Ef einhverju þykir síðasta ferðalag okkar veiðifélaganna hafa orðið heldur endasleppt, Bjarnarfjarðará og Langavatn, þá er sá hin sami hjartanlega sammála mér. Eitthvað var þar minnst á að við hefðum barið augum hvítfyssandi vötnin austan Vatnsness og snúið við, en þessa helgi var tóninn í spánni allt annar og því var stefnan tekin á Hóp í Húnaþingi strax eftir vinnu á fimmtudag.

Við vorum tiltölulega snemma á ferðinni, í það minnsta miðað við ferð okkar þangað á síðasta ári, sjá hér. Við vorum búin að kaupa veiðileyfi og setja vagninn niður fyrir kl. 22:00 þannig að við gátum notið þess að virða fyrir okkur sólsetrið og húmið færast yfir Hópið sem tók á móti okkur með stilltu og fallegu veðri. Sýningin var fagurlega talsett með margradda svanasöng utan af Ásbjarnarnesi, sem ég þó viðurkenni fúslega að mér fannst vera orðið að hálfgerðu gargi á öðrum og þriðja morgni. Skömmu eftir að aldimmt var orðið var okkur skotinn skelkur í bringu þegar sérlegur sendifulltrúi fiðurfénaðar á staðnum, hljóðlaus njósnari flaug rétt yfir hausamótunum á okkur þarna við Nesvíkina. Þessi líka myndarlega ugla hafði verið send út af örkinni til að kanna hvaða tvífætlingar væru þarna á ferð eða kannski var hún bara á höttunum eftir hagamúsum sem eflaust eru nokkrar þarna.

Föstudagurinn heilsaði okkur með regnboga og í þetta skiptið lét ég það alveg eiga sig að hugsa til þess hvort einhver fiskur leyndist við enda hans, tók fögrum fyrirheitum með mikilli varúð, minnugur þess að síðasti regnbogi var heldur lélegur fyrirboði. Við vorum tiltölulega snemma á ferðinni út að Vaðhvammi, tipluðum þetta í rólegheitunum á ójöfnum troðningnum og tipluðum þetta svo mjög að við misstum af Vaðhvammi og fórum heldur lengra en til stóð. Eftir að hafa snúið við sem næst Myrkurbjörgum fundum við loks rétta stæðið og fetuðum okkur niður að vatninu.
Það verður seint sagt að tekið hafi verið á móti okkur með miklum fögnuði, þ.e. annarra en þeirra sem voru langt undir veiðistærð. Við bakkann léku smáfiskarnir við hvern sinn fingur, hömuðust við að éta á sig grömm af mýflugum og öðru óræðu æti, en stærri fiskurinn lét bíða svolítið eftir sér. Önnur merki um líf voru helst eftir mink sem greinilega hafði skottast þarna eftir bakkanum í leit að æti fyrir skömmu.

Leikar fóru nú samt svo að um nónbil vorum við komin með 3,5 punda sjóbirting og þrjár bleikjur, stærsta 2,5 pund og tvær 1,5 pund. Þá var eins og skrúfað væri fyrir allan félagsskap fiska og við héldum til baka og fengum okkur í gogginn, þokkalega sátt við stærðir fiska þó fjöldinn væri ekki mikill. Flugurnar sem gáfu voru bleikur og orange Nobbler, sá fyrrnefndi á stuttan krók #12, sá síðari á #8 legglangan.
Við vorum ekkert að æsa okkur af stað aftur, létum líða úr okkur og nutum veðurblíðunnar og biðum í rólegheitunum eftir síðdegisskúrnum sem spáin fól í sér. En, eins og margoft hefur verið sagt við okkur, þetta er bara spá og hún brast í þetta skiptið, það rigndi bara ekkert, þannig að við kíktum út á Ásbjarnarnes og reyndum aðeins fyrir okkur við austanvert nesið, en tókum fljótlega stefnuna úr að Vaðhvammi.

Ef það var rólegt um morguninn, þá var enn rólegra um kvöldið. Við byrjuðum á því að rölta út með vatninu inn undir Myrkurbjörg, en þar var allt með einstaklega kyrrum kjörum og sannast sagna er ég ekki alveg viss hvar fiskurinn ætti að halda sig á því grunnsævi sem þarna er. Einhverra hluta vegna hafði ég þá trú að undir björgunum væri renna í vatninu, en hún fór alveg framhjá okkur. Við röltum síðan til baka, fengum okkur hressingu á bakkanum og skimuðum vatnið undir Vaðhvammi, án árangurs. Að endingu létum við slag standa, og börðum vatnið í nokkuð reglulegum takti með ýmsum flugum en enduðum á að setja sömu flugur undir og um morguninn og uppskárum sitt hvora bleikjuna. Vænar og vel haldnar, greinilega nýkomnar úr sjó því báðar voru þær lúsugar á stirtlunni. Þegar fór að húma, tókum við okkur upp og héldum heim í vagninn og máttum ekki vera seinni á ferðinni, því ég rétt náði að gera að fiskinum og pakka þeim á ís og þá var komið myrkur. Það er víst kominn þessi árstími þegar húmið staldrar stutt við og myrkrið skellur svolítið á manni.
Eftir að hafa verið vakinn með óhljóðum álftanna á laugardaginn, héldum við aftur út að Vaðhvammi með þá hugmynd í kollinum að staðurinn væri meiri morgun-staður heldur en síðdegis. Tja, það var nú nokkuð djúpt á undirtektum og það var ekki fyrr en eftir töluverðan tíma að mér tókst að narra einn birting á bleikan Nobbler. Vænn fiskur sem greinilega vissi ekki alveg hvort hann vildi vera fyrir utan eða innan ós því hann var greinilega nýkominn inn með lýs á bakinu.

Í leit minni að fiski lét ég verða að því að vaða út á rifið utan við Vaðhvamm og nokkur spotta eftir því til norðurs og svo aftur til suðurs. Það er ekki af umhverfinu skafið að þarna er fallegt og skemmtilegt að ná myndum af ströndinni frá þessu sjónarhorni. En af fiskum urðu ekki fleiri sögur að sinni.

Eftir síðbúinn hádegisverð skutumst við niður á Blönduós, reyndar með það í huga að reyna fyrir okkur á nokkrum þekktum veiðistöðum að sunnan. Brá þá svo við að vegspottinn niður með Gljúfurá var lokaður með hliði og ég las ekki annað af skiltinu við hliðið að þarna væri öll umferð bönnuð öðrum en þeim sem ættu erindi að Gljúfurá á vegum veiðifélagsins. Þar sem við höfðum engan áhuga á að gerast sek um meintan veiðiþjófnað og vildum ómögulega troða öllum veiðimönnunum við Gljúfurá um tær, héldum við til baka og fórum út Ásbjarnarnesi með hug á Skollanesi. Talandi um lokuð og lítt árennileg hlið, þá var hliðið inn að Gottorp vitaskuld lokað eins og venjulega og allt merkt sem einkavegur o.s.frv. Við ákváðum því að leggja bílnum Ásbjarnarnes megin, trúlega þar sem heitir Mógrafarmelur og labba út með ströndinni í átt að Skollanesi.

Það vakti athygli okkar að það var mjög lítið líf í flæðarmálinu á ströndinni en þeim mun meiri ummerki ferfætlinga, bæði minka og melrakka. Við reyndum aðeins fyrir okkur úti á Skollanesi, með litlum áhuga þó þar sem nesið hentar ekkert endilega vel til fluguveiði, hátt og grýtt fram í vatnið. Mig grunar samt að þarna sé heppilegur staður til beituveiði og greinilegt að netaútgerð er eitthvað stunduð frá Skollanesi og þau net hafa gefið nýlega.
Eftir þennan annars ágæta göngutúr, létum við gott heita, settumst út við vagninn og leyfðum óræðum eiturgufum að losna í rólegheitunum úr vöðlunum og fórum síðan í bólið eftir að hafa notið gaggandi tófugelts rétt við vagninn okkar um kvöldið. Við sáum hana reyndar aldrei, en hún hafði greinilega frá ýmsu að segja en þagnaði um leið og hreyfingar varð vart við vagninn.
Þess skal getið í lokin að það sem byrjaði sem svanasöngur fagur á fimmtudagskvöldið og umbreyttist í óhljóð á laugardagsmorgun, var orðið að gargandi hávaða á sunnudaginn og einhverjar af þessum 68 álftum sem ég taldi á vatninu höfðu greinilega jafnað sig af innrás okkar og héldu til í næsta nágrenni við okkur um nóttina. Þær vöknuðu nokkuð snemma, trúlega til að vekja hanann á næsta bæ þannig að hann svæfi ekki yfir sig.
Við héldum síðan heim á leið fyrir hádegi á sunnudag, tiltölulega sátt við okkar hlut, sérstaklega með það í huga að veiddur fiskur í fyrra, er ekki gefin veiði í ár, en þeir sem sluppu í fyrra höfðu greinilega stækkað.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
3 / 3 | 58 / 74 | 0 / 2 | 15 / 38 | 21 / 22 |
Senda ábendingu