FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Langavatn – 8. til 10. ágúst 2023

    10. ágúst 2023
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Einn af kostum Langavatns á Mýrum er að þar er ekkert farsímasamband og þess tókst mér að njóta í tætlur frá síðdegi þriðjudags og fram á síðdegi fimmtudags. Í annarri viku ágúst má alveg búast við því að laxarnir í Langá (og Gljúfurá) hafi drukkið megnið af Langavatni og þeir eru langt komnir með vatnið eins og það stendur núna eins og það svona rétt rúmlega lekur úr vatninu undir stífluna sem er alveg opin. Ég man ekki eftir því að geta kíkt undir stífluna áður og séð niður í Langá.

    Lítið eftir sem runnið getur niður í Langá

    Miðað við að vindi var spáð úr ýmsum áttum, þá skipti í raun engu máli hvar ég setti vagninn niður og ég ákvað því að fara inn fyrir Barónsklett og setja vagninn niður í fjöruna undir Múlabrekkum. Það kitlaði vitaskuld að sjá fisk í uppitökum rétt við bakkann og það var því með óðagoti sem ég gerði allt klárt og kom mér í vöðlurnar til að njóta kvöldsins.

    Horft til Langavatnsmúla frá bækistöðvunum

    Það er víst einfaldlega best að drífa það strax af að segja frá aflabrögðum. Það er nóg af bleikju í vatninu, greinilega. En, hún er frekar smávaxin en þó í góðum holdum. Af þeim tæplega 30 bleikjum sem ég tók víðsvegar í vatninu var aðeins þremur sem féll sá heiður í skaut að fá far með mér suður til Reykjavíkur. 90% bleikjunnar var af þeirri stærð sem myndin hér að neðan gefur til kynna.

    90% bleikjunnar var í þessari stærð

    Eftir að hafa hellt uppá morgunkaffið á miðvikudaginn, setið góða stund við vagninn og glápt á hlíð Langavatnsmúla, þá lagði ég sannanlega land undir fót og gekk fyrir og yfir Staðatunguhraun frá Beilárvöllum og inn að útfallinu. Þar sem ég komst fyrir hraunið renndi ég fyrir fisk og það má segja að það hafi verið líf meira eða minna á öllum stöðum sem ég prófaði, allt bleikja sem var heldur í smærri kantinum. Þar sem þessi vegalengd er rétt um 3.5 km á korti, aðra leiðina, þá ákvað ég að sleppa öllum fiski í þessum 5 klst. göngutúr mínum því sökum hita (17°C) hefði fiskurinn einfaldlega skemmst á þessu ferðalagi mínu hefði ég tekið hann með mér.

    Horft til Langavatnsmúla, Barónskletts, Torfhvalastaða og Beilárvalla af Staðartunguhrauni

    Það verður að viðurkennast að það seig á mig værð eftir göngutúrinn og staðgóðan hádegiverð, en ég hristi letina af mér og ákvað að fara alveg inn að botni Langavatns. Nei, ég fór ekki fótgangandi, ég fór bílandi.

    Nú kemur smá útúrdúr frá veiðisögunni, að gefnu tilefni. Samkvæmt ábendingum frá kunningjum mínum og lesendum vefsins, þá hef ég gert mig sekan um að segja hina eða þessa slóða alveg ágæta og færa flestum bílum, ferðatíminn sé ekki nema X mínútur, vegurinn sé alveg ágætur og allt þar fram eftir götunum. Allt það sem ég segi um færð og ferðatíma er miðað við þann fararskjóta sem ég nota (Discovery Sport) og það fellihýsi (létt Coleman 8 feta) sem ég neyði með mér í veiðiferðir. Ég þekki ágætlega bílinn minn, veit veghæð hans, hvað hann er breiður og hve langt er á milli hjóla og hvaða drif- og fjöðrunareiginleikum hann er búinn. Með þetta í farteskinu fer ég e.t.v. hraðar yfir, veð dýpra, tekst að tipla á grjótum, þvera börð og skurði sem væru mögulega farartálmi öðrum. Ef þú treystir þér ekki eitthvað á bílnum þínum, þó ég hafi sagt leiðina þokkalega, slepptu því að fara hana. Það gerði ökumaður Land Cruiser á stærri dekkjum sem hætti við að fara inn að botni og snéri við á móts við vagninn minn þegar fyrsta klettabarðið blasti við á slóðanum. Trúlega hefði hann lent í vandræðum vegna breiddar bílsins á nokkrum stöðum sem mér tókst að smokra mér á milli á mínum slyddujeppa.

    Baksvipur í blíðunni

    Aftur að miðvikudeginum. Ég fór sem sagt alveg inn að botni og veiddi mig í áföngum til baka að vagninum. Staðir sem áður hafa gefið vænni bleikjur voru undir sömu stærðir fiska settir, með stöku undantekningum, en almennt var mikið af fiski þá 2 km sem ég veiddi.

    Miðvikudagskvöldið var í rólegri kantinum hjá mér og ég hélt til í vagninum. Kvöldið var fallegt frá vagninum séð, sólsetur á bak við Langavatnsmúlann varpaði roða á himininn sem tókst að gæjast upp fyrir fjallsbrúnir. Ég er ekki frá því að göngutúrar dagsins hafi eitthvað dregið úr mér orkuna og ég lagðist því snemma til hvílu.

    Sólsetur handan við fjöllin

    Fimmtudeginum tókst að safna nokkrum vindi í sarpinn sem hann leysti úr læðing fram eftir degi. Ég fór því skemmri göngutúra frá vagninum, gerði tilraunir til að ná einhverjum urriða í öldunni og grugginu sem safnaðist saman við ströndina, án árangurs. Þegar mér þótti fullreynt að urriðinn væri ekki til viðtals, tók ég saman og hélt til byggða. Næsta verkefni; skoða veðurspánna og athuga hvert ég fer næst.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn 27. júní 2021

    28. júní 2021
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það var smá glufa í dagskrá helgarinnar sem við veiðifélagarnir nýttum til að merkja við Langavatn á Mýrum. Þegar við skruppum upp á Langavatni á laugardag, skartaði vatnið sýni fegursta í gjólunni og það kveikti heldur betur í okkur. Illu heilli var ekki alveg nákvæmlega það sama upp á teningnum á sunnudaginn þegar við mættum á staðinn með allar græjur og heitt á brúsa.

    Þokan átti eiginlega allt sviðið þegar við mættum upp úr hádeginu og þannig hélst það þá klukkutíma sem við stöldruðum við. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, er töluvert hátt í Landavatni um þessar mundir, raunar með því hærra sem við höfum séð síðustu árin, en trúlega á það eftir að breytast þegar laxarnir í Langá og Gljúfurá verða þyrstir þegar líður á sumarið.

    Við beinlínis sundriðum vélfáki okkar yfir Barónsvík og ókum eins langt undir Múlabrekkur og vatnsborðið leyfði, sem var ekki langt. Það gáraði nokkuð á köldu vatninu og enn og aftur féll maður í þá freistni að halda að urriðinn kæmi upp að bakkanum. Það varð nú ekki svo, því eini fiskurinn sem kom á land þar var bleikja sem lét glepjast af flugu sem betur er þekkt sem ein af Veiðivatnaflugunum. Og slíkt var offors þessarar bleikju að hún varð ekki losuð af önglinum öðruvísi en hennar beið bráður bani, að öðrum kosti hefði henni trúlega verið sleppt.

    Við ströggluðumst þarna þó nokkuð lengi, en urðum ekki vör enda var vatnið frekar kalt ennþá og almennt var ekki mikið líf að sjá, skordýr og gróður enn einhverjum vikum á eftir áætlun. Ekki bætti þokan úr skák og á einhverjum tímapunkti, trúlega þegar veiðifélaga mínum varð litið á bleikjuna sem lét lífið með vofeiginlegum hætti, varð til málshátturinn Sjaldan vakir dauður fiskur.

    Þegar okkur þótti fullreynt, færðum við okkur í átt að Beilárvöllum þar sem ég setti í eina bleikju á sígildan Peacock sem var sleppt, þ.e. bleikjunni og þar með er öll sagan sögð af veiðiferð okkar í Langavatn að þessu sinni. Eitt að lokum, vegurinn upp að Langavatni frá Svignaskarði er sérstaklega góður, fær öllum bílum inn að Torfhvalastöðum, bara þannig að það sé sagt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn 22. ágúst 2020

    24. ágúst 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum, það er helst í fréttum eftir þessa helgi. Á föstudaginn var nokkuð ljóst að veðurspá helginnar mundi ganga eftir, sól og blíða á suðvestan- og vestanverðu landinu, þannig að við hjónin ákváðum í skyndi að smella okkur í Langavatn á Mýrum.

    Staðarhnúkur og Staðartunguhraun – Smellið fyrir stærri mynd

    Eitthvað hefur vatnaborðið lagast frá því það var lægst fyrir einhverjum vikum síðan, nánast í venjulegri stöðu núna og mér liggur við að segja því miður. Við höfðum hug á að reyna fyrir okkur á ákveðnum veiðistaði sem ekki er aðgengilegur við venjulegt vatnsborð, þannig að við könnuðum aðra veiðistaðir á laugardaginn. Þó við séum á óbreyttum borgarjeppa, þá var okkur vel fært alveg inn að síðustu brekkunni inni við botn. Eflaust hefðum við með lagni getað komist þar upp en þar sem við getum enn notast við tvo jafnfljóta, þá sáum við enga ástæðu til þess. Þess í stað þræddum við helstu veiðistaði sem ekki voru fráteknir, allt frá innsta kletti og inn undir Beilárvelli.

    Kvöldstillan á laugard.kvöldið – rönd af mána

    Það verður að segjast að ekki var mikið líf á vatninu, lítið um flugu og uppitökur því fáar sjáanlegar. Veðrið var með eindæmum fallegt; hlýtt, sólríkt og stillt. Þó við hefðum ekki fengið eitt einasta nart þann tíma sem við böðuðum flugur á laugardaginn, þá var þetta kærkomin hvíld og góð slökun yfir helgina.

    Veiðistangir fengu einnig hvíld í þessari ferð því berjaspretta er með besta móti á svæðinu og erfitt að standast gnótt af þroskuðum aðalbláberjum. Afraksturinn var vel yfir meðallagi og í bónus fékk ég nokkra berjablettir á vöðlurnar sem væntanlega eru komnir til að vera.

    Bleikjur í ferð
    0 / 0
    Bleikjur alls
    3 / 33
    Urriðar í ferð
    0 / 0
    Urriðar alls
    81 / 45
    Veiðiferðir
    21 / 22

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn – 16. ágúst 2019

    18. ágúst 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Landshornaflakk gæti verið lýsingin á síðasta ferðalagi okkar veiðifélaganna. Eftir náttúruskoðun okkar á Ströndum lá leið okkar inn með Hrútafirði um Kollafjörð og Bitrufjörð og það er óhætt að segja að við höfum haft vindinn í bakið á þessari leið okkar. Eftir stutt stopp og áfyllingu á bíl og kaffibolla ákváðum við að kíkja á stöðuna á Hópinu ef svo ólíklega vildi til að lognið væri ekki alveg eins hraðfleygt þar eins og við Staðarskála. Í Víðigerði gaf að líta hvítfyssandi öldur vatnanna austan Vatnsness; Sigríðarstaðavatns, Vesturhópsvatns og Hópsins. Meira þurftum við ekki að sjá og snérum til baka og dóluðum okkur undan vindi niður í Norðurárdal, tókum snarpa hægri beygju við Svignaskarð og héldum sem leið lá upp að Langavatni.

    Eins og vatnsbúskap áa hefur verið háttað í sumar áttum við von á að vatnsborð Langavatns væri í lágmarki vegna miðlunar niður í Langá og Gljúfurá. Það stóð á endum því ég held að við höfum aldrei sé vatnið eins lítið og ræfilslegt og á föstudaginn. Beilárvellir, þ.e. grasbakkarnir eru nánast upp í miðju landi og það mátti ekki miklu muna að vaðfært væri úr í Hólmana, sem hefði verið nógu skemmtilegt því þeir voru allir samtengdir og vel fært á milli þeirra.

    Beilárvellir og Staðarhnjúkur

    Við létum okkur hafa það að fara niður stutta og grýtta brekkuna frá veginum og niður að rústum gangnamannakofans á tanganum norðvestan Beilárvalla. Tanginn stóð nú aftur undir nafni, var ekki lengur eyja og mér sýnist að vatnsborðið sé sem næst því að vera eins og það var fyrir stífluna við útfallið, sjá mynd með grein Tómasar Einarssonar í Lesbók Morgunblaðsins frá 1999.

    Rústir gagnamannakofans og tanginn

    Eftir að hafa komið okkur fyrir í því lita skjóli sem var að finna fyrir stífri norðanáttinni, fórum við inn fyrir Torfhvalastaði og tókum stöðuna á vatninu til norðurs. Ef hinar Húnversku öldur hafi verið fráhrindandi fyrr um daginn, þá voru þær Borgfirsku ekkert síðri. Vatnið var eitt öldurót endanna á milli, en eitthvað blundaði í mér minning af svipuðum aðstæðum og stórum urriða að eltast við síli frá því fyrir nokkrum árum síðan, sjá hér. Þegar við vorum komin til baka í vagninn, klæddi ég mig því og tölti niður að vatninu. Það var svo sem skaplegt að veiða fyrstu 100 – 200 metrana, en um leið og ég var kominn inn undir Beilárvelli var aldan allsráðandi og þrátt fyrir, ég leyfi mér að segja hetjulegar tilraunir til að koma flugum út í vatnið, þá gafst ég upp þegar ég var svo gott sem kominn inn undir Staðarhnjúk. Draumurinn um stóran urriða reyndist ekki sterkari en vindurinn.

    Þessi vakti yfir okkur um nóttina

    Eftir að við höfðum sofið af okkur mesta rokið um nóttina, gerðum við heiðarlega tilraun til þess að veiða fram af tanganum, inni í Barónsvík og út af Barónskletti til vesturs. Það hafði eitthvað aðeins slaknað á vindinum, en kannski ekki alveg nóg til þess að fiskjar væri von eftir vindasama og kalda nóttina þannig að við vorum búinn að taka okkur saman um hádegisbil og drógum fellihýsið með öndina í hálsinum upp bölv…. brekkuna úr fjörunni. Brekkan hefur alltaf verið stutt og kröpp, en í þetta skiptið vorum við bara alls ekki viss um að ná því að draga vagninn upp, svo  mikið hefur sorfist úr henni. Upp fóru nú samt bíll og vagn án vandræða og við héldum sem leið lá heim á leið, vindbarinn og búinn að fá nóg af 8 – 12 m/sek. síðustu daga.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    0 / 0 55 / 71 0 / 0 15 / 36 20 / 21

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn, 15. sept.

    16. september 2018
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Fyrst við vorum í Borgarfirðinum í gær og ekki með neitt sérstakt fyrir stafni, þá lá auðvitað beinast við að kíkja í eitthvert vatnanna á svæðinu og fyrir valinu varð Langavatn. Það er ekki oft sem ég viðurkenni að ég keyri aðeins með annað augað á veginum, en í þetta skiptið var það nú svo að ég stóð mig ansi oft að því að gjóa á hitamælinn í bílnum. Hitastigið rokkaði reglulega um eina til tvær gráður á leiðinni, en fór aldrei neðan er svo að fiskur ætti að vera á stjái.

    Vert er að geta þess að vegurinn upp frá Gljúfurá var hreint og beint frábær, nýlega búið að hefla ofan af honum stærsta grjótið og bera í hann þannig að það er fólksbílafært alveg inn að Torfhvalastöðum við Langavatn og ég er ekki frá því að spottinn inn að Barónskletti hafi eitthvað verið lagfærður líka. Slóðinn þar fyrir norðan var bara eins og venjulega, seinfær en fær 4×4 bílum.

    Horft inn að botni frá Stórusteinum

    Þegar inn að vatni var komið var ljóst að það hefur verið hleypt vel úr vatninu til að vökva laxinn í Langá þetta sumarið. Fljótt á skotið hefur vatnshæðin verið lækkuð um einn metra og því var vel fært inn að botni og við lögðum leið okkar langleiðina þangað, inn að Stórusteinum.

    Veðurblíða við Stórusteina

    Veðrið kom þægilega á óvart, stillt og fallegt en mikið rosalega var vatnið kalt eftir næturfrost undangenginnar nætur. Það var því e.t.v. engin furða að við yrðum ekkert vör við fisk þar sem við renndum öllum mögulegum flugum út í dýpið og drógum hratt, hægt og allt þar á milli. Eftir dágóða stund færðum við okkur til baka og renndum niður að Beilárvöllum, nánar tiltekið undir hlíðina austan við Galtarholtsvík, gengt tanganum.

    Við Beilárvelli

    Heldur var tekið að þykkna í lofti en við gerðum okkur vonir um að vatnið væri eitthvað hlýrra þarna í vari fyrir norðanáttinni. Ekki munaði nú miklu á vatnshitanum, en þarna tókst okkur að særa upp tvær bleikjur sem úðuðu í sig hornsílum í víkinni austan við tangann og þegar þær voru komnar á land létum við gott heita og héldum heim á leið.

    Helmingur aflans

    Þar sem Langavatn lokar núna 20. sept. á ég ekki von á að við förum þangað aftur þetta sumarið, en það er greinilega fiskur enn á ferðinni og hann er bara þokkalega vænn og vel haldinn ef marka má þessa tvo sem við tókum.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    1 / 1 67 / 85 0 / 0 48 / 38 19 / 22

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn, 7.- 8. júlí

    9. júlí 2017
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hvort sem við mislásum veðurspár helgarinnar eða þær voru eitthvað misvísandi, þá afréðum við að renna út úr bænum á föstudaginn og tókum stefnuna á Langavatn á Mýrum. Ég gæti best trúað að við höfum bæði verið hálft í hvoru með það í huga að veiða dauða fiska, þ.e. þá sem við veiddum þegar við renndum síðast í vatnið. Þá var vatnsstaða Langavatns lág og við áttum greiðan aðgang að veiðistöðum sem að öllu jöfnu eru utan kastfæris og þeir staðir gáfu okkur feitar og pattaralegar bleikjur.

    Langavatn á föstudagskvöldið

    Langavatnsdalurinn tók á móti okkur í blíðskapar veðri og töluvert hærri vatnsstöðu heldur en vonir okkar stóðu til. Eftir að við komum okkur fyrir á Beilárvöllum og reyndum aðeins fyrir okkur utan við vellina, gerðum við okkur ferð inn fyrir Barnónsklett. Vegarslóðinn með vatninu að austan er ekki upp á marga fiska um þessar mundir og fyrir ‚venjulega‘ 4×4 bíla er eiginlega ekki fært nema rétt inn fyrir klett. Lítið varð um afla þetta kvöld og þá meina ég aðallega stærð þeirra sem létu glepjast af flugunum okkar. Fjöldinn var einhver en við hirtum aðeins sitthvora bleikjuna, annar fiskur var langt undir máli.

    Langavatn á laugardaginn

    Laugardagurinn var langt því frá eins fallegur eins og við höfðum talið okkur trú um að hann ætti að vera. Það gekk á með skúrum, skítkaldri gjólu af norðri mestan part dags og það sást eiginlega ekki til sólar nema örfá augnablik. Veiðin var með svipuðum hætti og á föstudagskvöldið, smælki og aðeins meira smælki og það endaði með því að við bættum aðeins sitthvorri nýtanlegri bleikjunni við í kælikassann en skiluðum vatninu einhverjum ótilgreindum fjölda undirmálsfiskjar.

    Væntanlega verða aðrar veiðislóðir aðgengilega síðar í sumar þegar vatnsborðið verður komið í upprunalegt horft, þ.e. eins og það stóð í áður en útfall vatnsins var stíflað fyrir einhverjum tugum ára. Hver veit nema við kíkjum þá í Langavatn og reynum okkur að nýju við bleikjurnar, þ.e. þær stóru og feitu sem við vitum að leynast í vatninu.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     2 / 2 62 / 56 0 / 0 14 / 10 8 / 8

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar