Fyrst við vorum í Borgarfirðinum í gær og ekki með neitt sérstakt fyrir stafni, þá lá auðvitað beinast við að kíkja í eitthvert vatnanna á svæðinu og fyrir valinu varð Langavatn. Það er ekki oft sem ég viðurkenni að ég keyri aðeins með annað augað á veginum, en í þetta skiptið var það nú svo að ég stóð mig ansi oft að því að gjóa á hitamælinn í bílnum. Hitastigið rokkaði reglulega um eina til tvær gráður á leiðinni, en fór aldrei neðan er svo að fiskur ætti að vera á stjái.
Vert er að geta þess að vegurinn upp frá Gljúfurá var hreint og beint frábær, nýlega búið að hefla ofan af honum stærsta grjótið og bera í hann þannig að það er fólksbílafært alveg inn að Torfhvalastöðum við Langavatn og ég er ekki frá því að spottinn inn að Barónskletti hafi eitthvað verið lagfærður líka. Slóðinn þar fyrir norðan var bara eins og venjulega, seinfær en fær 4×4 bílum.

Þegar inn að vatni var komið var ljóst að það hefur verið hleypt vel úr vatninu til að vökva laxinn í Langá þetta sumarið. Fljótt á skotið hefur vatnshæðin verið lækkuð um einn metra og því var vel fært inn að botni og við lögðum leið okkar langleiðina þangað, inn að Stórusteinum.

Veðrið kom þægilega á óvart, stillt og fallegt en mikið rosalega var vatnið kalt eftir næturfrost undangenginnar nætur. Það var því e.t.v. engin furða að við yrðum ekkert vör við fisk þar sem við renndum öllum mögulegum flugum út í dýpið og drógum hratt, hægt og allt þar á milli. Eftir dágóða stund færðum við okkur til baka og renndum niður að Beilárvöllum, nánar tiltekið undir hlíðina austan við Galtarholtsvík, gengt tanganum.

Heldur var tekið að þykkna í lofti en við gerðum okkur vonir um að vatnið væri eitthvað hlýrra þarna í vari fyrir norðanáttinni. Ekki munaði nú miklu á vatnshitanum, en þarna tókst okkur að særa upp tvær bleikjur sem úðuðu í sig hornsílum í víkinni austan við tangann og þegar þær voru komnar á land létum við gott heita og héldum heim á leið.

Þar sem Langavatn lokar núna 20. sept. á ég ekki von á að við förum þangað aftur þetta sumarið, en það er greinilega fiskur enn á ferðinni og hann er bara þokkalega vænn og vel haldinn ef marka má þessa tvo sem við tókum.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
1 / 1 | 67 / 85 | 0 / 0 | 48 / 38 | 19 / 22 |
Senda ábendingu