannski tveggja þá fer ekkert á milli mála hver formóðir þessarar flugu er.
Febrúarflugur fara heldur betur laglega af stað þetta árið, langt yfir 100 flugur litu dagsins ljós fyrstu þrjá dagana og meðlimum hópsins á Facebook fjölgar á degi hverjum.
Eins og nærri má geta er FOS.IS í skýjunum með þessar undirtektir hnýtara. Styrktaraðilar hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja, nú sem endranær, og stöndum við í mikilli þakkarskuld við þá. Það er ljóst að FOS.IS getur veitt nokkrum heppnum hnýturum afar veglegar viðurkenningar fyrir þátttökuna í lok mánaðar og það fer ekki framhjá neinum að veglegir afslættir bjóðast hnýturum víða þennan mánuðinn og því um að gera að fylla á hnýtingarefnið eða tryggja sér nýtt og spennandi efni til að prófa í febrúar.
FOS.IS ítrekar boð sig til hnýtingarklúbba og veiðifélaga að skjóta á okkur upplýsingum um samkomur og hnýtingarkvöld sem FOS.IS getur komið á framfæri við meðlimi Febrúarflugna sem nú telja tæplega 1.300 einstaklinga.
Nú eru Febrúarflugur 2023 rétt handan við hornið og það sem heitið gæti formleg dagskrá liggur fyrir og síðustu styrktaraðilar átaksins hafa verið að tilkynna stuðning sinn síðustu daga.
Eins og undanfarin ár verður heimavöllur Febrúarflugna á Facebook þar sem áhugasamir geta fylgst með þeim flugum sem hnýtarar eru að dunda við í mánuðinum. Þeir sem ekki eru á Facebook geta annað hvort póstað myndum á Instragram og merkt þær með #februarflugur eða sent FOS.IS tölvupóst með myndum og við sjáum um að pósta þeim á Facebook í nafni sendanda.
Þetta árið mun FOS.IS standa fyrir viðburði föstudagskvöldið 17. febrúar kl. 20:00 og hefur Stangaveiðifélagið Ármenn léð félagsheimili sitt að Hverafold 1-5 til afnota þetta kvöld.
Við undirbúning kvöldsins vaknaði sú hugmynd að leyfa fylgjendum Febrúarflugna og hnýturum sjálfum að fylla dagskrá kvöldsins. Eins skemmtilegt og það er að fylgjast með nýjum flugum á netinu, þá er líka áhugavert að sjá hnýtingar í raunheimum og jafnvel nýta tækifærið til að spyrja út í aðferð og efnisval í flugu. Því langar FOS.IS að biðja alla sem sjá áhugaverða flugu í Febrúarflugum og vilja fræðasta meira um hana að setja komment undir innsenda mynd með #langaraðsjá og FOS.IS mun kanna hvort viðkomandi hnýtari sjái sér fært að mæta þann 17. og hnýta eins og eina slíka og mögulega svara fyrirspurnum gesta. Vitaskuld eru allir hvattir til að mæta með hnýtingargræjur, hnýta nokkrar flugur og eiga létta og skemmtilega stund með öðru áhugafólki um flugur og fluguhnýtingar.
Eins og undanfarin ár höfum við haft nokkurn pata af Febrúarflugukvöldum hingað og þangað á vegum stangaveiðifélaga og hnýtingarklúbba í febrúar. Þeim sem vilja koma slíkum kvöldum á framfæri við meðlimi Febrúarflugna og á FOS.IS er velkomið að senda okkur skilaboð á heimasíðu okkar eða á Facebook og við munum koma viðburðinum á framfæri.
Fleira var það ekki að sinni, góða skemmtun kl.00:01 þann 1. febrúar þegar fyrstu flugurnar detta inn á Febrúarflugur 2023.
Þetta er spurning sem ég hef fengið í nokkur skipti, sérstaklega eftir að einhver hefur fengið að gægjast í fluguboxin mín. Tvímælalaust getur það verið ódýrara að hnýta sínar flugur sjálfur. Hérna er lykilorðið getur því þegar allt er talið og áhuginn á fluguhnýtingum kominn á fullt, þá er örugglega ódýrara að kaupa flugurnar sínar úti í næstu búð eða taka sjensinn og panta þær á netinu frá einhverju fjarlægu heimshorni.
Flestir byrja sínar fluguhnýtingar til að spara aurinn og það er alveg hægt ef þú notar tiltölulega fáar tegundir flugna sem kalla ekki á mikið úrval hnýtingarefnis. Ég þekki marga slíka veiðimenn og þeir hafa masterað fáar og pottþéttar flugur sem þeir hnýta og nýta. Ef þá langar að prófa einhverja nýja flugu, þá kaupa þeir nokkur eintök og sjá svo til hvor þeir bæti því hnýtingarefni við í safnið ef það er þá ekki þegar til.
En hjá þeim sem hnýtingarnar eru komnar út í hreint og beint áhugamál og afþreyingu, þá getur kostnaðurinn á hverja flugu orðið verulegur, ef kaupa þarf sérstakt efni í hverja eina og einustu sem mönnum dettur í hug að prófa. Þegar allt kemur þó til alls, þá stendur það eftir að áhugamálið fluguhnýtingar er langt því frá að vera dýrt áhugamál, því með tímanum eignast menn efni í nær allar flugur sem hugsast getur. Verst er þetta framboð af nýju hnýtingarefni sem er alltaf hreint að koma fram.
Sem áhugamál eru fluguhnýtingar náttúrulega bara hrein og bein skemmtun sem nær langt út fyrir hnýtingarþvinguna, fljótlega eru hnýtarar orðnir meðlimir í hinum og þessum hópum á samfélagsmiðlum, lagstir í Pinterest vafr í tíma og ótíma og þar fram eftir götunum. Það er náttúrulega þekkt að forfallnir veiðimenn eyði töluverðum tíma utan hefðbundins veiðitíma í að hnýta flugur, æsa þannig sjálfa sig upp í eftirvæntingu og margir hverjir standa upp frá hnýtingum að vori með fullt, fullt af flugum sem á að prófa yfir sumarið. Þessi frómu áform eiga ekkert endilega eitthvað sammerkt með efndum, því margar þessara flugna týnast í glatkistu fluguboxanna og eru aldrei prófaðar.
Hnýtarar geta þó í það minnsta huggað sig við einn stærsta ávinning eigin hnýtinga, þeir eiga flugu sem er nákvæmlega eins og þá langaði í, svona yfirleitt.