Flýtileiðir

Langavatn – 16. ágúst 2019

Landshornaflakk gæti verið lýsingin á síðasta ferðalagi okkar veiðifélaganna. Eftir náttúruskoðun okkar á Ströndum lá leið okkar inn með Hrútafirði um Kollafjörð og Bitrufjörð og það er óhætt að segja að við höfum haft vindinn í bakið á þessari leið okkar. Eftir stutt stopp og áfyllingu á bíl og kaffibolla ákváðum við að kíkja á stöðuna á Hópinu ef svo ólíklega vildi til að lognið væri ekki alveg eins hraðfleygt þar eins og við Staðarskála. Í Víðigerði gaf að líta hvítfyssandi öldur vatnanna austan Vatnsness; Sigríðarstaðavatns, Vesturhópsvatns og Hópsins. Meira þurftum við ekki að sjá og snérum til baka og dóluðum okkur undan vindi niður í Norðurárdal, tókum snarpa hægri beygju við Svignaskarð og héldum sem leið lá upp að Langavatni.

Eins og vatnsbúskap áa hefur verið háttað í sumar áttum við von á að vatnsborð Langavatns væri í lágmarki vegna miðlunar niður í Langá og Gljúfurá. Það stóð á endum því ég held að við höfum aldrei sé vatnið eins lítið og ræfilslegt og á föstudaginn. Beilárvellir, þ.e. grasbakkarnir eru nánast upp í miðju landi og það mátti ekki miklu muna að vaðfært væri úr í Hólmana, sem hefði verið nógu skemmtilegt því þeir voru allir samtengdir og vel fært á milli þeirra.

Beilárvellir og Staðarhnjúkur

Við létum okkur hafa það að fara niður stutta og grýtta brekkuna frá veginum og niður að rústum gangnamannakofans á tanganum norðvestan Beilárvalla. Tanginn stóð nú aftur undir nafni, var ekki lengur eyja og mér sýnist að vatnsborðið sé sem næst því að vera eins og það var fyrir stífluna við útfallið, sjá mynd með grein Tómasar Einarssonar í Lesbók Morgunblaðsins frá 1999.

Rústir gagnamannakofans og tanginn

Eftir að hafa komið okkur fyrir í því lita skjóli sem var að finna fyrir stífri norðanáttinni, fórum við inn fyrir Torfhvalastaði og tókum stöðuna á vatninu til norðurs. Ef hinar Húnversku öldur hafi verið fráhrindandi fyrr um daginn, þá voru þær Borgfirsku ekkert síðri. Vatnið var eitt öldurót endanna á milli, en eitthvað blundaði í mér minning af svipuðum aðstæðum og stórum urriða að eltast við síli frá því fyrir nokkrum árum síðan, sjá hér. Þegar við vorum komin til baka í vagninn, klæddi ég mig því og tölti niður að vatninu. Það var svo sem skaplegt að veiða fyrstu 100 – 200 metrana, en um leið og ég var kominn inn undir Beilárvelli var aldan allsráðandi og þrátt fyrir, ég leyfi mér að segja hetjulegar tilraunir til að koma flugum út í vatnið, þá gafst ég upp þegar ég var svo gott sem kominn inn undir Staðarhnjúk. Draumurinn um stóran urriða reyndist ekki sterkari en vindurinn.

Þessi vakti yfir okkur um nóttina

Eftir að við höfðum sofið af okkur mesta rokið um nóttina, gerðum við heiðarlega tilraun til þess að veiða fram af tanganum, inni í Barónsvík og út af Barónskletti til vesturs. Það hafði eitthvað aðeins slaknað á vindinum, en kannski ekki alveg nóg til þess að fiskjar væri von eftir vindasama og kalda nóttina þannig að við vorum búinn að taka okkur saman um hádegisbil og drógum fellihýsið með öndina í hálsinum upp bölv…. brekkuna úr fjörunni. Brekkan hefur alltaf verið stutt og kröpp, en í þetta skiptið vorum við bara alls ekki viss um að ná því að draga vagninn upp, svo  mikið hefur sorfist úr henni. Upp fóru nú samt bíll og vagn án vandræða og við héldum sem leið lá heim á leið, vindbarinn og búinn að fá nóg af 8 – 12 m/sek. síðustu daga.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 55 / 71 0 / 0 15 / 36 20 / 21

2 svör við “Langavatn – 16. ágúst 2019”

  1. Þórunn Björk Avatar

    Það að komast upp þessa bölv. brekku var svo sannarlega sigur út af fyrir sig.
    Auk þess vil ég gjarnan láta vísuna fylgja sem varð þarna til. Kannast að vísu eitthvað lítillega við sumt í henni….veit ekki af hverju.
    Maður er ekkert betri en krakkarnir….svei mér

    Sambandslaus í kulda og trekki
    kúri ég volandi
    Facebook og Instagramleysið
    er illa þolandi

    Já, Facebook og Instagramleysið
    er illa þolandi
    …osfrv.

    Líkar við

  2. Hóp – 23. og 24. ágúst 2019 – FOS Avatar

    […] síðasta ferðalag okkar veiðifélaganna hafa orðið heldur endasleppt, Bjarnarfjarðará og Langavatn, þá er sá hin sami hjartanlega sammála mér. Eitthvað var þar minnst á að við hefðum […]

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com